Miðvikudagur 19.12.2012 - 21:46 - 24 ummæli

Vinnubúðahótel ?

 

 

Nú eru uppi hugmyndir um að flytja og breyta vinnubúðum  frá Reyðarfirði í hótel og koma þeim fyrir viðsvegar um landið. Um er að ræða vinnubúðir sem notaðar voru fyrir verkamenn vegna byggingar álbræðslu á staðnum. (Morgunblaðið 17.12.2012)

Hugmyndin er að gera úr vinnubúðunum 8-10 hótel með um 100 herbergjum í hverju sem staðsett verða víðsvegar um landið. Alls með eitthvað nálægt þúsund herbergjum.

Ég efast ekki um að þetta gæti verið fjárhagslega arðbært til skemmri tíma fyrir þá sem að þessu standa. En til lengri tíma litið mun þetta bitna á ferðaþjónustunni í heild sinni hér á landi.

Með þessari viðskiptahugmynd er verið að leiða þjónustuna í átt að magni ferðamanna til þess að mæta eftirspurn nánast skilyrðislaust (metnaðarlaust).

Víða á landsbyggðinni er ferðaþjónustan að vinna með staðinn sérstaklega af miklum metnaði. Þar er ferðamennskan tekin lengra þannig að sjálf gistingin verður hluti af upplifun ferðamannsins. Húsin eru það sem kallað er á ensku “site specific” og henta þeim eina stað sem þau eru reist og staðsett.

Stefnt er að því að laða að ferðamenn sem kunna að meta sérstöðuna og anda staðarins þannig að þeir geti einnig notið sjálfrar gistingarinnar í þvi samhengi. Þetta er metnaðarfullur þankagangur sem mun skila miklu til langs tíma litið litið.

Ég nefni tvö hotel sem ég þekki vel til og eru svona hugsuð.

Annars vegar Hótel Flatey og hinsvegar Hótel Búðir á Snæfellsnesi. Þessi tvö hótel færa ferðamanninnum séríslenskt umhverfi og gistingu í húsum sem henta staðnum. Einstaka gistingu sem er eftirsóknarverð fyrir alla sem hana kunna að meta og er í sjálfu sér sérstök upplifun.

Nú stefnir í að ferðamannafjöldinn hér á landi nái 700 þúsund á ári. Er ekki hugsanlegt að nema staðar þar og hlúa að þessum 700 þúsund ferðamönnum þannig að allir fái það sem þeir eru að sækjast eftir allan sólarhringinn ?

Það gerum við ekki með því að bjóða uppá fyrrum vinnubúðir sem gistingu og mæta þannig eftirspurninni hvað sem það kostar ímyndina. Er þá ekki verið að leggja áherslu á magn frekar en gæði þannig að ferðamannaþjónustan étur sjálfa sig að lokum.

Við þurfum  að setja þak á fjölda ferðamanna og búa vel að þeim með séríslenskri aðstöðu í mat og allri þjónustu í vönduðm byggingum sem endurspegla menningu, sögu og náttúru staðanna.

Ég velti fyrir mér hvort það samræmist menningarstefnu íslenskra stjórnvalda í mannvirkjagerð að dreifa vinnubúðum um viðkvæmar sveitir og náttúru landsins?

Efst í færslunni mynd af vinnubúðum á Reyðarfirði. Að neðan eru svo myndir frá  Hótel Búðum og Hótel Flatey og svo mynd af vinnubúðum á virkjanasvæði hálendisins og stríðsminjum í Hvalfirði..   

 

Aðlaðandi hugmynd gæti verið hótel í braggahverfinu við Miðsand í Hvalfirði. Þar gætu ferðamenn fengið tækifæri til að upplifa stemmingu stríðsáranna í viðigandi umhverfi.

Við sérstakar aðstæður er sjálfsagt að nota vinnubúðir sem hótel. Hálendishótelið við Sigöldu  á rétt á sér vegna þess að það er á virkjanasvæðinu sjálfu. Þeim stað sem það hefur alltaf verið og gefur innsýn inn í aðstæður vinnumanna á þeim tíma sem virkjað var. En að flytja vinnubúðir með þúsund herbergjum og sáldra þeim um landið ber ekki vott um metnaðarfulla ferðaþjónustu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (24)

  • Að mínu mati er þetta ömurlegt mál og ekki sæmandi að henda upp hótelum útum allt land úr þessum vinnubúðum, menn hljóta að vera á hærra plani en þetta !

    Þrátt fyrir að þetta muni taka miklum breytingum, þá hugsa ég að ódýrara sé að byggja nýtt frá grunni, því reglugerðir í dag varðandi brunavarnir, flóttaleiðir, einangrunarþykktir í útveggjum þarf að standast og þarf að uppfylla.
    Allir hafa komin í svona vinnubúðir og þeir eru ekki beint miklir mannabústaðir, þetta eru kofar sem endast í 10 ár max. þá er allt farið að leka og ónýtt.

    Gjörsamlega glórulaust. Ættum frekar að reisa virðulegar byggingar hér á landi handa ferðamönnum, eitthvað sem við getum verið stolt af.
    Ferðamaðurinn þá mælir með landi og þjóð, og það skilar sér margfalt tilbaka.

    Ég gæti haldið LANGAN fyrirlestur hér um það sem þarf að gera til að bæta ferðamannaiðnaðinn á íslandi, en nenni ekki að skrifa það hér.

  • Helga Jónsdóttir

    Það er langt síðan hróflað var upp herbergjagámum í þeim undurfagra stað Breiðavík (eða Breiðuvík). Þá var byggingareglugerð ekki að þvælast neitt fyrir mönnum.

  • Gott framtak… Þetta er sniðug hugmynd. Minni kostnaður sem þýðir meiri samkeppnishæfni. Ekki gleyma því að fólk hefur mismunandi þarfir. Þeir sem eru í efnaðri kantinum munu velja meiri gæði og borga þ.a.l. eftir því. En svo aðrir sem hafa ekki úr eins miklum fjármunum að spila og þetta gæti verið góður kostur fyrir þá. Sem flestir eiga að njóta þeirra gæða að geta ferðast og séð heiminn. Að sjálfsögðu munu aðilar sem fyrir eru á markaðinum mótmæla þessu… enda nýstárleg hugmynd hérlendis og mögulega vel samkeppnishæf.

  • Góð grein hjá Hilmari og ég er sammála honum.

    Hvað með að læra af volkinu og skoða endinn frá upphafinu; stórframkvæmdir út frá lífstímasjónarmiðum ? Að hanna vinnubúðirnar þannig að uppi væru plön um hvaða hlutverki þau ættu að þjóna næst. Hugsa um hvað gerist þegar „ræflarokkstímabilinu“ er lokið.

    Þetta myndi breyta heilmiklu. Kannski verður hugmyndasamkeppni um næstu vinnubúðir?

  • Smá viðbót öllum til huggunar þá kemur ný byggingareglugerð í veg fyrir að þetta geti gerst.

  • Fyrir 20 árum voru bændur að innrétt gistingu í hlöðum og fjárhúsum´. Það var bara gaman að því vegna þess að gistingin tengdist þá búskapnum En að innrétta gistingar í aflögðum vinnubúðum bendir til þess að okkur er að fara aftur.
    Ég vísa á nýlega færslu og hvet fjárfesta til þess að skoða eyðibýli í þeim tilgangi að reka gistiaðstöðu.

  • Neðsta myndin: „Experience Auschwitz in Iceland!“

  • Elín G. Gunnlaugsdóttir

    Ég skal gerast „litla stúlkan með eldspýturnar“ jafnóðum og þetta rís…….!!!

    • Það er nánast gefið að eitthvað af þessum búðum endar sem hótel til lengri eða skemmri tíma.

      Því ekki að reyna að gera eitthvað raunhæft í málnum til að þetta verði þolanlegt fyrir augað frekar en að láta dagdrauma um það hvað maður vildi helst gera við hjallana duga?

  • Það getur hvað auli sem er eldað listamat úr rækjum, steik og humri, en það tekur listakokk til að taka ódýrt hráefni og gera spennandi.

    Sama með þessar einingar. Hvernig er hægt með lágmarskbreytingum, tengibyggingum og samnýttri þjónustu að gera þessa óspennandi kassa að húsnæði sem er bæði ódýrt og einfalt en fellur vel að landslagi og hefðum.

    Þarna eru sannarlega möguleikar fyrir snjalla arkitekta.

    Á þessari síðu má sjá sniðugar lausnir á einingahúsum byggðum aðallega úr flutningagámum.

    http://ecoble.com/2008/12/21/even-more-creative-shipping-container-houses/

    Það er ósanngjarnt að afskrifa fyrirfram þá sem eru að reyna byggja uppferðaþjónustu af meiri vilja en efnum.

    Frekar að styðja þá til að vinna þetta á sem bestan máta með því sem þeir hafa úr að spila.

    • Elín G. Gunnlaugsdóttir

      Ég skal gerast „litla stúlkan með eldspýturnar“ jafnóðum og þetta rís…….!!!

    • Heinrich Heine

      @Breyskur: ,,Það getur hvað auli sem er eldað listamat úr rækjum, steik og humri …“

      Sérstaklega ef hann fær að nota nóg af tómatsósu.

  • jens helga

    Ahyglisvert

  • Árni Ólafsson

    Ferðaþjónusta sem byggist á einnota túristum – fólki sem hvort sem er kemur ekki aftur – eða hvað?
    Ferðaþjónustan velur magn umfram gæði. Meginmarkmiðið er að selja sem flest flugsæti, leigja út Yarisa og selja pulsur í vegasjoppum.

    Jafnvel svæði sem eru einstök á heimsvísu bjóða upp á gámagistingu sbr. þessa mynd:
    http://www.teikna.is/Ymislegt/Skurar_i_Vogum.jpg

    Er ekki stöðugt verið að vinna að einhvers konar stefnumótun um ferðaþjónustu? Skilar það engum árangri?

  • Þetta á heima áfram við Kárahnjúka. Eftir byltinguna gæti þetta orðið okkar Kolyma.

  • Íslendingar hafa einfalda hugsun.

    Gámaþjónusta er einfaldari en ferðaþjónusta.

  • Ódýrt húsnæði fyrir námsmenn?

  • Einar Jóhansso

    Segjum „NEI“ við vinnubúðahótelum en styðjum hugmynd um stríðsminjahótel íi Hvalfirði þar sem allt yrði í felulitum. Þjónustufólkið í hermannabúningum seinni heimstyrjaldarinnar og gömul herskip við bryggjuna. Af hverju er ekki fyrir áratugum búið að framkvæma þessa hugmynd?

  • Þóra Bergný

    Ég tek undir með Hilmari Þór. Þetta bara má ekki gerast, algjört metnaðarleysi og skemmdarstarfsemi. Hvar eru nú byggingaryfirvöld og byggingareglugerðir þessa lands ?

    • Byggingaryfirvöld eiga eftir að hakka þetta í sig. Svona kofar standast engan veginn nútímakröfum um brunarvarnir, einangrunþykkir í veggjum og þökum og fleira. það verður ódýrara að byggja frá grunni en þetta sem verður ónýtt eftir nokkur ár

  • Hilmar Þór

    Nei Páll, þetta er ekki talið nothæft sem fangelsi en seljanlegt sem hótel víða um land.

  • Guðmundur Guðmundsson

    Magnað.
    Fyrst tóku þeir af okkur Hafrahvammagljúfur, setlögin og fossaraðirnar og náttúruna norðan Vatnajökuls og skemmdu Lagarfljót. Og nú ætla þeir að sóða út landið með vinnubúðum og selja sem hótel.

    Þetta land er algert Klondike áls og ferðamannaplokks í stað gullsins í Alaska.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn