Fimmtudagur 23.10.2014 - 14:51 - 51 ummæli

Umræðan um Vatnsmýrarflugvöll

 

KEF-EUROPE

 

Ég nennti varla á  fund flugvallavina á þriðjudagskvöldið vegna þess að svona fundir bera oft einkenni trúarsamkoma, fullar af tilfinningum og geðshræringu samherja í stríði sem þeir telja tapað.

Annað var uppi á teningnu á þriðjudaginn.

Þarna voru flutt fjögur framúrskarandi erindi, full af staðreyndum og án tilfinninga. Erindin voru öll fordómalaus, lausnamiðuð og mjög upplýsandi og einkenndust af víðsýni og umburðalyndi. Enn menn voru ekki sigurvissir.

Þetta var sérlega góður og nauðsynlegur fundur. Að minnsta kosti fyrir mig.

Ég hef lagt mig fram um að hlusta á og skilja sjónarmið þeirra sem vilja flugvöllinn burt en finn allt of margar holur í þeim málflutningi og finn að umræðunni er ekki lokið. Mér finnst þeir ekki sjá heildarmyndina. Umræðan hefur ekki náð þeirri dýpt og breidd sem til þarf áður en ákvörðun er tekin. Svo afgreiða þeir þá sem eru þeim ósammála  með að segja þá þreyta „gönuhlaup“!

Ég fyrir minn hlut sé gjarna að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni sem fyrst ef ekki er þörf fyrir hann. Ég vil hann líka burt ef ég horfi til þröngra hagsmua borgarskipulagsins og Reykjavíkurborgar.  Ég hef hinsvegar efasemdir um hvort flytja eigi flugvöllinn eða leggja niður útfrá heildarhagsmunum höfuðborgarsvæðisins og samkeppnisstöðu þess á alþjóðavetvangi og landsbyggðarinnar. En það er önnur saga.

En flugvöllurinn á auðvitað ekki að fara fyrr en ásættanleg  lausn er fundin og samgöngur höfuðborgarinnar í lofti er tryggð. Peningar til að byggja nýjan flugvöll þurfa líka að liggja á borðinu ef sú staða verður ofaná. Ég minni líka á að flugvöllurinn þekur einungis 140 ha lélegs byggingarlands, en handan Skerjafjarðar eru um 700 ha af ágætu byggingarlandi. Með brú milli Nauthólsvíkur yfir á Kársness og þaðan yfir á Bessastaðanes verður aðeins 5-7 mínútna akstur frá byggðinn á Álftanesi niður í Lækjargötu.

En aftur að fundinum á þriðjudaginn sem var eins og áður sagði bæði fordómalaus, án tilfinningalegra sróryrða, upplýsandi og ekki síður lausnamiðaður, hefur kallað á viðbrögð þeirra sem eru andstæðingar flugvallar í Vatnsmýri.

Viðbrögðin valda mér vonbrygðum . Reyndar svo miklum að ég tel varla hægt að taka þátt í samtali um flugvallarmálið á málefnalegan hátt á þeirra forsendum. Maður veltir fyrir sér hvort samtalið sé vonlaust.

Ég nefni ummæli Bjarna Harðarssonar framkvæmdastjóra Valsmanna e.f sem segir fundinn á þriðjudag „gönuhlaup“ ef marka má Morgunblaðið í morgun. Hann vill ekki skoða málið í heild sinnu og telur ekki eigi að blanda svokallaðri neyðarbraut inn í umræðuna.

Ég get upplýst að fundurinn einkenndist alls ekki af bráðræði, flani eða óðagoti eins og orðabókin skýrir orðið „gönuhlaup“ sem framkvæmdastjórinn kýs að nota.  Heldur af yfirvegun og fullkomnu jafnvægji þar sem kostir og gallar voru vandlega metnir í heild sinni og eðlilega var neyðarbrautin ekki undanskilin. Enda var þetta víðsýn og fagleg umræða þar sem ekkert sem skipti máli var undanskilið. Framsögumenn vildu bíða eftir niðurstöðu Rögnunefndar og taka um hana umræðu, sem ætti að vera sjálfsagður hlutur, annað er auðvitað óðagot. Borgin þarf að halda að sér höndum í svona sex mánuði eftir að skýrsla Rögnunefnar liggur fyrir og ná sátt um málið í framhaldinu.

Á fundinum voru ræddir heildarhagsmunir höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Framkvæmdasrtjóri Valsmanna h.f. setur hinsvegar fram þrönga einkahagmuni fjárfesta sem standa að hlutafélaginu sem á þarna land. Það er auðvitað skiljanlegt en sjónarmiðin vega í mínum huga ekki þungt þegar þau eru metin og borin saman við stóru myndina og almannahagsmuni.

Ég árétta það hér að þessi vetvangur er opin öllum þeim sem vilja leggja orð í belg varðandi þetta mikla mál og önnur er varða þessa sérsniðnu vefsíðu. Þeim sem viljha verja sína hagsmuni og eru á móti flugvellinum eru líka hjartanlega velkomnir á þennan vetvang.

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2014/05/25/reykjavikurflugvollur-sameign-thjodarinnar/

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/01/13/vatnsmyrarsamkeppnin-upprifjun/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/07/26/tharf-flugvoll-a-reykjavikursvaedid/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/03/16/vatnsmyrin-%e2%80%9cnull-lausn%e2%80%9d/

Myndin efst í færslunni kemur ekki efni hennar beint við en sýnir fjarlægð frá flugvelli inn í miðborg nokkurra borga í Evrópu

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (51)

  • Það er atkvæðagreiðsla um flugvöllinn hvern einasta dag í innanlandsfluginu teljum uppúr kössunum þegar ríkisstyrkir verða skornir niður

  • Einar Karl Friðriksson

    Hefur einhver reiknað út frá sögulegum gögnum, t.d. síðustu 25 ára, hver nýting flugvallarins hefði verið ef notkun NA-SV brautarinnar er dregin frá?

    • Hilmar Þór

      Góð spurning Einar Karl.

      Það eru aðrir sem geta svarað þessu betur en ég en samkvæmt skýrslu sem heitir „Athugun á notagildi Reykjavíkurflugvallar með og án flugbrautar 07/25“, sem gefin var út í mars 1997 má lesa að þarna er verulegur munur.

      Ég kann ekki að setja grafiska mynd sem unnin er upp úr skýrslunni inn á vefinn hér í kommentakerfið en ef skoðaðir eru tveir mánuðir, annarsvegar febrúar, þegar samgöngur eru hveð verstar vegna snjóalaga og veðra er munurinn 2, 6 faldur. Flugvöllurinn er lokaður 2,8 daga í febrúarmánuði að meðaltali án 07/24 en 1,05 með brautinni. Í Júni er flugvöllurinn lokaður 0,05 daga með brautinni en um 0,8 daga án hennar ef ég skil rétt.

      Af grafinu má því lesa að munurinn er verulegur. Hafa ber í huga að þetta er meðaltal.

      Veðurupplýsingar í skýrslunni byggja á svokölluðum SYNOP-athugunum á Reykjavíkurflugvelli á árunum 1957-1973, samtals um 50.000 veðurathugunum.

      En þetta geta allir séð sem vilja skoða málið.

    • Guðrún Jónsdóttir

      Af hverju að gera lítið úr þessu? Er það kannski vegna þess að þetta er smámál? Mér finnst þetta stórmál!

  • Guðrún Jónsdóttir

    Þetta er snarpur texti:

    “Skyldur höfuðborgarinnar við landsbyggðina eru miklar og spyrja má hvort 10-15 þúsund manna byggð í Vatnsmýri vegi meira en greið tenging við landsbyggðina og útlönd? Hvort 10-15 þúsund manna byggð þarna vegi meira en sú samkeppnishæfni borgarinnar við aðrar borgir sem staðsetning flugvallarins skapar? Hvort byggð í Vatnsmýrinni muni draga úr uppbyggingu í núverandi miðborg Reykjavíkur þegar “þægilegri” byggingatækifæri opnast svo nálægt? Spyrja má hvort ekki megi leysa skipulagsvanda höfuðborgarsvæðisins á hagkvæmari hátt en að flytja flugvöllinn eða leggja niður? Er þetta skynsamlegt þegar sennilega 10 sinnum stærra land er innan seilingar sunnan Skerjafjarðar?”

    greinina er að finna hér:

    http://blog.pressan.is/arkitektur/2010/03/16/vatnsmyrin-%E2%80%9Cnull-lausn%E2%80%9D/

  • Árni Ólafsson

    Og Þjóðleikhusið í Andrews Theater.
    Alþingi á Beisnum.
    Landsspítalinn í Keflavík.
    Þá verður gott að búa í Reykjavík (og enn betra í Kópavogi) 

  • Fjörlegar umræður um Reykjavíkurflugvöll og sýna í hnotskurn hvers vegna málið virðist í óleysanlegum hnút. Sæmilega glöggir menn vita að yfirvöld í Reykjavík samþykktu Rögnunefndina fyrst og fremst til þess að lægja öldur og friða með því flugvallarvini um stundarsakir. Markmið borgaryfirvalda er eftir sem áður skýrt. Flugvöllurinn skal fara úr Vatnsmýrinni. Það liggur fyrir, að uppá borðinu hjá Rögnunefndinni eru kostir sem þegar hafa verið afgreiddir og af því ljóst, að niðurstaða nefndarinnar mun ekki leysa neina hnúta. Álftanes, Löngusker, Hólmsheiði og Hvassahraun eru meðal þessara þegar afgreiddu kosta fyrir utan óheyrilegan kostnað svo skiptir tugum milljarða við byggingu nýs flugvallar fyrir innanlandsflugið með nauðsynlegum þjónustubyggingum.
    Fyrir en síðar verður að taka af skarið og má vera, að lausnin felist í eftirfarandi. Innanlandsflugið verði flutt til Keflavíkur. Öll aðstaða er þar fyrir hendi og ferðatíminn þaðan til höfuðborgarsvæðisins ásættanlegur. Málið má ekki stranda á ferðavenjum forstjóra af landbyggðinni með kröfuna suður að morgni, heim að kvöldi.Í Vatnsmýrinni verði einungis gert ráð fyrir flugbraut í tengslum við sjúkraflug og síðan er ljóst að þyrlupallur verður staðsettur við nýjan Landspítala. Kennsluflugið verði jöfnum höndum rekið frá flugakademíunni á Ásbrú og að nokkru leyti frá Selfossi.
    Með þessari tilhögun fær Reykjavíkurborg draum sinn uppfylltan og landið í Vatnsmýrinni til ráðstöfunar en það verður borginni ekki útgjaldalaust.
    Ríkið á tæplega 70 hektara lands í Vatnsmýrinni og fasteignir sem borgin þarf að borga fullum fetum og má þar gera ráð fyrir milljarða útgjöldum auk þess sem einstaklingar og samtök eiga verulegar fasteignir á svæðinu sem tengjast flugi og munu gera kröfur um umtalsverðar bætur. En skipulagssnillingarnir sem fara með völdin í Reykjavík nú um stundir láta ekki stranda á svoleiðis smámunum.

  • Ingvar Tryggvason

    Hafðu þakkir fyrir þessa vönduðu umfjöllun, sem endranær.

    Það er mikið veður gert út af því að braut 06/24 er kölluð neyðarbraut og það sagt vera í áróðursskyni. Staðreyndin er sú að notkun brautarinnar er ákveðnum skilyrðum háð sem tilgreind eru í AIP og er nafngiftin komin þaðan.
    Hvað umrætt flugbraut er kölluð er aukaatriði. Aðalatriðið er að Reykjavíkurflugvöllur þarf, eins og aðrir flugvellir, að uppfylla 95% notkunarstuðull. Sú krafa á uppruna í Annex14 frá ICAO, er í reglugerð nr. 464/2007 og þetta ákvæði er enfremur í væntanlegri EASA reglugerð.

    Það liggur fyrir, samkvæmt viðurkenndum athugunum, að ef 06/24 verður lokað, þá fellur flugvöllurinn undir 95% Það er ekki eitthvað huglægt, þetta er skjalfest staðreynd.
    Í umræddum literatúr er talað um flugvöll í eintölu. Það er ekki hægt að raða saman í körfu fleiri en einum flugvelli í sama landshluta, til þess að uppfylla 95% eins og um skuldabréfavafning væri að ræða.

    Nýleg greinargerð, unnin af Veðurstofu Íslands (GNP/2004-01) sem ISAVIA skilaði Innanríkisráðuneytinu er ekki unnin með viðurkenndum hætti. Sú greinargerð grundvallast af KingAir 200 flugvél, en slík aðferð á sér enga stoð í reglugerðum. Þó svo að slík vél sé notuð um þessar mundir í sjúkraflugi, er ekki það með sagt að sú vél sé forsenda veðurathuganna. Í þeim efnum ber að fara eftir töflum í ICAO Aerdrome Design Manual, Document 9157 Niðurstaða greinargerðarinnar er sú að sameginlegur notkunarstuðull Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvallar geti náð 99,0%
    Það þarf ekki að orðlengja að allar vangaveltur um sameginlegan notkunarstuðull KEF og RVK eiga sér enga stoð í reglugerðum, geta ekki réttlætt lokun 06/24 og eru aðeins til þess fallnar að afvegaleiða umræðuna.

  • Jón Guðmundsson

    Eins og Guðmundur bendir réttilega á þá komst áhættumatsnefnd samgönguráðherra að þeirri niðurstöðu fyrir 24 árum síðan, árið 1990, að tvímælalaust beri að loka NA/SV brautinni. Upphlaup hagsmunahóps sem kallar sig „Hjartað í Vatnsmýrinni“ er sérkennilegt í því ljósi.
    Í Vatnsmýrinni felast sóknarfæri fyrir íslenskt samfélag með aukinni samvinnu á milli háskólanna tveggja, Landsspítalans og þekkingarfyrirtækja sem nú þegar eru farin að skjóta rótum í mýrinni.
    Hugsanlega mætti rjúfa þá pattstöðu sem húsnæðismál LSH eru í með því að taka ákvörðun um byggingu nýrra mannvirkja fyrir starfsemi LSH í Vatnsmýrinni sjálfri. Slík framkvæmd gæti sparað allt að 12% í rekstri LSH á hverju ári í stað áætlaðs 4,5% rekstrarsparnaðar með fyrirhuguðum viðbyggingum við gömlu mannvirkin. Byggingarmassann við Hringbraut mætti síðan til dæmis nýta fyrir öldrunarþjónustu. Raunveruleg samþætting háskólanna, sjúkrahússins og þekkingarfyrirtækjanna í Vatnsmýrinni gæti gert starfsumhverfið eftirsóknarvert fyrir komandi kynslóðir og skapað ómæld verðmæti fyrir samfélagið.
    Um leið losnum við úr þessum gömlu skotgröfum um meinta framtíð reksturs flugvallar í miðborg Reykjavíkur.

  • Góðan daginn og takk fyrir þessa færslu Hilmar.

    Ég komst því miður ekki á fundinn en í ljósi þess hve málefnalegur og víðsýnn málflutningur fundarmanna var vona ég að eftirfarandi upplýsingum hafi verið komið á framfæri í umræðu um NA-SV flugbrautina og deiliskipulagið við Hlíðarenda. Það er ákveðið lágmark að halda lykilupplýsingum til haga í þessu máli.

    Deiliskipulagstillagan sem um ræðir var unnin í samvinnu Reykjavíkurborgar og Isavia á grundvelli samkomulags ríkis og borgar frá 25. október 2013 og Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, sem nú hefur verið staðfest. Deiliskipulagstillagan er í einu og öllu í samræmi við markmið og ákvæði fyrrnefnds samkomulags og er endurskoðun deiliskipulagsins í raun forsenda þess að samkomulaginu (viðbótarsamkomulaginu) verði fylgt eftir. Viðfangsefni nefndarinnar, sem skipuð var samkvæmt samkomulaginu, er fyrst og fremst að gera frekari könnun á staðarvalskostum fyrir innanlandsflug. Í öllum fyrri athugunum sem gerðar hafa verið á mögulegum valkostum innanlandsflugvallar, hefur ávallt verið miðað við 2ja brauta flugvöll í samanburði við 2ja brauta grunnkost í Vatnsmýri.

    Upphaflega settar fram tillögur um lokun NA-SV flugbrautar í skýrslu samgönguráðherra, „Sambýli flugs og byggðar“ frá árinu 1990. Tillögurnar voru unnar af nefnd sem sett var á stofn í kjölfar alvarlegs flugslyss sem átti sér stað á Reykjavíkurflugvelli í ágúst 1988. Eins og nafn skýrslunnar ber með sér var áherslan í vinnunni að meta umhverfisáhrif og áhættuþætti flugrekstrar í nálægð við byggð. Á undirskriftarsíðu skýrslunnar segir: „Í álitinu setur nefndin fram tillögur sem miða að því að draga úr augljósum áhættuþáttum, ónæði og mengun án þess að skerða mikilvægi Reykjavíkurflugvallar sem miðstöð samgangna í innanlandsflugi. Tillögurnar eru byggðar á hættumati nefndarinnar og mati á slysalíkum umhverfis flugvölinn. Full samstaða tókst um þessar tillögur í nefndinni.“ Í nefndinni sátu m.a. Flugmálastjóri og framkvæmdastjóri flugvalladeildar Flugmálastjórar. Í niðurstöðum skýrslunnar segir m.a. (bls. 70): „Að öllu samanlögðu verður að telja að mest áhætta sé tekin við notkun NA/SV-brautar og að tvímælalaust beri að loka henni. Auk þess sem brautin hefur hverfandi vægi í notagildi flugvallarins…“

    Í framhaldi af starfi áhættumatsnefndar samgönguráðherra árið 1990, hefur lokun NA-SV ávallt verið markmið í allri stefnumörkun um flugvöllinn, hvort sem litið er til aðalskipulags Reykjavíkur (AR1990-2010, 1996-2016 og AR2001-2024), deiliskipulags flugvallarins frá 1999 og hinar fjölmörgu sameiginlegu yfirlýsinga borgar og ríkis um framtíð flugvallarins á síðustu árum. Staðfesting Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 og samkomulag ríkis og borgar (viðbótarsamkomulag undirritað af innanríkisráðherra og borgarstjóra) frá 25. október 2013, er því lokaskrefið í að tryggja framfylgd þessa markmiðs. Raunar var NA-SV flugbrautin þegar felld út af aðalskipulagi árið 2007, með sérstakri breytingu á AR2001-2024, m.a. vegna staðsetningar samgöngumiðstöðvar norðan Loftleiðahótels, þar sem NA-SV brautin liggur. Það staðarval samgöngumiðstöðvar var niðurstaða sameiginlegrar nefndar samgönguráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Rétt er að taka fram að Leifur Magnússon, einn frummælenda á fundinum sem hér er til umræðu, sat í nefndinni sem komst að þessari niðurstöðu. Breyting þessi frá 2007 var staðfest af umhverfisráðherra án fyrirvara.

    Það er því í algjörlega nýtt af nálinni að gera ágreining um lokun NA-SV brautar, sem sátt hefur verið um að stefna að um áratugaskeið. Sáttin byggist ekki síst á því að með lokun brautarinnar er dregið úr áhættu sem fylgir flugrekstri svo nærri þéttri byggð. Hér vegast á rekstrarlegt nýtingarhlutfall flugvallarins og aukið öryggi fyrir byggð í nágrenninu. Reynslutölur benda eindregið til þess að rekstrarlegt nothæfi vallarins verður ásættanlegt eftir lokun umræddrar brautar, auk þess sem rekstraröryggi mætti tryggja enn frekar með opnun sambærilegrar brautar á Keflavíkurflugvelli.

    • Hér er sögulegum staðreyndum komið á hreint. Mjög athyglisvert og sýnir ákveðna tilraun „flugvallarvina“ eða nú neyðarbrautarbræðra til þess að endursskrifa söguna, í áróðursskyni.

    • Sigurður Ingi Jónsson

      Það er afar ánægjulegt þegar fólk gefur sér tíma til að deila upplýsingum sem það hefur aflað, en að sama skapi vont þegar áhugasamir hafa ekki komist í réttar eða fullnægjandi upplýsingar. Þar sem Guðmundur Kristján Jónsson hefur gefið af tíma sínum til að deila með okkur sinni sýn á þetta mál, þá er sjálfsagt að gjalda líku líkt, en hér er mín sýn á sömu atriði.

      Deiliskipulag um Reykjavíkurflugvöll sem samþykkt var af meirihluta borgarstjórnar í sumar notaði sem rök gegn athugasemdum vegna lokunar á flugbraut 06/24 skýrslu frá forstjóra Isavia frá 13. desember 2013. Efni: „Afleiðingar lokunar norðaustur suðvestur flugbrautar Reykjavíkurflugvallar fyrir sjúkraflug“. Forstjóri Isavia ætlar þessari skýrslu að vera útreikningur á nothæfisstuðli ímyndaðs lendingarstaðar sem samanstendur af Keflavíkurflugvelli í óbreyttri mynd og Reykjavíkurflugvelli með tveimur flugbrautum. Þá er reiknað miðað við hámarks leyfilegan hliðarvindsstuðul 25 hnútar í Keflavík allt árið og í Reykjavík 25 hnútar sjö mánuði ársins og 15 í fimm mánuði. Þetta verklag er skýrt brot á reglugerð um flugvelli nr. 464/2007. Samkvæmt reglugerð um flugvelli skal nota 10 og 13 hnúta hliðarvindsstuðul fyrir þá flugumferð sem flugvöllurinn þjónar.

      Í umsögn Samgöngustofu við umrætt deiliskipulag leggur bréfritari áherslu á að við gerð deiliskipulags sé farið eftir kröfum í reglugerð um flugvelli nr. 464/2007.

      Svar skipulagsfulltrúa var:
      Deiliskipulagstillagan er unnin í samvinnu Reykjavíkurborgar og Isavia. Farið verður að lögum og viðkomandi ákvæðum reglugerða við breytingar og þróun flugvallarstarfsemi sem nýtt deiliskipulag kallar á.

      Síðar vitnar skipulagsfulltrúi í falsskýrslu Isavia og notar hana sem helsta rökstuðning fyrir því að ásættanlegt sé að loka flugbraut 06/24.

      Í reglugerð um flugvelli nr. 464/2007 segir: „Fjöldi og stefna flugbrauta á flugvelli ætti að vera slíkur að notkunarstuðull flugvallarins sé ekki minni en 95% fyrir flugvélarnar sem flugvöllurinn þjónar.“

      Vitað er að engin tveggja brauta lausn í Vatnsmýri gerir það. Ég geri fyllilega ráð fyrir að hver svo sem niðurstaðan verður á staðsetningu miðstöðvar innanlandsflugs, þá uppfylli niðurstaðan kröfur í viðeigandi lögum og reglugerðum.

      Sá sorglegi atburður varð 1988 að mikið breytt rannsóknarflugvél af gerðinni Casa fórst við Reykjavíkurflugvöll. Í ljós kom að handvömm í viðhaldi var orsök slyssins. Á þeim röska aldarfjórðungi sem síðan er liðinn hafa kröfur um rekjanleika varahluta og viðhaldsferla aukist gríðarlega svo að líkur á samskonar handvömm hafa minnkað til muna. Bilanir í áætlunarfugvélum sem leiða til þess að flugvél hrapi eru gríðarlega fátíðar.

      Vitnað er í skýrslu nefndar sem þáverandi samgönguráðherra, Steingrímur J. Sigfússon skipaði undir forystu Álfheiðar Ingadóttur, titluð „Reykjavíkurflugvöllur – sambýli flugs og byggðar“. Á bls. 2 er eftirfarandi bókun: „Nefndarmenn komust að þeirri niðurstöðu að gerð áhættumats vegna Reykjavíkurflugvallar krefðist yfirgripsmeiri og sérhæfðari rannsókna en væru á færi nefndarinnar auk þess sem ekki liggur fyrir ákvörðun stjórnvalda um það hvað teljist ásættanleg áhætta af rekstri flugvallar í Vatnsmýri.“

      Engu að síður lagði nefndin fram 10 tillögur, og ein þeirra var: „Hætt verði notkun á NA/SV-braut (07-25) og henni lokað, sbr. kafla 5.2.“ Í umfjöllun skýrslunnar er hins vegar hvergi minnst á hvaða áhrif lokun brautarinnar hefði á nothæfisstuðul flugvallarins eða þá auknu slysahættu, sem myndi fylgja auknu flugi við efri mörk leyfilegs hliðarvindar. Hvorki samgönguráðherrar né ráðuneytið tók nokkurn tíma afstöðu til tillagna nefndarinnar, og umrædd skýrsla hennar var aldrei send Flugráði til umsagnar eins og hefð var fyrir. Þetta er því marklaust plagg.

      Viðhorf Álfheiðar má síðan sjá í grein sem hún birti í Fréttablaðinu 7. september 2013 undir fyrirsögninni „Tillaga um sátt í flugvallarmálinu“ þar sem hún telur ásættanlegt að reka Reykjavíkurflugvöll með einni A/V flugbraut, sem hún telur að muni standa undir 92% nothæfisstuðli, án þess að gera grein fyrir því hvernig hún kemst að þeirri niðurstöðu, en færa má rök fyrir að sá nothæfisstuðull sé verulega ofmetinn.

      Áhætta almennings á jörðu vegna flugs í kringum Reykjavíkurflugvöll var metin árið 1997. Niðurstöður þeirrar vinnu voru birtar í skýrslu titluð „Áhættumat fyrir Reykjavíkurfugvöll“ 25. ágúst 1997. Skýrslan var unnin af National Air Traffic Services Ltd. (NATS) í Bretlandi. Á bls. fjögur í skýrslunni segir: Út frá þessum kortum sést að:
      – Áhættan við Reykjavíkurflugvöll er innan þeirra marka sem miðað er við á öðrum sviðum þjóðlífsins.
      – Ekkert tilefni er til að rýma byggingar við flugvöllinn eða breyta nýtingu þeirra, en þess ber að geta að nokkur íbúðarhús í vesturbæ Kópavogs eru við mörk 2 * 10^-5 svæðisins.
      – Lítil áhætta er samfara notkun á NA/SV (07/25) flugbraut.

