Fimmtudagur 28.12.2017 - 09:54 - 17 ummæli

Verndun staðarandans – Lög og reglugerðir.

 

Varðveisla staðarandans

Þó svo að friðun einstakra menningarminja og mannvirkja sé í ágætum farvegi verður það sama ekki sagt um staðarandann, það sem á latínu kallast „genius loci“. Staðarandinn nær til alls umhverfisins og finnst ekki bara í því sem mætir auganu. Hann tekur til alls sem maður sér og skynjar á einhverjum tilteknum stað — er einhverskonar flétta minninga og skynjunar. Allt hangir þetta saman og úr þessu er ofinn vefur sem er sérstakur fyrir hvern stað. Þegar byggt er einhvers staðar í borg eða landslagi er fléttað inn í þann vef sem fyrir er en ekki byrjað á nýjum vef.

Ef vel tekst til er það ekki hönnuðurinn einn sem ákveður útlit þeirra mannvirkja sem byggja skal. Útlitið ræðst öðru fremur af staðnum og staðarandanum. Þetta er kallað staðbundin nálgun eða staðbundinn arkitektúr (e. regionalism). Fræðimaðurinn Markús Vitrúvíus (80/70 f. Kr. –15/25 e. Kr.) taldi að ekki væri hægt að byggja með sama hætti í Egyptalandi og á Iberíuskaganum. Það væri m.a. vegna þess að veðurfar væri ekki það sama á báðum stöðum, byggingarefnið væri mismunandi, handverkið öðruvísi og menningin ólík.

Í hinu tvöþúsund ára meginverki sínu, Tíu bókum um arkítektúr, talaði Vitrúvíus um „venustas, firmitas og utilitas“. „Venustas“, eða fegurðin, er einskonar tungumál forma, rýmis og hlutfalla sem kalla á minnisstæða upplifun og tengsl við hvern stað og tengir verðmætamat kynslóðanna í efni, hughrifum, rými og formi. Vitrúvíus var tækni- og framfarasinnaður og fjallar því um „firmitas“, þ.e.a.s. hversu vel hannað og rammgert tiltekið mannvirki er. Einnig má halda því fram að Vitrúvíus hafi einna fyrstur manna vakið athygli á nytjastefnunni (funktionalismanum) þegar hann talar um „utilitas“, þ.e. nytsemi eða notagildi.

Þegar hugað er að friðun húsa og umhverfis þeirra skiptir staðarandinn meginmáli en eins og dæmin sanna missir friðun einstakra bygginga að sumu leyti marks ef samhengi þeirra í umhverfinu er rutt í burtu eins og við þekkjum af dæminu Laugavegi 2-4.

Í lögum um menningarminjar frá árinu 2012 er einkum fjallað um fornminjar ýmiskonar, einstök hús og mannvirki, skip og báta, samgöngutæki, menningarlandslag og nytjahluti sem eru vitnisburður um menningarsöguna. Ekki er í lögunum sérstaklega fjallað um næsta umhverfi þess sem á að vernda eða staðarandann.

Í menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð er fjallað um eitthvað sem fallið getur undir staðaranda. Þar segir meðal annars að áhersla skuli lögð „á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð.“ Í stefnunni er talað um að „hvetja skuli til heildarhugsunar forms og rýmis, hlutfalla, efnis og litanotkunar í samspili við umhverfið.“ Í stefnunni segir að góð hönnun sé „nátengd stað og notkun“ og feta skuli „varlega um tímabundnar sveiflur tískunnar hverju sinni.“ Í raun er hér verið að hvetja til staðbundinnar byggingarlistar, „regionalisma“.

Í skipulagslögum er lauslega tekið á staðarandanum. Þar er talað um „hverfisvernd“, sem er nátengd stað og notkun, og þess óskað að farið sé varlega þegar tískusveiflur eru annarsvegar. Þá segir í lögunum að í eldri hverfum skuli lagt mat á varðveislugildi og svipmót byggðar og einstakra bygginga sem fyrir eru (gr. 5.3.2.1.) Í lögum um umhverfisvernd er líka tekið á byggðamynstri og hverfisvernd og lögð áhersla á yfirbragð byggðar og verndun sérkenna eldri byggðar.

Í aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010–2030 er líka tekið á staðarandanum þótt það orð sé ekki notað. Í skipulaginu er talað um „borgarverndarstefnu“ og að „í miðborg Reykjavíkur séu fólgin mikil menningarverðmæti sem byggja skal á til framtíðar“ og áhersla skuli lögð á „hið staðbundna.“ Þetta sé grundvallaratriði til þess að tryggja „hagsæld borgarinnar til framtíðar og sérstöðu hennar meðal borga.“ Í aðalskipulaginu er beinlínis sagt að nýjar byggingar í eldri hverfum skuli lagaðar að „einkennum byggðarinnar þannig að þær verði til bóta fyrir umhverfið“ og sagt að hér sé átt við „einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl.“ Lögð er sérstök áhersla á að virða einkenni Reykjavíkur innan Hringbrautar með lágreista byggð og að ekki sé „heimilt að reisa hærri byggingar en 5 hæðir.“

Þegar horft er yfir málið í heild virðist ganga illa að framfylgja þeim góðu fyrirheitum og markmiðum sem er að finna í skipulagi, lögum og reglugerðum. Helstu steinarnir í þessari götu eru háværar raddir hinna svokölluðu uppbyggingarsinna, tíðarandinn og fjármagnið, ásamt veikgeðja stjórnmálamönnum og ráðgjöfum þeirra, sem sífellt láta undan. Draga má þá ályktun að vilji stjórnmálamanna til þess að móta stefnuna sé mikill en þrek þeirra til að fylgja henni eftir lítið.

++++

Þessi pistill er brot úr grein um varðveislu menningarminja sem birtist í SAGA, Tímariti Sögufélagsis í haust. Í þessu tímariti birtust nokkrar greinar um varðveislu menningarminja. Greinarnar eru afar fróðlegar og eru skrifaðar af Minjastofnun Íslands, Völu Garðarsdóttur fornleifafræðingi, Hilmari Þór Björnssyni arkitekt og  Helga Þorlákssyni sagnfræðingi.

++++

Þegar horft er á hið byggða umhverfi sýnist manni stundum að hönnuðir, skipulags og byggingafulltrúuar og kjörnir fulltrúar séu ekki sérlega meðvitaðir um þær leiðbeiningar  og laga og reglugerðarumhverfi sem fara á eftir. Með færslunni eru nokkrar skýringamyndir með tilheyrandi texta.

+++

Efst í færslunni er ljósmynd eftir Sigurgeir Sigurjónssonljósmyndara  sem sýnir kannski einmitt það sem Menningarstefna hins opinbera í mannvirkjagerð og Aðalskipulag Reykjavíkur er að vinna gegn. Þ.e.a.s. ósamræmi í byggðinni og að byggð séu hús þar sem „lögð er áhersla á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð.“  Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 þar sem sagt er að nýjar byggingar í eldri hverfum skuli lagaðar að „einkennum byggðarinnar þannig að þær verði til bóta fyrir umhverfið“ með áherslu á einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl.“

+++++

Dæmi.

Að neðan eru sýnd fjögur dæmi um hvernig góð fyrirheit í Menningarstefnu, Aðalskipulagi og reglugerðum hafa komið út í raun. Af þessum dæmum má álykta að hönnuðir, embættismenn, sjórnmálamenn og og ekki síst fjárfestar þurfi að lesa sig til og vanda sig betur.

 

 

Maður getur velt fyrir sér hvort fyrirhugaðar byggingar sem byggja á við Gamla garð samkvæmt verðlaunatillögu í samkeppni arkitekta samræmist fyrirheitum skipulagslaga, menningarstefnu og AR2010-2030 þar sem óskað eftir að farið sé varlega þegar tískusveiflur eru annarsvegar og lað leggja skuli áherslu á yfirbragð byggðar og verndun sérkenna eldri byggðar.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010–2030 er líka tekið á staðarandanum þótt það orð sé ekki notað. Í aðalskipulaginu er talað um „borgarverndarstefnu“ og að „í miðborg Reykjavíkur séu fólgin mikil menningarverðmæti sem byggja skal á til framtíðar“ og áhersla skuli lögð á „hið staðbundna.“ Þetta sé grundvallaratriði til þess að tryggja „hagsæld borgarinnar til framtíðar og sérstöðu hennar meðal borga.“ Í aðalskipulaginu er beinlínis sagt að nýjar byggingar í eldri hverfum skuli lagaðar að „einkennum byggðarinnar þannig að þær verði til bóta fyrir umhverfið og sagt að hér sé átt við einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl.“ Lögð er sérstök áhersla á að virða einkenni Reykjavíkur innan Hringbrautar með lágreista byggð og að ekki sé „heimilt að reisa hærri byggingar en 5 hæðir.“ Við Hafnartorg virðist ekkert af þessum skilyrðum uppfyllt. Þvert á móti eru þau beinlínis brotin þar sem þarna er verið að byggja 6 hæða hús.

Þegar hugað er að friðun húsa og umhverfis þeirra skiptir staðarandinn meginmáli en eins og dæmin sanna missir friðun einstakra bygginga að sumu leyti marks ef samhengi þeirra í umhverfinu er rutt í burtu eins og dæmið af Laugavegi 2-4 sýnir.

Í menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð er fjallað um eitthvað sem fallið getur undir staðaranda. Þar segir meðal annars að áhersla skuli lögð á „einkennum byggðarinnar þannig að þær verði til bóta fyrir umhverfið“ og sagt að hér sé átt við „einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl.“ og að hugað sé að  „heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð.“ Í stefnunni er talað um að „hvetja skuli til heildarhugsunar forms og rýmis, hlutfalla, efnis og litanotkunar í samspili við umhverfið.“ . Myndin sýnir fyrirhugaðar byggingar Landspítalans við Hringbraut og hvernig nýbyggingarnar falla að „heildarmynd og mælikvarða“ þar sem byggt er við og í eldri byggð.

++++

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Örnólfur Hall

    Í tilefni af umfjöllun hér á síðu um svokallað „Hafnartorg“ (torglaust) þá er fróðlegt að hlusta á umhverfissálfræðinginn dr. Pál Jakob Líndal í vettvangsskoðun (undir lok sl. árs) með fréttamanni RÚV í Hafnartorginu.
    Þar sem hann lýsir sólarleysinu og skuggavarpinu í þrengslunum í bákninu; útsýnisleysinu – og svo væntanlega á Hafnarsvæðinu þegar/ef allt verður uppbyggt þar (ÖH).
    Hann lýsir því líka hvernig þetta hefur mjög slæm áhrif á geðheilsu borgarbúa !
    -Aðspurður sagði hann að það væri ljóst að Hafnartorgið væri vond framkvæmd í mörgu.
    Við vorum sammála um skilja hana ekki !
    ES: Hægt er að sjá og hlusta á þetta á Sarpi/RÚV.

  • Dennis Davíð Jóhannesson

    Hilmar Þór. „Menningarstefna í Mannvirkjagerð“ er ágætlega unnið plagg. Það eru þó tveir gallar á henni að mínu mati. Annar er að stefnan nær aðeins til opinberra bygginga og hinn er sá að það er engin starfsmaður til að fylgja henni eftir. Í Skotlandi og víðar er þessu öðru vísi farið. Menningarstefna Skota, frá árinu 2000, nær til alls hins byggða umhverfis og þar eru tvær öflugar miðstöðvar, í Glasgow og Edinborg, sem sjá um að kynna hana og aðstoða íbúa Skotlands við að fylgja henni eftir. Þegar ég sat í nefnd í Menntamálaráðauneytinu fyrir nokkrum árum síðan, þá benti ég á þessa galla en fékk litlar undirtektir og var ástæðan sögð vera fjárskortur (?). Ef til vill ættu AÍ og Hönnunarsmiðstöðin að taka þetta verkefni að sér. En til þess að það geti orðið tel ég að þurfi starfsmann (1 stöðugildi) og fjármagn.

    • Hilmar Þór

      Gaman að heyra þetta Dennis.

      Ég spurði einmitt alla sem komu að gerð Menningarstefnunnar 2007 um hver gætti þess að henni væri framfylgt. Þetta tengdist deiliskipulagi Landspítalans. Þetta var sennilega svona 2010 eða þegar deiliskipulagið var auglýst,

      Það kom bara svar frá einum sem sagðist hafa lokið sinni vinnu og ekki ætla að vera „nein lögga í þessu máli“.

      En þá var auðvitað búið að fagna útgáfinni og allir búnir með sitt freyðivín og búnir að gleyma fögrum fyrirheitum.

      Síðan hefur aldrei reynt á þetta skjal svo ég viti eða haft fréttir af enda var það tekið af lífi í mínum huga með þessu svari.

    • Hilmar Þór

      Er ekki hugsanlegt að t.a.m. Skipulagsstofnun ríkisins fengi það verkefni að fylgja þessu eftir?

      En meginmálið er að allir hönnuðir og allar stofnanir og eftirlitsaðilar (nóg er nú til ef þeim) eiga að fylgja þessu eftir og vera meðvitaðir um að þessi stefna sé til og þekkja innihald hennar og styðjast við hana í sínum daglegu störfum.

      En það gerir enginn.

      Það er meinið.

    • Dennis Davíð Jóhannesson

      Þegar ég sat í nefndinni, var fundað sérstaklega með Skipulagsstofnun, Listaháskólanum, Minjastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og fleiri aðilum. Allir lofuðu að styðja við stefnuna, hver á sínu sviði, en gallinn er sá að enginn var fenginn til að bera ábyrgð á að halda utan um verkefnið, kynna það, afla því fylgis og aðstoða byggjendur við að fylgja því eftir. Ekki fékkst einu sinni fjármagn til að gefa stefnuna út aftur á prenti. Eftir tveggja ára setu mína í nefndinni frétti ég síðan að nefndin hefði verið lögð niður. Áugaleysi Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, á þessum tíma, kom mér vissulega á óvart og olli mér miklum vonbrigðum. Á þessum tíma stóð ráðuneytið í átökum við Sigmund Davíð, sem þá var forsætisráðaherra, um verkefni sem sneru að menningararfinum. Það var ekki til að bæta úr skák. Þess má geta að Halldóra Vífilsdóttir arkitekt sat með mér í nefndinni fyrir hönd FSR og var vissulega mjög áhugsöm um stefnuna og framgang hennar en nú er hún hætt sem forstjóri FSR. Hér er því verk að vinna ef stefnan góða á að eiga tilverurétt en ekki bara að vera upp á punt.

  • Friðjón Guðjohnsen

    Áhugaverð umfjöllun um þetta mál. Í grein þinni vísar þú þrisvar í aðalskipulag Reykjavíkur þar sem talað er um „borgarverndarstefnu“ og hverfisvernd:


    Lögð er sérstök áhersla á að virða einkenni Reykjavíkur innan Hringbrautar með lágreista byggð og að „ekki sé heimilt að reisa hærri byggingar en 5 hæðir“.

    Í þeim tilfellum sem þú nefnir á þetta við en það er algengur misskilningur (m.a. hjá Minjastofnun Íslands) að þessi borgarverndarstefna nái yfir ALLT svæðið innan Hringbrautar.

    https://drive.google.com/open?id=1ayDdfSGqZH6faa0Vqs1xvyR0lH7DzuR6

    Staðreyndin er sú að nokkrir reitir innan Hringbrautar falla ekki undir þessa borgarvenrdarstefnu eins og sést á skýringarmynd með aðalskipulaginu á bls. 167 (linkur hér fyrir ofan). Þar á meðal er reitur, sem stendur mér nokkuð nær, og kallaður er Holtsgötureitur. Líklega hefur borgin, við setningu aðalskipulagsins haldið þessum reitum utan samþykktrar borgarverndarstefnu vegna þess að þegar er búið að heimila þar uppbyggingu sem rúmast ekki innan slíkrar verndarstefnu.

    Mér finnst líka að hafa beri í huga þegar talað er um vernd staðarandans þá erum við að tala um hvaða kvaðir við sem samfélag ættlum að leggja á húseigendur á slíkum svæðum. Þessar kvaðir eru byggðar á því hvað einhverjum embættis- stjórnmála- eða öðrum atvinnumönnum þykir fallegt en þeir sem eiga að þola slíkar kvaðir eiga síðan að una þeim jafnvel þannig að þeir geti ekki nýtt lóðir sínar eins og þeirra hugur stendur til. Það er auðvelt að afgreiða þetta eins og þú gerir með því að kalla lóðareigendur „fjárfesta“ sem felur í sér að þeir eigi að taka áhættu af fjárfestingu sinni. En lóðareigendur eru líka venjulegt fólk sem hefur um árabil átt sínar eignir. Og þegar uppbygging hefur einu sinni verið heimiluð en síðan afturkölluð er augljóslega um eignaupptöku hins opinbera að ræða.

    Aðdáun margra embættismanna og stjórnmálamanna á gömlum húsum almennt tel ég vera dæmi um ómálefnalegar kvaðir. Þetta kristallast í lögunum um vernd menningarminja en þar eru öll hús sem hafa náð 100 ára aldri sjálfkrafa friðuð án tillits til hvers húss fyrir sig. Lögin gætu hugsanlega gengið upp ef síðan væri ekki fyrir það hvernig Minjastofnun kýs að framfylgja þeim. Stofnunin hafnar alfarið að afnema friðun þannig húsa nema þau séu ónýt, ekki er tekið neitt tillit til þess sem þegar hefur verið heimilað.

    • Hilmar Þór

      Takk fyrir athugasemdina Friðjón.

      Mér þykir mjög vænt um þegar fólk rýnir í skipulagáætlanir og segir sína skoðun.

      Það er eiginlega megintilgangurinn með þessu bloggi mínu.

      Ég vil að fólk átti sig á því að skipulagið kemur ekki frá Guði og er mannanna verk og því er hægt að mótmæla og það má bæta.

      Fólk á að mynda sér skoðun og taka þátt í umræðunni eins og þú gerir hér.

      En þessi mynd sem þú vísar til er ekki á síðu 167 í minni bók sem er hér á borðinu hjá mér.

      Fyrit utan ákvæðið á síðu 159 sem ég vitnaði í er opnumynd á síðunum 42 og 43 þar sem eru merkt helstu byggingarreitir vesttan Elliðaáa. Þar má lesa þessar lykiltölur við reit merktur 7 „Miðbakki Harpa“:

      Fjöldi íbúða…………..150
      Stærð í ha……………..7,3
      Þéttleiki íbúðir/ha…… 100
      Hæðir húsa…………… 1-5 hæðir

      Já þar má ekki byggja hærra en 5 hæðir og er í fullkomnu samræmi við upplýsingar og markmið á síðu 159.

      Það er mikilvægt að það komi fram að það er smá svigrúm í þessum almennu reglum. Í almennum texta sagt að möguleg frávik sé -1/+1 hæð og yrði hún þá að vera sérstaklega rökstudd. Þetta er undanþáguákvæði sem breytir því ekki að 5 hæðir er reglan þarna í Kvosinni við hafnarbakkann. Sjötta hæðin er eitthvað sem má leyfa í sérstökum undantekningartilfellum sem verður að rökstyðja væntanlega með einhverjum almannahagsmunum að leiðarljósi. Þann rökstuðning hef ég ekki fundið þó ég hafi leitað að honum.

  • Óskar Arnórsson

    Sæll Hilmar,

    Þakka þér fyrir þetta greinargóða svar. Þú ert eflaust með pappírsútgáfuna, enda sýnist mér sú sem er á netinu hvergi innihalda þessar setningar.

    http://reykjavik.is/thjonusta/adalskipulag-reykjavikur

    Ég held áfram að leita, en ef þú eða einhver lesenda þinna getur bent mér á þetta á netinu þá væri það vel þegið.

    Hvað Hafnartorg hrærir, þá hefur verið deiliskipulag fyrir lóðina í gildi frá því árið 2006, og alltaf gert ráð fyrir sex hæðum þarna svo ég sjái. Nýtt aðalskipulag fellir ekki eldra deiliskipulag úr gildi. Endilega leiðréttu mig ef ég hef ekki fullan skilning á skipulagsferlinu–ég fór bara inn á skipulagssjána og svona blasir þetta við mér. Okkur getur fundist um það það sem við viljum, en það breytir því ekki að lóðareigendur munu vilja hámarka fjárfestingu sína á meðan við búum við núverandi kerfi og arkitektar munu þurfa að beygja sig undir vilja þeirra, svo lengi sem þeir ná ekki að sannfæra eigendurna um að byggja minna að eigin frumkvæði.

    Sjá t.d. hér: http://lukrskjol.reykjavik.is/skipulagssja/upplysingar/DSK_PDF/Austurhofn_05_06_2014.pdf

    Ég hef hvergi sagt að ég hafi miklar mætur á Hafnartorgi, enda eru þær byggingar ekki enn fullgerðar. Ég myndi vilja fá að leyfa þeim að rísa áður en ég tjái mig of mikið um það. Ég kom líka aldrei að því verki, þótt það hafi komið á borð stofunnar á meðan ég vann þar þessa átta mánuði sem ég var þar (ég var þar líka í þrjá mánuði sumarið 2007). Inntak greinar minnar var einfaldlega að það væri verið að gagnrýna arkitektana á tveimur forsendum sem gætu varla átt saman. Það væri því ómögulegt fyrir þá að koma til móts við hana. Ég hefði skrifað sömu grein fyrir hvaða stofu sem sætti þessari gagnrýni.

    En svo er nú komið að ég er sammála þér með Landspítalann, en það hefur ekkert með svokallaðan staðaranda að gera. Ég myndi líka halda að deiliskipulag gildi samkvæmt gömlu aðalskipulagi (það var samþykkt árið 2013) og að unnið sé samkvæmt því. Aftur bið ég þig að leiðrétta mig ef svo er ekki.

    Takk aftur,

    Kveðja,

    Óskar

  • Hilmar Þór

    Sæll Óskar.

    Tlivitnanir mínar í AR2010-2030 eru eftirfarandi fjögur. En þú skalt líka skoða menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð og þar verður þú margs vísari.:

    1. Ég nefni að í aðalskipulaginu sé talað um „borgarverndarstefnu“ þetta getur þú fundið út um allt í skipulaginu.

    2. Á síðu 152 stendur orðrétt.: Í miðborg Reykjavíkur og eldri hverfum borgarinnar eru fólgin mikil menningarverðmæti sem byggja skal á til framtíðar. Verndun menningararfsins og virðing fyrir sögunni og hinu staðbundna er grundvöllur þess að auka gæði byggðarinnar og aðdráttarafl borgarinnar og tryggja sérstöðu hennar meðal borga“. Landspitalinn og Hafnartorg sýna ekki virðingu fyrirsögunni og hinu staðbundna. Eða hvað?

    3. Á síðu 152 undir liðnum „Markmið“ undir lið 6 tendur orðrétt: „Nýjar byggingar í eldri hverfum verði lagaðar að einkennum byggðarinnar og verði aðeins heimilaðar að þær séu til bóta fyrir heildarsvip byggðarinnar“ og auk þess er áréttað á sömu síðu og i sama samhengi: „Hér er átt við almenn einkenni, grunnbyggðarmynstur, hæðir húsa og hlutföll, og einnig eftir atvikum stíl, byggingarefni og svipmót húsa“. Þarna brýtur að mínu mati deiliskipulag Landspítalans meginforsendur aðalskipulagsins og líka menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð. Þarna er í raun verið að segja að lóðin við Hringbraut henti ekki fyrir spítalann. Þetta varðar líka Hafnartorg og nýbyggingu við Gamla Garð.

    4. „Á svæði innan Hringbrautar (sjá mynd 9) er ekki heilmilt að reisa hærri byggingar en 5 hæðir“. Þetta stendur orðrétt á síðu 159 í miðdálki undir lið 4 undir fyrirsögninni „Markmið og skipulagsákvæði“. En í sama dálki stendur einnig en er ekki í bloggfærslu minni. „Varðveita skal ýmis sérkenni úr þróunarsöguborgarinnar og skerpa á þeim sérkennum sem mest gildi hafa“. Þarna virðist Hafnartorgið sem þú hefur miklar mætur, á líklega vegna aðkomu þinnar að verkinu, líklegabrotið hugmyndafræði aðalskipulagsins.

    Ég mátti til með að svara þér eins fljótt og mér var unnt. Nú vænti ég þess að þú leggir mat á frammistöðu kollega okkar, fjárfesta og stjórnmálamanna í þessu ljósi og hvernig þeim hefur tekist að framfylgja háleitum markmiðum aðalskipulagsins og menningarstefnuinnar. En þessi skjöl taka á þessum málum öllum á mun víðtækari hátt en kemur fram í mínu stutta bloggi.

    Kær kveðja

    Hilmar Þór

  • Óskar Arnórsson

    Sæll Hilmar og takk fyrir þennan pistil,

    Ég var að velta fyrir mér hvort þú værir til í að gefa nákvæmar tilvitnanir í aðalskipulagið, jafnvel blaðsíðu eða grein? Ég er búsettur erlendis og mig langaði að fara yfir þetta sjálfur, en hef bara aðgang að rafrænu skjölunum sem eru fáanleg á netinu. Ég er alls ekki að véfengja, enda virðist google senda mig á réttan stað, en þegar ég opna rafrænu skjölin finn ég aldrei setningarnar sem þú hefur hér að ofan í gæsalöppunum. Mig langaði bara að hafa sömu gögn og þú, ef vera skyldi að ég fyndi það hjá mér að tjá mig um málið sjálfur.

    Takk fyrir,

    Kveðja,

    Óskar

    • Hilmar Þór

      Sjálfsagt Óskar.
      Reyni að gera það á morgun en annars ekki fyrr en eftir áramót. En þá verður þú líka að tjá þig um þetta af þinni alkunnu og leitandi þekkingu með akademiskri víðsýni sem á að einkenna doktorsnema.
      Gleðilega hátíð.
      Kkv
      Hilmar Þór

  • Arkitektar þora ekki að hafa skoðun á skipulagi ef skoðunin er andstæð stefnu stjórnvalda. Og þannig er það nú bara eins og dæmin sanna. 🙁

    • Örnólfur Hall

      -Algerlega sammála þér, Egill !
      -Þeir eru margir þögulir sem gröfin og til hlés því ekki er
      verkefnavænt að gagnrýna stjórnvöld m.a. í skipulagsmálum.
      En klappa svo þeim kollegum á bakið og hvetja sem
      hafa engra hagmuna að gæta og láta vel í sér heyra !

  • Örnólfur Hall

    Hilmar,- þú manst eflaust eftir sérsniðna málþinginu um Hörpu- í Hörpu (jan. 2014) þar sem aðeins sérvaldir já-menn fengu að taka þátt.
    -Mig minnir að þú hafir verið eina gagnrýnisröddin sem fékkst náðarsamlega að vera með.
    -Aðspurðir aðstandendur málþingsins sögðu að Hjálmar Sveinsson myndi stýra (halelújakórnum) og ekki yrðu leyfðar fyrirspurnir utan úr sal.
    -Það fór þó svo að fyrirspurnir voru leyfðar vegna þrýstings.
    -Ég fór að stað með smápistil okkar kollega Guðmundar Kr. Guðmundssonar um öll ófögru grösin þar í hönnun, smíði og framkvæmd (m.a. ólöglega og hættulega Eldborgarstigann sem fólk er sífellt að detta í) .
    -Í miðjum klíðum (miðri setningu) slökkti Hjálmar á hjóðnemanum hjá mér !

    NB: Hilmar, – ég er ansi hræddur um að Hjálmar óttist eðlilega gagnrýni og fagni henni ekki !!!

    ES: Gallarnir í Hörpu sem við kollegi Guðmundur Kr. höfum gagnrýnt eru enn að koma fram og viðhaldið er orðið gríðarlegt á svona skömmum tíma !!!

  • Þetta er nokkuð réttlát og hvöss gagnrýni sem hér er borin á borð. Líklega er það einungis á færi þeirra arkitekta sem látið hafa af störfum að veita stærsta vinnuveitanda arkitekta á landinu slíkt aðhald. Þetta vita arkitektar og þora því ekki að taka undir þessi sjónarmið sem eru vel grunduð.

    • Hilmar Þór

      Ég held þetta sé misskilningur J.H.

      Akademiskt hugsandi menn á borð við Hjálmar og Dag óttast ekki gagnrýni.

      Ég held að þeir fagni henni.

      Þeir vilja auðvitað vel og gera sitt besta en ráða sennilega ekki alltaf við stöðuna og svo eru þeir sjálfsagt ekkert sammála méreðqa öðrum í öllum málum og það er allt í lagi með það. En þeir eru ekkert á móti þeim sem hafa aðra skoðun. Það held ég ekki og hef aldrei fundið fyrir því. Ég sótti fyrir nokkrum árum um verkefni í forvali og flaug í gegn. Ég held að skrif mín og gagnrýni hafi hjálpað mér frekar en hitt!!. Svona held ég að þetta sé en mundi gjarna vilja að fleiri kollegar mínir tjáðu sig meira um málefni líðandi stundar í skipulagi og byggingalist í Reykjavík og á landin öllu.

  • Þórhildur

    Þarfur pistill.

    En það má ekki gleyma því að víða hefur tekist vel til eins og þar sem uppbygging við austurenda Hafnarstrætis við gömlu Rammagerðina og nýja „straujárnshúsið“. Og svo er reiturinn milli Hverfisgötu og Laugavegs milli Klapparstígs og Smiðjustígs til algerrar fyrirmyndar enda í fullu samræmi við Menningarstefnuna og Aðalskipulagið.

    Þessi dæmi sem nefnd eru í pistlinum eru auðvitað aðfinnsluverð og það má bæta byggingunum við Bústaðaveg framan við Útvarpshúsið í upptalninguna, eina helstu menningarstofnun landsins (hvort sem mönnum líkar betur eða ver). Þar er ekki byggt í neinu samræmi við það sem fyrir er eins og Menningarstefnan og Aðalskipulagið hveður á um, ef ég skil þetta rétt.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn