Þriðjudagur 24.09.2013 - 11:51 - 21 ummæli

Vesturbugt – Norðurbakki – Århus

cam10000-002

Arkitektum tekst oft illa upp þegar þeir eru að hanna og skipuleggja nýbyggingar á hafnarsvæðum.

Við þekkjum dæmin af Norðurbakka í Hafnarfirði, dæmið á Akureyri og svo er einhver vandræðagangur í uppsiglinu við Vesturbugt í Reykjavík.

Margar erlendar borgir hafa líka átt í vandræðum með þetta. Ein þeirra r Kaupmannahöfn sem hefur tapað einkennum sínum á umliðnum árum og öll hafnarstarfsemi hefur horfið. Kaupmannahöfn er ekki höfn lengur heldur “waterfront”

Þetta hefur tekist ágætlega í Stokkhólmi, Bergen, Helsinki og víðar.  Höfnin í Cape Town er líka ágæt.

Þar sem mönnum tekst vel upp virðast þeir hafa það að markmiði að breyta engu um karakter og einkenni staðanna heldur byggja við í sama anda og í sömu hlutföllum og fyrir er. Halda í staðarandann og hluta starfseminnar. Það má ekki verða svo að það sem fólk er að sækja eftir sé látið víka fyrir hinu nýja.

Þetta er mjög mikilvægt.

Svo þarf að búa þannig um að trillukarlar og allskonar smástarfsemi og einyrjar fái þar sitt svigrúm áfram. Við Sluseholmen í Kaupmammahöfn ætluðu arkiektarnir og fjáraflamenn í byggingaiðnaði að bola slíkum bjórdrekkandi smábátaeigendum sem voru í skúrum sínum að sýsla með dótið sitt í burtu. Því var mómælt af nýjum ibúum og þeir fengu að vera enda eru þeir mikilvægur hluti af því mannlífi sem verið er  að sækjast eftir á svona stöðum.

Auðvitað eru allir að gera sitt besta í sínum daglegu störfum. Líka stjórnmálamen og ráðgjafar þeirra. Það er bara einusnni þannig að menn missa stundum sjónir af aðalatriðunum og missa stjórn á verkefninu og markmiðunum. Þetta kemur fyrir alla, en er óþarfi. Mér sýnist húsið sem myndin er af efst í færslunni bera þess merki að menn hafi ekki alveg áttað sig  á aðstæðum þar sem húsið er að rísa í Vesturbugtinni í Reykjavíkurhöfn.

Hjálagt eru nokkrar myndir af nýbyggingum við hafnbarsvæðið í Árósum í Danmörku. Arkitektarnir kall þetta „Isbjærget“ sem er mér óskiljanleg skýrskotun í eitthvað sem á ekki við í Århus havn. Þess ber þó að geta að þessar byggingar eru ekki mjög nálægt gamla bænum.

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/11/18/reykjavikurhofn/

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/09/14/rammaskipulag-hafnarinnar-bakgrunnur-og-hugmyndir/

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/09/13/nytt-rammaskipulag-reykjavikurhofn/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/11/26/framtid-reykjavikurhafnar/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/11/24/hofnin-i-kaupmannahofn/

 

1-isbjerget-apartment-building-in-aarhus-by-search-jds-louis-paillard-and-cebra-1000x665

 3-isbjerget-apartment-building-in-aarhus-by-search-jds-louis-paillard-and-cebra-1024x396

7-isbjerget-apartment-building-in-aarhus-by-search-jds-louis-paillard-and-cebra

 Ekki er að sjá að hönnuðurnir hafi stefnt að líflegu mannlífi milli húsanna með smá kriddi af hafnarstrfssemi. Innblásturinn í byggingalistinni er sagður koma  frá fljótandi ísjökum. Ég hefði haldi að nægan innblátur væri að finna þarna í nágrenninu og ekki þyrfti að sækja hann norður í íshaf!.

kbh3

 Á einstaka stað í Kaupmannahöfn hafa svona skúrbyggingar fengið að standa áfram og þykja mikil gersemi fyrir fjölskrúðugr mannlíf við höfnina

kbh1

Nýlegar bggingar við höfn Kaupmannahafnar. Halldór Gunnlaugsson prófessor og Jön Utzon voru búnir að þróa humynd að byggingalist sem féll vel að borginni og hafnarstarfsseminni. En einhverjir nýhyggjumenn í bygingariðnaði og stjórnmálum voru með aðrar hugmyndir.

ff69190902b71aaf46cc553c7ad35f7aa

 Norðurbakki í Hafnarfirði er umdeildur.  Ef vel er að gáð má sjá fíngerða smáhúsabyggð að baki nýbygginganna sem naut nærveru við sjóinn og höfnina.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

  • Hilmar Gunnarsson

    Mér varð hugsað til óperuhússins í Sydney, sem er eitt frægasta arkitekta og borgartákn allra tíma. Byggingin er reist á landfyllingu, að því er virðist og fær mikið andrými og er ekki í nálægð við aðrar byggingar. Framúrskarandi dæmi um vel heppnaðan arkitektúr við sjávarsíðu.

    • Ásta Olga

      Þú nefndir líka hafnarsvæðið í Cape Town í fyrstu færslunni, þar er heil verslunarmiðstöð á tveimur hæðum, og í stíl sem kallast á við gamlar iðnaðarskemmur beint á móti, sjór og bryggjur mitt á milli bygginga sem í forminu eru líkar en starfsemin gjörólík.

  • Tengillinn hjá Ástu Olgu í innleggi 7 hér fyrir ofan skilar sér ekki. Ég set inn réttan (vonandi) tengil og hvet alla til að skrifa undir.

    http://www.petitions24.com/gegn_deiliskipulagi_fyrir_vesturbugt_slippasvaedi

    • Ásta Olga

      Takk fyrir það Guðlaugur, gert á hlaupum.
      En þetta er réttur linkur.

  • Verð að viðurkenna að ég nenni ekki lesa þessi skrif , með eða á móti. Það má vera að þessar byggingar sé á einhvern hátt „flottar“ en þær eru ekki í neinu samhengi við sitt umhverfi. Er þetta ekki orðið þannig fagleg hönnun, kunnátta og tilfinning fyrir bæði verkefni og umhverfi er farinn að víka fyrir því hvað tölvan og tölvuforitin geta gert. Þessi dæmi hafa að mínu áliti ekkert með byggingarlist að gera. Ef þetta eru frammtíðarhönnuðurnir. Hvað gerum við þá. Hvað varð um tilfinninguna „að lesa umhverfið og skynja“ :Ekki getur tölvan það eins og sést á þessu dæmum..

  • Birkir Ingibjartsson

    Sæl aftur

    Ég get vissulega tekið undir þetta og tel að skipulagið geri þetta að mörgu leyti. Það brúar bilið á milli stærri húsa í umhverfinu og þeirra smærri sem liggja aftan við skipulagssvæðið. En þetta er auðvitað alltaf spurning um hvaða samhengi á að miða. Ég efast um að fólk sé að gera ráð fyrir að þarna verði byggð lítil og falleg bárujárnshús sem er að mörgu leyti einkennandi fyrir svæðið.

    Ég er líka mjög áhugasamur um allar breytingar við höfnina, og vil að þær verði framúrskarandi góðar. Ég hef kynnt mér deiliskipulagstillöguna vel og séð í henni marga kosti en auðvitað einnig galla. Auðvitað er gott að íbúar séu meðvitaðir um hvað er að gerast í sínu nærumhverfi og taki þátt í að móta það, því mótmælir enginn.

    Ég heldur ekki ósammála því að þetta hús er alltof stórt, en það er heldur í raun ekki hluti af skipulaginu sem um er að ræða heldur arfleið frá því fyrir hrun. Þó það sé enn í byggingu þá má í raun segja það sama um það og Héðinshúsið, það bara er þarna. Þar að auki finnst mér að litli steinbærinn teljist varla með, hann er það mikið öfgadæmi í hina áttina að það er ekki hægt að nota hann sem eitthvað raunverulegt dæmi til að miða við allt hverfið við. Steinhúsið litla verður aldrei neitt meira en fallegt krútthús fyrir sitt nærumhverfi, kannski lítið kaffihús þegar fram líða stundir…

    Ástæðan fyrir því að ég kalla þetta NIMBYisma er vegna þess hvernig íbúasamtökin hafa kynnt málið. Allavega í fjölmiðlum, eða hvernig fjölmiðlar hafa kynnt þetta frá þeirra hendi. Í þeim málflutningi hefur mér fundist menn loka augum fyrir því að borgin er í stöðugri þróun og einmitt að miðborgin sé að stækka í átt að Granda með allri þeirri starfsemi sem því fylgir, svo sem smærri fyrirtæki og veitingarekstur. Það er hugsanlega vitlaust skilið hjá mér en ég hef ekki getað mætt á fundi samtakanna þar sem ég bý erlendis.

    Þá hefur mér einnig fundist að undirskriftalistinn gegn skipulaginu vera kynntur á fremur þunnum rökum. Voða lítið er talað um hvað menn vilja í staðinn en nota myndir af einhverju sem er í raun ekki til og tilfinningahlaðinn lýsingarorð til hvetja fólk til undirskriftar. Listinn setur upp afarkosti með því að hvetja til þess að fallið verði þessu skipulagi. Hvað á að koma í staðinn? Á að byrja frá grunni? Þarf bara að gera smávægilegar breytingar?

    Að lokum vil ég segja að ég er í grundvallaratriðum samþykkur skipulaginu sem nú hefur verið lagt fram og tel það mikla framför frá því þegar leggja átti Mýrargötuna í stokk. Lengi má hinsvegar gott bæta og er allavega vonandi að þessi umræða skili sér á einhvern hátt í endanlegu skipulagi.

    • Ásta Olga

      Við erum greinilega sammála um sumt Birkir og annað ekki.

      ÉG er ánægð með breytingu á aðalskipulagi þar sem hætt er við að setja Mýrargötu í stokk, þar var verbúðunum bjargað og Spilhúsastígur fékk að halda áfram að vera til og fékk meira segja nafn. Margt gott hefur gerst á síðustu árum.

      En því miður finnst mér deiliskipulagið sem nú er kynnt bera vott um að hátt nýtingarhlutfall og ‘þétting byggðar’-stefnan sé útfærð á kostnað gæða í borgarumhverfinu og sátt við nærliggjandi byggð.

      ‘Andrík svæði’ var orðalag sem Hjálmar kynnti til leiks í byrjun.
      Hvar er andríkið og hvar er hugmyndaauðgin?
      Hvar eru sjóböðin, smíðavöllurinn og vinnustofur hins skapandi geira?

      Ég sé í þessu sterílt og stíft byggingamynstur sem hægt væri að planta hvar sem er. Tengingar við einmitt allt það sem er mest spennandi við þróunina við Höfnina og Grandann vantar. Ég sé heldur ekkert þarna sem tengir svæðið við hverfið í kring. Það er eins og þetta hafi verið skipulagt sem eyja útafyrirsig.
      Samráðið var lítið sem ekkert. Íbúum í Vesturbænum er fyrst núna boðið að senda athugasemdir, þegar eiginlega er búið að ákveða að samþykkja þetta svona.

      Ég tel að arkitektar nútímans eigi að geta hannað fíngerða byggð sem fellur vel að gömlum timburhúsum. Ég tel að hægt sé að hanna byggð sem bíður uppá sveigjanleika til að mótast með straumum og stefnum framtíðarinnar.

      Hvers konar starfsemi er fyrirsjánleg þarna? ferðamannabúðir, hvalaskoðunarskálar og veitingastaðir á jarðhæðum. Ég held að við getum gert miklu flottara hverfi þar sem ferðamenn, íbúar og ýmsar atvinnugreinar fái allt að njóta sín.

      Íbúasamtökin geta ekki safnað undirskriftum fyrir nýjum hugmyndum að svo stöddu. Í upphafi ætluðum við að leggja til nokkrar breytingar en eftir því sem við skoðuðum skipulagið betur urðum við ósáttari við fleiri atriði og getum því ekki annað en lagt til að unnið verði nýtt og betra skipulag.

      Að lokum takk fyrir ábendingu um það hvernig þetta kemur þér fyrir sjónum í gegnum fjölmiðla. Þurfum greinilega að vinna í því. Við erum líka með póstlista, skráning hér: ibuasamtokvesturbaejar@gmail.com .

  • Ásta Olga

    Ef þú skoðar svæðið betur Birkir þá muntu sjá að það eru ekki tóm bílastæði í kringum umrædda nýbyggingu. Báðu megin við eru tvö friðuð hús, gamall steinbær og Alliace húsið. Þá er hæð hússins eitt en umfang annað, að byggja útí ystu lóðarmörk er einfaldlega ekki gott skipulag.

    Ég mjög áhugasöm um allar breytingar við höfnina, og vil að þær verði framúrskarandi góðar af því að þetta svæði er svo sérstakt. Hef kynnt mér deiliskipulagstillöguna vel og séð galla hennar.
    Að taka þátt í skipulagsferlinu með því að koma með vel rökstuddar athugasemdir á deiliskipulag í kynningu kalla ég metnað fyrir sameiginlegu borgarrými en ekki nimbyisma.

    Facebook síða Íbúasamtaka Vesturbæjar: https://www.facebook.com/groups/420072961363871/

  • Birkir Ingibjartsson

    Mér finnst menn aðeins vera missa sig í umræðunni um þetta svæði og eru strax farnir að gera ráð fyrir því að af því að menn klúðruðu málunum í Aarhus þá gerist það sama á Vesturbugtinni. Ískletturinn í Aarhus er til að mynda á engan hátt sambærilegur við húsið sem nú er að rísa. Og án þess að ætla taka sérstaka afstöðu til þess húss, þá er það langstærst af þeim sem skipulagið gerir ráð fyrir. Það er sjö hæðir en hin húsin verða mest 5 hæðir. Vissulega eru hinir húskjarnarir stærri en eins og ég skil skipulagið þá eru þetta einstök stigahús með mismunandi fasöðum sem mun brjóta þetta upp og gerir þetta þar af leiðandi ekki eins „stórt“.

    Ég gef heldur ekki mikið fyrir samanburðirinn við Norðurbakka. Skipulagið þar er í allt öðrum skala og hefur ekki þetta uppbrot í smærri einingar sem er mjög mikilvægt að mínu mati og meira í anda klassísks borgarskipulags.

    Og auðvitað er þetta hús stórt, það er ekkert í kringum það nema bílastæði. OG hvað með Héðinshúsið? Það er líka alveg hrikalega stórt í þessu umhverfi.

    Mér finnst þetta allt lykta af miklum NIMBY-isma og hræðslu við breytingar…!

    • Gaman væri að fá skoðun Birkis á þessu sem fram kemur í pistlinum: „Þar sem mönnum tekst vel upp virðast þeir hafa það að markmiði að breyta engu um karakter og einkenni staðanna heldur byggja við í sama anda og í sömu hlutföllum og fyrir er. Halda í staðarandann og hluta starfseminnar. Það má ekki verða svo að það sem fólk er að sækja eftir sé látið víka fyrir hinu nýja“.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér rösklega þáttöku í umræðunni hér um þetta mikilvæga mál Birkir Ingibjartsson.

      Það er alltaf skemmtilegt þegar fólk lætur sig málin varða.

      Mér finnst gæta smá miskilnings hjá þér og hann er án efa mér að kenna og ég er þakklátur fyrir að fá tækifæri til þess að leiðrétta hann. Maður þarf helst að tjá sig þannig að ekki komi upp misskilningur.

      Með dæminu af húsunum í Árósum vildi ég benda á að þar er sótt í form og liti til borgarísjaka en ekki næsta nágrennis. Það þykir mér langsótt. Ég var ekki að bera húsin þar og húsið við Vesturbugt saman þó full ástæða kunni að vera til þess. Ég var heldur ekki að bera húsin við Norðurbakka við Vesturbugt heldur voru þau tekin sem dæmi um skipulag og húsagerð sem er umdeilt á hafnarsvæðinu þar suðurfrá.

      Og að lokum hvað varðar Héðinshúsið þá er það um það að segja að það er þarna.

      Aðalmálið er að núbyggingar á hafnarsvæðum eru vandmeðfarnar eins og Þorvaldur Ágústsson bendir á að ofan.

      Nymbyismi er ekkert sem málinu kemur við. T.a.m. bý ég hvorki í Hafnarfirði, Kaupmannahöfn eða Árósum en hef samt sterkar skoðanir á þessu..

      En ég spyr eins og Jens hér að ofan um hvað þér finnist um þá nálgun sem þar er nefnd!

  • Frábært að rifja þessa hluti upp nú þegar deiliskipulag fyrir Vesturbugt er í kynningu. Við verðum að vanda okkur og læra af mistökum sem hafa verið gerð á viðkvæmum hafnarsvæðum víðs vegar. Það er hægt að gera miklu betur en það sem verið er að kynna núna og virðist snúast helst um að koma nógu mörgum íbúðum fyrir á litlu svæði.

    Vek athygli á undirskriftasöfnun Íbúasamtaka Vesturbæjar þar sem við skorum á yfirvöld að falla frá deiliskipulagi í kynningu:

    http://www.petitions24.com/inbox_message.php?message_id=26007

  • Þorvaldur Ágústsson

    Mér sýnist Miðbakki heldur ekki góður. Hann er samt mun betri en Vesturbugtarhugmyndirnar. Eftir lesturinn skilur maður að þetta er ekki auðvelt og er vandmeðfarið. Ég veit ekki hvernig á að gera þetta öðruvísi. Til dæmis Miðbakka. Kannski er best að láta hann vera eins og hann er? En er það ekki uppgjöf og kjarkleysi?
    Það þarf mun meiri umræðu um þetta mikilvæga mál sem gamla Reykjavíkurhöfn er. Ég spyr þá sem þora að tjá sig: Ef þetta á ekki að vera svona, hvernig á það þá að vera?

  • Samúel Torfi Pétursson

    Árósarbúar felldu niður bollu-a úr nafninu fyrir um tveimur árum síðan og nafn borgarinnar er ritað Aarhus í dag. Það var víst ritað þannig fram að seinna stríði. Það var svo hluti af alþjóðlegri markaðssetningu borgarinnar sem ákveðið var að rita nafnið með gamla rithættinum á ný.

  • Jón Guðmundsson

    Þetta er undarlegt íbúðarhúsnæði, stækkuð útgáfa af Hraðfrystistöðinni heitinni sem var annars stórglæsilegt frystihús, lofar ekki góðu ef framhaldið verður á sömu nótum.
    Það yrði mikið slys ef starfsemi slippsins legðist alfarið af. Til þess að Reykjavíkurhöfn verði áfram lifandi fiskihöfn er mikilvægt að glata ekki slippnum. Starfsemin í dráttarbrautunum er eitt mesta sjónarspil sem hægt er að upplifa í Reykjavík og óvíða í veröldini er hægt að komast í návígi við skip í uppsátri í miðbæ borgar eins og hér við Vesturbugtina.

    Þarna hafa skip verið dregin á land allt frá því að Ingólfur og Hallveig drógu knörrinn á land. Hér er um að ræða samfellda sögu uppsáturs í 1139 ár, lifandi menningarverðmæti án hliðstæðu hér á landi sem þarf að standa vörð um. Ef hægt er að tala um hjarta Reykjavíkur þá liggur það þarna og því megum við ekki týna.

    • Einar Jóhannsson

      Læka þetta hjá þér Jón Guðmundsson. Afar athyglisverð staðreynd.

  • Finnur Birgisson

    Hvernig í ósköpunum ætli innvolsið sé í svona húsklumpi?

  • Hafþór, þá reynir einmitt á borgaryfirvöld á stíga á bremsuna. Það er betra að einhver einn byggingaraðili / lóðarhafi fari í þrot heldur en að borgarbúar sitji uppi með skipulagsslys.

  • Hafþór Gunnars.

    Það er ekki alltaf græðgi sem gerir það að verkum að menn auka byggingarmagnið. Stundum eru það bara tær blankheit. Þeir verða að byggja meira til þess að fara ekki á hausinn. Svo er oft undanfari svona mála gjaldþrot sem lendir á bankanum eða þrotabúi. Þá þarf að selja lóðina á eins háu verði og hugsast getur til að ná einhverju inn í þrotabúið. Bankinn lánar og kaupandi pressar byggingamagnið upp í framhaldinu til að ná endum saman. Þetta er gömul saga og ný.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn