Föstudagur 13.01.2012 - 23:20 - 28 ummæli

Vatnsmýrarsamkeppnin-Upprifjun

 

Um þessar mundir eru liðin fjögur ár síðan úrslit í tveggja þrepa samkeppni um framtíð Vatnsmýrarinnar voru kynnt.  Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og tækifæri gefist til þess að velta þeim frjóu og vel unnu tillögum  sem viðurkenningu og verðlaun hlutu fyrir sér.

Þetta var metnaðarfull samkeppni frá hendi útjóðenda og þátttakendur lögðu sig fram í samræmi við það.  Það verður þó að segjast að útbjóðandi gerði þau mistök að leysa ekki  samgöngur höfuðborgarsvæðisins í lofti áður en samkeppnin var auglýst. Þegar samkeppnin var auglýst voru flugsamgöngumál höfuðborgarinnar óleyst og þau eru það enn, fjórum árum síðar.

Fyrstu verðlaun í samkeppninni hlutu skosku arkitektarnir Graeme Massie og félagar. Þeir eru hinir sömu og unnu skipulag fyrir miðbæ Akureyrar og aftur samkeppni um framtíð Reykjavíkurhafnar.

Ég veit ekki um stöðu vinningstillögunnar í borgarkerfinu enda skilst mér að hún hafi ekki fengið nokkurn status. Hvorki í aðalskipulagi, rammaskipulagi (hverfaskipulagi) né deiliskipulagi.  Samt heyrist manni að eitthvað sé verið að taka mið af henni við ýmsar skipulagsákvarðanir, t.a.m. Landspítalann. Það er í raun einkennilegt í ljósi þess að þrátt fyrir að fjögur ár séu liðin þá er enn ekki búið að finna lausn á samgöngum í lofti við höfuðborg Íslands sem sátt er um.

 Ég birti hér til upprifjunar þær tillögur sem fengu verðlaun og viðurkenningu í samkeppninni ásamt dómnefndaráliti. Þetta eru afar vel unnar tillögur og virkilegt augnakonfekt og til þess fallnar að skoða alvarlega þegar búið er áð leysa flugsamgöngur höfuðborgarinnar.

Ég ráðlegg lesendur að opna teikningarnar og gaumgæfa þá sýn sem höfundar setja fram um framtíð  Vatnsmýrarinnar og ekki má gleyma því að í arkitektasamkeppnum ber að deila við dómarann sýnist manni svo.

 

Vatnsmyrarinnar. 

1. Sæti

Graeme Massie, Stuart Dickson, Alan Keane, Tim Ingleby – Edinborg, UK

Umsögn dómnefndar
Kynningarveggspjöld og stuðningsgögn þessarar tillögu eru skýr og skiljanleg og bregðast á sannfærandi hátt við þeim kröfum sem settar eru fram í forsendulýsingu samkeppninnar. Áætlunin hefur burði til að verða útgangspunktur framtíðarþróunar í Vatnsmýri. Hljómskálagarðurinn er stækkaður til suðurs og ný tjörn umkringd fjölda nýrra bygginga gerð að miðpunkti Vatnsmýrarinnar. Göturnar Barónsstígur og Snorrabraut eru framlengdar, frá Þingholtum að Fossvogi og á ræmunni milli þeirra eru helstu íbúðasvæði, ásamt skrifstofuhúsnæði og þyrpingum opinberra bygginga og skólahúsnæðis. Skáhöll lína sker þessa ræmu og tengir hana beint við miðbæinn. Einnig er gert ráð fyrir íbúðasvæðum utan í Öskjuhlíð og norðan Skerjafjarðar og yfirráðasvæði Háskóla Íslands verður stækkað þannig að það nái að tjörninni nýju. Áætlunin er studd með nákvæmum tillögum um umhverfisstjórnun, möguleikum á lotuskiptingu og samþættingu langtímamarkmiða. Borgarmyndin, sérstaklega við ströndina og á eystra íbúðasvæðinu, er dregin grófum línum og umferðarvandi ekki að fullu leystur, en áætlunin virðist nógu burðamikil til þess að þola frekari útfærslu sem tæki til þessara og annarra verklegra atriða.

Hægt er að skoða tillöguna í fullri stærð á eftirfarandi slóð:http://www.vatnsmyri.is/swf/ex01.swf

 http://www.vatnsmyri.is/isexhib.asp

 

2. Sæti

Johanna Irander, Nuno Gonçalves Fontarra – Haag, Hollandi

Umsögn dómnefndar
Þetta innlegg er einstakt í ferskleika sínum og léttleika. Það leggur til skýra aðgreiningu á opinberum svæðum og einkasvæðum og notar mismunandi mynstur byggðareininga til að fá hana fram. Skoðun Vatnsmýrarinnar hefur ekki einskorðast við samspil hennar og borgarinnar heldur hefur hún verið gerð í samhengi við norðanverðan Reykjanesskagann, allt frá alþjóðaflugvellinum í Keflavík að Esjurótum. Það er þessi fimlega aðferð sem gerir tillöguna mikilvægt innlegg í umræðuna. Samt sem áður er hin ráðgerða móða, sem eykur á töframátt tillögunnar, talin óraunhæf. Ennfremur er grafísk útfærsla ófullnægjandi, upp á vantar að umhverfisáætlun sé sannfærandi og verkefnið styðst of mikið við texta stefnuyfirlýsingar.

Hægt er að skoða tillöguna í fullri stærð á eftirfarandi slóð:

http://www.vatnsmyri.is/isexhib.asp?e=2

 

3. Sæti

Jean-Pierre Pranlas-Descours, Christine Dalnoky, Ove Arup – París, Frakklandi

Umsögn dómnefndar
Þessi tillaga var mikið þróuð og bætt frá því að hún kom inn á fyrra þrepi samkeppninnar og styrkur hennar liggur í skýrri og sveigjanlegri eyjalausn. Eyjunum er ætlað að endurspegla kaflaskiptan vöxt höfuðborgarsvæðisins um leið og þær varðveita minninguna um flugvöllinn. Umhverfismeðvituð borgarbyggð, sem þjappað er saman í þéttar eyjar, gerir grænu belti mögulegt að teygja sig frá miðbænum alla leið í Fossvog og opnar útsýni til hafs úr hjarta Vatnsmýrarinnar. Hverfin eru tengd með umfangsmiklu leiðakerfi fyrir allar tegundir umferðar, þ.m.t. nýtt járnbrautakerfi. Auðvelt er að lotuskipta uppbyggingunni og mynstur byggðareininganna, ásamt stærð eyjanna, er hugsanlega hægt að stilla af ef bregðast þarf við breyttum aðstæðum. Kostnaðurinn við þetta frelsi kemur fram í því að byggingarhlutfall svæðisins í heild verður tiltölulega lágt, en það dregur ekki úr mikilvægi þessarar sýnar fyrir umræðuna um Vatnsmýrina.

Hægt er að skoða tillöguna í fullri stærð á eftirfarandi slóð:

http://www.vatnsmyri.is/swf/ex03.swf

 

Viðurkenning

Architects: NEKTON Design

Project Directors:
Gudjon Thor Erlendsson, AA dipl BA (hons) – Architect, Jeff Turko, AA dipl- Architect SBA
Project Urbanists:
Sibyl Trigg, Dip Arch, B.Arch – Urban Designer, Dagmar Sirch , MsC, Dip Arch, BsC (hons) – Urban Designer

Umsögn dómnefndar
Þetta er tillaga að borgarmynd sem er samþætt aðliggjandi svæðum, innviðum þeirra og landslagi. Með því að setja nákvæmar reglur um mynstur byggingareininga og formgerð bygginga á öllu svæðinu er búin til sterk og misfellulaus birtingarmynd uppbyggingar í Vatnsmýri. Þegar hins vegar horft er til tímaramma uppbyggingarinnar og þarfarinnar fyrir sveigjanleika og endurmat, er svona rígbundið kerfi talið þvingað og óþarflega flókið.

Hægt er að skoða tillöguna í fullri stærð á eftirfarandi slóð:

http://www.vatnsmyri.is/swf/ex04.swf

 

 Viðurkenning

Rose Bonner, Paul Fox, David Jameson – Dublin, Írlandi

Umsögn dómnefndar
Tillagan snýst fyrst og fremst um net íbúðabyggðar sem tengist aðliggjandi svæðum og gatnakerfi. Það kemur best fram þar sem Hringbraut er tekin inn í netið sem borgarstræti. Stærð og mynstur byggingareininga eru of einsleit og hefðu gott af meiri fjölbreytni og sveigjanleika ef koma ætti langtímaþróun með góðu móti inn í tillöguna. Skekking netsins virðist tilraun til að bæta úr einsleitninni, en hún virkar sérviskuleg og án rökrænnar undirbyggingar.

Hægt er að skoða tillöguna í fullri stærð á eftirfarandi slóð:

http://www.vatnsmyri.is/swf/ex04.swf

 

 

 

 Viðurkenning

Manuel Lodi, Architect, Danilo Cupioli, Architect, Paola Pilotto, Architect, Rizzo Silvia, Architect, Dino Bonadias, engineer, Marco Rasimelli, engineer, Salvatore Corliano, engineer, Stefano Galli, archtiect, Maurizio Scarciglia, architect.
Ráðgjafar: Dusan Persic, Elisa Ventura, Federico Ventura, Maria Mholin, Gabriele Pisani, Elungo Vulanem, Kuno Mayer, Dott. Arch. Stefano Galli, Dott. ssa Arch. Enrica Rasimelli, Dott. Arch. Mirko Lo Faro, Dott. Ing. Gianfranco Vanni, Dott. Ing. Luca Bragetta, Dott. Ing. Enrico Coluzzi, Dott. ssa Ing. Giuseppina Paoni, Dott. Ing. Valerio Mastroianni, Dott. Geol. Stefano Piazzoli, Dott. Ing. Luigi Spinozzi, Dott.ssa Ing. Maria Gabriela Sorci Dott. Ing. Marco Galazzo, Dott. Ing. Numa Tondini, Dott. Ing Luigi Iovine, Dott. Ing. Daniele Azzaroli, Dott. Ing. Leonardo Ciarapica, Dott. Ing.Pasquale Lospennato, Geom. Danilo Bellavita, Geom. Maurizio Cirimbilli, geometra, Geom. Carlo Rosi, Arch. Maurizio Scarciglia.
Genova, Italy

Umsögn dómnefndar
Meginforsenda þessarar tillögu er skipting Vatnsmýrarinnar í tiltölulega stóra parta, þar sem hver gegnir sérstöku hlutverki. Partarnir eru vel við vöxt og innan þeirra svigrúm til að koma til móts við breyttar kröfur og lotuskiptingu. Áætlunin hvetur til þess að breytt verði um stærð, mynstur og form bygginga eftir því sem tímanum vindur fram. Hún er ögrandi hugmynd að borgarbyggð, en undirstöðurnar, sem hún byggir á, sýna ekki með nægilega sannfærandi hætti hvernig stjórna á hinni ætluðu sérstöku uppbyggingu.

Hægt er að skoða tillöguna í fullri stærð á eftirfarandi slóð:

http://www.vatnsmyri.is/swf/ex06.swf

Viðurkenning

Belinda Kerry, Architect; Andrew Lee, Architect; Fiona Harrison, Landscape Architect, Blake Farmar Bowers, Landscape Architect. Melbourne, Ástralíu.

Umsögn dómnefndar
Þaulunnin tillaga þar sem sneitt er hjá formum flugbrautanna, en í staðinn fengnar rúmmyndir úr nágrannahverfum. Þetta leiðir til borgarmynsturs sem er notalegt og kunnuglegt í reykvísku samhengi. Hins vegar er samspilið við Vatnsmýrina sjálfa ekki jafnsannfærandi og þótt þéttleiki byggðar sé við hæfi er úthverfisblær á tillögunni. Áætlunin er innhverf, skortir útfærslumöguleika og býður upp á fá ný tækifæri í borginni.

Hægt er að skoða tillöguna í fullri stærð á eftirfarandi slóð:

http://www.vatnsmyri.is/isexhib.asp?e=7

 

Valin tillaga

Rolf Teloh, City Planner, Klaus Krauss, Architect, Thorsten Werner, Architect, Daniel Friedeberg, Architect, Cornelia Müller, Landscape Architect, Hinnerk Wehberg, Landscape Architect Christoph Link, Traffic Planner, Holger Wallbaum, Sustainable development consultant, Eberhard Jost, Sustainable development consultant, Sophie Lovell, English translation
Berlín, Þýskalandi

 

 Frá verðlaunaafhendingunni þar sem Dagur B. Eggertsson formaður dómnefndar flytur ávarp fyrir hönd dómnefndar sem stendur í baksýn.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (28)

  • Fyrsta forsenda til að geta farið í svona fantasíur er að flugvöllurinn fari og ég sé ekki að það sé vilji fyrir því hjá borgarbúum og þaðan af síður landsbyggðafólki að hann fari. Svona umræða er því ótímabær. Það verður að taka þetta í réttri röð, umræðan hvort völlurinn fari eða vera er enn eftir jafnvel þó sumir haldi annað

  • Hárrétt gagnrýni hjá þér Hilmar, hroki og ókurteisi eru slæmir eiginleikar og algerlega óþolandi. Læt þetta ekki endurtaka sig.

  • Pétur Örn Björnsson

    Mig langar af gefnu tilefni að þakka Hilmari fyrir ómetanlegan dugnað og elju við að halda úti þessari bloggsíðu, sem einmitt gefur kost á að ræða málin af einurð og festu. Vafalaust er oft erfitt að tjónka við skapmikla athugasemdaskrifara, en það þarf jú skap til að skapa … munum það. Þú átt mikinn heiður skilinn Hilmar, enda skapandi maður.

    Ekkert er meira virði til vitsins, en gagnkvæm skoðanaskipti og samræða. Um það getum við Dagur verið sammála, vænti ég.

    Tek svo heils hugar undir orð Erlings að það er einmitt kostur pistla Hilmars, að þeir eru mun vitrænni og upplýsandi, en mörg „upphafin arkitektúrtímarit“.

  • Sigurður Einars
    Það hefur einmitt verið kosturinn við þessa góðu síðu að hun er ekki eins og upphafin arkitektúrtímarit. Hún er skrifuð istuttu máli sem allir skilja. Þessi Vatnsmýrarfærsla er samt nálægt því að líkjast sérfræðiriti. En það er fyrirgefið.

  • Pétur Örn Björnsson

    Varla áttu við mig Hilmar? Ég er fullkomlega rólegur og fjalla um málið út frá sem flestum hliðum. Má það ekki? Detta spítalar og skipulög bara af himnum ofan?

  • Hilmar Þór

    Ég vil biðja men um að halda aftur af sér í uræðunni hér og halda sig við efnið sem er skipulagssamkeppnin um Vatnsmýrina.

    Mikilvægt er að þeir sem tjá sig hér bæti í umræðuna og eða skýri sjónarmið sín og andmæli á málefnalegan hátt þegar tilefni er til.

    Það gengur ekki að afgreiða fólk með því að halda því fram að það hafi ekki vit á málefninu. Eða færa umræðuna á önnur mál í einhverjum pirringi. Svoleiðis málflutningur færir okkur ekki fram á veginn. Þvert á móti.

    Mér hefur oft dottið í hug að henda sumum athugasemdum út úr kerfinu en ekki gert vegna þess að viðkomandi skrifar undir fullu réttu nafni. En kannski kemur að því.

    Ég vil þakka þeim sem taka til máls hér og bið þá endilega að halda því áfram. En þeir þurfa að halda sér við efnið og vera málefnalegir, forðast stóryrði og skotgrafarhernað.

    Það er líka mikilvægt þegar stjórnmálamenn og aðrir sem hafa áhrif tjá sig hér og setja sig þar með í beint samband við lesendur að það sé ekki misnotað. Ef það er misnotað þá hætta þeir, eðlilega, að tjá sig á þessum vetvangi.

    Það hefur örlað á því í dag að fólki renni í skap og skrifi hraðar en heilinn hugsar. Við þurfum að forðast það og persónulegann skotgrafarhernað. Hér eiga að takast á sjónarmið en ekki persónur. Allt af fullkomnu umburðarlyndi og kurteysi.

    Því er yfirleitt þannig háttað að maður óttast það sem maður þekkir ekki.

    Dagur B. Eggertsson hefur upplýst um nokkur mál sem varða Vatnsmýrina sem ég óttaðist. Við það hef ég róast. Þekkingin er róandi. T.a.m að lítið er um stofnbrautir í Massie skipulaginu. Það er ótvíræður kostur í borgarskipulagi framtíðarinnar.

    Ég held að vinningstillagan sé ágætur leiðasvísir að framtíð Vatnsmýrarinnar. og skipulagssamkeppnin í heild upplýsandi um tækifærin í Vatnsmýrinni.

    En eftir stendur óvissan um flugsamgöngur borgarinnar.

  • Pétur Örn Björnsson

    Þú fyrirgefur mér Dagur, en mér finnast ummæli þín 15.1 2012 kl. 15:55 vera í engum tengslum við veruleika okkar dags og stundlega tíma. Þau eru í anda helgimyndar, sem á sér ekki stoð í veruleikanum í dag, þar sem almenningur hefur algjöra vantrú á stofnunum og yfirvaldi, sem hefur algjörlega brugðist.
    Er þér ekki kunnugt um það?

    Vona svo bara að ég falli ekki í algjöra ónáð hjá há-æruverðugum skipulagsyfirvöldum, þó ég hafi dirfst að segja það sem mér býr í brjósti. En það er einmitt stóri vandinn, að mest öll arkitektastéttin þorir ekki að tjá sig, af ótta við hefndar-aðgerðir yfirvalda. Grunar mig að líkt sé um marga lækna, því marga þekki ég af þeim og þeir hrista hausinn, en þora lítt að tjá sig.

  • Gott er að fá umræðu um þetta viðkvæma málefni hér, mætti sjálfsagt fjalla um það lengi. Mér finnst afar miður að sjá stjórnmálamenn, með fyllstu virðingu fyrir þeim að öðru leyti, tjá sig hér um borgarskipulag með þeim hætti að þeir sem ekki betur vita (eru sjálfir leikmenn á þessu sviði) gætu nánast trúað því að þeir hefðu eitthvert vit á borgarskipulagi, því fer því miður fjarri. Má kannski kalla þetta dómgreindarleysi hins fávísa.

  • Pétur Örn Björnsson

    Fyrir hvaða peninga á að byggja þetta Dagur?

    Kannski „eldmóðs“-peninga femínista og pólitískt korrekt þenkjandi í þægilegri innivinnu eftirlitsiðnaðarins?

  • Pétur Örn Björnsson

    Lastu ekki Braga, sem segir það sem segja þarf um ráðamenn sem skoða og hlusta bara á sjálfa sig … eða hvað?:

    „… Og nú bara bíðum við eftir næsta hneyksli, sem hlýtur að koma fljótlega, því ekki er skortur á stofnunum, þar sem lítt- eða óhæfir starfsmenn „standa vaktina“ og helztu eiginleikar þessara stofnana eru hroki og vanhæfni. Er ekki kominn tími til þess, að stjórn hinna vinnandi stétta láti fara fram hæfnispróf hjá þessum tugum þúsund pólitísks ráðinna afganga, sem hvorki svara erindum almennings né kunna að skammast sín með öðrum hætti en segja: „Þetta verður auðvitað skoðað vandlega“??? eins og hinn orðhagi „velferðarráðherra“ hefur ítrekað sagt síðustu vikurnar.“

    Þú hefur valdið Dagur. Hefur ykkur dottið í hug að kanna vilja almennigs til að fara í þessa framkvæmd? Hann borgar jú brúsann.

  • Sæll Pétur – bygging nýs Landsspítala er líklega eins langt frá því að bygging „galtómrar steypu“ og hugsast getur. Þar hefur verið lagt í mikla vinnu og hugsun um hvernig verði best og árangursríkast búið að veiku fólki (og starfsfólki og stundum flóknum búnaði) til framtíðar.

    Talið er að nýbyggingin muni spara fé á hverju ári, þar með losnar það til annarra hluta, s.s. að milda áhrif af óumflýtjanlegum niðurskurði síðustu ára, bæta tækjakost sem er einnig mjög brýnt, o.sv.frv. Byggingin er því ekki andstæða áherslu á velferð. Þetta eru byggingar um betri þjónustu við fólk. Er það bara í lagi þegar samgöngumannvirki eru annars vegar?

    Pétur, þetta snýst ekki um að byggja „mónúment“ einsog þú vilt kalla það í mínum huga – nema þá það mónument að forgangsraðað er í þágu heilbrigði og velferðar, svolítið svipað og þegar forfeður okkar og mæður byggðu Landsspítalann gamla í miðri kreppu miklu fátækari þjóðar. Sú bygging var dreginn af stað og áfram af eldmóði íslenskrar kvennahreyfingar sem tókst að safna í drjúgan sjóð til að koma málinu af stað. Einsog raunar var einnig um Barnaspítalann hér um árið. Það vantaði nú ekki mótmælin gegn honum, heldur, ef út í það er farið. Var hann líka til marks um ranga forgangsröðun, jafnvel slys?

    Sameinumst í það minnsta um að fækka upphrópunum og fjölga rökum í þessari umræðu og hlustum hvert á annað. Það kemur alltaf eitthvað gott út úr því.

  • Pétur Örn Björnsson

    Annars sýnist mér að sé eins viturlegt að lesa Braga eins og að bíða eftir svari frá Degi, því ég bið bara um heilbrigða skynsemi, sem almenningur á nóg af, sé eftir henni hlustað:

    http://eyjan.is/2012/01/15/politiskir-undanvillingar-vada-uppi-i-opinberum-eftirlitsstofnunum-bragi-kvedur-upp-sinn-urskurd/

  • Pétur Örn Björnsson

    Hvar liggur forgangsröðun varaformanns Samfylkingarinnar?
    Að byggja mónument? Hörpur, Hátækni og kjaftæði, í stað þess að hlú að hinu marga og smáa?

  • Pétur Örn Björnsson

    Hefur Dagur þá siðferðisvitund, sem læknir og pólitíkus, að þora að svara því, hvort hann telji byggingu „galtómrar steypu“ (eins og Hvati kuti kallaði það), Hátæknisjúkrahússins forgangsatriði nú, þegar heilbrigðiskerfið er skorið blóðugt niður?

  • Takk fyrir góðar umræður hér. Er þó ekki alveg seldur í því að bognar götur eigi meira skylt við „staðaranda“ Reykjavíkur en klassískt gatnakerfi.

    Það hafa margir bent á það að vinningstillagan kallast ekki aðeins á við „fyrsta skipulag Reykjavíkur“ frá 1927 (Guðjón Sam) heldur er nánast hægt að skoða það sem beint framhald af skipulagi Einars húsameistara Sveinssonar frá 1935 – þegar byrjað er að skipuleggja utan Hringbrautar og m.a. Norðurmýrin verður til.

    Ein róttækasta (og skemmtilegasta) „línan“ sem lögð er í vinningstillögunni er einmitt um það að Snorrabraut er látin halda áfram út í Nauthólsvík/Skerjafjörð. Þessum möguleika er einmitt haldið til haga í endurskoðuðu skipulagi Hlíðarenda-svæðisins. Því myndi fylgja niðurrif á mislægu gatnamótunum Hringbraut/Snorrabraut sem væru auðvitað stór (og merkileg) tímamót í skipulagssögu borgarinnar.

    Ég leyfi mér að vísa í klassísk rök kollega míns Guðmundar Hannessonar úr Skipulagi bæja frá 1916 ef einhver er í vafa um að þetta klassíska skipulag geti ekki tekið mið af íslenskum staðháttum. Hitt er annað mál, einsog Hilmar nefnir, að horfa þarf í hvern hluta þessa stóra og mikilvæga svæðis og ná því besta úr út hverjum reit. En það er mikilvægt að gera það á grunni þeirrar heildarhugsunar sem nú liggur fyrir – og hefur sannað gildi sitt, að mínu mati.

    Varðandi áströlsku tillöguna, þá get ég tekið undir að um hana má margt gott segja. Gatna/reita-fyrirkomulagið er þó ekki jafnólíkt vinningstillögunni og virst gæti í fyrstu. Ástralirnir fara þó kannski meira í átt að flokkuðu gatna-kerfi, en það er varla hagkvæmasta fyrirkomulag samgöngumála á þessum stað, því hefðbundnara gatnakerfi með hægari umferð er líklega til að leysa umferðarflæði hægrar umferðar á áreynslulausari hátt.

    P.s. þess má til gamans geta að innan dómnefndar kom töluvert á óvart að enginn Íslendingur (með staðgóða þekkingu á skipulagssögu borgarinnar) væri í vinnings-liðinu, svo Reykvísk þótti hún…

  • Pétur Örn Björnsson

    Hvað eigum við að sjá þar Hilmar minn … að Heildarbyggingarmagn Hringbrautar Hátækni lækna-og pólitíkusa-geðveikinnar verði um tvö hundruð þrjátíu og fimm þúsund og fimm hundruð fermetrar, eða skrifað sem á tékka væri með tölustöfum einnig:
    235.500 fm.
    Þið afsakið mig, en ég sé ekki dýrðina, fremur en þegar ábyrgðarlausir pólitíkusar reyndu að sannfæra þjóðina um dýrðina sem endaði með Hruni.

    Nú geri ég það að tillögu minni að sá ágæti bókmenntamaður, Hjálmar Sveinsson gefi félögum sínum í skipulagsráði bókina sem hann gaf út fyrir jólin til lestrar megi það verða til að siðvæða þá til staðarandans,
    „Mennt er máttur“, sem hefur þann prýðisgóða undirtitil: „Tilraunir með dramb og hroka.“

    En sjálfur segi ég sem Guðbergur Bergsson í ljóðfórnum:
    „Freyr
    ekki veitti þeim af þvaginu úr þér.“

  • Hilmar Þór

    Sennilega er þetta ekki vitlaust vinnulag hjá borginni.

    Samkvæmt Degi B. Eggertssyni er vinningstillögunni fylgt fast eftir án þess að hún hafi fengið nokkra formlega afgreiðslu í stjórnkerfinu!!

    Ef hún hefði fengið formlega afgreiðslu fyrir 4 árum þá væri sennilega margt öðruvísi.

    Fjármálaævintýramenn hefðu líklega pumpað upp verð á landinu og veðsett þar sem tækifæri gafst. Slikt hefur maður upplifað með skelfilegum afleiðingum.

    Maður veltir fyrir sér hvort þetta sé kannski verklag sem mætti nota í deiliskipulagi annarsstaðar þannig að skipulagið sé ekki afgreitt og bindandi heldur leiðbeinandi og þvi sé hægt að breyta í samræmi við breyttan tíðaranda.

    Þannig að skipulagð yrði ekki bindandi fyrr en byggingarleyfi er gefið út.

    Þetta á einkum við um eldri hverfi þar sem grenjavæðing hefur orðið ágætum húsum að bráð m.a. vegan deiliskipulagsákvarðanna.

    Varðandi vinningstillöguna þá hef ég ekki trú á öðru en að hún eigi eftir að taka miklum breytingum á komandi árum með meiri áherslu á staðaranda Reykjavíkur. Mér sýnist borgin líta á vinningstillöguna sem leiðbeinandi markmið. Það er sennilega skynsamleg afstaða eins og málin standa.

    Ég mæli með að fólk skoði slóðina sem Dagur bendir okku á í athugasemd sinni.

  • Pétur Örn Björnsson

    Ég er hjartanlega sammála því sem Hilmar segir í aths. 3.
    Vinningstillaga Skotanna vantar alveg þann ljúfa þokka, sem tillaga Ástralanna sýnir og hefði farið betur að vinna út frá henni. Þar er eitthvað á ferð sem gæti nálgast þann staðaranda sem Hjálmar Sveinsson skrifaði mjög um, en gleymdi svo öllu um þann merka anda, eða hvað.

    Hefur Dagur B. Eggertsson heyrt minnst á staðaranda, að maður tali nú ekki um „situationsfornemmelse“ að kannski er það ekki beint við hæfi að vaða áfram með hátæknimonsterið við Hringbrautina meðan þjónusta heilbrigðiskerfisins er skorin niður við trog og … bæ þe vei .. af samflokksfólki Dags, Jóhönnu og Guðbjarti Hannessyni.

  • Ps. Ég á ekki við háhýsinn.

  • Það eru þrjú grundvallaratriði sem máli skifta í skipulagi. Hvar býrð þú, hvar vinnur þú og hvernig kemst þú á milli staða. Arkitektar og pólitíkusar detta oftast í þá gryfju að hugsa bara um tvo fyrst nefndu þættina. Í besta falli leyfa þeir í ólund sinni verkfræðingum að streða við þriðja þáttinn. Fyrir vikið verður niðurstaðan illa grunduð í alla staði.

    Mér leiðist Massie skipulagið. Ferkantað og stolið frá Manhattan, NY.

  • Þakka þér fyrir þetta Hilmar.

    Ég verð að taka undir hjá ykkur Togga og benda á að það er greinilegt að höfundur tillögunar hefur ekki mikinn skilning á legu Reykjavíkur, skala eða aðstæðum á svæðinu. Tillagan byggist á því að skella Barcelona gridinu inn í íslenskar aðstæður. Ég skoðaði tillöguna vel á sínum tíma og mér til gamans bar ég saman við bakkahverfið í neðra breiðholti til að átta mig á skalanum. Bakkahverfið er töluvert smærra í sniðum og ættu menn að kíkja á það til viðmiðunar. Þetta skipulag bíður líka ekki upp á svegjanleika með ólíkar áherslur með tillitil til staðarhátta.

    Svo hafa einnig komið upp ýmiskonar vandamál með mengunarþætti í jarðvegi á svæðinu sem gæti vel verið hægt að vinna úr í skipulagi og vil ég benda á útskriftaverkefni tveggja landslagsarkitekta frá AHO í Osló þar sem algjörlega ný sýn er á að skipuleggja svona viðkvæm svæði.

    http://landscapedetectives.com/

    Annar þá vil ég hrósa þér Hilmar fyrir þennan skemmtilega umræðuvettvang sem þú hefur staðið að.

  • Björn Einarsson

    Það er léttir að heyra Dag B. Eggertsson upplysa að Landspítalaskipulagið se unnið i samræmi við Vatnsmyrarskipulagið. Þetta hefur ekki komið fram áður

  • Er ekki fyrsta spurningin hvort vera skuli einhvers konar flugvöllur í Vatnsmýri?
    .
    Eins og ýmsir hafa bent á, þá þarf að finna málamiðlun sem leysir þarfir innanlandsflugs og sjúkraflugs.
    Að vísa þeirri starfsemi, si svona, til Keflavíkur er óboðlegt. Hólmsheiði eða Löngusker eru óraunhæfir kostir.

  • Skemmtileg upprifjun á skipulagssamkeppninni um Vatnsmýrina. Það er þó greinilega ástæða til að rifja upp og benda á að niðurstöðum keppninnar hefur verið fylgt mjög fast eftir í borgarskipulagi. Þrjú stærstu dæmin eru róttæk uppstokkun Hliðarendaskipulagsins, róttæk uppstokkun Vísindagarðaskipulags Háskóla Íslands og síðast en ekki síst róttæk uppsokkun skipulags nýja Landsspítalasvæðisins. Í öllum tilvikum sýndi tillagan að mínu mati styrk sinn með að innleiða festu og prinispp klassísks evrópsks borgarskipulags. Hvert dæmi fyrir sig er reyndar sérstakrar umfjöllunar virði. Tveimur þessara reita eru gerð ágæt skil í fyrsta tbl Borgarsýnar sem kom út kringum áramótin – og ég hvet allt áhugafólk um skipulagsmál að kynna sér: http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/frettir/2011/gogn/Borgarsyn_1tbl_2011.pdf

    Kv. Dagur

  • Nú orðið heitir það „mörg ár hafa runnið til sjávar“ að sögn Árnastofnunar.

  • Hilmar Þór

    Það er reglulega gaman að skoða þessar tillögur núna þegar frá er liðið.

    Ég er nokkuð á svipaðri skoðun og Toggi hér að ofan varðandi vinningstillöguna.

    Þegar Reykjavók er skoðuð á Google Earth þá sér maður skipulagsleg einkenni borgarinnar greinilega. Það eru þessar bognu götur sem eiga að mestu legur sínar að sækja til strandlengjunnar og holtanna. Á þessu gatnakerfi eru örfáar undantekningar eins og á flatlendi Norðurmýrar og Mela þar sem eru beinar götur.

    Vinningstillagan stingur í stuff við þetta og er skyldari skipulagi Barcelona og einkum New York með sömu stílbrot og þar, skágötu (Broadway) og miðgarð (Central Park) Ég held að það sé skynsamlegt að horfa á gagnrýnan hátt á þessa tillögu með róttæka endurskoðun í huga.

    Ég vil vekja athygli á tillögu ástralana Belindu Kerry og félaga sem er hér:
    http://www.vatnsmyri.is/swf/ex07.swf
    Eins og segirí dómnefdaráliti þá hefur hún til að bera notarlegt byggðarmunstur í reykvísku samhengi.

    Er það ekki einmitt það sem við viljum?

    Að Reykjavík haldi sérkennum sínum en ættleiði ekki skipulagshugmyndir frá framandi borgum eins og NY og Barcelona með kanoinisku gatnaskipulagi ?

  • Tad er veruleg synd ad stjornmalamonnum, skipulagsfaedingum og arkitektum hafi ekki tekist ad halda lifi i umraedunni eftir tessa glaesilegu samkeppni. Timinn er naumur og adeins 4 ar tar til onnur flugbrautin verdur logd nidur.
    En ad tillogunum. Mer finnst vinningstillagan hafa fallid i gaedum nu tegar eg skoda hana aftur eftir tessi fjogur ar sem lidin eru.

  • Sigurður Einars

    Góð upprifjun. Þetta blogg er að verða eins og besta arkitetúrtímarit

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn