Miðvikudagur 21.10.2009 - 12:19 - 14 ummæli

Umræður um arkitektúr

 

Nú er ég búinn að skrifa 3 færslur á viku hér á vefinn um arkitektúr, skipulag og staðarprýði í einn mánuð.

Hugmyndin var að gera tilraun í 2-3 mánuði og athuga viðbrögð og áhuga. Ef áhugi minn eða lesendanna er undir væntingum hætti ég, annars má búast við að þetta haldi eitthvað áfram. 

Netheimar eru sérlega vel fallnir til skoðanaskipta vegna þess að ef mönnum líkar ekki málflutningurinn eða ef farið er rangt með,  þá gefst tækifæri til þess að andmæla strax. 

Sama máli gegnir, ef fólki líkar málflutningurinn. Þá er hægt að styðja hann umsvifalaust að lestri loknum og bæta við sjónmarmiðum málinu til stuðnings.

Þetta gefur tækifæri til þess að vera skeleggari en ef um væri að ræða greinarskrif í blöð.

Netið er nánast eins og þjóðfundur hvað þetta varðar, þar sem allir hafa málfrelsi og tillögurétt. Skoðanaskipti á internetinu eru skjótvirk og gagnvirk með svörum og andsvörum.

Þetta er styrkur netsins umfram aðra fjölmiðla. 

Ástæðan fyrir fjölda nafnlausra bloggara og umræðan um þá að undanförnu eiga sér skýringar. 

En, eins og allir vita þá eru margir stjórnendur og þeir sem valdið hafa ekki nægjanlega þroskaðir til þess að skilja venjulega akademiska umræðu. Þeim er ofviða að skilja á milli persónunnar og sjónarmiðsins sem sett er fram. Því geta  sjónarmið stundum bitnað á þeim sem koma fram með þau og jafnvel á starfsframa þeirra ef svo ber undir eins og dæmin sanna.

Því hefur veri haldið fram að þetta hafi valdið „skelfilegri þöggun og þrælsótta heilla stétta, m.a. arkitekta, verkfræðinga og skipulagsfræðinga á umhverfismál, borgarskipulag, borgarmenningu, lífsstíl og þróun byggðar á höfuðborgarsvæðinu“.

Þeir tímar eru vonandi að ganga í garð þar sem frami fólks byggist á athöfnum þeirra og skoðunum. Tími skoðanalausra og þýðlyndra í klíkusamfélagi Íslands er vonandi á undanhaldi.

Í nýlegu viðtali við Júlíus Vifil Ingvarsson formanns skipulagsráðs Reykjavíkur kom fram að hann fagnaði vaxandi áhuga á skipulagsmálum og þeim athugasemdum sem koma frá borgurunum. Þessi ummæli hafði hann í tengslum við umræðuna um breytingar við Ingólfstorg.

Maður getur skilið þessi ummæli Júlíusar svo að hann líti á þá sem gera athugasemdir sem samstarfsmenn sína, ekki andstæðinga. Þetta er nýtt viðhorf og því ber að fagna. Undanfarin mörg ár hefur maður haft á tilfinningunni að borgin hafi stillt þeim upp sem gera athugasemdir sem andstæðingum sínum. Nú sýnist mér breyting sé að verða á þessu.

Umræða um byggingarlist ættu að vera jafn auðveld og þegar verið er að ræða vín.  Það eru nokkur grundvallaratriði vínsins sem þarf að skilgreina og verða að vera í lagi, ilmur, litur og m.fl. Annað er ekki eins mikilvægt.

Þegar dreypt er á víninu þarf hver að dæma fyrir sig og þar hafa allir rétt fyrir sér, hver fyrir sinn smekk. Sumum finnst vínið gott og öðrum finnst það mjög gott og það er þeirra prívat mál.

Svipað á við um byggingalist. Þar eru nokkur grundvallaratriði sem verða að vera í lagi og önnur eru ekki eins mikilvæg. Hver les svo auðvitað að lokum byggingarlistina á sinn hátt.

Teikningin sem hér fylgir er eftir Le Courbusier og sýnir MODULOR.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Örnólfur Hall

    Af STJÖRNU-skreyttum listamönnum og arkitektum – og enn af TR-húsi

    STJÖRNU-listamaðurinn hefur eflaust gert ýmsa góða hluti en við sumt setur undirritaður stórt spurningarmerki eins og yfirþyrmandi margbrotna, “paljéttu”- líka glerkápan á kassalaga og þunglamalegu TR- húsinu við Austurhöfn.
    – Bygging sem er, að mati undirritaðs, án áhugaverðra eða spennandi forma,

    Sumir segja að það vanti anda Reykjavíkur í þessa byggingu og hún virki framandi og kallist ekki á við umhverfið. Undirritaður er í þeirra hópi.
    Það verður óvinnandi vegur að halda þessari glerkápu hreinni og speglandi eins og forsvarandi dönsku STJÖRNU-HLT-arkitektanna leggur mikla áherzlu á. Sjávar-saltstorkan ásamt fíngerða rykinu mun klístrast á og í mýmargar kverkar, brot og glerfleti og mynda viðvarandi grámyglulega ásýnd.
    Tveir burðarþolssérfræðingar hafa sagt við undirritaðan að þeir óttist mjög að burðargrindin og rammar fyrir glerkápuna séu of veikburða til að standast þá ógnarkrafta sem geta orðið þarna á stað mesta veðravítis Höfuðborgarsvæðisins.

    PS Upp úr aldamótunum var hafist handa við að leggja drög að TR-húsinu við Austurhöfn. Þá voru skráðir í A.Í. u. þ. b. 330 félagar (þeir eru nú 418). Í þeim hópi voru og eru frábærir arkitektar (án stjörnuskrauts).- Arkitektar sem hefðu getað hannað áhugaverða formfagra spennandi íslenzka tónlistarhöll.Tónlistarhöll sem hefði höfðað til anda Reykjavíkur og kallast á við umhverfi (umgjörð) hennar (í þrengri og víðari skilningi) og verið landi og þjóð til sóma.

    Upp úr miðri síðustu öld voru kommaríkin Austur-Þýzkaland og Tékkó-slóvakía að gortast (monthanast) með formdauf þunglamaleg kaupstefnuhús (Kaufmessehallen) klæddum uppbrotnum glerhjúpum. – Undirritaður vill og má ekki hugsa til þeirra í þessu sambandi.
    Örnólfur Hall arkitekt

  • Sæll Hilmar!
    Takk fyrir að benda mér á bloggið þitt. Mjög áhugavert – ekki síst fyrir okkur sem stöndum í framkvæmdum 🙂
    Auðvitað heldur þú áfram, ekki spurning!

  • Halldóra

    Þetta er þörf og góð umræða hjá þér og svo er hún einnig uppbyggileg og það er nú ekki sjálfgefið. Áfram Hilmar!!!

  • Les þig reglulega þó ég hafi ekki alltaf þörf fyrir að tjá mig. Endilega haltu áfram, skemmtilegir pistlar og áhugaverðir!

  • Andrés Jakob Guðjónsson

    Mjög fróðlegt blog og skemmtilegt verður að fylgjast með hvað hér kemur fram. Og taka þátt í umræðum auðvitað líka.

    Að líkja vín við bygginarlist á vel við!
    Ég komst að því eftir margar pælingar og ábendingar frá hinum og þessum, að í raun eru það manns eigin bragðlaukar sem ákveða hvaða vín sé sæmilega gott eða mjög gott. Og en framleiðendur/vínbændur þurfa að upplýsa, vekja áhuga og skapa umræðu svo nafn vínsins gleymist ekki og innihald verði mikils virði.

  • Björn H. Jóhannesson

    Það er fullt af mjög hæfum arkitektum á Íslandi. Ríki og sveitarfélög, sem eiga að gæta hag borgaranna, útdeila arkitektaverkefnum oft í leyni og sem heftir framþróunina. Skýringar á valinu eru einnig oft huldar og ógegnsætt hvað styrkir stöðu eins á kostnað annars jafn eða meira verðskuldaðs. Jafnvel arkitektaforvalsfyrirkomulagið er meinlegum annmörkum háð. Upp á borðið með verkefnin , stór og smá, gegnsæinu margrómaða og jafnstöðunni í vil. Ekki er jafnaðarmerki milli farsællar lausnar verkefnis og mannaflafjölda.
    Mozart samdi heila óperu með einum penna og Laxnes Íslandsklukkuna og Gunnlaugur Halldórsson arkitekt teiknaði Reykjarlund með einum blýanti. Hafi Hilmar þökk fyrir tímabæra grein.

  • Haltu áfram Hilmar!

  • Steinarr Kr.

    Þetta er frábært blogg haltu því endilega áfram.

  • Kristján Hrannar

    Þetta blogg les ég reglulega og hef sýnt vinum og vandamönnum sem eru nú einnig farin að lesa þessa stórgóðu síðu þína. Endilega haltu þessu áfram.

  • Árni Ólafsson

    Haltu áfram Hilmar. Þeir sem bregðast við og svara verða að vera málefnalegir eins og lang flestir hafa verið fram að þessu.

  • Þorsteinn

    Takk fyrir skemmtilegt blogg um áhugavert málefni. Les þessa pistla reglulega og hef gaman af. Það veitir ekki af þessari umræðu um arkitektúr og skipulag. Sérstaklega nú þegar við höfum kannski smá tíma til að hugsa um hlutina áður en þeir verða framkvæmdir.

  • Ég er hjartanlega sammála þeim tveim hér að ofan um að þetta blogg sé frábært og sannarlega kominn tími til. Sjálf er ég ekki arkitekt en sem almennur borgari hef ég heilmiklar skoðanir á hvernig ég vil að borgin okkar líti út. Mér hefur fundist íslenskur arkitektúr á algjörum villigötum og tel tímabært að þessi grein fari í alvarlega nafnlaskoðun.
    Þakka svo bara kærlega fyrir framtakið með þessu bloggi og vona að síðan lifi sem lengst.

  • Pétur Magnason

    Ég vil að þú haldir skrifum þínum áfram. Þau eru víðtæk í þeim skilningi að þau taka mið af verkum sem eru manni daglega nálæg hérna á Íslandi og einnig fjarlæg. Þetta skapar umræðu og umhugsun sem að er aðgengileg fyrir alla sama hvort það séu starfandi arkitektar, nemar eða einfaldlega þeir sem hafa skoðun. Margir þeir sem lesa þetta taka ekki beinan þátt í umræðunni hérna á síðunni en engu að síður taka passívt þátt með því að fylgjast með. Með von um að þú haldir áfram og að umræðan haldist málefnaleg.

  • Jóhann Hlíðar

    Mig langar bara til að láta þig vita af því að þetta er besta og ferskasta blogg sem fram hefur komið lengi. Þú fjallar um mál og málefni sem afar margir hafa áhuga á en fáir hirða um að skrifa um. Ég tékka á nýjum pistlum daglega og hef sýnt ófáum pistla þína. Það yrði mikill missir að þessu bloggi.
    Kveðja,
    Jóhann Hlíðar

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn