Fimmtudagur 12.03.2015 - 21:24 - 9 ummæli

Túrisminn

 

 

Hér er mjög athyglisvert efni sem ég fékk sent frá kunningja mínum. Hann heitir Árni Zophoniasson og er borgarbúi, áhugamaður um skipulagsmál og sérstaklega þau áhrif sem vaxandi straumur ferðamanna hefur á borgarlífið. Árni lærði sagnfræði en hefur stundað atvinnurekstur alla sína ævi, rekur meðal annars Miðlun ehf, Kaupum til góðs ehf og fleiri fyrirtæki.

 Gefum Árna orðið:

 +++++

Á nýliðnu ári kom ein milljón ferðamanna til Íslands. Sambærilegar tölur fyrir frændþjóðir okkar á Norðurlöndunum eru tæplega 10 milljón ferðamenn til Danmerku en rúmlega 5 milljón til Svíþjóðar, Noregs og Finnlands.

Ísland var lengst af álíka mikið ferðamannaland og stríðshrjáð Afríkuríki. Síðustu 3-4 ár má sjá merki um breytingar, mögulega er ástæðan hrunið og sú umfjöllun sem því fylgdi, eldgos í Eyjafjallajökli, tískubreytingar í ferðamennsku eða gott markaðsstarf – um það er ekki gott að segja.

Ef almenn skilyrði haldast óbreytt er líklegt að fjölgun ferðamanna haldi áfram. Ekki endilega vegna þess að Ísland sé einstakt og áhugavert land heldur vegna þess að óeðlilega fáir ferðamenn hafa sótt landið heim. Þrátt fyrir eina milljón ferðamanna erum við ennþá í hópi með löndum eins og Uzbekistan, Senegal, Sri Lanka og Namibíu hvað varðar fjölda ferðamanna. Það er engin ástæða til að ætla að færra ferðafólk vilji sækja Ísland heim heldur en Finnland – eða um fimm milljón manns á ári.

Markmiðið með þessum texta er ekki að spá fyrir um ferðamannafjölda enda hefur undirritaður engar forsendur til þess. Hins vegar er nokkuð fyrirsjáanlegt að ferðamönnum mun fjölga, jafnvel verulega. Í því samhengi er áhugavert að velta fyrir sér hvaða áhrif mikill fjöldi ferðamanna hefur á skipulagsmál, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

Það þarf ekki mikla fjölgun ferðamanna til þess að lestarsamgöngur milli Leifsstöðvar og Reykjavíkur verði arðbærar. Líklega verður hafist handa við slíka framkvæmd innan fárra ára. Lestarsamgöngur breyta forsendum varðandi almenningssamgöngur – ekki bara á Reykjanesi heldur á höfuðborgarsvæðinu öllu. Leifsstöðvarlestinni fylgja tækifæri en líka flókin útlausnaefni. Lestin mun meðal annars breyta umræðunni um Reykjavíkurflugvöll. Er ekki sjálfgefið að innanlandsflug mun flytjast á Reykjanes ef fjölgun ferðamanna heldur áfram?

Til þess að þjóna vaxandi fjölda ferðamanna þarf stærri miðbæ, meira og fjölbreyttara verslunarrými. Gucci, Cartier og Hermes þurfa sína götu en einnig sérviskuverslanir sem geta ekki greitt háa húsaleigu. Kannski er ný göngugata frá Hörpunni að Lækjartorgi kjörinn staður fyrir dýrar lúxusverslanir. Gamli miðbærinn verður að stækka – ferðafólk vill rölta um og njóta borgarlífs. Við eigum áhugavert svæði fyrir ofan Laugaveginn, Grettisgötu, Njálsgötu, Vitastíg, Frakkastíg, Klapparstíg, Skólavörðustíg og hluta af Þingholtunum. Á þessu svæði þarf að fóstra torg, útbúa göngustíga milli húsa og gera svæðið aðlaðandi fyrir litlar sérverslanir, kaffihús, listagallerý og annað sem dregur að ferðamenn. Þarf ekki að gera bíla útlæga af þessum götum?

Sjór og hafnir eru víða mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn, strandlengjan á höfðuborgarsvæðinu er löng en ennþá hefur lítið verið gert til að nýta hana í þágu ferðamanna. Við þurfum að nota ströndina betur með því að koma upp veitingahúsum og afþreyingu. Við lægi skemmtiferðaskipa í Sundahöfn þarf segul sem kallast á við Hörpuna og gamla miðbæinn, eitthvað sem dregur ferðamenn í göngutúr þar sem hægt er að upplifa Hörpuna, Sólfarið, Hðfða, Hrafn Gunnlaugsson, Listasafn Sigurjóns Ólafssonar og Viðey. Einnig er hægt að nýta betur aðstöðu á Gróttu, Ægissíðu, Nauthólsvík og víðar við strandlengjuna. Nú þegar hefur verið unnið gott starf við að breyta og aðlaga gömlu höfnina þörfum ferðamanna. Þar er þó mikið starf ennþá óunnið.

Í útjaðri og nágrenni höfuðborgarsvæðisins bíða mörg verkefni. Kláfur á Esjuna, Þríhnjúkagígur, vatnagarður og víkingabær í Mosfellssveit eru áhugaverð verkefni. Einnig þarf að opna betur og gera aðgengileg svæði sem við höfuðborgarbúar njótum reglulega svo sem gönguleiða á Esjuna, Úlfarsfell, Heiðmörk og Elliðaárdalur.

Ef litið er til lengri tíma verða það ekki Þingvellir, Mývatn, Gullfoss eða Geysir sem draga ferðamenn til Íslands, heldur Reykjavík. Borgin getur verið einn skemmtilegasti áfangastaður Evrópu, með iðandi borgar- og menningarlíf í skemmtilegri nálægð við undarlega náttúru. Til þess að taka á móti fleiri ferðamönnum þurfum við að skipuleggja borgina með þarfir þeirra í huga.

++++++

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Hræðileg grein, þarna fer maður fram með hagsmuni túrista að leiðarljósi, ekki innlendu íbúanna, vill gerast vændisaðili túrismans, því miður.

    • Ari.
      Gengur þetta ekki út á að leiða hagsmuni innfæddu og túristanna saman?
      Þetta er góð grein þar sem fyrirhyggja og skipulag er málið.

  • „Við lægi skemmtiferðaskipa í Sundahöfn þarf segul sem kallast á við Hörpuna og gamla miðbæinn“…… Þetta er algerlega nýtt og stórsniðug hugmynd.

  • Orri Ólafur Magnússon

    Góðir punktar hjá þér Árni – þakka þér fyrir athyglisvert innlegg í umræðuna um túrismann & Ísland. Jú, hvers vegna í ósköpunum ættu færri ferðamenn að sækja okkur heim en Finna ? Útaf fyrir sig er ekkert sem mælir móti því að hingað komi 5 milljónir ferðalanga á ári – væri einungis brotabrot af þeim hundruðum milljóna sem endasendast um hnöttinn ár hvert í leit að nýjum ævintýrum og myndefni í i-phoninn. Athyglisverð framtíðasýn með kláfinn á Esjuna ; einmitt tímabært núna þegar ég er kominn á efri ár og asthmað farið að há mér við fjallgöngurnar – þakka þér fyrir að hugsa til mín ! Sömuleiðis hef ég sárlega saknað Hèrmes & Co hér í bænum – gott til þess að vita að þeir skuli vera á leiðinni hingað til þess að hjálpa okkur við að losa okkur við umfram- aurana.

    • Orri Ólafur Magnússon

      pardon; „framtíðarsýn“ – það eru augljóslega ekki bara öndunarfærin sem eru farin að gefa sig 😉

  • Halldóra Árnadóttir

    Manni léttir við að lesa þessa grein.
    Hún er svo bjartsýn.

    Það sem er alvarlegt við þetta er að það er ekki nægjanlega sterk framtíðarsýn í þessum mál. Það er „selt inn“ meðan húsrúm leyfir og margfalt meira en það en ekki hugsað um hvað á að gera við allt fólkið þegar til framtíðar er litið.

    Ég er sammála þeim Páli og Gísla hér að ofan.

  • Góð grein, vel skrifuð og svo með góðri „punchline“:

    „Ef litið er til lengri tíma verða það ekki Þingvellir, Mývatn, Gullfoss eða Geysir sem draga ferðamenn til Íslands, heldur Reykjavík.“

  • Gísli Guðmundsson

    Ég þekki ekki tölur frá 2014, sennilega eru þær ekki komnar.

    En 2013 komu um 700 þúsund ferðamenn til landsins. Tekjurnar voru 275 milljarðar og gáfu tæpann1/3 af útfltningstekjum þjóðarinnar.

    Þetta er gríðarlega mikið og hefur sennilega vaxið um 40% síðan.

    Tekjur ríkisins af þessu eru sagðir 60 milljrðr á síðasta ári.

    Og svo er fólk að tala um náttúrupassa.

    Hvaða vitleysa er það.

    Af hverj tekur maður þetta lítilræði (1-15 milljarð á ári) sem þarf til þess að halda ferðamannastöðum vel við og þjóna gestnum af þssum skattekjum ríkisins af greininni?

    • @Gísli Guðmundsson: ,,Af hverju tekur maður þetta lítilræði (1-15 milljarð á ári) sem þarf til þess að halda ferðamannastöðum vel við og þjóna gestunum af þessum skattekjum ríkisins af greininni?“

      Vegna nísku.

      Sumir verða því nískari sem þeir verða ríkari og það virðist sérstaklega við um Íslendinga, því miður.

      Eftir því sem gæsin verpir fleiri gulleggjum þeim mun minna má gefa henni að éta.

      Þegar hún drepst er einhverju öðru kennt um.

      Þetta er kjarni málsins og það er sama hvern þú kýst, Bárður á Búrfelli kemur alltaf uppúr kjörkassanum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn