Miðvikudagur 29.05.2013 - 07:54 - 5 ummæli

Veðurfar og framkvæmd skipulags

 407099_10200503807912036_413300341_n

Framkvæmd skipulags III

Hér kemur færsla Sigurðar Thoroddsen  sem fjallar um veðurfar og framkvæmd skipulags

Ekki verður hjá því komist að minnast á veðurfarið þegar fjallað er um framkvæmd skipulags. Staðreyndin er sú að veðurfar er öðruvísi á Íslandi en í flestum löndum sem við berum okkur saman við. Hér er allra veðra  von,  sumrin  kaldari  og styttri. Sem dæmi má taka að í Reykjavík er meðalhiti allt árið 4° C en  í júlí 11°C. Samsvarandi tölur fyrir Kaupmannahöfn eru  8°C – 16°C og Barcelona 16°C – 23°C.  Meðalhiti  hér er semsagt verulega lægri en í framangreindum borgum,  svo ég tali nú ekki um hinn mikla vindhraða og  síbreytileika  hitastigs  milli frosts og þýðu,  jafnvel oft á dag.  Þess vegna  eru yfirbyggðar verslunarmiðstöðvar  vinsælar, en  þar er sama „veðurfar“  allt árið.  

En úr ýmsu  má þó bæta hérlendis,  og taka meira mið af veðurfari þann stutta tíma sem sumarið varir,  og tel ég að skipulagsaðilar hafi ekki leitt hugann nægjanlega að því.   Ég hef tekið eftir því að sumar  götur og  staðir í Reykjavík eru vinsælir,  og þar oft mikil mannmergð  í góðu veðri. En þessar  götur  hafa   austur-vestur stefnu  og 4-5 hæða byggingar norðan megin og göturýmið þar af leiðandi í skjóli fyrir norðanáttinni, en þá er yfirleitt sól í Reykjavík.  Sama gildir um ýmsa  staði og torg sem hafa skjól  norðan megin.  Dæmi um þetta  er   Laugavegur frá Snorrabraut að Bankastræti,  Austurstræti,  Austurvöllur norðan megin og fleira mætti telja. Svo ég tali nú ekki um lítil svæði á milli húsa s.s. garðinn aftan við Hressingarskálann og fleiri.  Það sem stendur  lífi á milli húsanna fyrir þrifum  er skortur á skjóli fyrir vindum.  Til að götulíf sé mikið þann stutta tíma sem sumarið varir, er ennfremur   mikilvægt að á jarðhæðum húsa sé lífleg starfsemi.  Tré og runnar skapa einnig skjól,  og má segja að algjör bylting hafi orðið trjárækt á síðustu áratugum. Dæmi um skjóllaus göturými  eru:  Lækjargata, Hverfisgata, Skúlagata, Lækjartorg og fleiri staðir

En víkjum aftur að  Laugavegi, að þá tel ég að Þorvaldur S.Þorvaldsson arkitekt og  fyrrverandi skipulagsstjóri í Reykjavík,  hafi gert   sér góða  grein fyrir þeim möguleikum sem gatan hefur upp á að bjóða, sérstaklega  í sól og norðanátt. Þorvaldur lét mjókka akstursbrautina,  breikka gangstéttir, gróðursetja tré, setja upp hindranir þannig  að bílum sé ekki lagt á gangstéttir  og „mublera“ göturýmið með ýmsum hætti. Nú hafa hinsvegar komið fram vanhugsaðar  tillögur um að  fjarlægja þar hindranir við gangstéttir og fella trén í stað þess að  snyrta þau og klippa.

 

Myndin efst í færslunni er tekin af Finnboga Helgasyni . Myndin sem er samsett sýnir hvernig veðurfar getur breyst í Reykjavík á stuttum tíma. Myndin er tekin á götu í Reykjavík með 7 klukkustunda millibili þann 24 apríl s.l.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Hallgrímur Guðmundsson

    Byker Wall i Newcastle eftir Ralph Erskin tók mið af veðurfari. kallinn teiknaði húsið fyrir 40 árum. Síðan hefur ekkert gerst.

    http://newcastlephotos.blogspot.com/2009/11/byker-wall.html

  • Ekki gleyma Jóhannesi Kjarval og Kristjáni Ásgeirssyni.:

    http://blog.pressan.is/arkitektur/2012/12/05/johannes-kjarval/

  • Ólafur Einarsson

    Ég hef tekið eftir því að rónarnir eru naskir á að finna skjólgóða og sólríka staði til útidvalar í borginni. Það þyrfti að kortleggja þá og gera þá huggulega.(og bola rónunum svo í burtu)

    • Njörður Snæland

      Já rónarnir eru naskir,en að bola fólki burtu,eru þeir ekki hluti af mannlífi borgarinnar,hvað til dæmis með Nýhöfn í Köben,nei ég bara spyr.

    • Sammála síðasta ræðumanni. Það á ekki að bola nokkrum manni i burtu. Rónar eru hluti af litrófi mannlífsins og eiga að vera sýnilegir ef ekki er hægt að lækna þá. Það á allavega ekki að reka þá inn í einhver skúmaskot. Mér finnst reyndar gaman að rónunum þegar þei verða á vegi manns. þetta eru meinleysis náungar þar sem þeir sitja með bjórinn sinn. Það eru fyrst hin hörðu eiturlyf sem gera einstaklingana hættulega

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn