Mánudagur 30.11.2009 - 14:18 - 12 ummæli

Þrautir Hennings Larsen.

Henning Larsen fer mikinn í Reykjavík um þessar mundir og vinnur að byggingu  helstu menningarstofnana landsins, Háskólans í Reykjavík  og Ráðstefnu- og tónlistarhússins við höfnina.

Fyrir helgi kom út bók eftir hann sem heitir „De skal sige tak“ og er þar vitnað til orða  Hr. Mærsk Mc-Kinney Möller til arkitektsins í einu samtali þeirra Hennings Larsen.

Það gekk greinilega á ýmsu í samstarfi þeirra arkitektsins og miljarðamæringsins.

Hr. Möller var á þeirri skoðun að óperubyggingin væri nánast hans einkamál. Hann ætlaði að færa dönsku þjóðinni gjöf  sem hann valdi sjálfur og spurningin væri bara hvort þjóðin vildi þiggja gjöfina sem var uppá eina 60-70 milljarða ísl. króna.

Það féllu þarna orð á borð við „sá sem borgar partýið ræður hvaða veitingar eru í boði“. Þetta lýsir auðvitað virðingarleysi við umhverfið og þá sem þurfa að búa við það inngrip sem byggingar eru.

Samkvæmt Henning Larsen blandaði Hr. Möller sér í allt. Hann var á móti gleri og það mátti ekki nota orðið gler á fundum með honum. Það átti að nota orðasambandið „gegnsætt efni“ (transparent materiale). Hann blandaði sér í hæðir á klósetsetum á snyrtingum og vildi hafa þær þannig að þær  pössuðu fyrir hann sjálfan. Henning Larsen segir, að allir munu taka eftir því að klósettin eru aðeins hærri en venjan er. Hr. Möller vildi ekki að torginu fyrir framan húsið hallaði vegna þess að hann óttaðist að kona hans, sem er í hjólastól, mundi rúlla fram af og í sjóinn. Þessar sögur er að finna í bókinni og margar fleiri.

Hr. Mærsk McKinney Möller var alltaf óánægður, þakkaði aldrei neinum fyrir neitt og gleymdi aldrei neinu.

Lýsing Hennings Larsen á upplifun sinni af opnuninni og sambandi þeirra viðskiptafélaganna er hér lauslega þýdd:

„Þegar operan var búin (frumsýningin) og allir voru á leiðinni heim, stóðum við konan mín á svölum anddyrisins með rauðvínsglas og nutum rýmisins um leið og við horfðum á fjölda uppáklæddra ánægðra gesta niðri á fyrstu hæð. Hr. Möller átti leið framhjá, rétti mér hendina og sagði: „Þetta er flott“. Ég svaraði barnalega :“ Takk sömuleiðis“. Þá svaraði Hr. Möller um hæl eins og til að forðast að ég misskildi eitthvað: „Já sýningin var flott.“

Já, Henning Larsen fékk að heyra það á opnunardaginn.

Auðvitað eru alltaf einhver sjónarmið sem stangast á milli arkitekts og verkkaupa, en þau leysast nánast alltaf farsællega. En það þarf örugglega mikið til þegar 84 ára gamall maðurinn telur sig knúinn til þess að skrifa heila bók um samstarfserfiðleika sína við viðskiptavin sinn, ríkasta mann Danmerkur.

Vonandi gengur þetta betur í byggingunum tveim sem hann vinnur nú að í Reykjavík, Tónlistarhúsinu við höfnina og Háskólann í Reykjavík.

Skipsreder Hr. Mærsk McKinney Möller

Kaupmannahafnaróperan hönnuð á teikinistofu Henning Larsen.

Henning Larsen fyrir nokkrum árum.

Þeir sem vilja kynna sér þetta nánar geta nálgast efnið á eftirfarandi slóðum.

DR:

http://www.dr.dk/Nyheder/Indland/2009/11/26/162540.htm

http://www.bt.dk/danmark/bange-konen-ville-rulle-i-vandet

http://www.bt.dk/danmark/frisk-luft-nej-tak

http://www.bt.dk/danmark/koebte-sig-til-orden

http://www.bt.dk/danmark/maatte-naegte-dronningen-adgang

http://www.bt.dk/danmark/toiletter-med-langt-til-gulvet

Berlingske Tidende og Weekendavisen

http://blog.politiken.dk/lunde/2009/11/29/sadan-leder-m%c3%a6rsk-mc-kinney-m%c3%b8ller/

http://www.weekendavisen.dk/smarticle/view/1

http://kastrup.blogs.berlingske.dk/2009/11/27/henning-larsens-d%25c3%25b8de-murer/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • hilmar Þós

    kjhkjh

  • Henning Larsen er frægur fyrir að nota gler í byggingunum sínum og vinna með ljós, létt og gegnsæ rými. Svo það hefði varla þurft að koma neinum á óvart að hann vildi nota gler í bygginguna.

    Sagan af klósettunum er hins vegar saga frá ráðstefnusal í Cambridge sem Mærsk borgaði og HL teiknaði uppúr 1980. HL var nefnilega búinn að vera arkitekt að amk. tug verkefna fyrir ‘Hr. Möller“ á undan óperunni. Klósettin í þessum ráðstefnusal eru óvenju há af því að Hr. Möller er óvenju hávaxinn maður.

    Svo maður gæti freistast til að segja að þeir hefðu báðir átt að vita að hverju þeir gengu, áður en hafist var handa við óperuna.

  • Eiríkur Jónsson

    Gleymdi að geta þes að í þættinum kom fram að Henning Larsen hefði ekki viljað skrautljósin í forsalinn sem Ólafur Elíasson hannaði!

  • Eiríkur Jónsson

    Sendi inn síðbúin ummæli eftir að hafa horft á sjónvarpþátt á DR2 í gærkvöldi um nefnda bók Hennings Larsen og byggingu óperunnar. Þarna var farið ágætlega yfir málið og kom ýmislegt skemmtilegt fram í þættinum. Þarna voru viðmælendur sem bentu m.a. á húsið væri byggt fyrir eigandann AP Møller og arkitektinn hefði verið „ráðinn í vinnu“ við verkið en ekki haft yfirráð yfir því. Þarna er gamalkunnugt viðfangsefni á ferð hver ráði. Í samningi AP Møller við arkitektinn voru klásúlur um að húsið ættti ekki að vera „glashus“ og því finnst mér að stífni arkitektsins í deilunni um framhliðina vera vont dæmi um hugsunarhátt arkitekts sem finnst hann hafa yfirráð yfir verkinu og geti ekki fundið lausn sem báðir aðilar sætta sig við. Hef unnið lengi með arkitektum og held að flestir þeirra skilji að góð niðurstaða fæst ekki nema eigendurnir séu með í ráðum við úrlausnir, mislagnir eru þeir þó við að „selja“ sínar hugmyndir og ná þeim fram í sátt við eigendurna.

  • Guðmundur

    Maður veltir fyrir sér hvað það kemur til með að kosta árlega að hreinsa saltið af tónlistarhúsinu.

  • ,,Það féllu þarna orð á borð við ‘sá sem borgar partýið ræður hvaða veitingar eru í boði.’ “

    Sá sem efnir til partýs án þess að hugsa um smekk og þarfir gesta sinna má búast við því að þeir hafni veitingunum.

  • Hr. Mærsk og ark. Henning Larsen
    Tveir risar
    Tveir stórir persónuleikar
    Tveir aldradir men sem eru mjög sérhæfir, hver á sínu svidi
    Bádir farnir fyrir löngu ad hugsa um ordstír sinn, eftir their falla frá.
    Their hafa oft unnid saman ádur og gengid mjög vel, thangad til stóra verkefnid kom. Óperan.
    Stærsta og sídasta gjöfin sem Hr. Møller gefur dönsku thjódinni, og sídasta stórverkefni arkítektsins.
    Kanski ekki skrítid ad thetta hafi endad svona hjá theim.
    Henning Larsen sagdi á fundi med Hr. Møller árid 2002: ”De får deres opera, og ødelægger min!”

    Thad verdur spennandi ad sjá hvort Hr. Møller svarar fyrir sig eftir ad bókin kom út fyrir helgi.
    Reyndar er thagnarskylda á öllu thessu sem Henning Larsen er búin ad skrifa i thessari bók sinni. Hr. Møller er kanski svo mikill ”gentleman” og heldur sínu ordi, sennilega fyrir nedan virdingu hans ad svara.

    Ad lokum smá saga um thessa sömu kalla.
    Teiknistofan sem ég vann á fyrir nokkrum árum vann ad verkefni fyrir skipafélagid A.P.Møller / hr. Møller.
    Thetta var gamalt fallegt hús nidur vid höfn, ekki langt frá konungshöllini í Kaupmannahöfn. Henning Larsen var bedin um ad sjá um ad endurnýja húsid og vid áttum ad sjá um lódina. Hr. Møller krafdist thess ad thad ættu ad vera einhver ákvedin tala bílastæda. Yfirleitt er breidd theirra 240-250 sm, og ef thad er lítid pláss geta thau farid nidur í um 230 sm . En til thess ad fá pláss fyrir thennan ákvedna fjölda stæda sem stód í prógramminu, thá yrdi hvert stædi adeins 218 sm og vid sem rádgjafar södgum ad thad væri of mjótt. Á næsta fundi kom thad svar frá hæsta stad; Hr. Möller: ”Ef madur getur ekki lagt bílnum sínum á stædi sem er 218 cm breytt, thá getur vidkomandi ekki unnid hjá A.P. Møller !”.

  • stefán benediktsson

    Hversvegna nota arkitektar gler? Gler er endingargott, sterkt og ódýrt byggingarefni sem hefur þann yndislega eiginleika að spegla umhverfið taka það með í upplifunina auk þess að vera gegnsætt og veita byrtu og yl. Mín vegna mætti nota meira af því. Möller virðist vera maður sem upphófst af auð sínum og hélt sig vita betur en þeir sérfræðingar sem hann réði til verka. Gott hjá Larsen að láta það koma fram.

  • Bara smá leiðrétting. Henning Larsen kemur hvergi nærri hönnun Tónlistarhússins og HR. Óperan í Kaupmannahöfn var síðasta verkefnið sem hann tók þátt í. Hins vegar ber stofan áfram nafn hans þó hann sé kominn á eftirlaun.
    Fín grein annars.

  • Jón Helgi

    Tími til kominn að menn geri sér grein fyrir því að starf arkitektsins er ekki leikur einn…. Nánast ótrúlegt hversu langt verkkaupar ganga – en því miður satt.

  • Alveg einstaklega illa heppnuð þessi bygging hjá þeim í Kaupmannahöfn. Manni finnst hún bara hreinlega „ljót“ ef slíkt er hægt að segja um byggingar.

  • Þessar sögur af Hr. Möller eru skemmtilegar eða eða öllu heldur athyglisverðar. Maður veltir fyrir sér hvort allt þetta yfirþyrmandi gler í tónlistarhúsinu séu viðbrögð arkitektsins við andstöðu Hr. Möller við gler í operunni í Kaupmannahöfn. Í Reykjavík fékk Henning Larsen að nota meira gler en sést hefur áður í nokkurri byggingu sem maður þekkir. Glerið er í einhverskonar harmonikkumunstri eins og til þess að koma fleiri fermetrum af gleri á bygginguna en ella. Skemtileg pæling fyrir sál- og atferlisfræðinga.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn