Þrátt fyrir mikla efnahagsörðugleika eru ýmsir góðir hlutir að gerast í byggingalistinni á Spáni. Nýlega var byggð útfararstofa við Pinso í Alicante sem vakið hefur athygli. Eitt af markmiðum arkitektanna var að byggja ódýrt og fá mikið hús fyrir lítinn pening. (more for less) Þetta var göfugt mrkmið arkitektanna fyrir þjóð í kreppu. Þessu markmiði náðu þeir með mikilli yfirlegu, einföldum og margreyndum lausnum.
Ef bera á saman við íslenskar byggingar sér maður strax að stór hluti útveggjanna er hert einfalt gler, þök virðast lítið einangruð og viðarlítil eins og útveggirnir. Hitalagnir, rafbúnaður og lýsing er í lágmarki. (það má skjóta því hér inn að kostnaður vegna rafbúnaðar getur nálgast kostnað við uppsteypu húsa hér á landi) Byggingin er samtals 495 m2 og kostaði 431 þúsund evrur. (um 70 milljónir ísl.króna) Miðað við gengið í dag er það um 137 þúsund krónur á hvern fermetra. Ég vek athygli á þessu hér vegna þess að fólk áttar sig oft ekki á því að um 80% af byggingakostnaði er oftast ráðinn af fyrstu ákvörðunum arkitekta í hönnunarferlinu.
Þetta er einföld bygging eins og áður er sagt í anda kennisetningarinnar “Less is More” Þrátt fyrir einfaldleikann eru þarna falleg og fjölbreytt rými sem skarta fjölbreytilegrar dagsbirtu.
Byggingin er rammi um hið óumflyjanlega sem bíður okkar allra, dauðans. Arkitektunum hefur tekist að ná utan um órætt andrúm þess sem koma skal en maður veit ekki hvað er. “Something is happening here but you don’t know what it is, do you, Mr. Jones?” Ljósmyndirnar ásamt grunnmynd/afstöðumynd lýsa verkinu betur en 1000 orð
Ég lík þessu með bjartsýnislegri tilvitnun í Socrates ( ca. 470 f.kr. til ca 399 e.kr ) sem lét lífið fyrir skoðanir sínar og sagði um dauðann:
“………Því það að hræðast dauðann, herrar mínir, er einnig að þykjast vita það sem maður veit ekki. Enginn veit hvort dauðinn er ekki í raun og veru hin mesta hamingja. sem manninum getur hlotnast. En menn óttast dauðann, eins og þeir væru vissir um að hann sé hið versta af öllu illu. Og er þetta ekki einmitt sú vítaverða fáfræði að þykjast vita það, sem maður veit ekki?
Húsið er teiknað af spænsku arkitektastofunni COR. Heimasíða þeirra er: http://www.cor.cc/
Tek undir með Stefáni Benediktssyni um krukkuveggi. Við félagarnir höfum lagt til að krukkuveggur eða duftkirkjugarður verði við hverja sóknarkirkju. Hugmyndin hefur ekki fengið góðar undirtektir. En það er ekki vegna þess að hugmyndin sé slæm hygg ég.
Gufunesið er gott en það má alltaf gera betur eins og COR tekst með aðdáunarverðum hætti. Svo vantar samkeppni um Krukkuvegg. Spönsk lausn á geymslu forfeðra í duftformi.
Eitthvað minnnir þetta á Fluxus og Yoko Ono. Muna ekki allir eftir taflborði hennar með öllu hvítu, bæði reitum taflborðsins og mönnunum. Þar tók hún baráttuna milli lífs og dauða úr taflinu.
Hrein fæðing, hreint líf, hreinn dauði og hreinn arkitektúr. Ekkert að hræðast hegði maður sér vel. Sígild og góð tilvitnun í Socrates. Byggingarlist á háu plani. Íslenska útfararstofan í Gufunesi er öðruvísi en stenzt samanburð.