Mánudagur 28.09.2009 - 13:52 - 6 ummæli

TORG KVOSARINNAR.

 

Ég velti fyrir mér hvað Reykjavíkurborg hugsar sér með torg Kvosarinnar? Kannski eiga torgin ekki að hafa annan tilgang en þann að vera eins konar olnbogarými í gatnakerfinu og til þess að mæta tilfallandi þörfum líðandi stundar. 

 

Hugsanlegt er líka að gefa þeim ákveðið hlutverk í bæjarlífinu.  Hvernig á t.d. Ingólfstorg að vera í framtíðinni og hvað með önnur torg Kvosarinnar?  Hvert er hlutverk þeirra og hvaða hlutverki viljum við að þau gegni?

 

Til þess að skýra spurningarnar þá kem ég með hugsanleg svör:

 

Austurvöllur verði svipaður og hann er nú, grænn, sólríkur, skjólgóður  með veitingastöðum, turtildúfum, daðri, mótmælum og hátíðarstemningu. Á fyrstu tveimur hæðunum í húsunum vestan við torgið (hús Landsímans) verði listasafn í hæsta gæðaflokki. Þarna væri þá komið einhverskonar Place des Vosges Reykjavíkur, bara flottara en í París.

 

Lækjartorg verði staður til þess að hittast. Þar mætast akandi og gangandi ásamt yfirfullum strætisvögnum. Þar er staðarandinn annar. Ys og þys, svona annríkisstemming járnbrautarstöðvanna.

 

Ingólfstorg verði vetrartorg, þar sem væri kælt skautasvell minnst 8 mánuði ársins auk þess að vera staður þar sem mótórhjólatöffarar hittast til þess að dást að stálfákum sínum.  Götur umhverfis Ingólfstorg verði með víkjandi bílaumferð og engum bílastæðum. Yndislega hlaðið jólaskrauti, jólamarkaði og glæsilega skreyttu jólatré  á aðventunni. Nokkurs konar Rockefeller Center. Fjóra sumarmánuðina yrði þarna árstíðartengdur markaður. Fyrst grásleppa svo gulrætur, þá bláber og svo endar þetta með slátri á haustin. Og auðvitað veitingar, myndlist, og trúbadúrar.  Kannski smá Place du Tertre fílingur með matarmarkaði, en bara  fjóra sumarmánuðina.

 

Svæðið við Tjörnina sunnan við Iðnó yrði barna- og fjölskyldusvæði með ís, vöfflum, öndum, brauði, trúðum og candyflossi.

 

Svo bætast Mæðragarðurinn og Hljómskálagarðurinn við flóruna með sinn sérstaka sjarma.

 

Eitthvert  svona skipulag, þar sem komið er til móts við þarfir borgarbúa og mannlíf getur blómstrað á torgum borgarinnar allt árið. Ef borgin gæti sagt okkur til hvers torgin eiga að vera gætum við tekið þátt í upplýstri umræðu um framtíð og útlit torganna í Kvosinni.

 

Auðvitað hlýtur að liggja fyrir hjá borgarskipulaginu einhver áætlun um hvernig á að nota torg borgarinnar til næstu 20-30 ára.

 

Hér fylgja nokkrar gamlar myndir sem sýna annríki á Lækjartorgi um miðja síðustu öld og fólk skauta á Austurvelli fyrir um 100 árum. Myndirnar eru fengnar að láni af vef Ljósmyndasafns Reykjavíkur.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Sigurður

    Fínar hugmyndir

  • Helgi Þorláksson

    Hér er hreyft við mikilvægum atriðum í skipulagi miðnæjarins, hvernig torgin eigi að vera. Núna ríkir einhvers konar skipulagsleysi. Áhugi á að bæta Ingólfstorg er mikill og margir nefna að fjarlægja þurfi Hlöllabáta og ísbúðina og að æskilegt væri að hafa torgið í einum fleti og láta það ‘flæða’ að gömlu timburhúsunum. Þá hyrfu bílastæðin í Veltusundi og athugandi að afnema bílaumferð úr Austurstæti yfir í Hafnarstræti og eins meðfram Fálkahúsi. Þarna væri þá komið frábært svæði til útivistar, skjólgott og sólríkt, amk. verði ekki reist háhýsi við Miðbæjarmarkaðinn. Svellið er smellið, ég missti þó einhvern veginn af tilraun TM, veit ekki hvernig tókst til með svellið á Ingólfstorgi á vegum þeirra. Annars þarf að vera til stórt torg til útifunda og þá er spurningin hvort svell samræmist þeirri þörf? En hugmyndin um markað mun falla í kramið hjá flestum.

  • Stórglæsilegt framtak hjá þér að blogga um arkitektúr og skipulag. Gangi þér vel með það.

    Í lifandi borg og þjóðfélagi sem breytist mjög hratt finnst mér ekki endilaga gott að ganga út frá einhverri tiltekinni notkun á hinum ýmsu torgum. Við sáum ekki fyrir hvernig notkunin á Austurvelli og Ingólfstorgi hefur þróast eða notkunarleysið á Lækjartorgi. Þess vegna er svo mikilvægt að ganga ekki um of á þessi rými heldur hlúa að þeim og geyma þau til fjölbreytrar notkunar á ýmsum tímum. Það felast t.d. miklir möguleikar í Ingólfstorgi – Vallarstræti – Austurvelli – Kirkjutorgi og Tjörninni ef vel er með þessi svæði og þessar tengingar.

    Mér finnst líka að grundvallar atriði eins og sól og skuggi hafi orðið útundan í seinni tíð. Laugavegurinn er smátt og smátt að verða dimmur, sólarlaus og kaldur. T.d. hefur þetta orðið þannig við Laugaveg 96 þar sem áður var Stjörnubíó og autt svæði. Það verða seint útiveitingahús þar úr því sem komið er. Sama á við um Austurstræti milli Pósthússtrætis og Ingólfstorgs.

    Dæmin um þetta eru ótal mörg ekki síst frá síðasta áratug eða svo.

  • Ég mátti til að senda þér línu og óska þér til hamingju með síðuna á Eyjunni. Mér finnst þetta flott framtak og ferskur andblær í annars hálfgeldri umræðu um skipulagsmál síðastliðin misseri.

    Pistillinn hjá þér um torg borgarinnar fannst mér mjög áhugaverður. Ég hef fylgst grant með tillögunni um breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna suðurhluta Ingólfstorgs og harma einhæfa umræðu og neikvæðan áróður sem fylgt hefur í kjölfarið.

    Mér finnst tillagan til fyrirmyndar, sérstaklega að því leiti að hún gerir ráð fyrir að halda gömlu húsunum við torgið þrátt fyrir að það sé heimilt samkvæmt núverandi skipulagi að flytja þau burt. Annað sem mér finnst jákvætt við tillöguna er sú breyting á Ingólfstorginu að afleggja bílastæðin og stækka torgið, en ekki að minnka það eins og haldið hefur verið fram. Þannig yrði það enn betur til þess fallið að öðlast hlutverk og setja jákvæðan svip á borgarlífið, eins og þú setur fram skemmtilegar hugmyndir um.

    Það væri nú gaman að fá frá þér fagmanninum pistil og vítt sjónarhorn á þessar breytingar sem lagðar hafa verið til.

  • Mér finnst hugmynd þín um Ingólfstorg stórgóð!

  • Stefán Benediktsson

    Ég gæti alveg hugsað mér byggingu austan megin á Lækjartorgi. T.d Ingibjargar Johnson húsið. Svo sól og hiti nýtist betur og rekstur á amk. tveim hliðum þess efli mannlifið. Eins sé ég fyrir mér að Ingólfstorg verði samhangandi svæði meðfram Aðalstræti án bygginga inni á torginu þannig að Veltusunds-, Vallarstrætis- og Hafnarstrætishúsin „eigi“ torgið. Góð hugmynd að vera með svell þar á vetrin. Sígildir þessir Mercedes Benz strætóar á Lækjartorgsmyndinni

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn