Sunnudagur 29.04.2012 - 20:02 - 8 ummæli

Umræður um Landspítala

Uppbygging Landspítalans við Hringbraut er mikilvægasta bygginga- og skipulagsmál sem fjallað er um nú um stundir hér á landi.  Miklar umræður eiga sér stað um verkefnið og  sitt sýnist hverjum.

Aðstandendur spítalans hafa haldið uppi upplýsandi vef sem heitir „Nýr landspítali“ . Þar má kynnast verkefninu frá bæjardyrum verkefnisstjórnar. 

Slóð:  http//nyrlandspitali.is

Aðilar sem eru ekki sannfærðir um verklag og staðsetningu spítalans hafa opnað vef  sem heitir „Hin hliðin“.  Þar er fjallað  um framkvæmdina frá þeirra sjónarhóli.

Slóð : http//nyrlandspitali.com

Á þessum tveim síðum er mikið efni þar sem hægt er að sækja fróðleik og sjónarmið sem styðja framkvæmdina annarsvegar og hinsvegar  sjónarmið þeirra sem telja hana óráð.

Í von um upplýsandi og málefnalega umræðu  er vakin athygli á þessum vefsíðum.  Aðalatriðið er að umræðan um þessa nauðsynlegu framkvæmd sé opin og lausnamiðuð.

Hér til hliðar undir yfirskriftinni “Landspítali” er hægt að nálgast slóðirnar tvær með því að smella á „Nýr Landspítali“  eða hinsvegar á „Hin hliðin“.

Þarna er einnig þriðji kosturinn; „Umræða“,  sem opnar áhugasömum möguleika á að tjá sig eða fylgjast með umræðunni. 

Þessi færsla er  formáli  umræðunnar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Hans-Olav

    Hilmar, -varstu búin að sjá þetta?

    Pris til St. Olavs hospital

    Juryens hovedbegrunnelse for tildelingen er at man har klart å lokalisere sykehus og utdanning sentralt i byen, og at man har lykkes i å utnytte lokaliseringen på en innovativ måte.

    – Det har vært en lang reise etter at planleggingen og diskusjonene startet i 1989. Nå har vi fått et av Europas mest moderne sykehus. Vi har også skapt en ny bydel, sa administrerende direktør Nils Kvernmo til Adresseavisen.

    http://www.arkitektnytt.no/pris-til-st-olavs-hospital

  • Með hverjum deginum eykst andstaðan gegn þeim áformum að byggja báknið á Landspítalalóðinni við Hringbraut. Ástæðulaust er að tíunda rökin gegn þessum hugmyndum; þau koma skilmerkilega fram hér að ofan en nýjasta innleggið kemur frá háskólaprófessor sem telur byggingarkostnaðinn og annað honum samfara fara nær 140 milljörðum en þeim 40 milljörðum sem áætlanir gera ráð fyrir.
    Margir arkitektar hafa lagst gegn hugmyndinni einkum út frá staðarvali og byggingarmagni. Enginn þeirra hefur fylgt eftir afstöðu sinni með afgerandi hætti sem felst m.a. í því að gera úttekt á lóðinni við Landspítala í Fossvogi og síðan móta og koma á framfæri frumdrögum að viðbyggingu við þann spítala: umfang, hversu margar hæðir, hugsanlegan kostnað o.s.frv.
    Það er til lítils að vera á móti; tala sig hásan án þess að koma fram með annan vinkil inn í umræðuna því ekki er um það deilt að huga þarf að uppbyggingu við Landspítalann í nánustu framtíð bæði hvað varðar nýbyggingar og tækjabúnað.
    Þess vegna væri hver sá arkitekt sem legði fram hugmyndir að frekari uppbyggingu spítalans í Fossvogi með frumdrögum að nýbyggingu og áætluðum kostnaði vera metinn sem hinn þarfast maður.

  • Leyfi mér að birta grein eftir Sighvatur Björgvinsson, fv. ráðherra á Vísi.is:

    Umræðan um risabyggingu nýs spítala í miðbæ Reykjavíkur er hafin. Halldór Laxness orðaði umræðuhefð Íslendinga á þá leið, að þeir deildu helst um tittlingaskít og aukaatriði en setti gjarna hljóða þegar komið væri að kjarna máls. Og hver er kjarni málsins? Er það aðkoman, bílastæðin, steinsteypumagnið, hæð bygginga, niðurgrafna kjallararýmið, fækkun starfsstöðva, ávöxtunarvandi lífeyrissjóða, þarfir byggingariðnaðar, arkitektúr, grennndarsjónarmið, útsýni – eða að láta skuldsetta þjóð kosta sína dýrustu framkvæmd með 100% lánum eins og komið hafa þúsundum heimila sömu þjóðar í þrot? Ekkert af þessu er kjarni málsins – þó mikilvægt sé. Kjarninn er í fyrsta lagi: Hvað er ætlunin að byggja? Í öðru lagi: Hver er áætlaður kostnaður við framkvæmdina; fjárfesting, mönnun, búnaður OG REKSTUR? Í þriðja lagi: Hvaða áhrif á aðra heilbrigðisþjónustu munu áformaðar framkvæmdir hafa?

    Hvað á að byggja?
    1. Hvað á að byggja? Í 1.mgr. 20. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, sem sett voru á bóluárið 2007 segir: „Landspítali er aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús“. HÁSKÓLASJÚKRAHÚS? Slíkt heiti höfum við ekki áður séð í landslögum. Er ætlunin að byggja slíkt sjúkrahús? Er vinsamlega hægt að fá svar við því?

    2. Hvað er háskólasjúkrahús? Samkvæmt sömu lögum á slíkt sjúkrahús að vera: „Sjúkrahús, sem veitir þjónustu í nær öllum viðurkenndum sérgreinum í læknisfræði og hjúkrunarfræði með áherslu á rannsóknir, þróun og kennslu.“ Slíkt sjúkrahús höfum við ekki á Íslandi. Er ráðgert að byggja utan um slíka stofnun? Er vinsamlegast hægt að fá svar við því?

    3. Í sömu ákvæðum sömu laga er sagt, að þetta háskólasjúkrahús eigi jafnframt „að veita háskólamenntuðum starfsmönnum sérmenntun í heilbrigðisgeirum.“ Við höfum þurft að sækja langa og dýra sérmenntun í flestum sérgreinum heilbrigðisþjónustu til útlanda. Samkvæmt tilvitnuðum lögum á að sjá fyrir þeim þörfum hér innanlands. Eru það umbúðir utan um slíka starfsemi, sem á að reisa? Er vinsamlegast hægt að fá svar við því?

    Hverju þarf til að kosta?
    Fáist svörin og séu þau í anda laganna þá vakna að sjálfsögðu spurningar í framhaldi af því – spurningar, sem eðlilegt er að fá svör við. Áætlanir um sjálfan byggingakostnaðinn liggja fyrir og hafa verið birtar. Ég hef enga þekkingu til að gagnrýna þær. Tek þær sem trúverðugar. En hvað um kostnaðinn við að koma á fót stofnun eins og þeirri, sem landslögin ákveða?

    1. Núverandi tækjabúnaður Lsp er sagður vera úreltur og að hruni kominn. Mestallan þann búnað þarf því að endurnýja auk þess sem kaupa þarf mikið af dýrum viðbótarbúnaði eigi sjúkrahús, sem veita á þjónustu í nær öllum sérgreinum í læknisfræði, að standa undir nafni. Hafa verið gerðar áætlanir um þann búnað? Hver er kostnaðurinn? Á líka að taka 100% lán til þeirra? Varla er ætlunin að láta alla steinsteypuna standa tóma.

    2. Mikil fækkun hefur orðið í starfsliði Lsp vegna skorts á fjármunum til þess að borga laun. Með risi stofnunar, sem á að sinna þjónustu í nær öllum sérgreinum læknisfræði og hjúkrunarfræði auk framhaldsmenntunar sérfræðinga í þessum greinum verður að fjölga mjög starfsliði. Hvaða áætlanir liggja fyrir um mannaflaþörf og hvað mun það kosta? Varla á steinsteypan að standa bæði tóm og mannlaus. Á kannski líka að taka 100% lán fyrir því?

    3. Sú þumalfingursregla er sögð gilda, að á bak við stofnun af því tagi sem lögin frá 2007 mæla fyrir um þurfi eina milljón manns. Nú eru á Íslandi aðeins búandi um 1/3 hluti þess mannafla. Á þá að koma tilætluðu innihaldi í steinkistuna í áföngum meðan beðið er eftir að þjóðin fjölgi sér þrefalt?

    Hver verða áhrifin?
    Hvað sem því líður þá er morgun-ljóst, að vegna umfangsins mun stofnunin frá upphafi þurfa á öllum sjúklingum að halda, sem þarfnast aðgerðameðferðar á sjúkrahúsi. Hvað er þá ætlunin að gert verði við sjúkrahúsin á Selfossi, á Akranesi, í Stykkishólmi, á Ísafirði, á Sauðárkróki, á Blönduósi, á Akureyri, á Húsavík og í Neskaupstað? Er þeim öllum saman ætlað að enda eins og Jósefsspítalinn í Hafnarfirði? Í auðn og tómi? Slíkt hlýtur að vera óhjákvæmilegt – ella er ekkert vit í áætlunargerðinni. Einhver áform þessu viðvíkjandi hljóta að vera til í viðkomandi ráðuneyti. Í anda slíkra áforma hljóta menn að vera að starfa. Þarf ekki að segja frá því áður en öll steinsteypan hefur verið keypt því eftir það er engu hægt að breyta?

    Þessar spurningar eru kjarni málsins að mínu viti. Ýmis önnur atriði eru mikilvæg – en þetta er kjarninn. Má biðja þess að um hann sé líka rætt – eða setur menn áfram hljóða?

  • Guðl. Gauti Jónsson

    Ég hef nú þegar brugðist við ábendingum sem koma fram hjá Magnúsi Péturssyn #1 hér að ofan. Upplýsingar um vefinn eru undir HEIM í vefstikunni.

    Sundurliðun væntanlegra stærða nýja Landspítalans sem kemur fram í greininni sem Einar #4 nefnir (http://nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/islenska/fjolmidlatorg/frettir/?cat_id=43924&ew_0_a_id=388835) er sú nýjasta sem ég hef séð og skýrir töluna sem nefnd var í bókun Sjálfstæðisflokksins í skipulagsráði (289 þús m2). Ég hef reiknað með að það sem á vantar séu byggingarhlutar sem verða neðanjarðar en skipulagsfólk hefur tilhneigingu til að fjalla ekki mikið um þá.

  • Skömmu eftir aldamót var talið að spítalann yrði að stækka úr 65.000 fermetrum upp í um 140.000 fyrir árið 2020. Annars yrði hann óstarfhæfur. Þessi stærð var ein af forsendum staðarvalsins ef rétt er skilið.

    Samkvæmt samkeppnislýsingu frá 2005 er lóðin talin178.300 fermetrar. Spítalinn rak 60.000 fermetra og HÍ 10.000 fermetra. Þar er talað um að þegar lóðin er fullbyggð verði þarna 171.300 fermetrar byggingarmagn fyrir bæði eldri byggingar og nýbyggingar. (Sjá síðu: 6)

    Í samkeppnislýsingu frá 2010 er gert ráð fyrir 176.300 fermetrum (sjá síðu 21) þar af er núverandi húsnæði talið um 73.000 fermetrar.

    Það kemur því á óvart að á heimssíðu spítalans undir fyrirsögninni “Vegna umræðu um fyrirhugaða stækkun Landspítala” stendur orðrétt: “Heildarbyggingamagn svæðisins samkvæmt deiliskipulagstillögu sem er nú er til umfjöllunar eru um 290 þúsund fermetrar, ofan- og neðanjarðar”.

    Þarna munar meiru en 100.000 fermetrum!

    Á sama stað er sagt að bifreiðastæðahús séu 53.000 fermetrar. Byggingar HÍ eða annað úthlutað af Reykjavíkurborg verði samtals 48.000. fermetrar. Þetta skýrir að hluta 290.000 fermetrana. (vantar 13.000 fermetra)

    Þetta er örugglega vel unnin áætlun og það er ekki ástæða til þess að efast um að þetta sé góð þarfagreining.

    En hefði staðarvalið orðið þetta ef þessar tölur hefðu legið fyrir þegar valið átti sér stað? Voru þessar tölur í þeirri umræðu?

  • Ingvar Tryggvason

    Ég vil vekja athygli á sjónarmiðum þyrluflugmanna Landhelgisgæslunnar: „Þyrlupallar á þaki sjúkrahúsbygginga, eins og núverandi nefnd um sjúkrahúsbygginguna leggur til, eru neyðarbrauð þar sem vanalega er um eldri sjúkrahúsbyggingar í þéttbyggðum svæðum að ræða sem taka eiga að sér nýtt hlutverk þar sem ekki er pláss fyrir þyrlupall á öruggu svæði í námunda við spítalann.“

    http://www.visir.is/landsbyggdin-og-landspitalinn/article/2012702029989

  • Hilmar Þór

    Mig langar til þess að það komi fram að ég hef átt ítarleg samtöl við nokkra þeirra aðila sem að málinu hafa komið. Þara er um að ræða fólk úr verkefnisstjórn, hönnunarteyminu og tvo fulltrúa úr meirihluta skipulagsráðs.

    Ég finn að þetta er allt fært fólk er starfinu sínu vaxið og vandar sig. Þekking þeirra er mikil og þau vilja vel.

    Þessir aðilum hefur tekist að róa mig hvað varðar umferðamál umhverfis spítalann. Ég er líka nokkuð sáttur með gatnakerfið í deiliskipulaginu og fl.

    Hinsvegar hef ég ekki sannfærst um staðarvalið m.t.t. þess mikla byggingarmagns sem þarna er fyrirhugað.

  • Magnús Pétursson

    Þetta er gott framlag og góð hugmyndina um að tengja þessar tvær síður svona saman. Þær virðast báðar vandaðar og málefnalegar.

    Einn galli er þó á síðunni “Hin hliðin”. Það liggur ekki fyrir hvaða einstaklingar standa að baki henni. En auðvitað skiptir það ekki máli meðan hún er málefnaleg og birt er efni eftir nafngreinda menn.

    Síðan “Nýrlandspítali” er heldur ekki gallalaus. Nýr Landspítali er ekki unnin á ábyrgð einstaklinga heldur einhvers hulduhóps eða ritstjórnar sem engin nöfn hefur. Hinsvegar er ljósmyndaranna getið..

    Lesandinn þekkir ekki þann einstakling sem skrifar. Vefurinn “Nýr landspítali” er því undir hálfgerðri nafnleynd.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn