Föstudagur 03.05.2013 - 11:59 - 39 ummæli

Verkfræðingar – Arkitektar

 35029_10200876439098082_155425912_n

 

Þó mig gruni ástæðuna, þá hef ég aldrei skilið hvers vegna verkfræðingar eru sífellt að færa verksvið sitt inná sérsvið arkitekta. Þessar tvær stéttir vinna mikið saman en verkefnin og nálgunin eru gjörólík.

Arkitektar bera virðingu fyrir sérþekkingu verkfræðinga og eru almennt ánægðir með hvernig þeir vinna verk sín en þeim finnst hálf hallærislegt þegar þeir taka að sér arkitektavinnu.

Verkfræðingar viðast ekki skilja sérþekkingu arkitekta nægjanlega svo maður alhæfi smávegis og þetta skilningsleysi nær inn í háskólana. Sennilega væri þessu öðruvísi háttað ef t.a.m. arkitektanám á Íslandi hefði verið vistað við Háskóla Íslands eins og Arkitektafélagið ályktaði um á sínum tíma.

Að mínu mati er vinna verkfræðinga  auðveldari en arkitekta vegna þess að þeir byrja á vinnunni þegar arkitektarnir eru búnir að taka 80% ákvarðananna.

Verkfræðingarnir geta oftast reiknað sig til útkomu eða fylgt verkferlum sem leiða þá áfram til einhverrrar niðurstöðu.

 Það geta arkitektar ekki.

Þeir byrja bókstaflega á auðu blaði. Þeir verða að vinna sig að niðurstöðunni svipað og vísindamenn gera með tilgátum sínum sem þeir þurfa svo að sannreyna. Oftast, eins og hjá vísindamönnum,  þarf margar tilgátur áður en komið er á réttu brautina. Svona er þetta í hverju einasta arkitektaverkefni. Og arkitektaverkefni er nánast aldrei endurtekið.

Þeir þurfa alltaf að byrja upp á nýtt og á auðu blaði.  Öll hús og öll skipulög eru einstök.

Því er ég að velta þessu öllu  fyrir mér?

Jú, ástæðan er sú að kollegar mínir hafa átt við mig orð og fundið að því að ég réttlætti nýlega að landslagsarkitektar eru að færa sig inn á verksvið sem arkitektar sinntu áður. Þeir taka að sér skipulagsvinnu, bæði aðal- og deiliskipulög.

Svar mitt er að mér finnst það í lagi vegna þess að landslagsarkitektinn nálgast lausn sína með aðferðarfræði arkitektsins .

Þessu er öðruvísi farið með verkfræðinga þegar þeir taka að sér arkitektavinnu. Þeir nálgast verk sitt með öðrum hætti en arkitektar. Það er oft sagt að verkfræðingar viti mikið um lítið  meðan arkitektarnir viti lítið um mikið, og sjái heildarmyndina því betur en t.a.m. verkfræðingar.

Ég nefni nokkur dæmi um verkefni sem heyra til arkitekta en verkfræðingar hafa  tekið að sér.

Arkitektar eru menntaðir í því að gera þarfagreiningar fyrir byggingar. Þótt ótrúlegt sé þá, hika verkfræðingar ekki við að leiða slíka vinnu.

Arkitektar og landslagsarkitektar eru  lærðir í að vinna með mannvirki í landslaginu. Þrátt fyrir þetta hika verkfræðingar ekki við að staðsetja mannvirki í landinu án aðkomu sérfræðinga á borð við arkitekta og landslagsarkitekta. Sjáið bara veginn og mislægu gatnamótin við Gálgahraun.

Verkfræðingar hafa ítrekað tekið að sér að semja keppnislýsingar í arkitektasamkeppnum þó svo að þeir hafi aldrei nokkurntíman tekið þátt í slíkri keppni nema sem ráðgjafar á þröngum  sérsviðum.

Verkfræðingar eru nánast búnir að taka af arkitektum vinnuna við að hafa verkefnastjósn eða eftirlit með framkvæmdum sem hannaðar eru og hugsaðar af arkitektum.

Og í lokin vil ég nefna að verkfræðingar eru svo kotrosknir að þeir hika ekki við eð gera tilboð í skipulagsvinnu sem ætti alfarið að vera á höndum arkitekta og landslagsarkitekta.  Verkfræðingar eiga ekki að vera í skipulagi öðruvísi en ráðgafar á sérsviðum sínum þar sem þeir leggja t.d. fram tölulegar upplýsingar um flutningsgetu gatna og klóakleiðslna svo dæmi séu tekin.

Í nýlegu “örútboði” hjá Reykjavíkurborg um gerð hverfaskipulags buðu einar 7 öflugar verkfræðistofur þjónustu sína í þessa vinnu, sem er á sérsviði arkitekta og landslagsarkitekta.

Þurfa verkfræðingar ekki að halda aðeins aftur af sér hvað þetta varðar og skilgreina takmörk sín og verksvið betur? Þurfa verkkaupar ekki líka að hugsa sinn gang þegar þeir fela öðrum en arkitektum arkitektaverkefni?

Það gengur auðvitað ekki að sveitarfélög, opinberir aðilar og einkaaðilar feli verkfræðingum arkitektastörf og öfugt!

Hér er slóð að færslunni sem er tilefni þessarra skrifa.:

fhttp://blog.dv.is/arkitektur/2013/04/18/landslagsarkitektar/.

Myndirnar sem fylgja færslunni eru af fyrirhuguðum vegi í Gálgahrauni sem ber keim af verkfræðilegri nálgun exelskjalsins þar sem flutningsgeta og umferðahraði virðast vera megin forsendur hönnunarinnar. Allt annað víkur.

Gálgakrop

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (39)

  • Ólyginn sagði mér að skipulagsfræðingar lærðu ýmislegt um skipulag sem yfirleitt er hvorki kennt í arkitekta- eða verkfræðiskólum. þessa sér þó lítinn vott hjá Skipulagsstofnun eða Umhverfisráðuneytinu sem fer með yfirstjórn þessara mála. Það er bara eftir öðru að arkitektar, verkfræðingar og landslagsarkitektar bítist á um þetta sérsvið. Svo eru skipulagsfræðingar líka bundnir ákveðnum siðareglum sem öðrum er ekki skylt að fara eftir. Nýlegt útboð Reykjavíkurborgar á hverfaskipulagi er lýsandi fyrir dapurlegt ástand þessara mála. Og alltaf er almenningur látinn borga fyrir vitleysuna!!

    • Guðmundur Kristján Jónsson

      Ég verð að taka undir með Gesti og Arnþóri hér að ofan og spyrja Hilmar hvort að hann sé ekki að taka örlítið of djúpt í árina með eftirfandi setningu:

      „Og í lokin vil ég nefna að verkfræðingar eru svo kotrosknir að þeir hika ekki við eð gera tilboð í skipulagsvinnu sem ætti alfarið að vera á höndum arkitekta og landslagsarkitekta.“

      Það er kannski helst orðið „alfarið“ sem truflar mig í þessu samhengi. Sem nemandi í afar krefjandi skipulagsfræðinámi við einn fremsta háskóla í Kanada vinn ég oft náið með arkitektanemum sem þó læra undir annarri deild en við í skipulagsfræðinni (School of Planning/School of Architecture). Í því samstarfi endurspeglast oft þær áherslubreytingar sem ríkja á milli stéttanna tveggja sem einna helst felast í mismunandi áherslum á t.d. félagslegum og umhverfislegum þáttum skipulagsgerðar. Til að mynda virðist vistfræði (e. ecology) ekki vera hluti af skyldunámi arkitekta við LHÍ en það eru fræði sem margir skipulagsfræðingar eru sérfræðingar í. Þegar ég vinn með verkfræðinemum að verkefnum endurspeglast munurinn milli þessara þriggja stétta enn frekar. Í allri vinnu er þó er alið á gagnkvæmri virðingu og jafnræði milli alla sem að verkefnunum koma enda öllum ljóst að góð skipulög verða ekki gerð af eingöngu arkitektum, skipulagsfræðingum né verkfræðingum.

      Í fljótu minni held ég að ég hafi aldrei orðið vitni að umræðu sem þessari í Kanada þar sem ég fylgist óhjákvæmlega afar vel með þessum málaflokki. Ástæðan fyrir því er mögulega sú að þar er skýr greinarmunur gerður á milli verksviða þeirra fagaðila sem koma að verkefnum þar sem gagnkvæm virðing er höfð að leiðarljósi.

    • Hilmar Þór

      Jú Guðmundur Kristján. Þetta er allt samvinna stéttanna sem á að fara fram af virðingu og umburðalyndi. Orðið „alfarið“ á ekki heima þarna. En ég er á því að verkfræðingar eiga helst ekki að leiða skipulagsvinnu nema í undantekningartilfellum þó nauðsynlegt sé að þeir komi að vinnunni á sérsviðum sínum.

    • Örnólfur Hall

      Gestur hefur ítrekað bent á þessi sannindi í fjölmiðlun en við litlar undirtektir ráðamanna og forystusauða.

  • Joð. Ó. Ó

    Verkfræðingum hættir að skipuleggja fyrir bíla og framreikna aukninguna eins og um sé að ræða ávöxtun fjár. Hagverkfræðingar eru verstir allra verkfræðinga hvað þetta varðar. Arkitektar vilja skipuleggja fyrir manneskjuna en stjórnmálamenn og verkfræðingar flækjast fyrir þeim með hagsmuni verktaka og braskara í huga. Bílanaustreitinn, Höfðatorgsreiturinn og Lýsislóðin. Þetta eru allt braskaraskipulög andskotans.

  • Svona eiga stéttir að tala saman. Draga ekkert undan og vera sanngjarnar þó svo að þær séu ósammála.
    Þessi pistill á fullan rétt á sér og þar kemur fram ýmislegt sem menn úr báðum stéttum hafa verið að hugsa en ekki viljað segja.
    Sannleikurinn er samt sá að arkitektar hafa verið slappir að halda utan um sitt og oft beðið verkfræðinga beinlínis um að taka að sér þeirra vinnu(magntöluskrár, verklýsingar og fleira) Eitt er samt alveg klárt og það er að verkfræðingar eiga ekki að skipuleggja borgir eða þorp eða land.

  • Arnþór Tryggvason

    Nú skrifar þú um að fagstéttir fara yfir verksvið annara fagstétta og að þar séu verkfræðingar sökudólgarnir.
    Eru þá arkitektar (og verkfræðingar) ekki að taka yfir verksvið skipulagsfræðinga við gerð á skipulögum?

  • þorgeir Jónsson

    Við skulum ekki gleyma því hvor starfsstéttin kom fyrr til sögunnar.
    Verkfræðin er skilgetið afkvæmi byggingalistar. Frakkar skildu fyrst að verkfræði og arkitektúr, þegar ljóst var að stálbyggingar urðu of flóknar fyrir flesta arkitekta. Sérhæfingin var nauðsynleg þá.

    Hins vegar væri óskandi að verkfræðingar færu eftir alþjóðlegum stöðlum í vegagerð hvað umferðaröryggi varðar. Það eru ekki mörg ár síðan verkfræðingar gáfu okkur nothæfa staðla til að fara eftir í vegagerð hér á landi. Enn er töluvert langt í land í þeim efnum hér, sé miðað við ástandið í nágranna löndum okkar. Hér er enn verið að forgangsraða öryggiskröfum við vegagerð. Dæmi: Oft er hætt við að setja upp vegrið á snjóþungum stöðum þar sem mun erfiðara er að moka vegina ef vegrið eru þar. Öryggissvæðum (öxlum) til hliðar við veginn beggja vegna er sleppt vegna kostnaðarauka. Þarna er ef til vill nýtt verksvið fyrir okkur arkitekta í hinni ímynduðu valdabaráttu um verkefnin. Umferðaröryggi er arkitektúr!

    • Hlöðver

      Upplýsandi, fræðandi og skemmtilegt komment hjá Þorgeiri.

  • Nefndir háskólaborgarar eig þó eitt sameiginlegt og það er að skapa mönnum fjandsamlegt umhverfi.

  • Pétur Örn Björnsson

    Yin og Yang eru vissulega Yin og Yang … en það er Ki
    … útkoman sem öllu máli skiptir … en Ki verður ekki að veruleika nema
    vegna þess að Yin og Yang eru af sitt hvorum toga.
    Allt togast á, en fellur svo saman í Ki … og svo framvegis, því allt er andans og efnisins streymi.

    Annars dettur mér nú í hug stórskemmtilegur þáttur sem ég sá einhvern tíma í danska sjónvarpinu fyrir langalöngu um tangó tónlist. Ég gat ekki annað en kímt þá yfir því að hver á fætur annarri var kynnt einhver „ný“ grein þeirrar tónlistar og alltaf fylgdi sama þulukennda millistefið í þulnum sem sagði aftur og aftur og aftur og næstum óendanlega oft að mér fannst „og urðu allir þeir sem á eftir komu fyrir áhrifum frá þeirri grein“ … og alltaf dönsuðu „ný“ og „ný“ pör saman og reigðu sig sem hani og hæna … af mikilli þind.

  • Tek undir með Ríkharði.

    Yin og Yang.

  • Til hamingju Hilmar með þessa síðu þína og ég skil vel aðferðafræðina þína. En þú verður að brosa umburðarlyndur þegar þér tekst að æsa einhvern til andmæla sem fara yfir strikið. Ég hef lesið skrifin þín með ánægju en mörg „kommentin“ með furðu.
    Ég verð að játa að vera einn af þeim sem oft hafa læðst inn á starfssvið sem ég hef ekki lært í skóla og raunar hef ég aldrei unnið á þeim sviðum sem ég lærði í skóla nema kannski þegar ég var að reikna boltagötin hans Ólafs Elíassonar í kubbunum í Hörpu í lag.
    En ég labbaði alltaf yfir landamærin í fylgd mér reyndari manna, arkitekta eða annarra og lærði af þeim. Menn mega ekki verða sjálfhverfir og tapa réttu mati á sjálfum sér, þá fer allt í vitleysu hvort sem þeir eru arkitektar eða verkfræðingar. Og sá sem er sjálfhverfastur af öllum er bæði verkfræðingur og arkitekt og mun meira menntaður verkfræðingur en arkitekt, Calatrava. En honum hefur gengið nokkuð vel þó hann vinni nú reyndar bara einu sinni fyrir hvern verkkaupa, þá virðist vera nóg af þeim.

  • Hilmar Þór

    Þakka ykkur athugasemdina Ríkharður og Sigmundur Davíð.

    ‘Eg er ekki að segja að verkfæðingar og arkitektar eigi ekki að vinna saman. Þvert á móti er það einmitt þannig að þeir geta ekki án hvors annars verið.

    Ríkharður er einn þeirra tuga verkfræðinga sem ég hef unnið með og hafa mikin skilning á arkitektúr og hafa oft lagt arkitekúrnum lið í hugmyndavinnunni. Ég þakka það auðvitað.

    En takið eftir að að ég segi beinlínis í inngangi að ég tek mér það bessaleyfi að alhæfa pínulítið. það geri ég til þess að vera svoldi í svart/hvítu í þeirri von um að fá fram viðbrögð. ‘Eg viðurkenni að ég hef stundum svoldið óbragð í munni þegar ég er að reyna að prófokera fram umræðu með þessari aðferð, En hún virkar.

    Hinvegar átti pistillinn að fjalla um það að verkfræðingar eru að færa sig inn á svið arkitekta í auknu mæli.

    Fyrir minnhlut finnst mér þeir eigi ekki að skrifa lýsingar í arkitektasamkeppnum og í raun tók steininn úr þegar ég sé að þeir eru að ásælast skipulagsvinnu sem leiðandi aðilar.

    Og smáviðbót. það er mikið fagnaðarefni að við eigum nú von á að fá í ríkisstjórn ráðherra, vonandi sem forsætisráðherra, sem er meðvitaður um mikilvægi skipulags og arkitektúrs í öllu okkar samfélagi.

  • Sigmundur Davíð

    Heilir og sælir

    Ég sé að þessi umræða sé á ákveðnum villigötum.

    Þegar ég var í skipulagsarcitecture í Oxford þá komst ég oft í kynni við verkfræðinga og eitt sem ég get sagt um þá að án þeirra þá myndi enginn, ég endurtek enginn stórvægileg bygging standast kröfur ef einungis arkitektar eða einungis verkfræðingar fengu ráðið. Gott að gott fólk geti unnið saman.

    • Dr. Samúel Jónsson

      Lifi ungmennafélagsandinn og hver hrísla sem verða vill og hver bóndi sem bústólpi og svo má að því hlæja að horfa á Össur sem súrrealískan urriða í Þingvallavatni. Fyrr var oft og enn mun þá kátt í kotum verða.

  • Ég er furðu lostinn yfir þessari umræðu og skil ekki hvernig hægt er að alhæfa svona að arkitektar séu nákvæmlega eitt og verkfræðingar annað. Þetta eru heiti yfir starfsstéttir sem eru hins vegar myndaðar af fjölda einstaklinga með mjög mismunandi viðhorf, skoðanir og þekkingu. Enginn einn arkitekt ræður við öll þau verkefni sem innan geirans kunna að falla til og enn síður á það við um verkfræðinga.
    Ég hef á langri starfsævi sem verkfræðingur myndað hönnunarteymi með fjölda arkitekta og raunar listamönnum líka, t.d. Þorsteini Gunnarssyni, Manfreð, Dr Magga, Hilmari og Finni, Steve og Margréti, Hornsteinum, Batteríinu, listamanninum Árna Páli og mörgum fleirum. Aldrei minnist ég þess að það hafi nokkurn tíma komið upp umræða um verksvið eða valdsvið. Ef fólk ber virðingu fyrir sjálfu sér og öðrum, þekkingu og hæfni hvers annars eru svona vandamál algjörlega óþörf.

  • Af því að verkfræðingar eru praktískir, en arkitektar eru uppteknir af því að framleiða listaverk.

    „Þeir þurfa alltaf að byrja upp á nýtt og á auðu blaði. Öll hús og öll skipulög eru einstök.“

    Að mestu leyti kjaftæði.

    Húsið hefur ákveðið mörg herbergi, innan ákveðinnar stærðar, þarf að vera auðvelt í viðhaldi, og vera skítsæmilega útlítandi. En ég hef engan áhuga á því að styrkja arkitektinn í því að útbúa einhvern skúlptúr um óendanlega snilld arkitektsins.

    • Hilmar Þór

      Brjánn.

      Mikið væri lífið leiðinlegt ef það væri jafn einfalt og þú heldur að það sé.

      Ég nenni ekki að svara þér af einhverjum þunga án þess að vira hver nú ert nákvæmlega.

      Gefðu þig fram og ég skal reyna að greina tilvitnaða setningu þannig að allir skilji sem eitthvað hugsa.

  • Kristofer Lager Olafsson

    Arcitectar vita jafn mikið um burðarþol og byggingareðlisfræði og börn. Enda þarf stundum að koma fram við þa sem börn.

    • Hilmar Þór

      Kristofer.
      Mér skilst að þú sérst verkfræðingur. Af ummælum þínum sannast það sem ég er að segja í pistlinum. Margir ykkar skilja ekki verksvið arkiteta, alla vega ekki þú. Arkitektar eiga ekki að þurfa að vita mikið um burðarþol. Þeir þurfa hinsvegar að hafa skilning og tilfinningu fyrir burðarþoli. Og það hafa þeir. En ekki gleyma því að arkitektar sækja einmitt til verkfræðinga til þess að leysa þessi verkfræðilegu úrlaunarmál.

    • Örnólfur Hall

      Okkur arkitektúrnemum í T.H. Stuttgart var ekkert hlíft við að kynnast burðarþoli hjá Prof. Dr. Curt Siegel. — Í ‘barnaskap’ mínum valdi ég m.a. sem verkefni skýli fyrir tvær Boeingþotur og að reikna sperruverkið í það. Það varð mikil vinna og mikill lærdómur sem ég er æfinlega þakklátur Siegel fyrir að hafa þrælað mér í gegn um. — Blessuð sé minnig þess góða verkfræðings og arkitekts.

  • Thad hefur nu gefist vel herna i Ameriku ad hafa baedi arkitekturinn og verkfraedina i sama skola. Arkitektarnemendurnir taka nokkra inngangskursa i almennri burdartholsfraedi innan verkfraedinnar. A sama tima taka verkfraedingar kursa innan theirra deildar. Thetta hefur gefist vel.

    Heima Islandi faer fagurfraedin ad vikja fyrir almennri skynsemi. Stundum eru einfoldustu natturulogmal svivirt af arkitektum, ad madur a stundum ekki til ord.

  • stefán benediktsson

    Torfi Hjartar bendir réttilega á að skipulag er ferli sem margir (Arkitektar) koma að. Vandinn sem nú blasir við er að búið er að skipuleggja og byggja hverfi sem gerir ráð fyrir þessari breytingu. Húsin sem standa norðan núv. vegar eru staðsett með breytta umferð á núv vegi í huga. OK við gætum sökkt götunni og dregið úr neikvæðum áhrifum hennar fyrir nýbúana en erum um leið búin að loka þá innfæddu sunnan götunnar inni. Vegarstæðið er svo mjótt að tengibraut fyrir þá með römpum verður illa komið fyrir. Gaman væri samt að sjá einhvern setjast niður og teikna þennan möguleika því þegar framhjá nýja hverfinu er komið snýst málið bara um breikkun og sneiðingar.

  • Þetta er angi af mun stærra máli. Það er augljóst að margir hafa áhuga á að færa sig inn á svið skapandi stétta og telja sig hafa fullan rétt á slíku. Ástæðan er póstmódernískur jöfnuður allra hluta – allt er jafngilt. Það var mikið gæfuspor að arkitetktúrnámið lenti undir LHÍ, þvert á það sem arkitektafélagið vildi. Fagurfræðin á í vök að verjast hér á landi og eflaust víðar og því er mikilvægt að lögð sé rækt við þann þátt allra framkvæmda. Góður arkitekt lætur reyna á hugmyndir sínar og þær verða að standast einföldustu náttúrulögmál. Það er verkfræðinga að sannreyna þær í sínum módelum. Þetta á jafnt við um veglínur sem aðrar línur.

    • Pétur Örn Björnsson

      „Póstmódernískur jöfnuður“ ? Hvers konar „jöfnuður“ er það eiginlega?

      Að brjóta niður fagstéttir í nafni „jafnaðar“???????????????????????

    • Pétur Örn Björnsson

      Ég skal ítreka það sem ég sagði:

      „… öll stéttarvitund er á hröðu undanhaldi og beint og óbeint unnið að því af búrakrötum og glóbalískum kerfisliðum, að deila svo og drottna að allt sé brotið svo niður og molað undir þeirra herra og eigin kerfislægu rassa.

      Það er þeirra lifibrauð að virða staðaranda og móavit að vettugi, en hampa þeim mun meira sínum innmúruðu og innvígðu stöðluðu fyrirskipunum, skv. tilskipunum yfirþjóðlegra banka og búrakrata:

      “Eftir því sem lög og fyrirskipanir verða fleiri, þeim mun meira verður um þjófa og ræningja.” (Lao Tze)“

    • Hilmar Þór

      Þetta er athyglisverð athugasemd hjá þér Kristinn og stendur fyrir sínu. En ég held að það hefði gagnast fagurfræðinni betur ef arlitektúrkennsla hefði verið vistuð í HÍ. Byggingalistadeild hefði haft mikið að segja fyrir alla 10 þúsund nema skólans auk starfsliðs. Skilningur viðskiptafræðinga, lögfræðinga, presta og svo maður tali nú ekki um verkfræðinga væri að líkindum meiri á byggingalist og öðrum listum ef götur allra þessarra nema á mismunandi sviðum krossast í þeirra daglega starfi. Fagurfræðin á í vök að verjast og það er rétt hjá þér, þess vegna á ekki að loka hana inni í þröngu samfélagi LHÍ

    • Örnólfur Hall

      Minn góði glöggi kollegi Pétur Örn notar þau öflugu ráð að grípa til Lao Tze til að skýra myndina þegar allt er að verða þokukennt í umræðunni.

  • Torfi Hjartarson

    Skipulagsstjóri ríkisins er arkitekt, skipulagsstjórinn í Garðabæ er arkitekt, aðalskipulagið í Garðabæ er unnið af arkitekt o.s.frv. Aðkoma verkfræðinga felst í því að hanna veg í samræmi við gildandi veghönnunarstaðla á 21. öldinni. Ef menn vilja gera einhverjar málamiðlanir varðandi legu og öryggi mannvirkja þá verða þeir að breyta eigin forsendum fyrst og vera tilbúnir að taka afleiðingunum.

    • Jóhann ólafsson

      Torfi.
      Þá er spurningin…Hver býr til staðlana. Og svo má halda áfram og spyrja hvort einkabíllinn sé eina hugsanlega samgöngutækið? Eða hvort dreifa megi þjónustunni þannig að minnka megi umferðaálagið og þar með göturnar.

      „það er hægt að fara margar leiðir til Rómar“

      Þessi vegaspottti er ekki vitlaus. Hann er bara hannaður miðað við þrönga hagsmuni. Verkfræðingurinn hefur ekki séð út fyrir borðið sitt.

    • Góður punktur Torfi. Ætli vegstaðall hafi ekki ráðið ferð.

      Ef horft er á myndina sem sýnir nyja legu Álftanesvegar blasir við að með formi nýs vegar er verið uppfylla kröfur um hraða án hindrana, þ.e. stórir bogar og mislæg gatnamót. Það hefði mátt nálgast verkið með öðrum hætti með hringtorgum við gatnamót og beinum veg á milli torga. Afköstin eitthvað minni, en eru þau vandamál á Álftanesvegi? Hraðinn væri minni vegna torganna sem er kostur m.t.t. öryggis. Þannig lausn félli vel að gamla vegstæðinu, af myndinni að dæma og tugir ef ekki hundruð milljóna gætu sparast í beinhörðum peningum og kostnaði vegna slysa.

      Annars er öllum hollt að kunna sín takmörk óháð stétt. 🙂

    • Pétur Örn Björnsson

      Kjarni vandans er kerfislægur.

      Móavitinu er gleymt, en staðlarnir látnir ráða ferðinni.
      Það leiðir ætíð til ógangna og gildir þá einu hvaða stétt er um að ræða.

      Annars má svo sem líka segja að öll stéttarvitund er á hröðu undanhaldi og beint og óbeint unnið að því af búrakrötum og glóbalískum kerfisliðum, að deila svo og drottna að allt sé brotið svo niður og molað undir þeirra herra og eigin kerfislægu rassa.

      Það er þeirra lifibrauð að virða staðaranda og móavit að vettugi, en hampa þeim mun meira sínum innmúruðu og innvígðu stöðluðu fyrirskipunum, skv. tilskipunum yfirþjóðlegra banka og búrakrata:

      „Eftir því sem lög og fyrirskipanir verða fleiri, þeim mun meira verður um þjófa og ræningja.“ (Lao Tze)

    • Pétur Örn Björnsson

      Einyrkjar, lítil og meðalstór fag-fyrirtæki berjast nú fyrir lífi sínu
      meðan stórfyrirtæki, hið opinbera og uppreistir hrunbankar tútna út
      af helíum gasi stundargleðinnar og trúðar þeirra dansa þar
      í þægilegri launaáskrift eins og enginn sé morgundagurirnn í Hruna.

      Þessi þróun er ekki bundin við okkar land, hún tröllríður nú heimsbyggðinni í hinum staðlaða glóbalisma, sem kennir sig við sjálfbærni, en er jafn ósjálfbær
      og dramb það sem ætíð er falli næst, líkt og öll heimsveldi sögunnar hafa sannað … með falli sínu í gegnum tíðina:

      http://theeconomiccollapseblog.com/archives/they-are-murdering-small-business-the-percentage-of-self-employed-americans-is-at-a-record-low

  • Það fyrsta sem íslenskir verkfræðingar (sér í lagi karlkyns) þurfa að gera er að skipta gallabuxunum og flíspeysunni út fyrir snyrtilegri og smekklegri fatnað. Til dæmis skyrtu og stakan jakka. Eitt sinn gekk ég í gegnum verkfræðistofu og sá þar karlmenn sem voru upp til hópa illa hirtir; órakaðir og ósmekklegir.

  • Pétur Örn Björnsson

    Góður pistill og þarfur um verkfræðinga, „kerfið“ og arkitekta.
    Tek undir hvert orð.

    Í mínum huga hefur þetta þó ekkert sérstaklega með það dæmi sem vísað er til að gera. Vandinn er miklu stærri og hann er kerfislægur.

  • Einar Jóhannsson

    Það er örugglega rétt að það er mikill munur á því hvernig verkfræðingar og arkitektar líta á viðfangsefnið og alveg ástæðulaust að deila um það. Ég veit ekki hvernig sá sem hannaði veginn yfir Gálgahraun mat verkefnið en það er ástæða til að draga þá álygtur sem Hilmar gerir að landið og landslagið hafi vikið fyrir útreikningum verkfræðingsins. Það er hinsvegar ekki hægt að segja að verkfræðingurinn hafi ekki unnið faglega. Það hefur hann sennilega gert. Hann lagði bara vitlausar áherslur á hvað væru aðalatriði og hvað augatrtiði. Hvar mætti gefa eftir og hvar ekki.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn