Mánudagur 29.03.2010 - 14:32 - 11 ummæli

Víkingaheimar

IMG_8236lett

Þegar ég gekk á Akademíunni í Kaupmannahöfn fórum við með jöfnu millibili að skoða gamla danska byggingararfleifð frá hinum ýmsu tímabilum. Til viðbótar voru reglulega fyrirlestrar um efnið innan skólans. Þetta var gert til þess að ala með nemendunum meðvitund um sögu byggingarlistarinnar í Danmörku og styrkja tilfinningu þeirra fyrir fortíðinni og arfinum.

Einu sinni fórum við að skoða fornar byggingar skammt frá Slagelse á Sjálandi. Þar voru fornar minjar um víkingabyggð og þar hafði verið byggt tilgátuhús frá tímum víkinga.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég fór að skoða Víkingaheima í Reykjanesbæ s.l. haust þar sem byggt hefur verið utan um víkingaskipið Íslending.

Þetta er glæsileg bygging hönnuð af færum arkitekt, Guðmundi Jónssyni og er vel til hennar vandað á flesta lund.

Það vakti samt athygli mína hvað atkitektúrinn var yfirborðskenndur þegar hafðar eru í huga þær djúpu rætur sem víkingaskipið á í sögu þjóðarinnar. Hvar eða hvernig kallast byggingin á við söguna? Hún er tengd gömlum torfbæ og umhverfi í næsta nágrenni sem bauð upp á aðra nálgun en gert var.

Hér á landi hafa verið byggð nokkur tilgátuhús. Ég nefni Stöng í Þjórsárdal, Eiríksstaði, Auðunarstofu, Rönd í Mývatnssveit, Líkanið af Skálholtskiurkju í þjóðminjasafni o. fl.  Hefði ekki verið styrkur í því að velja Víkingaheimum form eða efnisval sem tengdist á einhvern hátt tilefninu?

Hér fylgja nokkrar myndir af Víkingaheimum og í lokin myndir af tilgátuhúsinu í Slagelse og umhverfi þess. Upphafsmyndin sem er af Víkingaheimum með gömlu torfhúsin í forgrunni gefur tilefni til vangaveltna um nálgun arkitektsins á verkefninu.

IMG_8240lett

IMG_8243lett

IMG_8244lett

Trelleborg

3665118085_d57ea6380d[1]

3301023339_ca52c2ea24[1]

Hér í blálokin kemur svo loftmynd af Trelleborg sem er fyrir vestan Slagelse. Glöggir sjá að tilgátuhúsið er byggt utan fonminjanna í tengslum við safnið austur af víkingamannvirkjunum.

trelleborgcrop2

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Annað lítið dæmi um tengingar ýmiskonar frá París sem mér dat í hug eftir lestur á kommenti „arkitekt skrifar“.

    Grand Arc í Defence hverfinu í París er skökk miðað við Champselesees og Grand Arme breiðgöturnar. Snúningurinn er eitthvað um 5°. Margir halda að þetta séu arkitektastælar. En svo er ekki. Snúningurinn er nákvæmlega sá sami og er á Louvre safninu miðað við sömu götur. Þannig kallast þessar höfuðbyggingar á með hinn eina og sanna Sigurboga mitt á milli sín.

    Þetta er dæmi um það þegar arkitektinn skyggnist undir yfirborðið og skoðar verk sitt í stóru samhengi. Sögulegu og borgarskipulagslegu samhengi.

    Þessa víðsýni og djúphyggni vantar algerlega í Víkingaheima þó að þar hafi verið af nógu að taka.

    Umrædd bygging í París er teiknuð af dananum Otto von Spreckelsen.

  • Jón Þórðarson

    Því skýrari sýn sem menn hafa á arkitektúr því stuttorðari eru þeir. Ef menn sjá ekki kjarna málsins verða þeir langorðir.

    Guðmundur var mjög langorður hér að ofan og af því mætti álygta að hann hefði ekki skýra sýn á verk sitt, en sjónarmið hans komust til skila.

    Þökkum það.

  • Hilmar Þór

    Menn þurfa að gæta sín þegar þeir fjalla um verk kollega sinna. Um leið og ég hrósaði Guðmundi Jónssyni arkitekt og verki hans í Víkingaheimum lét ég þá skoðun mína í ljós að ég sakna sögulegrar tengingar byggingarinnar við fortíðina og nefndi, sennilega að óþörfu, tilgátuhús, í því sambandi.

    Ég þekki tvær byggingar á norðurlöndum þar sem byggt var utanum skip. En munurinn á þeim og Íslendingi er mikill. Vasamuseet í Stokkhólmi hýsir skip frá árinu 1628 og Víkingaskipasafnið í Hróarskeldu geymir yfir 1000 ára gömul skip auk mikils bátasafns utandyra.

    Víkingaheimar geyma splunkunýtt skip sem er að nokkrum hluta tilgátuskip og því um allt annarskonar sýningargrip að ræða en í Stokkhólmi og Hróarskeldu.

    Þegar ég nefndi tilgátuhús þá leiddi ég hugann að því að hugsanlega hefði ekki átt að byggja yfir tilgátuskipið Íslending. Heldur láta hann standa úti, eins og víkingarnir gerðu með sín skip á sínum tíma. Íslendingur þolir það ágætlega. Ef skipið stæði úti mundi það veðrast og taka á sig e.k. patínu og verða enn fallegra og áhugaverðara með tímanum. Til hliðar hefði svo mátt byggja yfir sýninguna í einhverskonar tilgátuhúsi eða húsum frá víkingatímanum.

    Með þessari nálgun hefði getað myndast þarna ágætt umhverfi sem endurspeglar umhverfi liðinna alda. Bæði með hinu nýja safni og torfbænum í grenndinni.

    Þó ég hafi þessa skoðun þá er ég ekki að segja að nálgun Guðmundar og verkkaupa hans sé á einhvern hátt röng. Hún er bara önnur en sú sem ég hefði viljað sjá þarna.

    Ég þakka Guðmundi fyrir að skýra út sín sjónarmið og þær hugmyndir sem að baki liggja.

    P.S. það er rétt hjá “arkitekt skrifar” hér að ofan að pýramídi Peis kallast á við fortíðina með forminu. Það þarf oft ekki mikið til. Í raun er inngangurinn í Louvre ekki annað en stór þakgluggi. “Tær snilld”

  • Nokkur orð Guðmundar Jónssonar Arkitekts varðandi Skála Íslendings.

    Mér hefur borist blaðaskrif varðandi ágiskanir og skoðanir á Skála Íslendings í Reykjanesbæ sem ég hef hannað. Í fyrstu fannst mér skrifin skondin og skemmtileg afþreying og ekki ástæða til að hripa nokkuð niður á blað til nánari útskýringar eða hjálpar þeim sem túlka eða yfirtúlka bygginguna eða eiga erfitt með að skilja hana út frá hönnunarforsendum sínum.

    Það er nú alltaf þannig að þegar að arkitekt þarf að útskýra byggingu sína þá er útskýringin gjarnan ætluð ákveðunum hóp, þ.e. annaðhvort áhugamanni eða fagmanni. Í þessu ákveðna tilfelli er erfitt að svara báðum hópum án þess að öðrum finnist sér mismunað.

    Tilvist þessarar byggingar á sér nokkuð langan aðdraganda og ég hafði aðra aðferðarfræði í fyrstu atrennu. Eins og gengur og gerist þurfti að spara og hagræða og gerði ég það.

    Skáli Íslendings er afrakstur ákveðinnar og einfaldrar hugmyndafræði. Hugmyndafræði er fagurt orð og getur skírskotað til mikillar fræðimennsku og ástæðu til djúps innsæis og yfirtúlkunar á einföldu viðfangsefni. Sú er ekki ætlunin i þessu samhengi.

    Hugmyndafræði þarf að spanna yfir stórt svið fagsins og þá má sérstaklega nefna svörun við forsögn verkefnisins (einskonar starfræni), byggingartæknilegar forsendur (sbr. byggingartækni, og náttúrulegar forsendur á byggingarstað m.m.). Einnig þarf að telja til fagurfræði. Margir okkar arkitekta eru einnig uppteknir að öðrum þáttum fagsins, þ.e. akademískum þáttum er snúa að túlkunum á efnistaki verkefnisins. Þessum þætti er erfitt að gefa haldgóða íslenska skýringu eða þýðingu, en mundi kallast einskonarar “intellektualismi” eða þörf á að nálgast aðferðarfræðina út frá dýpri menningarlegum eða náttúrufræðilegum túlkunum á viðfangsefninu.
    Slík aðferðarfræði er mér oft huglæg og mikilvæg og styðst sem oftast við hana ef tök eru á, það er þó því miður ekki alltaf eins auðvelt eða jafnvel hægt svo hald sé í.
    Aðferðarfræðin getur verið flókin eða einföld eða jafnvel barnaleg og háð öllum forsagnaraðstæðum hversu djúpt eða flókið er hægt að ganga til verks.
    En aðalatriðið er kannski ekki sjálf aðferðarfræðin heldur að aðferðarfræðin skapi nægilegt tóm til að gefa gott sköpunarflæði í ferlinu þannig að arkitektinum finnist vera úr nægu að moða og að byggingin hafi sína meiningu þótt jafnvel að engin skilji bygginguna fyrr en hún er útskýrð,,eða jafnvel ekki þá heldur.

    Það er mikilvægt að hafa að leiðarljósi að við arkitektar getum ekki hannað byggingar nákvæmlega eins og við viljum einfaldlega vegna þess að það gæti stangast á við ýmsar aðrar fosendur sbr. óæskilega forsögn, kostnað, aðrar aðstæður osfrv. Öll viðleitni arkitekta verður að skiljast út frá þessu.

    Sú einfalda aðferðarfræði sem hér var stuðst við byggist í aðalatriðum á eftirfarandi forsendum:
    1. Staðsetning byggingarinnar í landslagi miðað við útsýni
    2. Forsögn að efnisinnihaldi byggingarinnar
    3. Logistikk og starfræni
    4. Hagræðingu tækni
    5. Fjárhag til ráðstöfunar
    6. Miðlun á aðalatriði hússins sem er skipið Íslendingur og
    sýningaraðstaðan
    7. Efnistök og fagurfræði

    Skipið Íslendingur þurfti ákveðna skálastærð varðandi lengd, breidd og hæð, aðrar stærðir ákvörðuðust af öðrum þörfum forsagnarinnar.
    Byggingin hefur þann óskaplega einfalda útgangspúnkt að skipið sé staðsett í einföldum skála sem snýr að sjó eins og að skipið sé í vör og tilbúið til sjófarar að sjóndeildarhringnum.
    Þess vegna er átt skálans að sjó og sjóndeildarhring ákaflega mikilvæg og yfirstýrir aðrar áttir hvað svo sem þær hafa upp á að bjóða af veðri og vindum frá móður náttúru.
    Glerjaðir gaflar aðalskips byggingarinnar eru til þess gerðir að skipið upplifist sem ferðabúið í vör til siglingar á sjó út.

    Byggingin er meðvituð staðsett þannig að frá aðkomu sjáist skipið gegnum alglerjaðan aðkomuvegginn. Aðalskipið er gert einfalt til að keppast ekki á við sjálfan Íslending (skipið).
    Aðliggjandi rými eru sáraeinföld inspirasjón frá öldum hafsins sem rísa upp að aðalskipinu og ögra tilvist skipsins.
    Blái liturinn (sem fer fyrir brjóstið á einhverjum:) hefur þann tilgang að skírskota til hafsins samtímis sem liturinn nemur himinbláann og undirstrikar “öldurnar”.
    Viðarklæðningin er með ákveðnum takti sem skapar grófleika og skírskotar til fortíðar, er þó markvisst og meðvitað innan nútímahönnunar. Tjörgun eða gróft efnisval gæti hæglega orðið misskilin, krampakennd og óþörf nálgun við fortíðina.
    Gluggar timburveggsins eru staðsettir ókerfisbundið og hafa breytilega lýsingu (liti) sem gefur blæbrigðilegt skin í rökkrinu
    Tilgangur ókerfisbundinnar staðsetningar glugganna er að skírskota til gára hafsins séð í mótbirtu yfir hafið, þá glitrar á tilviljanakennda öldutoppana.
    Þessi túlkun upplifast vel í náttmyrkrinu fyrir þá sem bragða á
    byggingar- “list” með öllum þeim túlkunum sem gefur henni gildi.

    Þessar hönnunarforsendur er hægt að hundsa en þær voru leiðarljós og mikilvægar ögunarforsendur undirritaðs við hönnunina. Ég kalla það ögunarforsendur því það þarf sjálfsskapaðan aga til að skapa list í sérhverju formi, óháð því hvernig hún er metin af sérhverjum einstaklingi.

    Það hefði að sjálfsögðu aldrei komið til greina að nálgast þetta verkefni með “tilgátubyggingu”. Það voru ekki til byggingar í þessari stærð/hæð á Víkingaöld, það væri nánast eins og að gera indíánamenningu til höfuðs með indíánatjaldi á stærð við Perluna.
    Skáli Íslendings er bygging nútímans og er ætlað að hýsa skipið Íslending. Það væri móðgun við “söguna” að ætla sér að reyna að eftirlíkja fortíðina, byggingar nútímans eiga að tala “tungumál” samtímans.
    Það er einnig mikilvægt að hafa til hliðsjónar að skipið Íslendingur er byggður í nútímanum þó svo að skipið sé frábær og mikilvæg smíði Gunnars Marels eftir Gaukstaðarskipinu frá ca.800.

    Virðingarfyllst

    Guðmundur Jónsson
    Arkitekt að Skála Íslendings

  • Ég sá einu sinni enska útgáfu af Vegahandbókinni. Þar var dýrleg þýðing á orðinu tilgátuhús í umfjöllun um Eiríksstaði: The Theoretical House“.
    Ég er sammála Arkitekt um snilld Peis og því sem hann skrifar um pýramídann. En Guð forði okkur frá fleiri tilgátuhúsum sem eru kynnt sem nákvæm eftirmynd einhvers sem menn hafa ekki hugmynd um hvernig var. Innihald Víkingaheima, þ.e. skipið, er reyndar sama marki brennt þrátt fyrir fullyrðingar skipasmiðsins um að það sé nákvæm eftirmynd Gauksstaðaskipsins.

  • Arkitekt skrifar

    Pýramidi I.M.Pei í París er þvílík snilld að það er nánast dónaskapur að nefna það verki í þessu sambandi og nota í samanburði við Víkingaheima.

    Pýramídinn við Louvre er hógværðin uppmáluð meðan Víkingaheimar eru sjálfumglaðir og montnir með sig.

    Pýramidinn er eiginlega ekki bygging, heldur konsept. Eða öllu heldur bara þak yfir inngang og þær gömlu fornminjar sem þar eru undir. Það má líka benda á að hann hefur eimitt þessa sterku skýrskotun til fortíðarinnar sem Víkingaheima vantar. Pýramidinn er jú pýramídi sem er afar fornt form sem er jafnframt inngangur í safn með fornum munum sem þar eru til sýnist.

    Svo auðvitað er öll útfærsla og mótun stiga og lyftu gerð af dæmalausri næmni. Efnisvalið, glerið og gulur sandsteinninn sprottinn úr umhverfinu.

    Guðmundur er sómaarkitekt og það er ástæðulaust að rýra hann þó honum hafi oftast tekist betur en hér við Víkingaheima. En endilega berið þið ekki pyramída Peis með allri sinni sögulegu skýrskotun og gæðum við verk Guðmundar. Það er Guðmundi og verki hans ekki til framdráttar.

    Og varðandi tilgátuhúsin. Þá eru þau kölluð tilgátuhús af gefnu tilefni. Það er ekki tilviljun

  • Ég er ekki sammála greinarhöfundi. Það er allt of mikið af tilgátuhúsum sem byggð eru eftir hæpnum forsendum. Eftir hvaða fyrirmynd er húsið a Eiríksstöðum? En Auðunnarstofa? Þegar tilgátuhús eru byggð er alltaf hætta á að fólk taki þau sem heilagan sannleik. Þetta er glæsileg bygging og Guðmundi til sóma. Mér verður hugsað til pýramídns við Louvre safnið, ekki hefði verið betra að byggja einhverja eftirlíkingu í barokkstíl þar.

  • Árni Ólafsson

    2007?

  • „Hefði ekki verið styrkur í því að velja Víkingaheimum form eða efnisval sem tengdist á einhvern hátt tilefninu?“ er spurt.

    Jú það hefði verið styrkur í því. En úr því sem komið er má þá ekki velja líti á húsið sem tengir það sögunni?

    Ég veit ekki hvaða liti en það mætti tjarga timburvegginn og endilega að láta þennan bláa lit hverfa sem fyrst.

    Ég tek undir að Guðmundur er afar fær arkitekt, en öllum verður einhverntíma á í sínum störfum. Þeta er ekki verk sem hentar honum.

  • Norður í landi byggðu menn af tilliti til veðurfars og annarra aðstæðna í gamla daga. Norðurgaflar voru gjarna gluggalausir og hlaðnir torfi og grjóti til að verjast kaldri norðanáttinni. Þetta var þegar húsin voru ekki með miðstöð og ekki var búið að finna upp steinullina og tvöfalda glerið til að halda hita á bæjunum.

    Guðmundur virðist styðja hönnun sína við þessar 100 ára gömlu aðstæður og hefur norðurhlið Víkingaheima gluggalausa og lokaða. Það er ekki skynsamlegt.

    Mér sýnist Víkingaheimar snúa vitlaust. Það er að segja að langhliðin timburklædda með litlu gluggunum átti að snúa til norðurs og vera alfarið úr gleri. Vegna hvers? Jú, vegna þess að þarna er langskip til sýnis og því mikilvægt að fá að berja langhlið skipsins augum utanfrá. Eins og húsið er hannað getur maður skoðað stefni og skut skipsins en hliðina er torvelt að upplifa. Það verður þó að segja að þegar inn í sýningarskálann er komið þá gengur maður að hlið skipsins sem er nokkur upplifun þó takmörkuð sé.

  • Þessi bygging kallast ekki á við söguna. Minnir mig á skólpdælustöð – verandi í fjöruborðinu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn