Miðvikudagur 09.10.2019 - 10:30 - Rita ummæli

Upphaf hugmyndarinnar um Borgarlínu?

Hugmyndin um línulegan miðbæ Reykjavíkur og „öflugum almenningssamgöngum“ (þ.e. Borgarlínu) kom fyrst fram í grein eftir Pétur H. Ármannsson arkitekt, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins þann 17. september 2005.

Þar skrifar hann um hugmyndina um línulegan miðbæ og samgönguás í ítarlegri grein um þróun miðborgar Reykjavíkur. Þessi grein hefur haft mjög mikil áhrif og er orðrétt vitnað í hana í Aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030.

Það er ánægjulegt til þess að vita að þessi hugmynd Péturs hefur vakið fólk til umhugsunar um borgarskipulagið en á hinn vængin er sárt til þess að hugsa að þessi hugmynd hefur ekki náð að vera sú kjölfesta í skipulaginu sem hún hefði átt að vera.

Það ríkir einhver losaragangur í skipulagi borgarinnar nú eins og oft áður.

Greinin var skrifuð fyrir 15 árum og á fullt erindi inn í umræðuna enn í dag. Kannski enn meira erindi nú en þá?

Hér kemur niðurlag greinar Péturs H. Ármannssonar.

Kvosin – Keldnaholt / línulegur miðbær

 

„Sem innlegg í umræðuna um skipulag Reykjavíkur er vert að kynna til sögunnar hugmynd sem kalla mætti Kvosin-Keldnaholt, línulegur miðbær Reykjavíkur frá austri til vesturs. Ólíkt hástemmdum hugmyndum um eyjabyggðir og landfyllingar er þessi hugmynd tiltölulega jarðbundin. Í reynd er hún aðeins ábending um þróun sem þegar hefur átt sér stað og teikn eru á lofti um að halda muni áfram, hvað sem öllum skipulagsáætlunum líður. Að því leyti er hún í samhljómi við þá skoðun að eðlilegasta þróun borga sé sú sem gerist hægt og sígandi á löngum tíma. Hugmyndin felst í því að viðurkenna í hugsun og verki línulegan vöxt miðborgarinnar til austurs, frá Kvosinni í vestri að Mörkinni í austri, og til lengri tíma litið áfram yfir á Ártúnshöfða allt að Keldnalandi. Þetta felur í sér að gamli miðbæinn er skilgreindur út frá sérhæfðu hlutverki sínu og umhverfisgæðum, hinn sögulegi kjarni og aðsetur æðstu stjórnsýslu og menningarstofnana, ekki sem hinn eini MIÐBÆR heldur sem elsti og mikilvægasti hlekkurinn í langri keðju.

Með því að endurhanna framhald Laugavegarins austan við Hlemm og áfram inn Suðurlandsbraut sem fallega borgargötu yrði til eins konar línuleg hryggsúla eftir endilöngu nesinu með öflugum almenningssamgöngum í báðar áttir, hjólastíg og greiðum gönguleiðum, auk hefðbundinnar bílaumferðar. Slík gata yrði annars konar samgönguleið, manneskjulegur valkostur samsíða Miklu(hrað)brautinni, sem í dag er eina tenging úthverfanna við miðbæinn. Með þessum umhverfisbótum er verið að nýta dýrmæta fjárfestingu sem fyrir er á svæðinu, t.d. í hótelum og skrifstofuhúsum, í stað þess að reisa ný hverfi frá grunni.

Með því að framlengja hinn nýja Laugaveg með nýrri brú yfir Breiðholtsbraut og Elliðaárósa yrði stigið mikilvægt skref í þá átt að tengja úthverfi Reykjavíkur við byggðina á nesinu. Að hinum línulega ás liggja mikilvæg þróunarsvæði sem sjá má fyrir sér að gangi í gegnum sams konar endurnýjun og Borgartúnið. Þar má nefna Brautarholt og Skipholt (Hlemmur plús), Suðurlandsbraut og Múlahverfi, Skeifan, Fenin, Dugguvogur og Ártúnshöfði, allt inn að Keldnaholti. Öll svæðin uppfylla þau skilyrði sem hugmyndin um endurnýtingu lands felur í sér og mörg þeirra bjóða auk þess upp á heillandi staðhætti, t.d. við ósa Elliðaáa, vesturhlíð Ártúnshöfða og ströndina inn að Bryggjuhverfinu. Til yrði samhangandi atvinnu-, þjónustu- og íbúðarsvæði með blandaðri, þéttri borgarbyggð sem hefði þann ótvíræða kost að liggja að flestum stærri íbúðahverfum borgarinnar. Mun fleiri borgarbúar en ella ættu þess kost að búa í göngufæri við hinn stækkaða miðbæ. Í stað þess að einskorða þéttingu byggðar og eflingu mannlífs við vestanvert nesið myndu allir hlutar borgarinnar njóta góðs af og Reykjavík þróast í þá átt að verða ein borgarheild, fremur en aðgreindir hverfishlutar tengdir saman af neti hraðbrauta“.

++++

Efst er mynd sem fylgdi grein Péturs í Lesbók fyrir 15 árum ogsýnir afar sterka og rökfasta tillögu hans að þróun borgarinnar þar sem miðborgin er línuleg og sögulega studd. Í greininni kemur fram skýrt hlutverk Miklubrautar og skýrt hlutverk Lagavegar og Suðurlandsbrautar.

Að neðan kemur greinin í heild sinni. Hana er vonandi hægt að lesa ef tvísmellt er á myndina.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn