Miðvikudagur 02.12.2009 - 10:35 - 6 ummæli

Tölvumyndir arkitektanna.

Ég man ekki eftir því að hafa séð byggingu sem lítur betur út í raunveruleikanum en á tölvuteikningu. Arkitektarnir eru farnir að treysta á töfra tölvunnar frekar en færni þeirra með blýantinn eða rýmisgreind viðskiptavinarins og þeirra eigin.

Tölvuteikningarnar sýna byggingarnar oft glóandi í kvöldhúminu þar sem húsin virðast gegnsæ og lifandi. Umhverfis húsin og inni í þeim er fallegt og vel klætt fólk. Allt er eins og í draumi. Jafnvel frægustu arkitektar heims, eða kannski einkum þeir, nota tölvumyndir til þess að ýkja yndislegheitin umfram það sem þeir geta afgreitt í hinu fullbyggða verki.

Oftast gefa tölvumyndirnar fyrirheit um byggingar sem eru mun betri en sá raunveruleiki sem staðið er frammi fyrir þegar framkvæmdum er lokið. Tölvumyndirnar sýna byggingarnar eins og manni dreymir um að þær geti best orðið.

En hvers eigum við að gjalda sem þurfum svo að lifa við óuppfylltan draum og horfa á byggingu sem er ekki næstum jafn glóandi falleg og við sáum á tölvumyndunum?

Til þess að skýra þetta nánar læt ég fylgja hér með slóð að kynningarmyndbandi vegna tónlistarhússins í Reykjavík. Takið eftir því að það virðast engar súlur vera í anddyrinu og engar rúður í gluggunum, fólkið er allt ungt og fallegt. Svo má sjá einhverjar glerkeilur og jafnvel friðarsúli Yoko Ono, sýnist mér. Og alltaf er gott veður eins og maður sé staddur á Bennalong Point í Sidney.

Það verður spennandi að bera raunveruleikann saman við þetta þegar fram líða stundir og húsið verður fullbyggt.

Ef ekki tekst að opna youtube slóðina beint má nota þessa:

http://www.youtube.com/watch?v=9vdY9wvKaxI

Hér að neðan er svo slóð að ágætu erindi sem fjallar um efnið og fróðlegt er fyrir áhugasama arkitekta og þá sem kaupa þjónustuna að hlusta á auk nokkurra tölvumynda:

[audio:http://cdn2.libsyn.com/twls/TWLS014-20051211.mp3?nvb=20090911093919&nva=20090912094919&t=0586fbbb302589ea8e2d8]

http://cdn2.libsyn.com/twls/TWLS014-20051211.mp3?nvb=20090911093919&nva=20090912094919&t=0586fbbb302589ea8e2d8

Hér tölvumynd af vinningstillögu í samkeppni um höfuðstöðvar Glitnis eins og sjófarendur geta notið ásjónunnar.

Ungt og fallegt fólk á gangi í góða veðrinu í Borgartúni. Öllu vel við haldið og engin óhreinindi eða örðu að sjá.

Ef ekki væri fyrir bátana þá hefði maður enga hugmynd um stærðarhlutföll á þessum byggingum eftir Rem Koolhaas í Dubai

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Þetta er magnað útspil hjá þér Hilmar og margir hafa vafalaust velt einmitt þessum hlutum fyrir sér. Myndirnar og myndskeiðin eru blátt áfram hlægilega óraunveruleg en Ted Wells hugleiðingarnar bæði skýrar og réttar.

    Til viðbótar verð ég að segja að mér finnst umhverfið sem verið er að presentera með þessum gögnum í miðbænum, í Borgartúni og á Kirkjusandi verulega fráhrindandi. Mér finnst ótrúlegt að einhverjir hafi í alvöru þessa framtíðarsýn fyrir borgina okkar? Hafa menn aldrei heyrt um vind, um hitastig eða um sól og birtu. Nú þegar er hálfrökkur í Borgartúninu norðan við Höfðatorg og alltaf kalt og napurt. Ég hélt líka að allir vissu núorðið um vindsveipina sem myndast í byggð af því tagi sem hér er sýnd.

    Mér finnst þetta vera nánast krimminelt!

  • stefan benediktsson

    Sjö hæða tré á Höfðatorgi og glæsilegt torg við TRH sem er 12 sinnum stærra en Lækjartorg.

  • Þessi færsla minnti mig á kynningarmyndbandið fyrir Höfðatorg.

    http://hofdatorg.is/new/?p=kynningar

    Fjarstæðukenndara verður það varla.

  • Samúel T. Pétursson

    Mig rámar sérstaklega í tölvumynd af nýbyggingu í Skipholtinu, stúdentaíbúðum sem þar eiga að rísa, sem sýndi einstakling á svifdreka yfir herlegheitunum … að sjálfsögðu á sólbjörtum sumardegi með ungu fólki og börnum með ís í hönd, eins og er algeng sjón á þeim slóðum.

  • Einar Einarsson

    Án þess að þykjast hafa velt þessu mikið fyrir mér hefur mér einmitt flogið í hug hvað mannlífið og umhverfið er yfirleitt „fantasíukennt“ og laust við alla tengingu við íslenskan raunveruleika.

    Það væri gaman að sjá myndasyrpu yfir byggingar á íslandi, svona „fyrir-eftir“ myndir. Þessi mynd þarna úr Borgartúninu er til dæmis alveg mögnuð hahaha.

  • Guðmundur

    Vinkona mín sagði mér einmitt frá kynningarfundi sem var haldin fyrir íbúa í Skuggahverfinu áður en byrjað var að reisa núverandi turna. Skv. teikningunum ætti þarna núna að ríkja suðræn piazza-stemning með brosandi og léttklæddu fólki. Raunveruleikinn er ögn kaldranalegri, er ég hræddur um. (Reyndar er áhugavert að skoða myndasýningu á síðu 101 Skuggahverfis (http://www.101skuggi.is/), bálkur sem heitir „Umhverfi“, sem eiga að sýna nánasta umhverfi. Athygli vekur að flestar myndirnar eru af gömlum sjarmerandi húsum sem eru ekkert endilega mjög nálægt turnunum)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn