Sunnudagur 28.03.2010 - 15:55 - 20 ummæli

Tryggvagata

Tollhusid2lett

Þegar arkitektar taka þátt í samkeppnum þá líta þeir á samkeppnisverkefnið í stóru samhengi. Langt út fyrir samkeppnismörkin. Þetta er auðvitað sjálfsagt og nauðsynlegt. Þessu vinnulagi fylgja oft ýmsar smáhugmyndir sem falla utan sjálfs samkeppnisverkefnisins og eru auðvitað ekki teknar til dóms.

Myndin að ofan er einmitt af þeim toga.

Þegar samkeppni var haldin um Listasafn Reykjavíkur fyrir nokkrum árum gat að líta  hugmynd um endurmótun Tryggvagötu í einni samkeppnistilögunni. Þetta tengdist hugmyndum arkitektanna á teiknistofunni ARGOS, um aðkomu að safninu.

Hugmynd ARGOS er afar einföld og gengur út á að færa meginþorra bílastæða yfir götuna í skugga og opna solríkt svæði framan við mynd Gerðar Helgadóttur á suðurvegg Tollhússins sem yrði um leið hluti af Listasafni Reykjavíkur. Þannig opnast rúmgott svæði fyrir fólk og listaverkið fær loks notið sín.  Nú er ástandið þannig að bílarnir eru baðaðir í sól um leið og þeir skyggja á listaverkið og fólkið gengur handan götunnar í skugganum.

Þegar horft er á skissuna veltir maður fyrir sér af hverju ekki er löngu búið að framkvæma þessa sjálfsögðu og fyrirhafnarlitlu aðgerð til fegrunnar götunnar og öllum til ánægju og hagsbóta?

tollhus08

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

  • Jón Guðmundsson

    G.G. er kominn með fróðlegan danskan vinkil á söguna og þá er ekki úr vegi að rifja upp eldra danskt heiti Hafnarstrætis.

    Áður en nokkuð var til sem líktist höfn í Reykjavík hét gatan Rebslagergade (Kaðlaragata, Reberbahn). Nafnið er tilkomið vegna kaðalarbrautarinnar sem sett var upp á dögum innréttinganna. Faðir minn heitinn, Guðmundur Jónsson húsamsmíðameistari sá um endurbyggingu Hafnarstrætis 16 sumarið 2000. Neðri hæð hússins var tekin undan húsinu þannig að efri hæðin stóð á undirslætti. Faðir minn sýndi mér leifar eldra húss í grunni hússins og taldi hann ekki ósennilegt að þetta væru botnstykki úr kaðlarahúsi Skúla Magnússonar.

    Á milli Hafnarstætis 16 og 18 liggur Kolasund. Thomsensund er síðan við austurgafl Hafnarstrætis 18, nyrsti hluti Thomsensunds hvarf þegar Ziemsen húsið var fjarlægt. Þessi sund lágu allt frá Austurstræti (Löngustétt) og niður í flæðarmál (Tryggvagötu). Við enda þeirra (sundanna) voru settar upp trébryggjur langt út á víkina. Við tölum oft um borgina við sundin, þessi gleymdu sund mætti hæglega endurvekja án mikils tilkostnaðar.

  • Spennandi verður að sjá hvaða afgreiðslu þessi hugmynd við tollhúsið fær hjá borginni. Ég var að sjá að þetta hefur vakið athygli borgarfulltrúa.
    Það er frábært.

  • Varðandi pælingu Jóns Guðmundssonar hér að ofan og sögulega og landfræðilega legu Hafnarstrætis.

    Það er til hliðstæða í Kaupmannahöfn. Það er “Köbmagergade”. Hún hét áður “Ködmagergade” (Kjötmangaragata) vegna þess að þar staðsettu slátrarar sig. Það gerðu þeir vegna þess að þar var lækur sem notaður var til þess að láta skolvatn og blóð renna í þegar slátrað var. Gatan svegir enn þann dag í dag nákvæmlega eins og lækurinn gerði fyrr á öldum.

    Þetta er söguleg skírskotun sem Guðmundur Jónsson og fl. arkitektar ættu ekki vanvirða heldur að nýta sér í verkum sínum.

    Við þurfum endilega að láta Hafnarstræti halda sínu fagra forna formi um ókomin ár.

  • Jón Guðmundsson

    Þessi hugmynd er skólabókardæmi um einfalt og sjálfsagt fyrirkomulag rýmisins. Heilbrigð skynsemi kostar yfirleitt ekki mikið.

    Það er annað sem mér dettur í hug í þessu sambandi. Í austurenda Tryggvagötunnar eru á ferðinni gamlar hugmyndir um að ryðja götunni leið að suðurenda Hverfisgötu. Þetta er bergmál af hugsun sem birtist í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1962 -83. Þá áttu Tryggvagata og Hverfisgata að mynda fjögurra akreina tengibraut. Samhliða þessu átti að ryðja leið fyrir sambærilega braut í beina línu frá Grettisgötu og alla leið yfir að Túngötu vestan lækjar. Hluti sömu hugsunar var að ryðja Suðurgötu í gegn um Grjótaþorpið og tengjast Geirsgötu sem átti að byggja á brú. Nyrsti hluti tollhússins við Tryggvagötu er eini hluti þessarar fyrirhuguðu brúar sem var byggður.

    Langt er síðan fallið var frá þessum áætlunum en hugmyndin um samtengda æð Tryggva og Hverfisgötu gengur aftur eins og gamall draugur. Sögulegasta götumynd Kvosarinnar, Hafnarstrætið sem teiknar upp fjörukambinn í gömlu Reykjavík hefur nú þegar verið skemmd vegna þessara áforma. Með því að fjarlægja Ziemsen húsið með það að markmiði að tengja Tryggva og Hverfisgötu því sem næst línulega hvarf í rauninni þetta sögulega spor úr borgarmyndinni. Hafnarstrætið fylgir ekki lengur fjörukambinum og eftir stendur eyðilögð götumynd.
    Norðan Ziemsenhússins lá til skamms tíma rétt undir yfirborðinu gamli hafnarkanturinn, tilhoggið og glæsilegt mannvirki. Eftir því sem ég best veit fékk kanturinn að fjúka um leið og Ziemsenhúsið.

    Það grátbroslega við þetta allt saman er síðan það að nú er Ziemsenhúsið komið yfir í hinn enda Tryggvagötu í gömlu Grófina. Húsið er stórglæsilegt og engu til sparað í umhverfi þess. Margar spurningar vakna hinsvegar við þetta. Getur það verið að á sama tíma og við erum að verja stórfé í endurgerð og tilflutning sögulegra mannvirkja að við séum um leið að glata sögulega samhenginu? Erum við að kasta sögunni á glæ, gefa henni langt nef og endurskrifa hana eftir hentugleikum?

    Hafnarstrætið þarf að vernda sem lykilspor í borgarsögunni og hreinlegast væri að endurbyggja nýtt Ziemsenhús á sínum rétta stað við Hafnarstræti.

  • Einfalt og áhrifaríkt!

  • Þetta er alveg frábær tillaga. Myndi bjarga þessari götu.

  • Stefán Örn Stefánsson

    Gaman að sjá þessi undantekningalaust jákvæðu ummæli um tillöguna.
    Mig langar að bæta því við að þessi hugmynd var hluti af tillögu okkar Grétars Markússonar og Gunnars St. Ólafssonar verkfræðings í lokaðri samkeppni um Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsinu 1997 (sem Studio Granda vann) og var ekki síst hugmynd Reynis Vilhjálmssonar landslagsarkitekts sem var, sem svo oft fyrr og síðar, samstarfsmaður okkar og ráðgjafi við gerð tillögunnar. Sólin og skjólið áttu þarna samleið með stórkostlegu verki Gerðar Helgadóttur og tillöguhöfundarnir unnu góðverk dagsins og hjálpuðu bílunum yfir götuna.

  • Ég bæti þessu við:

    Alveg eins og komið hefur fram hér að ofan eru mikil bílastæðaflæmi allt í kringum þetta svæði. Það er alveg hugmynd að færa stæðin frá norðurhliðina yfir á suðurhliðina, en þar eru nú þegar stæði sem eru samsíða götunni (s.s. rassar bílanna skaga ekki út í götuna, eins og tillaga ARGOS gerir ráð fyrir. Ég myndi halda að þau samsíða stæði væru fullnægjandi þarna, þegar við bætast öll stæðin í kring. Gleymum því ekki að bílakjallarinn í TRH á að rúma 1600 stæði!

    Gleymum því heldur ekki að skv. skýrslu Mannvits eru bílastæði í miðborgum hvergi fleiri en í Reykjavík. Við erum með 800 stæði pr. 1000 störf, en meðaltalið í evrópskum borgum er í kringum 250 stæði pr. 1000 störf.

  • Frábær pistill Hilmar. Og flottar umræður!

    Ég hef ekki séð þessa hugmynd áður, en fræinu hefur nú verið sáð!

  • Þorsteinn

    Tek undir með fólki hér og er sammála Guðmundi og Árna.

    Sjálfar byggingarnar við göturnar eru ofmetnar í þessu samhengi. Meira skiftir hvað fer fram í byggingunum og hvernig búið er að götunum og fólkinu sem þar fer um.

    Svo skifta kennileitin megin máli og þau meiga ekki vera of mörg. Menn eru sammála um að Skólavörðustígur sé góð gata.

    Það er ekki vegna húsanna við götuna heldur vegna sólarinnar og þeirrar starfssemi sem er í húsunum. Svo er auðvitað Hallgrímskirkjan rúsínan í pulsuendanum….kennileitið sem gefur götunni sín sérstöku og sterku einkenni.

    Smátriði eins og hér er fjallað um, fær of litla umfjöllun. Þau skifta meira máli en margur heldur.

  • Tilvalið dæmi um hvernig má lífga upp á borgina á krepputímum. Einfalt og framkvæmanlegt.

    Já og ég styð Vigdísi, mölvum svarta skrímslið og finnum Naustið á ný!

    Mér finnst lausnin með ….Símsen?…. húsið flott. Gamalt hús fært til, veitingastaður í kjallaranum, lítið safn uppi, brúin sem liggur yfir að listasafninu…. Það er ekki allt slæmt 🙂

  • Árni Ólafsson

    Þetta dæmi, hugmynd um endurbætta Tryggvagötu, á að minna okkur á að það eru rýmin á milli húsanna sem fyrst og fremst móta bæjarmyndina. Götur, torg og garðar sem ólík rými með mismunandi hlutverk eru grunnþættir bæjarmyndarinnar. Skipan og útfærsla þessara rýma er lykillin að áhugaverðu og nothæfu bæjarumhverfi.

    Það er hægt að búa til ljóta borg úr fallegum/flottum/dýrum húsum (sbr. Borgartúnið) og það er hægt að búa til fallegt og heillandi bæjarumhverfi úr venjulegum/alþýðlegum/ódýrum/álappalegum og jafnvel ljótum húsum.

  • Rosalega er þetta annars flott mynd. Hún hefur náttúrulega aldrei notið sín og maður sér hana ekki almennilega nema á ljósmynd.

  • Vigdís Ágústsdóttir

    Stendur ekki nýja, kolsvarta, tóma fjölbýlið á Tryggvagötunni, það mætti mölva niður fyrir mér. Algjört umhverfisslys………………..

  • Þetta er auðvitað eina vitið. Ef einhver fer að kvarta undan töpuðum bílastæðum sem þessi aðgerð myndi valda má benda á að við næstu hlið Tollhússins er MJÖG stórt bílastæðaplan sem ég hef ALDREI séð fullnýtt.

  • *þannig að hliðin yrði

    *hinir súru bílar

  • Alltaf þegar ég labba götuna velti ég því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum Tryggvagötuhlið Tollhússins var ekki byggð framar þannig að hliðin var í samræmi við byggingarnar báðum megin við Tollhúsið.

    Auðvitað grunar mig að tilgangurinn hafi verið sá að troða þessum bílastæðum þarna, sem er hræðilegt á allan hátt.

    Mig dauðlangaði til að fylla upp í þetta bílastæði með viðbyggingu en hætti alltaf strax við það í huganum vegna þess að þá myndi hin fallega keramikmynd Gerðar hverfa sjónum vegfarenda.

    Þessi lausn er hins vegar fullkomin. Þetta svæði yrði að hálfgerðu torgi og hinur súru bílar myndu hætta að skyggja listaverkið.

  • Þegar Risessan kom hingað um árið á vegum Listahátíðar (12 metra há brúða sem gekk um miðbæinn) þá var Laugavegurinn hreinsaður af kyrrstæðum bílum einn laugadaginn svo hægt væri að koma henni niður götuna.

    Þetta var örugglega í fyrsta og eina skiptið sem Laugavegurinn var algjörlega marauður síðan bílaöld hófst fyrir nærri einni öld. Það birti svo yfir, þetta var svo mikil upplifun að ég sannfærðist um það á svipstundu að þetta væri framtíðin: bílastæðalaus Laugavegur. Það mætti kannski hafa eina leigubílastassjón skuggamegin í götunni og nokkur stæði fyrir fatlaða.

    Það er líka möguleiki í stöðunni, finnst mér, að hafa götuna bílastæðalausa í 3-4 mánuði á ári, þ.e. yfir hásumarið. Það kostaði borgina akkúrat ekki neitt en hinsvegar virðast menn mjög ragir við gera slíkar tilraunir.

    Maður veit að kaupmenn (sem virðast ráða lögum og lofum þegar kemur að málefnum Laugavegarins) myndu ganga af göflunum ef þetta kæmi til umræðu.

    En í því felst í rauninni mikil þversögn. Ef kyrrstæðum bílum (sem taka upp hrikalega mikið pláss sólarmegin og eru auk þess mikill farartálmi gangandi fólki, sérstaklega fólki með kerrur og barnavagna) þá myndi mannlíf glæðast og t.d. skilyrði skapast fyrir útikaffihús. En kaupmenn virðast vera sannfærðir um að enginn leggi leið sína á Laugaveginn til að versla nema þeir geti lagt bifreiðum sínum fyrir framan viðkomandi verslun.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Guðmundur:

    Sem starfsmanni tollstjóra líst mér bara vel á þetta!

  • Guðmundur

    Já, það er eins og menn hafi gleymt að huga að lífinu milli húsanna. Það vantar Jan Gehl í skipulagsmálin hér. Göturnar eru útundan. Þær upplifast sem enskismannsland. Þær eru land án hirðis.

    Tryggvagatan er einmitt gott dæmi um vanrækta götu. Önnur gata sem er útundan er Hverfisgatan. Í Hverfisgötunni liggja gríðarleg tækifæri ef grannt er skoðað.

    Auðvitað á að gera þessa breytingu sem tillaga ARGOS gengur útá strax í sumar. Vantar ekki góða útivinnu fyrir fólk?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn