Sunnudagur 03.11.2013 - 12:15 - 17 ummæli

Viljum við svona arkitektúr, alstaðar? – Listasafnið í Zwolle

 

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten

Í kjölfar tölvuvæðingar arkitektatofanna hafa opnast möguleikar til þess að hanna og framleiða arkitektúr sem við þekktum ekki áður.  Tölvan er verkfæri sem opnar margfalt fleiri möguleika í byggingarlistinni en blýjanturinn, þríhyrningurinn og T-stikan gáfu arkitektunum áður svo maður tali nú ekki um rýmisgreindina eða skort á henni.

Þessir möuleikar tölvunnar hafa að vissu marki haft áhrif á byggingarlistina og  breytt henni.

Þessi breyting hefur ekki alltaf verið til góða.

Þetta er áberandi  þróun í austurlöndum. Það gengur oft svo langt að sjálfsmynd og táknmál bygginganna er flestum hulin. Ekki er hægt að lesa þessi hús eins og eldri byggingar vegna þess að þau endurspegla ekki það sem innifyrir er né tala nokkurt það formmál sem hinn almenni vegfarandi kann að lesa.  Þau eru líka nánast án sérkenna þeirra mennigarheima eða staða þar sem þau standa. Þau eru flest leiðinleg til lengdar  og tala ekki til vegfarandans á sama hátt og önnur hús.

Þetta er arkitektúr og formmál sem mikið er notað á stöðum á borð við Barain og Dubai. Vonandi láta arkitektarnir þessi svæði duga til þess að prófa forritin sín og hlaupi af sér hornin þar enda rísa þessar borgir upp úr eyðimörkinni þar sem ekki er að finna rætur byggingalistasögu í sama mæli og víðast í Evrópu og eldri borgum austurlanda.

Myndirnar sem fylgja þessari færslu eru af myndlistasafni í Zwolle Hollandi, sem teiknað var af  Eduard Louis de Coninck, í nýklassiskum stíl árið 1838 sem dómhús (fyrir 175 árum).

Síðar var húsinu breytt í myndlistarsafn og nýlega var byggt við húsið  eins og sjá má á myndunum. Viðbygingin sver sig í ætt byggingalistar sem stendur ekki á gömlum gildum byggingarlistarinnar heldur frekar hugmyndafræði höggmyndlistar þar sem tölvutæknin virðist hafa tekið völdin.

Það er illa komið fyrir myndlistinni þegar  svona „bóluarkitektúr“ þarf til þess að draga fólk að verkum eftir menn á borð við  Rembrandt, Saenredam, Turner, Monet, Rodin, Van Gogh, Mondrian, Van der Leck sem allir eiga verk í safninu.

Viðbyggingin, sem teiknuð er af Bierman Henket, vann til verðlauna í síðustu viku fyrir útlitið (!)  Dutch Design Awards  veitti  verðlaunin með eftirfarandi rökstuðningi: „the project generates a huge impact in the city“ and „has an incredible presence“

Ég veit ekki hvort þetta er góð eða slæm viðbygging þegar á heildina litið en finnst hugmyndin óaðlaðandi þó útfærslan sé mjög vel gerð og snyrtileg. En eitt er vist að ég vildi frekar vera vegfarandi þarna án þess að láta þessa blöðru trufla rólega, harmóniska og sögulega götumyndina.

Maður veltir fyrir sér hvort fólk vilji að  byggingarlistin þróist almennt í þessa átt og verði ólæsileg vegfarendum. Viljum við svona arkitektur í gamalgrónum hverfum hér í Evrópu? Viljum við þessa einkennalausu byggingalist allstaðar? Byggingarlist sem er án staðaranda þannig að borgirnar í heiminum öllum verði meira og minna allar eins í öllum sínum fjölbreytilegheitum þegar fram líða stundir? Viljum við hafna regionalismanum fyrir svonalagað?

Þá vaknar spurningin: Viljum við svona arkitektúr  yfirhöfuð?

Sjá þennan tengil um lestur húsa:

 

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/10/29/thorbergur-thordarson/

 

 

Neðst i færslunni er vel gert myndband um Zwolle, sögu borgarinnar og gömlu bygginguna sem hér er fjallað um áður en ráðist var í að byggja þennan „rugbybolta“ ofan á hana. Ég mæli með myndbandinu. Sérstaklega fyrir þá sem eru ekki sammála um efasemdir mínar um þá lausn sem fyrir valinu varð.

Heimasíða arkitektanna er hér Bierman Henket architecten og listasafnsins hér: The Museum De Fundatie,

 

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten

 

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten

 

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten_cross section

 

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Birkir Ingibjartsson

    viljum við eins arkitektúr, allstaðar…?

    Þessi bygging finnst mér reyndar ekki spennandi en mér finnst rauði þráðurinn í athugasemdum hér að ofan vera að allt eigi helst að vera eins.

  • Pétur Örn Björnsson

    Ég hef víst verið of ófeiminn við að tjá mig hér að margra mati, jafnvel svo að maður er eiginlega orðinn „l´enfant terrible“ 🙂 í huga geðluðranna flestra, kolleganna og læt því hér nægja að taka undir orð hins ágæta blogghaldara, Hilmars Þórs, að þetta sé dæmigerður:

    „Bóluarktektúr“

  • Velvakandi

    Maður er feiminn að taka þátt í umræðu um fag sitt. Enda ekki mjög þjálfaður í því og svo er það þanng að ef maður lætur skoðun sína í ljós þá særir maður kollegana sem margir eru góðir vinir manns sökum fámennis. Alir þekkja alla og eru vinir eða fjandmenn allra. Þetta eru sennilega aðalskýringarnar á því að arkitektar tjá sig lítið um sitt fag. Ekki áhugaleysi eins og síðuhöfundur talar hér um og ekki kjarklaysi eins og Páll Torfi nefnir þó svo að það kunni að vera dæmi um það sem hann þekkir.

    Ég tek eftir því að fyrir utan síðuhaldara og mig eru minnst tveir arkitektar sem tjá sig um þessa færslu…..Báðir starfa erlendis.
    Það er umhugsunarvert.

    Þessi vefur er fyrsti og eini sem gengið hefur á vaðið 🙂

  • Páll Torfi Önundarson

    Smart bygging – en á röngum stað. Við eigum dæmin um slíkt í Reykjavík, t.d. við vesturenda Austurstrætis þar sem Morgunblaðshöllin var reist beint fyrir Grjótaþorpið og kvöldsólina en hefði eflaust verið fínasta hús annars staðar. Hótel Saga aftan við Háskólann, ágætis hús en á vitlausum stað. Þori varla að nefna fyrirhugaða nýbyggingu Landspítalans beint framan við eina fegurstu byggingu bæjarins… og arkitektar hvísla að mér að þeir þori ekki að andmæla deiliskipulagi og styðja aðrar hugmyndir af ótta við að verða settir út af sakramentinu. Nefna við mig beinar hótanir æðstu ráðamanna.

    • Hilmar Þór

      Tek undir með Páli Torfa, það er margt sem misfarist hefur í skipulagsmálum í Reykjavíkurborg og víða á landinu. Sumt er algerlega útúr öllu korti og margt ágætt eins og gengur. En auðvitað eru allir að reyna sitt besta.

      En steinarnir í skipulagsgötunni eru margir og sumir stórir en enginn óyfirstíganlegur.

      Ástæðan fyrir því að arkitektar taka ekki þátt í umræðunni á uppbyggjandi og gagnrýnin hátt er mér hulin. Ég neita að trúa því að það sé vegna þess að þeir óttist um sinn hag.

      Skárri væri það nu geðluðruhátturinn og prinsippleysið.

      Hinsvegar er hugsanlegt að þeir hafi bara alls ekki áhuga fyrir málaflokknum umfram þá hagsmuni sem liggja í launaumslaginu. Að þeim sé í raun alveg sama og dansi bara eftir takti líðandi stundar.

      Það er slæmt.

      Mér findist ekki óeðlilegt að skipulagsyfirvöld leituðu einmitt sérstaklega til þeirra sem sýna málaflokknum áhuga og tjá sig um hann á opinberum vetvangi og láti hina eiga sig.

      Það er líka umhugsunarvert að það dúkka oft upp sömu nöfnin þegar skipulagsáætlanir eru skoðaðar. Og oft einhverjir sem hafa áður komist að umdeilanlegum niðurstöðum svo vægt sé til orða tekið. Á sama tíma er óumdeildum snillingum haldið frá og látnir víkja fyrir meðalmennskunni (T.d. Vandkunsten i Úlfarsárdal)

      Ég tek sérstaklega eftir því að þeir kollegar mínir sem hafa atvinnu sína af skipulagsgerð tjá sig ekki hér á mínum vef (að einum undanteknum sem sinnir skipulagsmálum) Þónokkur hópur arkitekta sem ekki sinnir skipulagsmálum hefur hinsvegar tjáð sig hér af miklum áhuga, hugvitssemi og þekkingu.

      Þetta sinnuleysi er mér óskiljanlegt þegar til þess er hugsað að stór hluti færslanna hér fjallar einmitt um skipulagsmál og milli 2000 og 3000 manns lesa hverja færslu að meðaltali. Ég geri ráð fyrir að einhver þeirra starfi við skipulagsgerð. Þess utan er síðan öllum opin eins og fram hefur komið.

      Það væri mikil fengur af því að arkitektar tækju þátt í umræðu um arkitektúr og skipulag hér á landi

    • Til að vega á móti þessum neikvæðu dæmum tvær nýjar viðbyggingar safna,sem „tala við“ klassik staðarins án þess að draga úr eigin einkennum:
      nýbygging Staedl safnsins í miðri Frankfurt er afar frumleg og sannfærandi þó neðanjarðar sé.(www. neubaustaedel).
      Bókmenntasafnið í Marburg er spennandi samtal milli „klassik“ staðarins og nýrrar stækkunar. (www.literaturmuseum marbach)

  • Þessi misheppnaða samsetning(„augað“) í Zwolle á sennilega fyrst og fremst að trompa nýju viðbyggingu Stedelijk („baðkerið“), sem er í 80 km fjarlægð í Amsterdam.
    Eða a.m.k að vekja verulega athygli í harðri samkeppni safna í Miðevrópu.
    Svo djúpt ná eru nú hugsanir manna víða í dag.

  • Hilmar Þór

    Það er alltaf gaman að lesa þínar athugasemdir nafni minn Gunnarsson. Þær eru alltaf fróðlegar og skemmtilegar þó maður sé ekki alltaf sammála. (sem betur fer)

    Ég vil bregðast við þínum ágætu sjónarmiðum nú.

    Það er vissulega mikil áskorun að byggja við þetta merkilega og sögulega hús, gamla dómhúsið í Zwolle. Ekki bara sögunnar vegna heldur ekki síður byggingalistarinnar vegna.

    Eins og sjá má á myndbandinu þá hefur húsið tvöfalda symmetríu og það má velta fyrir sér hvor hliðin er mikilvægari, hliðin að götunni/bænum eða hliðin að borgarsýkinu/náttúrunni?. Ég veit svo sem ekki til hvaða ráða ætti að taka þegar svona stendur á. Í þessu tilfelli var valið að byggja upp í loftið symetriska bólubyggingu.

    Jörgen Bo og Wilhelm Wholert stóðu frammi fyrir svipuðu vandamáli í Lousiana í DK þar sem þeim var gert að byggja við symmetriska byggingu. Þeir bruggðu á það ráð að gera viðbygginguna fullkomlega assymetriska þannig að náttúran og aðstæður á staðnum tóku völdin og mótuðu viðbygginguna. Gamla húsið var ekki látið lönd og leið heldur látið í friði. „Vegfarandinn“ í hinni gömlu rólegu byggð urðu engrar breytinga varir. Það var lykilatriði. Þeir félagar gættu þess þó að hugmyndin bitnaði aldrei á funktioninni. Mér sýnist að leið þeirra Bo og Wholerts hefði verið fær í Zwolle.

    Það má bæta því við að Gunnlaugur Halldórsson taldi symmetríuna upphaf all ills vegna þess að starfsemi húsa væri sjaldnast symmetrisk og að symmetrían gerði það að verkum að erfitt væri að áfangaskipta framkvæmdinni eða byggja við. En það er önnur saga.

    Varðandi “vegfarandann” þá áttði ég mig ekki á að þetta væri svona gott viðmið fyrr en ég las það hjá S.Sigurðssyni hér að ofan. Ég held reyndar að þetta sé betra viðmið en margan grunar. Ég notaði það á fundi með byggingarnefnd nýs landspítala fyrir nokkrum árum þar sem ég sat einn andspænis fjölda manns sem reyndu að sannfæra myg og upplýsa um deiliskipulagið. Þeir lögðu mikla áherslu á starfssemina inni í þessum tröllauknu húsum til þess að réttlæta þetta slæma deiliskipulag. Ég svaraði því til að mér sem vegfarenda um götur og torg væri slétt sam um hvað færi fram inni í húsunum. Það væri mál eigendanna og þeirra sem þar störfuðu eða byggju

    En það má kannski halda því fram að arkitektinn hafi þarna engin áhrif og hafi ekkert að segja og vegfarandin sé ekki aðili að málinu, en það er ekki rétt.

    Arkitektinn er skoðanamyndandi og arkitektúrinn mótar menn….eða hvað?

    • Hilmar Gunnarsson

      Já, það er gaman að skiptast á skoðunum við kollega sem eru ekki endilega alltaf sammála. Það er lærdómsríkt að fylgjast með skrifum þínum nafni og gaman að sjá ólík sjónarmið mætast á uppbyggilegan hátt eins og gerist venjulega hér. Þetta er bráðhollt.

      Sannfærandi sagan þín af Louisiana og verðug bloggfærsla? Viðbyggingar geta verið krefjandi viðfangsefni.

    • Varðandi symmetrisk hús þá er Louvre í París eitt, I.M.Pei byggði snilldarlega við þar sama hvernig á það er litið.

      Þakka Gunnlaugi fyrir að benda á Baðkarið. Það er hörmuleguir sjálfsmiðaður egoarkitektur sem á ekki að leyfast hjá siðmenntuðum þjóðum.

  • Hilmar Gunnarsson

    Mér finnst sniðið gefa til kynna hversu vel þetta er leyst. Hinsvegar finnst mér að efnisvalið í ysta byrðinu hefði mátt aðlaga betur að staðháttum.

    Ég velti fyrir mér hvað þeir hefðu átt að gera í staðinn? Formið á viðbyggingunni virðist vera performatívt að því leitinu til að þakið/hvelfingin ber sig án súlna, virðist vera. það hefur eflaust ráðið einhverju um niðurstöðuna?

    Svo eru gjörólíkar og strangari kröfur gerðar til nýbygginga heldur en eldri bygginga á flestum stöðum. Þetta á líka við þegar kemur að viðbyggingum. Það liggur því í augum uppi að það getur reynst þrautinni þyngra að skálda áfram þann arkitektúr sem er til staðar.

    Að lokum hafa vegfarendur mismunandi smekk og þar hefur arkitektinn ekkert að segja.

  • Elín Sigurðardóttir

    Hvar má gera tilraunir? Hver má gera tilraunir?

    http://en.wikipedia.org/wiki/Eksperimentet

  • Er þetta ekki „hérkemégogsjáiðhvaðéerklárISMI“ sem hrjáir marga arkitekta sem eru með stjörnur í maganum?

  • Það er á mörkunum að hver borg þoli eitt svona hús (París fékk Effelturninn) Sniðið er hrikalegt og það vekur furðu hvað skipulagsyfirvöld bæjarins hafa verið frjálslynd (eða ístöðulaus)

    Eins og pistlahöfundur segir þá er þetta vel gert og snyrtilegt en Guð forði okkur frá því að þetta verði byggingarlistarlegt „trend“ til framtíðar þó þessi bygging fari einkar vel við himininn.!!!!!!!

  • S. Sigurðsson

    Sammála þessu. Það þarf að fara varlega með þau tækifæri sem tölvan gefur hönnuðunum. Byggingalistin er að færast yfir í að vera einhverskonar „dekoration“ fyrir flugfarþega. Gangandi „vegfarendur“ njóta ekki sprellsins að sama skapi og flugfarþegarnir.

    Bendi á Zaha Hadid í því sambandi og þessar loftmyndir.

    http://www.google.com/search?q=zaha%20hadid&rls=com.microsoft:*:IE-SearchBox&oe=UTF-8&rlz=1I7GGIE_enIS382&um=1&ie=UTF-8&hl=is&tbm=isch&source=og&sa=N&tab=wi

    P.S. Hugtakið „vegfarandi“ er mjög gott þegar arkitektúr er metinn. Vegna þess að vegfarandinn er á hægri hreyfingu og metur arkitektúrinn úr augnhæð og á sínum egin líkama.

    Pistlahöfundur á hrós hjá mér fyrir þetta. Það á alltaf að meta byggingalist og skipulag frá sjónarhóli vegfarandans.

    Takk

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn