Fimmtudagur 16.02.2012 - 09:11 - 8 ummæli

Viðbrögð við umhverfinu

 

Vinir mínir frá Akademíunni  í Kaupmannahöfn, PLH arkitekter, hafa nýlega skilað uppdráttum af nýju íbúðahverfi á viðkvæmum stað í borginni, nálægt Kastellet.

Arkitektarnir hafa dregið fram sérkenni umhverfisins og skapað hús sem tala sama tungumál og umhverfið þó aldursmunurinn sé meiri en 100 ár. Tungumálið er rauður múrsteinn, stórir fletir, svört skífuþök, göt í veggjum fyrir glugga, ástrík smáatriði á borð við munstur í múrverki, asymetría o.fl.

Fyrir utan efnisvalið er stuðst við beinar línur og hornrétt form.  Þakkantar eru misháir allt eftir hæð nærliggjandi húsa.

Það þarf oft ekki mikið til þess að laða fram harmónískan staðaranda.

Húsin eru viðbrögð við umhverfinu. Það er umhverfið sem stjórnar niðurstöðunni.

Þetta er gott innlegg  inn í eilífa umræðu hér á landi um aðlögun og staðaranda. Þetta er dæmi um hve vitlaust það er að skipa fólki í tvo flokka hvað varðar uppbyggingu í eldri hverfum, annarsvegar „verndunarsinna“ og hinsvegar „uppbyggingarsinna“!  Það er frumstæður annaðhvort/eða hugsunarháttur. 

Þessi gildishlöðnu nöfn, verndunarsinni /uppbyggingarsinni, stía fólki í sundur, eru ósmekkleg og eiga ekki við eftir því sem ég get best séð. Það eru allir að gera sitt besta.

Með þessari flokkun er verið að búa til andstæður sem ég held að séu ekki til gagns og jafnvel ekki til nema ef vera kynni innanbrjóst örfárra einstaklinga. En auðvitað má búa til svona fylkingar með  illdeilum, öfgum og afleiðingum í samræmi við það.

PLH arkitekter skipa sér hvorki í flokk verndunarsinna né uppbyggingarsinna. Þeir eru bara arkitektar sem skilja hvað staðarandi er og vinna samkvæmt því.

Heimasíða höfundanna er: http://plh.dk/

Hér er önnur færsla þar sem plh arkitekter koma við sögu:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/03/21/reynslusaga-fra-kaupmannahofn/

 Færslunni fylgja nokkrar myndir sem fengnar eru af heimasíðu arkitektanna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Ólafur Gísli Reynisson

    Það er erfitt að alhæfa nokkuð um fegurðina. Nema þú trúir á einhverskonar frummyndir eins og Platón, á frummynd hins fagra. Það geri ég ekki og ætla því ekki að fullyrða neitt um fegurð þessara húsa. Ég er hins vegar algerlega sammála Hilmari að hús verða að tala sama tungumál, þrátt fyrir aldursmun til að fólk vilji frekar vera í almenningsrýmunum á milli þeirra. Hús eru að mínu mati eins og tónar í tónverki. Í hvert sinn sem arkitektar teikna hús fá þeir „tækifæri til að skapa einhverja heild í samræmi við það sem fyrir er í staðarandanum“, koma með einn tón eða fleiri í tónverk borgarumhverfisins, eins og PLH arkitekter hafa gert þarna. Tónverk sem er samsett úr ósamstæðum einstökum tónum,…..ekki heild er óáheyrilegt tónverk. Eins er borgarumhverfi sem er samsett úr ósamstæðum einstökum húsum óásjálegt borgarumhverfi. Er klaufagangur íslenskra arkitekta (og ekki bara íslenskra) e.t.v. fólginn í þránni eftir að skapa mikilfenglegt listaverk, sem verður til þess að þessi eini tón í tónverki borgarumhverfisins verður eins og fíll í postulínsverslun?

    PLH arkitekter hafa líka hugað að því að hafa skala borgarumhverfisins frekar litinn og nokkuð þéttan með fallegum almenningsrýmum og göngu- og hjólreiðagötum, sem ætti frekar að stuðla að því að fólki líði vel í þessum rýmum. Eina sem ég velti fyrir mér í því sambandi er hvort húsin séu of fábreytt í efni og litum?

  • þorgeir jónsson

    Þetta eru forljót hús og passa ekkert inn í sitt umhverfi.
    Það er ekki nóg að velja múrsteina sömu gerðar og í gamla hverfinu. Auk þess eru múrsteinarnir örugglega frá þýskalandi því það er búið að ganga af múrsteina brennslu dauðri á norðurlöndum. Sem sagt “ nýju fötin keisarans“ Þetta er ekki neitt neitt. hins vegar geta Íslendingar mikið lært af þessu. Það eru eflaust mörg ár í að arkitektar hér á landi fái tækifæri til að skapa einhverja heild í samræmi við það sem fyrir er í staðarandanum. Á meðan verður arkitektahannað umhverfi sjálfhverft um hvert hús,án heildar og samhljóms við önnur hús í nágernninu.

    En eigum við ekki bara að vera stolt of okkar eigin sjálfhverfu og að hús á íslandi eru og verða alltaf einstaklingar,…..ekki heild.
    Það er okkar túngumál. Hrópi hver sem mest getur. Fundarstjórinn er farinn.

    Annars er þetta framlag Hilmars það besta sem gerst hefur í arkitekta umræðunni í langan tíma hér á landi. Áfram Hilmar!

  • Hilmar Þór

    Já Gylfi.

    Stórt er spurt.

    „Hvert er tungumál íslenskrar byggingalistar?“

    Ekki veit ég það en ég hygg að það séu margir dílalektar og svæðisbundið málfar. Allt eftir því hvar er byggt.

    En það er holt að velta spurningunni fyrir sér.

  • Gaman að sjá hvað danirnir hafa mikla tilfinningu fyrir efninu og staðnum. Ekki bara hér heldur almennt. Af hverju eru íslenskir arkitektar svona miklir klaufar? Hvert er tungumál íslenskrar bygginalistar?

  • Finnur Birgisson

    Gott innlegg Hilmar eins og endranær.

  • Helgi Björnsson

    @ Jóhann

    „við-og-þið“ …. „annað hvort-eða“ … „svart eða hvítt“..“verndunarsinnar-uppgyggingarsinnar“ …. „frjálshyggjufasistar-kommúnistar“

    Við þurfum að hætta þessari frumstæðu umræðuhefð flokkun og skotgrafahugsunarhætti. Fyrr lagast ekkert og fyrr uppsker maður ekki árangur umræðunnar.

    Svo þarf að taka til í samfélaginu og koma öllu skotgrafarliðinu burt. Hvort sem er á þingi, í menningarumræðunni eða annarsstaðar!!

    Svo þarf að reka alla í bönkunum sem unnu þar í lykilstöðum fyrir hrun. Þeir eru strax byrjaðir að lokka fólk með gylliboðum til að taka neyslulán í stað þess að lána til virðisaukandi atvinnustarfssemi.

    Í alvöru.

  • Sýnist þessar byggingar passa betur inn í umhverfið þarna heldur en þær sem standa hinumegin við götuna, nær kajanum.

    Sammála þér með þessa eilífu skiptingu í lið þegar kemur að því að ræða hlutina. Þessi „við-og-þið“ hugsunarháttur er Akkilesahæll okkar Íslendinga.

  • Jón Ólafsson

    Flott dæmi um hús sem nánast má skilja sem verndun í útliti og umhverfi en allt nýmóðins innandyra. Maður á að vera íhaldssamur utandyra i gömlu umhverfi þó sprellað sé innandyra. Innréttingar eru einkamál en útlit ekki.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn