Vaktarabærinn, Garðastræti 23 í Reykjavík hefur verið endurbyggður eftir mælingum og ráðgjöf arkitektastofunnar ARGOS. Minjavernd hf hafði með höndum framkvæmdir. Verkinu lauk nú á vormánuðum og húsið hefur verið auglýst til sölu
Vaktarabærinn var kallaður svo eftir Guðmundi Gissurarsyni vaktara sem talið er að hafi byggt húsið 1848 eða skömmu áður. Guðmundur var vaktari bæjarins frá 1830 til 1865 og tók við starfinu af föður sínum.
Embætti vaktara hafði verið í Reykjavík með hléum frá 1780 en vaktari vakti yfir bænum og fylgdist með hvort allt væri með feldu og lét vita ef ólag var á hlutunum. t.d. bruni, flóð eða óspektir. Í dönskum smábæjum gengu þeir um á næturnar og hrópuðu hvað klukkan var og og létu vita að allt væri í lagi :“Klokken er tre og alt maar vel“ , hrópuðu þeir.
Húsið var hluti bæjarhúsanna í Grjóta, eins elstu bæjanna í Reykjavík og þess sem Grjótaþorpið heitir eftir.
Farið var að búa í húsinu 1868 svo skráð sé þegar Stefán Egilsson, sem átt hafði húsið í tæpt ár seldi það Ingiríði Ólafsdóttur ekkju. Hann keypti það svo reyndar aftur 1880. Kona Stefáns var Sesselja Sigvaldadóttir, ljósmóðir. Synir þeirra voru Sigvaldi Kaldalóns tónskáld, Snæbjörn togaraskipstjóri, Guðmundur glímukappi og Eggert söngvari, sem allir fæddust í húsinu nema sá yngsti Eggert. Stefán seldi Jóni E. Jónssyni húsið árið 1889.
Búið var í húsinu fram á miðjan sjöunda áratug tuttugustu aldar. Í manntölum kemur fram að um 1930 og fram til 1962 búa að jafnaði 6-7 manns í húsinu þegar skráð er.
Vaktarabærinn var að öllum líkindum fyrsta timburhúsið sem byggt var í Grjótaþorpi, fyrir utan hús Innréttinganna við Aðalstræti. Vaktarabærinn er jafnframt eina húsið sem eftir stendur af bænum Grjóta sem var hjáleiga frá Víkurbænum, ein af átta slíkum sem getið er í Jarðabókinni 1703, en jörðin var lögð hinum nýstofnaða kaupstað Reykjavík til við stofnun hans 1786. Húsið er friðað skv. ákvæðum þjóðminjalaga þar sem hús reist fyrir 1850 eru sjálfkrafa friðuð, ekki er gefin út sérstök friðlysing frá menntamálaráðuneytinu heldur gildir hið almenna ákvæði.
Í júni 2008 afsalaði Reykjavíkurborg Minjavernd hf. húseigninni Garðastræti 23, sem tók þar með að sér endurgerð hússins. Húsið var mælt og teiknað þá um haustið og í framhaldi af því fengið leyfi byggingarfulltrúans í Reykjavík til að fjarlægja skúrana sem byggðir höfðu verið við austur og norðurhlið hússins.
Húsið er lítið, einlyft bindingshús, upphaflega klætt utan með reisfjöl, svo sem enn má sjá, þak klætt skarsúð með rennisúð þar á ofan, tvöföldu timburþarki. Hlaðið var í bindinginn, kalkað innan eða klætt bjóstþili í stofu, panel í herbergjum og gólf borðaklædd, bitar ýmist strikaðir eða klæddir strikuðum borðum. Byggð var lítil forstofa við húsið að austanverðu með stiga á loftið.
Ofanritaður texti er að mestu fenginn af heimasíða arkitektastofunnar ARGOS. Guðmundur Ingólfsson hjá Ímynd tók ljósmyndirnar.
Svona er hluti texta um Luktar Gvend sem kom m.a. á plötu Bjarkar Guðmundsdóttur. Þetta getur alt eins verið um Guðmund Gissurarson enda er lagið gamalt og talað um Lukta Gvend á liðinni öld (þ.e. 1800-1899). Hann „gekk hægt og hljótt hverja götu fram á nótt“ eins og vaktarar.
Hann veitti birtu á báðar hendur
um bæinn sérhvert kvöld
hann luktar Gvendur á liðinni öld
Hann heyrðist ganga hægt og hljótt
um hverja götu fram á nott
Hans hjartasá med bros á brá
ef ungan sveinn og yngismey
hann aðeins sá hann kveikti ei
en eftirlét theim rókkur skuggablá
Í endur minning æskutíð
hann aftur leit, en ástmey blið
Hann örmum vafði fast svo ung og smá
Hann veitti birtu á báðar hendur
um bæinn sérhvert kvöld
hann luktar Gvendur á lidinni öld
Þetta er svaka vel gert og það á að gera meira af svona. En ég tek undir með þeim sem voru með athugasemdir vegna nýrri húsa í modernioskum stíl í síðustu færslu. T.d. Lido, Gúttó við Barónsstíg sem er búið að rústa með einhverjum álklæðningum sem ekki passa við þær góðu byggingar. Maður má ekki sýna nýrri byggingum slíka fyrirlitningu. Það má segja að þessi hús hafi verið augnstungin eins og sagt var um gömlu timburhúsin þegar skipt var um glugga í þeim.
Var vaktarinn Guðmundur Gissurarson e.t.v. sá sami og var kallaður „lugtar-Gvendur?
Í Danmörku var oftar en ekki sami maðurinn sem kveikti götuljósinn og var svo „vokter“ yfir nóttina.