Föstudagur 05.10.2018 - 11:18 - 3 ummæli

„Bombarderum“ við gamla bæi með nýbyggingum?

 

Í Danmörku og víðar hafa menn áhyggjur af því sem kallað er skortur á sögulegri tengingu þegar byggt er inn í gömlu borgirnar.

Sagt er að við „bombarderum“ gömlu borgirnar með byggingum sem ekki eru í samhljómi við það sem fyrir er.  Við byggjum inn í borgirnar án tillits til sögunnar eða staðarandans. Sagt er að við tökum ekki tillit til neinna annarra þátta en fjármagnsins. Þetta er meginintak umræðu sem á sér stað í Danmörku um þessar mundir. Myndin að ofan er dæmi af yfirskriftum í dönskum blöðum nýverið.

Það eru margir áratugir síðan menn fóru að reyna að snúa þessari þróun við. Í Parísarborg bönnuðu menn háhýsi innan Periferíunnar fyrir 40-50 árum. Bygging Montparnasse turnsins umdeilda hófst árið 1969. Tveimur árum síðar voru byggingar yfir sjö hæðir innan Periferiunnar bannaðar. Menn voru þarna fyrir hálfri öld sammála um að svoleiðis byggingar skemma staðarandann. Það er sagt að útsýni yfir Parísarborg sé hvergi fallegra en úr þessum turni og það sé vegna þess að þaðan sér maður ekki Montparnasseturninn! Menn útbjuggu stað utan borgarinnar fyrir nútímalegar byggungar, La Defence.

Fyrir nokkrum árum var hafin söfnun fjár til þess að rífa Montparnasse turninn niður og gekk hún vel þar til menn komust að því að notað var mikið aspesti í bygginguna sem gerir það að verkum að það er nánast ekki er hægt að rífa hana. Þetta síðasta kann að vera flökkusaga.

Ég var í Lyon fyrir nokkrum dögum og sá að þar var nánast ekki að sjá nýbyggingar í gamla borgarhlutanum, en rétt þar fyrir utan var á stóru svæði að finna mikið magn af nútímabyggingum í háum gæðaflokki. Svipuð nálgun og í París. Báðir borgarhlutarnir eru skemmtilegir heim að sækja en væru báðir leiðinlegir ef þeim yrði blandað saman eins og maður upplifir víða um lönd. Því miður.

Í Lyon, París og víðast í Frakklandi eru menn meðvitaðir um gæði, staðaranda og aðdráttarafl gömlu borgarhlutanna og gera allt til þess að viðhalda staðarandanum, sem er einstakur á hverjum stað fyrir sig.  Í London, Kaupmannahöfn og Reykjavík hafa skipulagsyfirvöld ekki áttað sig á þessu og eru smátt og smátt að skemma gömlu borgarhlutanna og taka sálinu úr þeim. Skemma staðaranda sem hefur verið eftirsóttur.

Allar götur síðan Kveldúlfsskálarnir, Völundarhúsin, hús Sláturfélags Suðurlands voru rifin fyrir um 30 árum hafa menn velt fyrir sér þeim tækifærum sem þar var að finna sem vegvísir til uppbyggingar á svæðinu. Og fólk talar um hvað svæðið umhverfis Hlemm væri miklu skemmtilegra ef tekist hefði að flétta gömlu Gasstöðina inn í uppbyggingu á lóð Lögreglustöðvarinnar. Þetta hefði verið mun betra ef nýbyggingarnar hefðu verið fléttaðar inn í það sem fyrir var. Þetta eru menn að gera í sjálfri New Yorkborg þar sem High Line Park og Meatpacking District er og er mikil ánægja með þá nálgun þar í borg. Þar er nú mikið byggt og lítið rifið.

Svo, að minnstakosti mér, til mikillar undrunar sé ég á ljósmynd sem Eyþór Guðmundur Jónsson setti á vefinn Gamlar Ljósmyndir að glæsileg gömul iðnaðarhús hafa verið rifin á slippasvæðinu í Reykjavík, bara fyrir örfáum árum. Það er eins og ekki sé fylgst með umræðunni og ekki sé dregin lærdómur af því sem á undan er gengið.  Á Slippasvæðinu eiga svo að rísa hótel og íbúðahús uppá margar hæðir án tenginar við það sem fyrir var og fyrir er.

Verið er að breyta Reykjavíkurhöfn úr hafnarsvæði í það sem kallað er á ensku „Waterfront“

+++

Að neðan koma þrjár myndir. Tvær af slippasvæðinu og ein af gömlu Gasstöðinni.

Efst eru fyrirsagnir úr dönsku blöðunum og mynd af umdeildu húsi eftir hinn heimsfræga stjörnuarkitekt Rem Koolhaas sem byggt var á afar viðkvæmum stað í miðborg Kaupmannahafnar. Það er oft talað um stjörnuarkitektana sem „Touch and Go“. Þeir koma og allir hylla þá og þeir setja fingrafar sitt á umhverfið svo eftir sé tekið (sem er markmiðið) og hverfa svo á braut.

Á þessari mynd Eyþórs Guðmundar Jónssonar má sjá það sem fyrir var en nú er búið að rífa. Þetta væri kjörstaður fyrir ýmsa starfssemi. Ég nefni Listaháskóla Íslands sem hefði getað verið í þessum gömlu húsum sem hefðu fléttast inn í þétta íbúðabyggð með ýmiskonar hafnsaækinni starfssemi og íbúðum. Jafnvel líka hótelstarfssemi.

Að ofan er hluti myndar Eyþórs og að neðan glæsilegt hús Gasstöðvarinnar við Hlemm sem væri álitin borgargersemi stæði hún þarna í dag. Það var fullkomlega óþarfi að rífa þessa byggingu til þess að koma Lögreglustöðinni fyrir. Nægt var og er plássið. Ef Gasstöðin stæði þarna í dag væri hún álitin borgargersemi á pari við Safnahúsið og Þjóðleikhúsið sem standa við sömu götu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Lundúnir sem dæmi þar sem ekki er hugsað um staðarandann er rangt og skýtur í raun niður rökin í greininni. Bretar eru með þrenns konar byggingarverndun; „minnisvarða“, byggingar og svæði. Það þýðir að byggingar eru ekki bara verndaðar frá breytingum, heldu heilu göturnar, torgin, og borgarhverfin. NIMBYisminn ræður öllum ríkjum í skipulagsmálum í Lundúnum og þessi vernartæki eru notuð nánast á allt sem ekki er módernískt. Lundúnir er svo ofvernduð að hverfi eins og t.d. Chelsea eru með svæðisvernd meira en 70% af öllu hverfinu. Þessar verndanir þýða að Lundúnir svara ekki nema 1/3 af húsnæðisþörf hvers árs.
    Bretar hafa í raun ekkert skipulag. Það er að segja skipulag sem undirbúningur fyrir framtíðina. Hér er þetta er ekki eins og í Vestrænum ríkjum þar sem skipulagsdeildir vinna upp 15-50 ára skipulag fyrir uppbyggingu og innbyggingu bæja, borga og landssvæða. Gildandi skipulag í Bretlandi er núverandi uppbygging (púnktur). Allar nýjar framkvæmdir þurfa því að fara í gegnum stranga skipulagsumsókn til að breyta skipulaginu, sama hvort þú ert að gera smá viðbyggingu við húsið þitt eða skýjakljúf. Verndarsjónarmiðið er síðan notað til að stoppa allar breytingar ef hægt er. Hver skipulagsdeild er með hersingu af byggingarverndarfulltrúum í fullu starfi, en engann sem talar fyrir húsnæðisþörf ungs fólks. Þróun borgana er því algjörlega skipulagslaus og í höndunum á NIMBYistum og stórum framkvæmdaraðilum. Ofboðsleg þörfin á húsnæði setur mikinn þrýsting á framkvæmdaraðila og gerir það af verkum að allir litlir blettir sem ekki eru verndaðir eru byggðir upp í botn, með turnum hér og þar, án nokkurs tillits til innbygginar eða þróunar borgarinnar.
    Þar sem skipulagsfulltrúar hafa ekkert að gera í að hugsa um framtíðar skipulag, þá fá þau ofboðslegann áhuga á arkitektúr, þó þau séu ekki með slík skýrteini. Tískan hjá þeim síðustu áratugina er sögu- og staðartenging á eins amatörískan máta og hægt er. Útkoman fyrir nýbygginar er sálarlaus arkitektúr með múrsteinsklæðningum. Það sem Peter Cook kallar Kex Arkítektúr „biscuit architecture“.
    Það er vissulega mikilvægt að halda í og byggja upp staðaranda sem hefur ekki tekist af marki í Reykjavík. Ekki í miðboginni né í strip-mall uppbyggingu úthverfana (Verk Stúdío Granda í miðborginni er hér undantekning). En borgin þarf að geta svarað þörfum morgundagsins, og það þarf þrennt til að þetta takist vel; að vernda það sem hefur eitthvað gildi (annað en að vera bara gamalt), að krefjast vissra gæða í uppbyggingu sem endurspeglar skilgreindan staðaranda svæðisins, og gera auðveldara að rífa það sem er miður, hvort sem það er nýtt eða gamalt. Þarna þarf að treysta arkitektum að einhverju marki, jafnvægi sem getur verið erfitt að stjórna. Arkitektar eru ekki allir endilega góðir hönnuðir og þeir starfa fyrir kúnna sem eru jafnvel enn verri hönnuðir. En á hinn bóginn eru skipulagsfræðingar heldur ekki endilega góðir arkitektar, né eru stjórnmálamenn endilega með góðan smekk. Afleiðingar af því að hafa einhverslags arkitektalögreglu er jafnvel verra en að hafa engar hömlur. Kannski svarið sé falið í betri hönnunarmenntun fyrir almenning, svo kröfurnar verði meiri.

  • gunnar Guðmundsson

    Það er dapurt til þess að hugsa að menn læra ekkert af umræðunni eða fyrri mistökum. Heyra ekkert, sjá ekkert og lesa ekkert. Fylgast ekki með þróuninni í nágrannalöndunum og rífa það umhverfi sem þeir eru að selja ferðamanninum.

  • Jón Björnsson

    Orð í tíma töluð!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn