Að ofan er ljósmynd af götu í nýskipulögðu hverfi í miðborg Reykjavíkur.
Að skipulaginu hafa eflaust komið hinir færustu sérfræðingar á sviðinu. Skipulagið hefur farið um hendur embættismanna og stjórnmálamanna. Ráðgjafar á sviði skipulagsmála hafa lagt þetta til og færir arkitektar hafa að lokum hannað húsin inn í deiliskipulagið.
Skipulagið hefur farið í gegnum kynningarferli og gera verður ráð fyrir að þetta sé sú niðurstaða sem menn stefndu að.
Það verður að taka fram að upphaflegu skipulagi var breytt að ósk lóðarhafa ef ég skil rétt. Við þá breytingu varð til svokallað „verktakaskipulag“ þar sem lóðarhafi hafði forræði á deiliskipulaginu og auðvitað hönnun húsanna.
Á þessu svæði var áður falleg timburhúsabyggð í bland við annað eins og vandaðar iðnaðarbyggingar Kveldúlfs og Völundar.
Ljósmyndina birti ég með leyfi Finnboga Helgasonar tannsmiðs. Hann birti hana á Facebook síðu sinni rétt áðan.
Kannski á bárujárnið á þessum blokkum að tengja þær við bárujárnshúsin sem lengi hafa einkennt hverfið. En jafnvel þessu litla atriði var klúðrað. Því bárurnar eru láréttar en ekki lóðréttar. Lóðrétt bárujárn hefði verið skárra. En það var ekki einu sinni hægt að snúa heilhveitis blikkinu rétt.
Íslendingar eru alltaf sjálfum sér verstir. Þetta er skýrt dæmi.
Deiliskipulag Landspítalans er á vegum lóðarhafa!
Er það þá „verktakaskipulag“?
„Verktakaskipulag“, kallar Hilmar Þór Björnsson þennan óskapnað og ef rétt er, að verktakar og hagsmunir þeirra ráði ferðinni í skipulagi borgarinnar þá er ekki von að vel takist til og gegnir furðu að borgaryfirvöld séu ekki kölluð til ábyrgðar. Ljósmyndin sýnir aðeins brot af kraðakinu frá Snorrabraut og vestureftir og furðulegt að fólk skuli kaupa íbúðir dýrum dómum í þessari myrkuðu veröld háhýsanna sem býður uppá takmörkuð lífsgæði.
7. apríl eftir hádegi var arkitektinn Hilmar Þór í góðu útvarpsviðtali og ræddi staðsetningu nýs Landspítala. Það var gott viðtal og skynsamlegt. Lágmarks uppbygging við Hringbraut til þess að mæta brýnustu þörf en hafin leit að svæði fyrir staðsetningu Landspítala til frambúðar. Hann var ekki með öllu sáttur við hugmynd forsætisráðherra en benti á Keldur, land sem er í eigu ríkisins, stórt svæði og liggur vel við umferðaræðum og örstutt frá flugvelli.
Keldnaholtið er auðvitað frábær staður fyrir spítalann og forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra munu auðvitað taka hugmyndinni fagnandi og líklegir til að finna rannsóknarstöðinni annan samastað á skömmum tíma.
En arkitektinn Hilmar Þór verður að fylgja Keldnahugmyndinni eftir með afgerandi hætti. Það gerir hann helst með því að rissa upp útlitsteikningu að spítalabyggingu inná þetta svæði og birta á bloggi sínu. Varla er það í trássi við siðareglur arkitekta, eða er það?
Ég er ekki hissa á að Simmi dragi fram gamlar teikningar eftir Guðjón Samúelsson ef það er þetta sem nútíminn býður uppá.
En það er verið að gera svona skipulag í dag og alla daga. Stundum eilítið betra en varla þó mikið verra.
Maður spyr sig hvort fólk sé að vanda sig og vinna í þágu heildarinnar eða bara að hugsa um að græða?
Hvernig er hægt að komast hjá þessu? Voru hvergi neinar viðvörunarbjöllur? Hvað með starfsmenn Borgarskipulagsins? Ég veit ekki betur en þar starfi vandað fólk. Ástæðan er líklega sú að skipulagsvinnan var í umsjón lóðarhafa. Það er slæm blanda eins og dæmin sýna.
Mér kemur ósjálfrátt í hug jólakvæði Steins Steinarrs : „Það skiptir mestu máli að maður græði á því“
Það er sami bragur á nýju stúdentagörðunum austan Prófessorahverfisins, þó svo að byggingarnar hafi færri hæðir og litríkara útlit.
Á húsinu til hægri eru svair til norðurs og til vinstri er svalir til suðurs en í algerum skugga! Trén tvö á hægri gangstéttinni er það eina sem hægt er að hrósa. Vonandi deyja þau ekki úr leiðindum þarna.