      Til að setja áhættumörk 2 * 10^-5 í samhengi, þá er skilgreind „Ásættanleg áhætta“ í reglugerð 505/2000 um hættumat vegna ofanflóða 50% hærri, eða 3 * 10^-5.

      Samkvæmt faglegri úttekt er því ljóst að allt tal um þá hættu sem af flugvellinum stafar er innantómur hræðsluáróður.

      Það er rétt að skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa haft að markmiði að loka Reykjavíkurflugvelli í áföngum, en því miður er ekki unnið að því faglega. Það hefur ekki verið reiknaður nothæfisstuðull fyrir Reykjavíkurflugvöll samkvæmt ICAO viðauka 14, sem innleiddur er í reglugerð um flugvelli nr. 464/2007, síðan árið 2000. Þá hefur ekki verið lokið áhættumati vegna fyrirhugaðrar lokunar á flugbraut 06/24, sem til stendur að loka um næstu áramót, en bráðabirgðaniðurstöður sýna að áhætta farþega og áhafna verði óásættanleg, þrátt fyrir opnun sambærilegrar flugbrautar í Keflavík.

      Í stuttu máli, þá hefur lokun NA/SV flugbrautarinnar engin áhrif á öryggi fyrir byggð í nágrenninu, en eykur hættu fyrir farþega, áhafnir og sjúklinga.

      Það er tímabært að borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata taki niðurstöður stjórnsýsluúttektar Reykjavíkurborgar til sín, skoði hvers vegna borgin fær falleinkunn á flestum sviðum og bæti síðan verklag sitt eins og kostur er.

    • Ég er auðvitað fyrst og fremst að rekja ákveðna sögulega þætti í þessu máli sem mér finnst mikilvægt að liggi fyrir og séu aðgengilegir fyrir þá sem vilja kynna sér málavexti. Það er þó rétt að taka fram að þetta eru allt saman hlutir sem hafa komið fram áður í þessari umræðu og má t.d. finna í svörum Reykjavíkurborgar við fjölmörgum athugasemdum við deiliskipulag Hlíðarenda.

      Í þessari umræðu er oft fullyrt að nýtingarhlutfall 2ja brauta flugvallar falli í 93,8% með lokun NA-SV brautar og verði þar með undir 95% viðmiðinu sem kveðið er á um í Reglugerð um flugvelli (nr. 646/2007). Oft er vísað til niðurstöðu einnar athugunar frá febrúar 2000, þar sem miðað er við 13 hnúta hliðarvind. Þar að auki er oft vísað til ýmissa annarra athugana á nothæfisstuðli, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum, þar sem stuðst er við mismunandi forsendur við útreikningana, m.a. um hliðarvind. Af einhverjum ástæðum er þó sjaldnast vísað til tveggja skýrslna frá 1997 (Veðurstofa Íslands-Sigurður Jónsson: Athugun á notagildi Reykjavíkurflugvallar. Með og án flugbrautar 0725) og 2000 (Línuhönnun: Mat á nothæfisstuðlum fyrir Reykjavíkurflugvöll) þar sem m.a. var reiknað nothæfi miðað við 13 hnúta hliðarvind. Niðurstöður þeirra skýrslna benda til þess að nothæfi flugvallarins geti fallið niður í kringum 95% með lokun NA-SV-brautar.

      Annars undirstrikar umræðan hér (ásamt öllum hinu fjölmörgu niðurstöðum undanfarinna ára um nothæfi Reykjavíkurflugvallar, með og án breytinga, og annarra staðarvalkosta á höfuðborgarsvæðinu) vel hversu útreikningar á nothæfi eru flóknir og háðir margvíslegum forsendum. Yfir 70 ára reynsla af flugi í Vatnsmýri hlýtur þó að hafa eitthvað að segja við mat á nothæfi flugvallar í Vatnsmýri. Við verðum að horfa á reynslutölur um nýtingu einstakra flugbrauta þar en ekki að einblína eingöngu á niðurstöður reiknilíkana.

      Að lokum vil ég taka fram að ég er efins um þessa skýrslu/jargon rökræðu sem oft vill eiga sér stað í tengslum við þennan Reykjavíkurflugvöll. Ég er auðvitað sekur um að hafa margoft tekið þátt í henni en að sama skapi tel ég að hún sé ekki að skila okkur miklum árangri eða sé gagnleg til að miðla málum. í mínum huga snýst þetta mál um ákveðnar hugsjónir og sjálfsmynd okkar sem borgarbúa í þessu strjálbýla landi. Það er hinsvegar efni í annan pistil sem vill svo heppilega til að ég hef þegar skrifað og má finna hér http://gudmkri.is/ut-fyrir-sviga.

      Enn og aftur takk fyrir góðar umræður

  • Árni Ólafsson

    Ég tel ekki augljóst að Vatnsmýrin sé besti kostur fyrir þróun Reykjavíkur. Ný áhersla á austur-vestur ásinn, samgönguás borgarinnar er hins vegar rökrétt og mun koma flestum íbúum borgarinnar vel í fyllingu tímans. Hér koma nokkrir uppsafnaðir punktar sem e.t.v. gætu ýft kambinn á einhverjum en mér finnast skipta máli:

    – Vatnsmýrin er botnlangi út úr sjálfsprottinni borg (austur-vesturásinn) – þvert á rökrétta og samfellda þróun.

    – Meginmarkmið ætti að vera að lagfæra núverandi borgarmynd og bæta það umhverfi sem þorri borgarbúa býr við nú. Uppbygging í Vatnsmýri stuðlar ekki að því. Lagfæring núverandi borgar á að koma á undan uppbyggingu í Vatnsmýrinni.

    – Uppbygging Vatnsmýrarinnar getur dregið úr áherslu á samgönguásinn og jafnvel stuðlað að viðhaldi bílaborgarinnar. Slík uppbygging skilar engum endurbótum fyrir önnur borgarhverfi.

    – Eftir 1940 hefur hvergi tekist í Reykjavík að byggja og þróa borgarumhverfi með þeim eiginleikum, sem talað er um að Vatnsmýrarbyggðin eigi að hafa. Mér finnst að árangur eigi að nást annars staðar áður en „tilraun“ verður gerð í Vatnsmýrinni.

    – Meiri akkur væri í því fyrir miðborgina að fá þétta íbúðarbyggð á svæði Landspítalans norðan Hringbrautar en felst í uppbyggingu Vatnsmýrarinnar. Það svæði er í beinum tengslum við miðborgina og yrði rökrétt framhald Þingholtanna, sem er eitt þéttasta íbúðarhverfi borgarinnar. Þetta er ekki mögulegt nema breyta áformum um byggingu spítalans – t.d. með því að byggja hagkvæm stórhýsi upp á Ártúnshöfða. Núverandi byggingar spítalans fengju nýtt hlutverk (atvinnustarfsemi, skrifstofur, hótel?)

    – Reykjavík hefur hlutverki að gegna sem höfuðborg og er þar af leiðandi miðpunktur innanlandssamgangna.

    – Ef miðstöð innanlandssamgangna flyst frá borginni finnst mér rökrétt að höfuðborgarhlutverkið færist með. Þar með öll stjórnsýsla ríkisins og helstu stofnanir – þar á meðal nýtt hátæknisjúkrahús.

    – Gleymum ekki því að Vatnsmýrin var óbyggilegt land fyrir tíma stórvirkra vinnuvéla. Þess vegna er rangt það sem klifað er á að flugvöllurinn hafi haft neikvæð áhrif á uppbyggingu Reykjavíkur.

    – Flugvöllurinn í Vatnsmýri hefur bjargað svæðinu frá því að verða bílaborginni að bráð. Að því leyti er hann blessun. Mér finnst ekkert liggja á þar sem engir aðrir ásættanlegir og raunhæfir kostir liggja fyrir. Flugvöllurinn getur því varðveitt svæðið áfram til næstu eða þarnæstu kynslóðar, sem e.t.v. nálgast málið af meiri yfirvegun og hagsýni en nútíminn.

    • Snorri gunnarsson

      Árni Ólafsson hittir naglann vel á höfuðið. Burtséð frá öllum flug- og flugrekstrarlegum rökum fyrir áframhaldi flugvallarins í Vatsmýrinni, þá eru ekki sterk skipulagslega rök fyrir byggð í Mýrinni amk næstu 100 árin eða svo. Árni rekur þetta vel.

      En menn telja sig hafa fundið aftur gull í Mýrinni, Vatnsmýrin virðist sígildur fundarstaður glópagulls.

  • Einar Karl Friðriksson

    Takk fyrir góða grein, Hilmar Þór. Kommentin mörg hver sýna hins vegar að það er voða erfitt að koma umræðunni á vitrænt plan.

    „Það er engin þörf fyrir þennan flugvöll lengur því innanlandsflugið er svo lítið notað“ segir fyrrverandi þingmaður, og fullyrðir að það sé álíka lengi verið að keyra til Keflavíkur og niður í Vatnsmýri, fyrir flesta íbúa höfuðborgarsvæðisins.

    Ég segi, það er engin þörf fyrir svona bull, sem afvegaleiðir umræðuna.

    • Gísli Tryggvason

      Vissulega þarf að koma umræðunni á vitrænt plan, Einar. En byrjum á notkun innanlandsflugs fyrir hinn venjulega Íslending, án þess að vera í vinnu. Sú notkun er einfaldlega lítil. Og kostnaðurinn skiptir þá meginmáli. T.d. kostar fyrir einstakling til Akureyrar tæpar 30 þús ISK, núna um helgina. Þannig að augljóslega myndi jafnvel einn einstaklingur keyra í staðinn. Hvað þá tveir. Þetta er bara veruleikinn.
      Ath. líka þetta með ferðatímann. Ímyndaðu þér að þú þurfir að fara frá Garðabæ í innanlandsflug kl 8 að morgni. Að Vatnsmýri eru margar umferðaflækjur jafnvel þótt leiðinn sé styttri í km en til Keflavíkur. Ég fór um daginn frá Kópavogi til Keflavíkur á þessum tíma og það tók um 30 mín, á tvíbreiðri akrein stórum hluta og í lítilli umferð. Jafnvel þótt kílómetrarnir séu um 40.
      Er það svo svakalegt ? Og hvað ef hægt er að byggja minni innanlandsflugvöll töluvert nær ? Amk er það mjög dýrt fyrir höfuðborgarsvæðið að nýta ekki Vatnsmýri meira fyrir fólk og atvinnustarfsemi.

    • Sigurður Ingi Jónsson

      Gísli Tryggvason, ef þú skoðar hverjir nota innanlandsflugið og hvers vegna, þá sérðu að þetta er ekki ferðamáti fjölskyldna í helgarferð til áfangastaða úti á landi. Upplýsingar um farþegamynstur liggur fyrir á nokkrum stöðum. Ef stytting ferðatíma sparar gistingu,þá lítur málið öðruvísi út og flugið verður hagkvæmasti kosturinn þegar upp er staðið. Sem dæmi, þá er helmingur farþega í dagsferð, sem væri ómögulegt með rútu eða strætó, jafnvel á einkabíl.

    • Gísli Tryggvason

      Sigurður Ingi, nú er það svo að ég hef talsvert notað innanlandsflugið vegna minnar vinnu. Bæði dagsferðir og lengri ferðir. Hef alveg séð hverjir eru að ferðast. Að borga 30 þús ISK fyrir flug yfir daginn er einfaldlega of mikið. Fólk er alla jafna ekki að skreppa útá land, svona yfir daginn. Nema vinnutengt. En jafnvel þótt það sé í vinnunni og ef það þarf að fara t.d. til Sauðárkróks eða jafnvel á Siglufjörð, þá keyrir það. Nánast flesta staði á landinu, nema Akureyri, Egilsstaði og Ísafjörð. Og sjáðu líka að með auknum vegabótum og styttingu vegleiða, t.d. til Akureyrar, verður innanlandsflugið sjálfkrafa óhagkvæmari kostur og þá líka fyrir dagsferðir.

    • Sigurður Ingi Jónsson

      Ég hvet fólk til að lesa skýrslu sem unnin var af Innanríkisráðuneytinu í tengslum við samgönguáætlun.

      Félagshagfræðileg greining á framtíð innanlandsflugs:
      http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28846

  • Árni Ólafsson

    Getur einhver frætt mig um það hvernig íþróttafélag, sem fékk afnot af landi í útjaðri Reykjavíkur til þess að sinna unglingastarfi, komst í þá stöðu að braska með landið og nýtingu þess til þess „að bjarga fjárhag félagsins“?
    Yfirleitt á að skila svona landi til samfélagsins þegar notkun þess, sem úthlutunin miðaðist við, er hætt. Einhverjir hafa verið í aðstöðu til að búa til „eign“ úr afnotaréttinum í þágu unglingastarfsins. Duglegir og útsjónarsamir menn – sem spilað hafa á embættismenn og pólitíkusa borgarinnar sem eru blindir á spillingu af þessu tagi.
    Nú setur það fornfræga íþróttafélag Valur miðstöð innanlandssamgangna í uppnám í gróðaskyni. Aðgerðin hefur ekkert með hlutverk félagsins að gera.
    Hvernig komst þetta mál svona langt? Er það vegna einbeitts brotavilja borgaryfirvalda til að þrengja flugvellinum í burtu? Erum við blind á þá spillingu sem hugsanlega liggur þarna á bak við?

    • Hilmar Þór

      Athyglisvert sjónarmið hjá Árna.

      Í framhaldinu hringdi í mig maður sem var að velta fyrir sér hvernig stæði á þvi að íþróttafélag sem hefði fengið land gefins og verið haldið að mestu uppi af borginni og almannafé gæti selt landið til fjáraflamanna án aðkomu borgarinnar sem svo hóta málsókn á hendur þeim sem gaf landið og eru að verja almannahagsmuni?

      Viðmælandi minn tekur undir ummæli manna sem segja að það sé góður siður að tala saman áður em hótað er málsókn eins og framkvæmdastjóri Valsmanna hefur nú gert.

      Kannski er þetta eitthvað „gönuhlaup“ hjá honum 🙂

    • Hilmar Þór

      Framámaður í Val hafði samband við mig og upplýsti að íþróttafélagið Valur hafi á sínum tíma sjálft keypt lögbýlið þar sem íþróttasrarfssemin hefur farið fram.

      Í ljósi umræðunnnar er rétt að þetta komi fram.

    • Árni Ólafsson

      Athugasemdin er fyrst og fremst sett fram sem spurning. Orðalag hennar afhjúpar grun um spillingu. Það er gott að fá skýrt svar og ég vona að íþróttafélagið Valur hafi hreinan skjöld í þessu máli eins og svarið bendir til.

  • Halldór Guðmundsson

    Þetta er ótrúleg umræða sem hefur verið um flugvöllinn í Reykjavík og miklar skotgrafir sem fólk er búið að koma sér fyrir í. Þetta stríð um staðsetningu flugvallarins er búið að standa yfir í áratugi og orðið til þess að enga heildræna lausn hefur verið hægt að finna. Flestar byggingar er lúta að rekstri flugstarfseminnar eru úr sér gengnar og ekki verið hægt að finna þeim nýjar staðsetningar og erfitt að fá að halda þeim við vegna skipulagsvandamála, á sama tíma eru flestir hrærðir yfir hinni miklu flugstarfsemi sem er hér á landi og stoltir af öllu því sem þar er að gerast, en grasrót þessarar starfsemi er að finna á Reykjavíkurflugvelli og alls ekki víst að þetta gróskumikla grasrótar- og flugrekstrarstarf væri hér í gangi nema vegna nálægðar flugvallarins við þéttbýlið.
    Bröltið með skipulagsmál á Reykjavíkurflugvelli hafa orðið til þess ekkert almennlegt skipulag er til fyrir flugvöllinn , sem hefur orðið til að byggingar detta niður á hina ýmsu staði eins og t.d. Háskóli Reykjavíkur sem er byggður á einum veðursælasta blett í borginni með hundruði bílastæða, eitt mesta skipulagsslys sem gerst hefur. Hef þá trú að ef flugvöllurinn færi og eftir stæði öll Vatnsmýrin til uppbyggingar þá myndum við klúðra þeirra uppbygging alvarlega. Sú fallega mynd sem að dregin er upp af framtíð Vatnsmýrarinnar myndi enda í svona málum eins og Háskólinn, að það dyttu niður allskyns byggingar allt eftir þörfum þeirra stjórnmálamann sem réðu í hvert skiptið og úr yrði ósamstæð byggð, ekkert í líkingu við það sem væntingar þeirra sem vilja flugvöllinn burtu.
    Flugvöllurinn á að getað þróast áfram í Vatnsmýrinni , það á að vera hægt að vinna þannig að málum að þessi mikilvæga starfsemi verði þarna áfram okkur öllum til góðs. Hann er mikilvægur fyrir Reykjavíkurborg, mikilvægur fyrir landsbyggðina hann er hagkvæmur kostur og það tal um að þetta sé besta leiðin til að þétta byggð er ég ekki sammála. Það eru ýmsir aðrir kostir.

    • Tvennt:
      Margir sjá ofsjónum yfir landflæminu sem er nýtt í bílastæði hjá HR.
      Sjálfur er ég engin talsmaður þess að öllum húsum eigi að fylgja ótæpilegt magn bílastæða. En ef horft er eitlítið í átt til himins hjá þessum bílastæðum, vekur athygli hæð (eða réttara sagt takmörkuð hæð) ljósastauranna, sem mega ekki vera hærri en kannski ca 3 m útaf aðflugslínu flugvallarins. Þarna sést greinilega að flugvöllurinn tekur ekki bara sína 140 ha, heldur hefur einnig áhrif á skipulagið langt útfyrir flugvallasvæðið.

      Og að lokum: þau rök að stjórnmálamenn hafi oft tekið vitlausar ákvarðanir og því sé best að breyta ekki neinu dæma sig sjálf.

  • Sigurður Ingi Jónsson

    Þegar rætt er um Reykjavíkurflugvöll þá er málflutningur andstæðinga hans alla jafna byggður á vanþekkingu, eða óskhyggju. Farþegafjöldi í innanlandsflugi á síðasta ári var svipaður og fyrir áratug. Farþegafjöldi toppaði 2007, eins og svo margt annað. Dróst saman til 2010, jókst 2011 og hefur dregist saman síðan í kjölfar mikillar hækkunnar á opinberum gjöldum. Tekið frá 1971 þá er meðalaukning farþega 3% á ári yfir tímabilið.
    Gæluheitið Neyðarbrautin kemur úr athugasemd í kafla um almennar takmarkanir á notkun þessarar brautar, sem eru sértækar fyrir þessa braut, en þar segir „Ath.: Frávik frá ofangreindri reglu eru aðeins leyfð í neyðartilvikum…“.
    Rögnunefndin fjallar ekki um einstaka flugbrautir heldur möguleg flugvallarstæði. Útgangspunktur er ætíð að endanleg lausn standist lög og reglugerðir. Reykjavíkurflugvöllur með tveimur flugbrautum uppfyllir ekki lágmarksviðmið reglugerðar um flugvelli sem kveður á um 95% nothæfisstuðul. Þetta er innleiðing á viðauka 14 frá Alþjóðaflugmálastofnuninni, ICAO.
    Ýmsar kannanir hafa sýnt fram á að um 4% farþega í innanlandsflugi eru á leið til eða frá útlöndum. Það er jafn stór hópur og ferðast á vegum Sjúkratrygginga í áætlunarflugi til læknisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.
    Flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur mun í raun ganga af því dauðu.
    Helmingur farþega í innanlandsflugi eru í dagsferð. Spara ferðatíma og gistikostnað.
    Það er ekki hægt að reka hálfan flugvöll. Málamyndanir sem byggja á slíkum hugmyndum eru einfaldlega ekki mögulegar.
    Það er verið að kanna hvort það er hægt að byggja annan flugvöll í nágrenni Reykjavíkur. Hann verður að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til nýrra flugvalla sem þjóna eiga þeim flokki flugvéla sem hann munu nota. Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru svo dýrar í rekstri að þær eru aldrei þandar að óþörfu.
    Árið 1999 var gert samkomulag um að flytja kennslu- og æfingaflug af Reykjavíkurflugvelli eins og kostur er. Í kjölfarið voru byggðar upp flugbrautir á Sandskeiði og Stóra-Kroppi með bundnu slitlagi. Þetta varð til þess að um helmingur kennslu- og æfingahreyfinga fluttist þangað, nærri 40 þúsund hreyfingar á ári. Það sem eftir er eru æfingar sem kalla á stjórnað loftrými, stjórnaðan flugvöll og blindflugsbúnað. Þessu verður ekki komið við annarsstaðar.
    Ríkið nýtur nærri 50% arðsemi af þeim fjármunum sem það leggur í innanlandsflugið vegna þess að það sparar gríðarlegar fjárhæðir á landsbyggðinni þar sem ekki þarf að veita ýmsa dýra þjónustu um allt land á meðan aðgengi að henni er eins góð og fæst með staðsetningu Reykjavíkurflugvallar.
    Endilega ræðum þessi mál sem mest, en gerum það á málefnalegum nótum.

  • Örn Johnson ´43

    Það er augljóst, Egill, að þú hefur ekki kynnt þér þetta mál, svo mikið ertu að misskilja þetta allt. „löngu búið að ákveða að yrði aflögð“, jú rétt hjá þér að aflagningarfólkið, án samráðs við aðra virtist geta ákveðið það einhliða. Já, brautin er neyðarbraut, allveg eins og öryggisbelti eru nauðvörn þótt þau séu ekki í notkun allan daginn. Spurðu sjúkraflugslækna um þýðingu þessarar brautar þá færðu rétt svar. „Innanlandsflug að veslast upp“ Einfaldlega rangt hjá þér. Dýrir farmiðar, já spurðu skattmann af hverju hann skattleggur farmiða svona hátt. „æ styttri flugbraut“. Einfaldlega rangt hjá þér, eða finndu sönnun þessa að jafn hagkvæmar flugvélar eins og Fokker 50 eru, séu til í veröldinni eða á teikniborðinu. „Ekki stórar þotur“, þá ertu að segja að völlurinn eigi ekki að þjóna sem varaflugvöllur. Þá ertu líka að segja að þotur Icelandair sem fluttu þig á slóðir Vesturfaranna, skulu nota Egilsstaði eða Glasgow sem varaflugvöll á heimleið og þar með henda út 17-50 farþegum til þess bera eldsneyti til að eiga möguleika til að komast á varaflugvellina. Ekki skynsamlegt sjónarmið hjá þér. Já, flytja allt kennsluflug úr landi, það ertu nákvæmlega að segja, eða hvar á það að vera? Hvar eiga allar flugvélarnar sem eiga nú flugskýli í Fluggörðum að vera. Svar óskast frá þér. „ekki flugvélar sem eru að fara til Færeyja eða Grænands“ á vellinum. Já, hér ertu sem sagt að segja að Fokker 50 megi ekki nota völlinn, en ég hef farið á slíkum flugvélum bæði til Grænlands, Færeyja og tvisvar til Skotlands. Mikil speki hjá þér eða hitt þó heldur. Auðvitað má færa flugbrautir út í Skerjafjörð, það má líka byggja hús úti í Skerjafirði og fyrir utan Selsvör. Hvort tveggja mun ódýrara en að byggja í Vatnsmýrinni, vonandi fattar þú það. Já, það er möguleiki til að byggja flugvöll í grend við Reykjavík. Helsti kosturinn þar er Bessastaðanesið. Reyndu að ræða það mál við þá sem hafa þar skipulagsvöld og hræddur er ég um að sú umræða fari ekki lengra.
    Málið er einfalt, vera þessa flugvallar, sem þekur um 1,5% af byggingarlandi Reykjavíkurborgar, hefur stuðlað að miklu hagkvæmari lífsafkomu í þessu landi en nokkurn órar fyrir.

    • „Já, það er möguleiki til að byggja flugvöll í grend við Reykjavík. Helsti kosturinn þar er Bessastaðanesið. Reyndu að ræða það mál við þá sem hafa þar skipulagsvöld og hræddur er ég um að sú umræða fari ekki lengra.“

      Af hverju er í lagi að það sé „einkamál“ Álftaness/Garðbæinga hvort þar sé flugvöllur eða ekki og ekki megi hrófla við skipulagsvaldi þeirra en það sama má ekki gilda um skipulagsvald Reykjavíkurborgar ?

      Ef Reykjavík byggir ekki í Vatnsmýrinni á næstu áratugum verður að skipuleggja byggð í útjöðrunum sem myndi ennþá auka á umferðarálag og auka ferðatíma á höfuðborgarsvæðinu.

      Það er ekki fyrirsjáanlegt að Álftanes og Garðabæ komi til með að skorta byggingarland á næstunni; það er, einsog allir vita sem fylgjast með fasteignamarkaði, nægt framboð af fasteignum í úthverfum og utan miðsvæðis, en barist um fasteignir nærri þéttum borgar og bæjarmiðjum.

      Ef taka á ákvörðun um staðsetningu flugvallar útfrá hagsmunum landsbyggðar og einnig heildarhagsmunum höfuðborgarsvæðissins, þá hlýtur Bessastaðarnesið að koma vel til greina (sérstaklega með brú yfir til Reykjavíkur)

  • „En flugvöllurinn á auðvitað ekki að fara fyrr en ásættanleg lausn er fundin og samgöngur höfuðborgarinnar í lofti er tryggð. Peningar til að byggja nýjan flugvöll þurfa líka að liggja á borðinu ef sú staða verður ofaná.“

    Þetta finnst mér vera grundvallaratriði. Fyrst þarf að finna ásættanlega lausn á samgöngum til höfuðborgarinnar og fjármagna þá lausn, svo er hægt að leggja flugvöllinn í Vatnsmýrinni niður.

    • Friðrik Friðriksson

      Margfalt „LÆK“

    • Örn Johnson´43

      Dagný, finn þér ekki augljóst að þeir sem fá að byggja blokkir á mýrarsvæðinu verði að borga fyrir nýjan flugvöll? Hver á annars að borga fyrir hann, ég vil það ekki? Taka eign af einum til þess að afhenda öðrum er hreinn kommúnismi.

    • Snýst ekki umræðan um verðmæti Vatnsmýrarsvæðissins um einmitt það; að einhver myndi vilja borga fyrir þetta byggingarland, fyrir þann pening yrði nýr flugvöllur reistur og það yrði samt afgangur (auk viðbótar hagnaðar fyrir þjóðfélagið á hverju ári) ?

      Ef þetta gengur upp peningalega, og það er hægt að finna annað flugvallastæði sem hefur ekki neikvæð áhrif á innanlandsflugið eða sjúkraflug (sem ég persónulega held að hljóti að vera hægt), þá hlýtur að mega leggja núverandi Reykjavíkurflugvöll niður með tíð og tíma.

      Ef þetta gengur ekki upp, þá fer völlurinn ekki.

      Er þetta nokkuð flóknara en það ?

    • Sveinn í Felli

      Tíminn sem er í boði til að íhuga flutning flugvallarins er ekki ótakmarkaður; hugsum okkur að það takist innan 20 ára að stytta þjóðveginn milli Rvík og Akureyrar um 60 km (eins og virðist raunhæft), þá er ferðatíminn orðinn ansi nálægt töfratölunni 3 klst. Sú tala (oft notuð í skipulagsumræðu) myndi þýða að innanlandsflugi milli AEY-REK væri sjálfhætt (sjáið bara stöðuna á Sauðárkróksfluginu), altént á því formi sem það er í dag.

      Nema að Blönduósingar verði áfram öflugustu varðmennirnir um flugvöll í Vatnsmýrinni…

    • „En flugvöllurinn á auðvitað ekki að fara fyrr en ásættanleg lausn er fundin og samgöngur höfuðborgarinnar í lofti er tryggð. Peningar til að byggja nýjan flugvöll þurfa líka að liggja á borðinu ef sú staða verður ofaná.“

      Hvað búa margir út á landi sem nota flugsamgøngur til að komast til høfuðborgarsvæðisins?

      Hvað búa margir íslendingar erlendis sem nota KEF vøllinn til að komast til høfuðborgarsvæðisins?

      Er ekki hér verið að mismuna fólki?

    • „En flugvøllurinn á auðvitað ekki að fara fyrr en ásættanleg lausn er fundin og samgøngur høfuðborgarinnar í lofti er tryggð. Peningar til að byggja nýjan flugvøll þurfa líka að liggja á borðinu ef sú staða verður ofaná.“

      Hvað búa margir út á landi sem nota flugsamgøngur til að komast til høfuðborgarsvæðisins?

      Hvað búa margir íslendingar erlendis sem nota KEF vøllinn til að komast til høfuðborgarsvæðisins?

      Er ekki hér verið að mismuna fólki?

  • Gunnar Jónsson

    Lýsandi dæmi um umræðuna er að nú hóta Valsmenn lögsókn og málaferlum „að sjálfsögðu“ (Stöð 2 í kvoldfréttum)

    Siðað fók hótar ekki neinum. Það leitar samninga og ef samningar nást ekki þá eru dómstólar fengnir til þess að skera úr um deilumálið.

    Þessi afstaða framkvæmdastjóra Valsmanna er dæmigerð framganga andstæðnga flugvallarins og í samræmi við tilvitnuð ummæli í Mogganum.

  • SV-NA brautin hefur þegar verið stytt all verulega. Það gerðist í tengslum við að landnýting á Valsaralandinu var ákveðin. Rögnunefndin er ekki að fjalla um SV-NA brautina, af því að það er löngu ákveðið að leggja hana niður og nýta sambærilega braut á Keflavíkurflugvelli í staðinn.
    Það er kosið með buddunni um tilvist Reykjavíkurflugvallar daglega og sú atkvæðagreiðsla er honum ekki hagstæð.
    Flugvöllur og land er ekki það sama og þótt ríkið eigi flugvöllinn þá á það ekki nema helming landsins undir honum.

  • Egill fer með orð að sönnu. Og að halda á lofti þessu Neyðarbrautar nafni, og varpa þar bakvið myndum af sjúkrabílum, manni býður við þessum áróðri.

    Fyrst hér er einblínt á Valsmenn og byggingu íbúða, þá er vert að geta þess að gjarnan gleymist hvernig þessi flugvöllur klífur í tvennt vísinda- og menntasamfélagið sem er að myndast í Vatnsmýri.

    Flugbrautirnar og vallarsvæðið eru eins og berlínarmúr milli tveggja stórra háskólasvæða sem fara stækkandi. Hvernig á HR, sem er að verða framsæknasti tækniskóli Norðurlanda, að byggja nauðsynlegar íbúðir til þess að geta klárað sinn campus, þegar V/A brautin er þarna alveg ofan í Öskjuhlíðinni?

    Það eru ekki bara Valsmenn sem vilja byggja þarna. Skólar eru að reyna að reisa þarna námsmannaíbúðir af illri nauðsyn og ömurlegri aðstöðu á leigumarkaði.

    Það væri ekki búandi þarna að öllu óbreyttu. Auk þess er ekki hægt að opna glugga í vesturenda byggingar HR í Nauthólsvík, þar sem staðsettar eru lesstofur og stórt bókasafn, útaf reglulegum þyrluæfingum landhelgisgæslunnar, þar sem þyrlan er þanin í 5 metra hæð að óþörfu oft á viku.

    Það er svo margt slæmt sem leiðir af þessum flugvelli, en fátt gott.

    • Ég má til með að blanda mér í ummæli GHH.

      Það er almennt álitið að staðsetning HR hafi verið stærstu skipulagsmistök sem gerð hafa verið á höfuðborgarsvæðinu. (Könnun gerð að mig minnnir af HÍ eða HR staðfestir þetta)

      Málflutningur GHH styður þetta vegna þess að vonandi veit hann eins og allir aðrir að flugvöllurinn var þarna þegar HR var byggður.

      Ergó: Þau atriði sem GHH telur upp eru sjálfskaparvíti HR og ekki flugvellinum að kenna!

      Páll Skúlason, þáverandi rektor HÍ, sagði einmitt þegar hann var spurður um staðsetningu HR og hvernig honum findist að hafa hann svona nálægt HÍ: „Ég hefði helst viljað hafa hann nær“ svaraði hann. Þ.e.a.s. vestan flugvallar það sem Þjóðarbókhlaðan og öll stoðkerfin eru.

    • Snorri Gunnarsson

      Ég vil þakka ritstjóra fyrir fræðandi síðu og vettvang fyrir málefnalega umræðu.

      Mestu skipulagsmistök í áraraðir var ákvörðunin um staðsetning HR. (Líklega þau mestu síðan staðsetning HÍ var ákveðin, HÍ ku vera fyrsta opinbera byggingin sem reist var utan Hringbrautar).

      Það geta vart verið rök fyrir brotthvarfi flugvallarins að bæta þurfi með einhverjum hætti fyrir HR klúðrið!

      En talandi um Vatnsmýrina, fyrir nokkrum árum kom Rem Koolhaas hingað og gaf borgarstjórn ráð varðandi skipulag svæðisins. Man einhver sem sækir þessa síðu hvaða sýn hann hafði á málið eða ráðlagði?

    • Ég er reyndar frekar á því að flugvöllurinn séu mestu skipulagsmistökin.

      Að byggja HR ofan HÍ tengist kannski frekar menntaumræðu um þörf tveggja háskóla, en báðir hafa skapað sér góða sérstöðu.

      Staðsetningin í Nauthólsvík eru ekki mistök, því í Vatnsmýri verður samkvæmt aðalskipulagi byggt fyrir íbúa, og mennta- og vísindasamfélag,sbr. nýbyggingar Alvogen, Íslenskrar Erfðagreiningar og HR.

      Örfáir notast við innanlandsflug sem er að leggjast af. En nemendur HR finna hins vegar fyrir óskýranlegum þyrluæfingum Landhelgisgæslunnar og lofttaki einkaþota við suðurenda flugvallarsins.

      Allt fyrir sport fárra manna.

    • Þorvaldur

      Sennilega er GHH tengdur HR og metur stöðuna útfrá sérhagsmunum sínum og skólans.

      Það sem blasir við er:

      a. Skólinn var byggður án tengsla veð stofnkerfi borgarinnar.

      b. Hann tengist ekki umferðakerfi borgarinnar. Hvorki almannaflutninga né ferðamáta einstaklinga.

      c. Hann er byggður á besta útivistarsvæði landsins. Svæði sem ekki er hægt að endurskapa.

      d. Borgin hafði um fjölda annarra lóða að velja á þessum tíma. (Svæði við HÍ, svæði við Kirkjusand. Svæði inn við Skeyfu/Mörk, Svæði út á Granda svo fátt eitt sé talið af lóðum sem henta betur en það sem varð fyrir valinu.

      e. Hann er útkjálkastofnun sem ekki nýtur þjónustu borgarinnar og borgin nýtur ekki skólans.

      f.g.h.i.j.. og fl. og fl.

      Það getur verið að í tímans rás þróist borgin þannig að þetta verði góður staður. En landið verður aldrei það góða útivistarsvæði sem hún var og sama hvað hver segir þá var þetta auðvitað mistök á sínum tíma hvot sem menn vilja sjá það eða loka augunum.

      Þorkell Sigurlaugsson kom með ágæt rök fyrir staðsetningu skólans. En þau voru öll metin útfrá hagsmunum skólans en ekki heildarinnar og höfuðborgarsvæðisins eða nemanna.

      Kondu nú með gild rök fyrir staðsetningunni þegar hún var tekin á sínum tíma GHH! Og hugsaðu út fyrir skólalóðina.

  • Þór Saari

    „Ég fyrir minn hlut sé gjarna að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni sem fyrst ef ekki er þörf fyrir hann.“
    Þar liggur hundurinn grafinn. Það er engin þörf fyrir þennan flugvöll lengur því innanlandsflugið er svo lítið notað. Innanlandsflugið var barn síns tíma og ef það á að bjarga því litla sem eftir er af því verður það ekki gert öðruvísi en að spyrða það saman með millilandafluginu í Kefló. Ný flugstöð fyrir innanlandsflug þar sem sú gamla á Keflavíkurflugvelli var gerir það að verkum að innanlandsflugið yrði í um hálftíma akstursfjarlægð frá stærstum hluta höfuðborgarsvæðisins sem er ekki ósvipað því og staðan er nú.

  • Egill Helgason

    Flugbraut sem löngu var búið að ákveða að yrði aflögð, fór allt í einu að heita Neyðarbraut – einungis í áróðursskyni.

    Við horfum upp á það hvernig innanlandsflugið er að veslast upp á sama tíma og ferðamönnum fjölgar stöðugt.

    Verðið á farmiðum er hryllilega dýrt.

    Það er eitthvað í ólagi þarna, en flugvallarvinir þola engar málamiðlanir.

    Ég sé fyrir mér minnkaðan Reykjavíkurflugvöll þar sem lenda innanlandsvélar sem þurfa æ styttri flugbrautir. Ekki þotur, ekki einkaþotur og ekki flugvélar sem eru að fara á milli Íslands, Færeyja og Grænlands.

    Að einhver hluti innanlandsflugsins færist til Keflavíkur og þannig myndist tenging milli alþjóðaflugs og innanlandsflugs. Það held ég að sé óhjákvæmilegt ef innanlandsflugið á ekki endanlega að deyja út.

    Það er líka möguleiki að leggja flugvöll í grennd Reykjavíkur. Hann þarf ekki að vera næstum því jafn stór og Reykjavíkurflugvöllur, enda myndi þar einungis vera innanlandsflug.

  • Gísli Tryggvason

    Já ég verð að taka undir með Jónasi hér að ofan. Síðan hvenær hefur Reykjavíkurflugvöllur verið nefndur Vatnsmýrarflugvöllur ? Og er það einmitt ekki dæmi um málflutning sem einmitt ekki er lausnarmiðaður ?
    Að öðu leyti er grein þín ágæt Hilmar. En sjáðu samt suma hluti varðandi notkun, hvers vegna þarf millilandaflug að vera þarna? Og einnig einkaflug og kennsluflug. Mætti það gjarnan ekki vera annarsstaðar. Þá er aðeins eftir innanlandsflug og sjúkraflug. Nokkuð augljóst er að notkunin á þessum flugvelli er lítil og fer minnkandi ef innanlandsflug dregst saman. Og þá er spurning hvort réttlætanlegt sé að verja þessu dýra og eftirsótta landi undir starfsemi sem er harla lítil. Og hægt að leysa með öðrum hætti.
    Nú bý ég í nánd við flugvöllinn og fyrir mitt leyti get ég sagt það að innanlandsflugið er ekki truflandi. Það sem truflar og er óþolandi að hafa þarna eru mjög hávaðasamar einkaþotur. Og jafnvel ferjuflugvélar. Eitthvað sem augljóslega ætti að vera annarsstaðar. Vandamálið er bara, að meðan flugvöllurinn er staðsettur þarna, verður slíkt flug alltaf leyft. Svona þvert ofaní vilja þeirra sem búa í grenndinni.

    • Hilmar Þór

      Það er kannski klaufalegt að fara að kalla flugvöllinn allt í einu Vatnsmýrarflugvöll. En ástæðan er sú að ég heyrði flugvöllinn kallaðan þetta fyrir stuttu.

      Þannnig var að flugvöllur var lagður í Vatnsmýri árið 1919 og árið 1937 var hannaður flugvöllur í Vatnsmýri á vegum bæjarins en alddrei lagður á hans kostnað.

      Síðan komu bretarnir og byggðu flugvöll í Vatnsmýrinni. Að stríðslokum gáfu bretar íslenska ríkinu flugvöllinn sem hefur verið í fullum rekstri allar götur síðan. Og takið eftir Reykjavíkurborg var ekki gefinn flugvöllurinn heldur ríkinu, allri þjóðinni.

      Þetta var langstærsta gjöf sem þjóðin hefur fengið.

      Nú er það svo að aðeins um helmingur íbúa höfuðborgarsvæðisins býr í Reykjavík. Um 100 þúsund búa í nágrannasveitarfélögunum. Þriðjungur þjóðarinnar býr á landsbggðinni. Aðeins þriðjungur eigendanna býr í Reykjavík. Af hverfju þá að kenna flugvöllinn við Reykjavík?

      Í umræðunni er alltaf talað eins og reykvíkingar eigi flugvöllinn einir.

      Kannski hefur nafnið eitthvað með það að gera.

      Hver veit?

      En þetta er ekki stórmál.

    • Gísli Tryggvason

      Enn og aftur, sömu rökin. „Langstærsta gjöf sem þjóðin hefur fengið“. Sem sagt frá Bretum árið 1945. Þess ber þá að geta líka að Reykjavík mótmælti ætíð því að landið var tekið eignarnámi í stríðinu og að herflugvöllur nánast settur ofaní byggðina. Þannig gjöfin var sama sem engin, á endanum. En þar sem þú minnist á Reykjavíkurbúa, þá snýr þessi flugvöllur ekkert bara að þeim. Hann snýr mikið að íbúum Kópavogs sem þurfa að þola aðflug háværra einkaþotna og annarra véla. Enda ályktaði bæjarstjórn Kópavogs einmitt um það árið 1962 að völlurinn skyldi víkja. Í það minnsta stórminnka umferð þannig að aðeins sé um að ræða innanlandsflug.
      En Hilmar hvað með stóru orðin „Neyðarbraut“? Og ef hún er svona mikil neyðarbraut, er þá ekki rétt að sú flugbraut verði opnuð aftur í Keflavík ? Og þar með er hægt að sinna „neyðarlendingum“ í hvassri SV-átt.

    • Hilmar Þór

      Tryggvi Gíslason.

      Þetta átti nú ekki að vera nein rök hjá mér „enn og aftur“. Hvorki með né á móti flugvellinum.

      Heldur átti þetta að vera andsvar mitt til ykkar Jónasar. Þetta átti bara að vera skýring á því af hverju ég valdi að nota nafnið „Vatnsmýrarflugvöllur“ um fyrirbærið. Það eru sennilega mistök mín. En þau vega svo lítið að ég tel ekki ástæða til þess að lagfæra

      Megininntak pistilsins er málflutningurinn. Það kann að vera að flugvallarsinnar séu lítið betri en andstæðingar fluvallarins hvað málflutninginn varðar en mér finnst málflutningur andstæðinga „holóttur, grunnur og mjór“

      Ég bendi á framgöngu Valsmana í því sambandi og er sammála Gunnari hér að neðan.

      Siðaðir menn hafa ekki í hótunum, þeir tala saman.

    • Gísli Tryggvason

      Óþarfi að vera með þennan pirring Hilmar. Jú, þú virðist benda á rök þeirra sem fylgjandi eru flugvellinum. Ekkert að því. Við hinir þurfum hinsvegar ekkert að vera sammála þeim rökum. Flugvallarvinir slá um sig frösum án þess að skýra þá frekar. Það segir í raun ekkert. En ég er alveg sammála þér um viðbrögð Valsmanna, með meinta hótun um málsókn.
      Endilega ræða málið á málefnalegum nótum.

  • Jónas Gunnarsson

    Vatnsmýrarflugvöll????

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn