Þriðjudagur 01.01.2013 - 23:31 - 8 ummæli

Úr og úrahönnun.

„Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér…..“ segir Megas í þekktu ljóði.

Og nú eru enn ein áramót liðin.

Gleðilegt ár.

Það er svo einkennilegt með hinar svokölluðu skapandi greinar að þegar kemur að tískuhönnun þá leita hönnuðurnir ekki alltaf að framförum  hvað tækni, notagildi, hagkvæmni eða framþróun fagurfræðinnar varðar, heldur einhverju „trendi“ sem stundum endurtekur sig aftur og aftur.

Það er eins og tíminn gangi fram og til baka þegar tískan er annarsvegar.

Kannski er ekki hægt að ræða framþróun þegar fagurfræði er á dagskrá, en það er oft nokkurt samhengi milli framfara og fegurðar sem vel má ræða.  Allavega hef ég miklar efasemdir um kennisetninguna frægu:. „De gustibus non est disputandum“

Tískan fylgir einhverjum mér óskiljanlegum leiðum. Samt er einhver fylgni í hönnuninni við efnahagsástand líðandi stundar og allskonar „trendum“ sem auglýsingastofur skapa. Oft kallað „branding“ eða eitthvað svoleiðis. Í tengslum við markaðssetningu vörumerkja skapast tækifæri fólks til þess að auglýsa að viðkomandi eigi eitthvað fé aflögu í handraðanum. Varan fær annan tilgang en notagildið og fagurfræðin kallar eftir. Nytjahluturinn verður frekar tákn um stöðu viðkomandi. Oftast fjárhagslega stöðu sem hann vill að tekið sé eftir.

Armbandsúr eru áberandi hvað þetta varðar. Armbandsúr eru vélar sem mæla tímann sem „teymir mann á eftr sér“.

Þegar menn fyrst fóru að bera á sér klukkur voru þær svo fyrirferðamiklar að notendurnir þurftu að bera þær í keðjum og stinga þeim í sérstakan tilsniðinn vasa á klæðum sínum. Þetta voru “vasaúr”.

Vasaúrin voru í upphafi stöðutákn og skart sem var hlaðið skrauti og dýrum steinum.

Með vaxandi tækniframförum minnkuðu klukkurnar og urðu sífellt léttari og fyrirferðaminni með miklum tæknibúnaði og öllu prjáli var haldið í lágmarki. Þá tók við mjög vönduð vinna hönnuða við að fullkomna tæknina með vandaðri útlitshönnun sem hæfði tækniframförunum.

Léttleikinn og notagyldið var í fyrirrúmi. Klukkurnar urðu svo léttar og fyrirferalitlar að menn báru þær á handleggnum án þess að finna fyrir þeim.

Svo fyrir nokkrum árum byrjuðu armbandsúr að stækka að nýju og eru nú orðin stór, fyrirferðamikil, þung og klunnaleg. Hlutverk þeirra fór að breytast aftur úr því að vera nytjahlutur í að vera skart og stöðutákn. Líkt og vasaúrin fyrir meira en hundrað árum.

Fyrir minn smekk eru nýju úrin allt í senn ljótari, klunnalegri, þyngri og miklu dýrari en vinsælustu úrin fyrir svona 10 árum.

Að því sögðu er ástæða til að vitna aftur í Megas sem segir í öðru ljóði: „…. en það bíður jú allra að þurfa að staldra við eftir sjálfum sér“

Já. Hart er í heimi og hórdómur mikill hvað varða úrahönnun vorra daga.

Myndin efst í færslunni er af úri þeirrar gerðar sem algengust eru á markaðnum í dag. Úrin að neðan eru flest hönnuð fyrir allnokkrum árum og jafnvel ártugum og eru í samræmi við tækniframfarir í úraframleiðslu..

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Orri Ólafur Magnússon

    Skemmtilegar bollaleggingar um útlitsbreytingu á fremur hversdagslegum hlutum einsog úrum. Þróun síðustu ára minnir mann á kennisetningu Thorsten Veblens ( „Theory Of The Leisure Class“ ) í þá veruna að handsmíðaðir nytjahlutir verði eftirsóttir á tímum fjöldaframleiðslunnar vegna þess eins að í hönnun og gerð þessa hlutar – svo dæmi sé tekið ; í það að skrúfa saman svissneskt „mekanískt“ úr – hafi farið ómældur tími og nostur fagmanna. Vitaskuld geta slík mekanísk, upptrekkt úr aldrei verið eins nákvæm og kvartsúrin sem ekki kosta nema brotabrot af verði Rolex, Jaeger le C. Glashuette, IWC svo að fáein úrsmíðafyrirtæki séu nefnd. Þú hefur því eflaust á réttu að standa með tilgátunni um „snob-faktor“ slíks úrs. Svona til gamans; einhvers staðar las ég það að armbandsúrið hefði ekki fyrst og fremst orðið til vegna þess hvað úrsmiðum hefði tekist að smækka úrin. það hefðu verið liðsforingjar í skotgrafahernaði fyrri heimstyrjaldarinnar sem tóku upp á því að festa úrið við úlnliðinn til að þurfa ekki að sleppa takinu á byssunni samtímis því að gá að því hvað tímanum liði. Það eitt að taka upp og stinga vasaúri með langri keðju inn á einkennisbúninginn var einfaldlega of tímafrekt og beinlínis lífshættulegt í miðri orrustu .

  • Rolexúrin hafa verið til lengi. Okkar kynslóð (hvað kynslóð sem það nú er) finnst allt hafa verið betra fyrir „nokkrum“ árum!

    • Hilmar Þór

      Alveg hárrétt hjá þér Páll, enda bíður það jú allra „að þurfa að staldra við eftir sjálfum sér“ eins og segir í færslunni.

      Og ég vil líka vera sammála þér um að Rolexúrin hafa verið til lengi en það versta er að þeim þar á bæ hefur ekki farið neitt fram í hönnuninni.

  • Jón Guðmundson

    Rolex úrin eru fyrst og fremst skart og frumhlutverk þeirra að mæla tímann er fyrir margt löngu liðinn. Flestir nota farsíma í stað klukku. Suunto úrin hafa tekið við af armbandsúrunum sem fjölnota tæki fyrir útivistarfólk. En það er rétt að úrahönnun er á villigötum.

  • Helga Jónsdóttir

    Mér var einu sinni gefið úr kennt við einhvern tískuhönnuð; sjálfsagt hefur hann ekki hannað það, en það var ansi stórt og áður en við var litið hafði ég rispað skífuna allan hringinn. Þá loksins fattaði ég að úrið var bara til að nota spari, í boðum og svoleiðis. Dýrustu fatahönnuðir merkja víst öll föt „dry clean only“, jafnvel nærföt (!), svo að þeir verði ekki lögsóttir ef eitthvað kemur fyrir dótið í þvotti. Úrið mitt hefði þurft einhverja hliðstæða merkingu.

  • Kannski ekki alveg rétt að þessi stóru úr séu bara stöðutákn. Þau geta t.d. verið öryggistæki, enda mörg hver búin hæðarmæli, loftþrýstingsmæli, kompás og fleiru skemmtilegu. Dæmi um slíkt eru finnsku Suunto úrin, þar sem saman fer flott hönnun og notagildi.

  • Ef eitthvað er trend og tískutengt er það íslensk húsahönnun. Það má sjá á nánast hverju einasta húsi, í Reykjavík og kaupstöðum úti á landi, nákvæmlega hvenær þau voru teiknuð.

    Annað sem er alveg drep fyndið. Það fólk sem þykist eiga svoooo rosalega smart heimili, eru einhver mestu hópsálir sem til eru. EKKERT frumlegt – allt nákvæmlega eins.

    Þar eru jú dönsk tekkhúsgögn og stólar, Iittala skálarnar hennar mömmu eða ömmu, og ALLS EKKI má gleyma hreindýrs eða elghausnum!!!! Þú ert bara ekki inn í dag nema eiga sett af ofantöldu – eins og allar hinar hópsálirnar sem efalaust þrá Rolex líka!

    Gersamlega alveg drep fyndið en rosalega ófrumlegt og hópsálarlegt !

  • Ég hef oft velt fyrir mér af hverju arbandsúrin fóru að verða svona klossuð og glingursleg.

    ROLEX er ekkert annað en stöðutákn og það vita allir. Og einmitt þess vegna er það ekkert stöðutákn.

    En ég spyr arkitektinn: Er húsahönnun eithvað betri en úrahönnun?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn