Mánudagur 30.01.2017 - 15:24 - 2 ummæli

Umræðan um arkitektúr og arkitektinn í umræðunni.

img008

 

Danska arkitektafélagið hefur áhyggjur af því að danskir arkitektar blandi sér ekki nægjanlega í umræðuna um störf þeirra og verk í fjörmiðlum. Félagið leggur áherslu á að þeir haldi á lofti faglegum sjónarmiðum sínum með það að markmiði að auka skilning fólks á því sem máli skiptir og varðar arkitektúr og skipulag. Félagið velti fyrir sér hvort lítilli þátttöku arkitekta í umræðunni sé um að kenna einhverju óöryggi þeirra varðandi það að tjá sig og hvernig maður ber sig að.  Til þess að mæta þessu og ráða á bót því setti arkitektafélagið upp námskeið fyrir arkitekta sem byrjar á morgun þriðjudag.

Þetta virðist oflugt námskeið.

Ég var eiginlega mjög hissa á þessu vegna þess að mér hefur alltaf fundist danskir arkitektar almennt duglegir að tjá sig. Meira að segja stundum jafnvel of duglegir. En það finnst danska arkitektafélaginu ekki.

Almenningur í Danmörku er, að mér hefur fundist, vel upplýstur. Miklu betur en sá íslenski.   Allir helstu fjölmiðlar landsins eru með sérstakt fólk á ritstjórnum sínum sem fjalla um efnið og Arkitektens Forlag gefur út þrjú víðlesin tímarit um efnið. Þar fyrir utan kemur út fjöldi bóka og tímarita fyrir almenning um efnið á hverju ári þar í landi. Svo er mikið fjallað um þetta á ljósvakamiðlum þar sem fólk tekst jafnvel á um viðfangsefni líðandi stundar. Oftast auðvitað án aðkomu stjórnmálamanna.  Þetta eru faglegar umræður en ekki flokkapólitískar.

Hér er nánast aldrei fjallað um þetta í fjömiðlum. Ef þetta er á dagskrá blaða eða ljósvakamiðla er oftast fjallað um sjálfa framkvæmdina eða flokkapólitíkina sem að baki liggur sem er allt önnur Ella. Þegar fjallað er um framkvæmdina og flokkapólitíkina eru helstu atriðin stærð og kostnaður, bílastæðafjölda, fjáröflun og framkvæmdaaðila. Og svo auðvitað karp stjórnmálamannanna sem varða tiltekið viðfangsefni.  Svo er fjallað um hverjir munu nota húsið. Einkum ef um fræg fyrirtæki eða frægt fólk er að ræða. En nánast aldrei um hugmyndafræði eða fagleg sjónarmið sem liggja að baki verkanna.

Þetta virðisr vera reglan.

Ég rakst á góða undantekningu í Mogganum á laugardaginn. Þar skrifar Sigtryggur Sigtriggsson um Alliance-húsið vestur í bæ og byggingu hótels á lóðinni. Þetta lofar allt mjög góðu.  Þar skrifar hann um arkitektúr og skipulag, umferð, vinda og húsform. Flest aðalatriðin. Í greininni má finna eftirfarandi setningu „Grunnformin að nýbyggingunni eru tekin frá Alliance-húsinu og eru húsin lágreistari en Mýrargata 26, sem stendur við hliðina, og fyrirhuguð byggð á Héðinsreit“.  Ég held, svei mér þá, að þetta sé í fyrsta sinn sem ég les texta eftir almennan blaðamann í dagblaði sem fjallað er um arkitektúr með beinum hætti.

En það verður líka að halda því til haga að Egill Helgason og Pétur Ármannsson fjölluðu um byggingalist á mjög vandaðan og skemmtilegan hátt á RUV á síðasta ári og í menningarhluta Kastljós um byggingalist í síðustu viku var ný skrifstofubygging Alþingis kynnt. Þetta eru líka undantekningar.

++++

Þrátt fyrir að umræðan sé margfalt meiri í Danmörku en hér á landi, þykir danska arkitektafélaginu mikið vanti uppá og hvetur fagfólkið til þess að láta til sín taka í umræðunni og efnir til námskeiða með það markmið að klæða danska arkitekta upp til þess að geta tekið og verið virkir í umræðunni.  Þeir vita að við fáum ekki bætt umhverfi og bætt skipulag nema að notandinn sé vel upplýstur og geti veitt faglegt og upplýst aðhald. Og það er best gert með því að arkitektar leggi  skólakerfinu og fjölmiðlum lið til að viðhalda umræðunni í grasrótinni. Arkitektar þurfa að læra að tala til almennings, hins óbreytta notanda. Það vill brenna við að arkitektar tali að mestu til annarra arkitekta og á þeirra máli. Þessu þarf að breyta.

+++++

Efst er ljósmynd af auglýsingu sem ég fékk frá danska arkitektafélahinu vegna námskeiðsins sem var hvati að þessum pistli.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Halldóra Árnadóttir

    Þegar ég flutti heim frá Danmörku tók ég einmitt eftir þessu. Danir ræða hlutina í botn þannig að oft fannst manni nóg komið. Hér ræða menn ekki mikið málin en þeir þrasa meira um pólitíkina. Það er allt önnur samræðuhefð hér en í DK. Meira pólitík og minna um fagleg efni. Maður botnar oft ekkert í umræðunni hér. Það er aldrei talað um málefnin. Skipulags og umferðamál eru rædd hér eins og umræðuefnið sé trúarbrögð. Svona er þetta ekki í DK nema að litlu marki.

    • Hilmar Þór

      Ég veit ekki hvort ég skil þig rétt en ég upplifi þetta svoldið eins og þú. Pólitíkin þvælist oft fyrir faglegri umræðu. Almennir borgarar og áhugafólk um viðfangsefið vilja ræða lausnir meðan stjórnmálamenn eru sífellt að tala um „víglínur“. Þessi umræðuhefð er slæm og hefur kostað okkur milljarða. Nægir að nefna kjördæmapotara sérstaklega. Ég nefni engin dæmi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn