Þriðjudagur 04.11.2014 - 11:07 - 17 ummæli

Vogahverfi – Næsta heita hverfið?

 

Vinningstillaga jvantspijker + FELIXX frá Hollandi

Vinningstillaga Teiknistofunnar Traðar

 

Það er algengt um víða veröld að hverfi sem ekki hafa verið í umræðunni eða vakið athygli verða skyndilega vinsæl. (Mýrin í París, Meatpacing District í NY og m.fl) Fasteignaverð hækkar í kjölfarið og inn í hverfin flytja framsækin fyritæki og fjölskyldur fólk.   Etirspurnin eftir húsnæði af öllum gerðim eykst veruleha á þessum svæðum. Þetta er sttundum kallað „heitt svæði“.

Við þekkjum þetta frá flestum borgum.

En þetta gerist ekki hvar sem er. Það þarf að vera til staðar hvati og infrastruktúr sem getur borið umbreytinguna.

Menn hafa verði að velta fyrir sér þróuninni í Reykjavík. Hvort það sama muni gerast hér og í framhaldinu hvar?  Margir spyrja hvaða hverfi muni taka við af póstnúmerum 101 og 107 í Reykjavík, haða svæði hafa það sem þarf og hvaða svæði er hægt að umbreyta þannig að þau verði „heit“?

Ég held að það verðu póstnúmer 104 eða nánar tiltekið Vogar/Heimar og Vogabyggð.  Vogabyggð nýtt heiti á svæðinu við Súðarvog inni við Elliðaárósa.

Ég byggi þessa spá mína á þeirri stefnu sem mótuð er í aðalskipulagi Reykjavíkur AR 2010-2030 og kemur þar margt fleira til.

Eins og fram kom í forvinnu vegna Hverfaskipulagsins sem unnið var s.l. vetur hefur hverfiseiningin Vogar í Borgarhluta 4 upp á gríðarleg tækifæri  að bjóða.

Þaðan er stutt í alla þjónustu og gríðarlegt framboð af atvinnutækifærum. Stutt er í víðáttumikil útivsitasvæði í Laugardal, Elliðáárdal og þaðan upp í Heiðmörk. Þarna er veðursæld. Félagsleg samsetning og hlutfall íbúðagerða er í miklu jafnvægi eins og kom fram í forsögn hverfaskipulagsins og margt fleira.

Í Borgarhluta 4, Laugardal, eru 10 svokölluð „þróunarsvæði“ samkv. Aaðalskipulaginu. Tvö þeirra tengjast Vogum beint. Annað er Skeifan þar sem AR 2010-2030 gerir ráð fyrir að byggt verði um 85 þúsund fermetra nýbygginga með atvinnutækufærum og um 500 íbúðum.  Á þróunarsvæði við Súðarvog, svokölluð Vogabyggð, á að byggja um 40 þúsund fermetra atvinnuhúsnæði og 400 íbúðir til viðbótar því sem fyrir er.

En sterkasti þátturinn er tvímælalaust hinn svokallaði samgönguás sem mun binda borgina saman í línuborg frá Vesturbugt við Granda alla leið að Keldum austast í borginni.  Samgönguásinn er sterkasta og mikilvægasta aðgerði sem aðalskipulagið gerir ráð fyrir til að bæta borgina. Samgönguásinn mun breyta borginni verulega til vistvænni, betri og skemmtilegri borgar ef vel tekst til.

Í ljósi þessa eru allar aðstæður og infrastrúktúr í Vogahverfi sérlega hagstæðar og miklir möguleikar til að skapa mjög eftirsóknarverðar aðstæður.  Tækifærin til endurnýjunnar hverfisins felast í þróunarsvæðunum þar sem byggingamagn mun aukast um 130 þúsund fermetra og 900 íbúðir auk þess sem samgönguás aðalskipulagsins mun gegna lykilhlutverki.

Samgönguásinn mun liggja framjá Voghverfi og Vogabyggð og tengja hverfið miðborginni, menningu, útivist og listum annarsvegar og verslun, atvinnutækifærum og þjónustu hinsvegar. Samgönguásinn verður vonandi lífæð borgarinnar allrar.

+++++++++

Þessi þróun er þegar hafin á svæðinu við Súðarvog, „Vogabyggð“  og vinnan er komin nokkuð áleiðis.

Það er bráðum ár síðan blásið var til samkeppni um þróunarsvæðið við Súðarvog samkvæmt aðalskipulagi að undangengnu forvali. Af þeim tillögum sem bárust þóttu tvær skara framúr. Það eru tillögurnar sem birtar eru myndir af efst í færslunni.

Sú efri kom frá Hollensku arkitektastofunum jvantspijker + FELIXX  sem dómnefndin taldi áræðna og frumlega. Í dómsorði má lesa „Samgöngukerfi hverfishlutans er vel leyst og tenging Súðarvogs við Dugguvog er sannfærandi. Sameinaðar eru þær megin akstursleiðir gegnum hverfið. Nýtt miðlægt torg sem býður upp á sterka hverfismiðju er annarsvegar skemmtilega tengt göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut og hinsvegar göngubrú yfir Naustavog  leiðin tengist þannig aðalleið að skóla. Feiknarlega vel unnin tillaga og skemmtileg. „

Myndin strax fyrir neðan er unnin af  Teiknistofunni Tröð og taldi dómnefnd hana jarðbundin og raunsæja. Í dómnefndaráliti stendur „Tillagan byggir á skýrri landnotkun með atvinnuhúsnæði við Sæbraut, því næst blandaðri byggð sem nær yfir Súðavog og austast íbúðabyggð að Naustavogi. Byggðin er 3-5 hæða. Núverandi gatnakerfi er lagt til grundvallar og Súðavogur er megin ásinn í norður-suður. Dugguvogur og Súðavogur halda sér að mestu og þvergötur frá Súðavogi liggja niður að strandgönguleið. Tillagan er vel unnin og skýr, bæði í framsetningu og hugsun.“

Ég skoðaði þessar tillögur á sínum tíma áður en dómur féll og var nokkuð hrifinn af tillögu Hollendinganna en tók ekki sérstaklega eftir hinni en sé nú að hún er eins og dómnefns segir, jarðbundin, raunsæ og með skýra landnotkun.  Það var skynsamlegt af dómnefnd að spyrða framsækna tillögu Hollendingana við tillögu sem augljóslega var unnin af fólki sem, þekkir til skipulagsmála hér á landi.

Eitt sem olli mér strax vonbrigðum í báðum tillögunum var að höfundarnir höfðu ekki tekið tillit til samgönguáss aðalskipulagsins sem ætti að vera helsti burðarás hverfisins og stuðla að betra hverfi og betri vistvænni borg með minnkandi einkabílaumferð. Þetta er meginatriði aðalskipulagsins. Hitt eru tengingar hverishlutans til austurs að gamla Vogahverfinu þar sem er að finna mikilvæga stuðningsstofnanir fyrir hverfið á borð við menntaskóla og margþætta þjónustu- og íþróttastarfssemi.

+++++

Í síðustu viku voru drög að deiliskipulagi kynnt hjá borginni og ber að fagna því. Og dr0gunum var fagnað hef ég heyrt. Mér er sagt  að markmiðum AR 2010-2030 sé fylgt eftir. Ég þekki ekki tölfræði skipulagsvinnunnar en geri ráð fyrir að hún sé í samræmi við nýsamþykkt aðalskipulag varðandi landnýtingu. Ég verð samt að segja að ég er ekki alveg sammála aðalskipulaginu þarna og tel nýtinguna meiga vera nokkuð meiri en aðeins 400 íbúðum á svæðinu. Sennilega yrði til bóta ef íbúðum yrði fjölgað verulega og atvinnuhúsnæði aukið sömuleiðis. Kannski  úr 400 upp í 6-700 íbúðir og atvinnuhúsnæði úr 40 þúsund upp í 60 þúsund.  Þessi hugleiðing mín er kannski óábyrg enda eru þessar tölur mínar byggðar á tilfinningunni einni saman.

Hitt er líka mikilvægt og það er að hlutfall íbúðagerða falli að byggðinni sem er í nágrenninu, Fylla upp í skort íbúðagerða og aðvitað huga að því hvaða nýjar íbúðagerðir framtíðin mun kalla á.

Þetta stefnir í mjög gott borgarskipulag sem mun styðja vel við nærliggjandi byggð ef fer sem horfir.

Mér þykir samt enn vanta nokkuð á markviss tengsl við Vogahverfi og að betri grein sé gerð fyrir samgönguásnum en það er meginforsenda fyrir þeirri spá minni  að Vogahverfi með þróunarsvæðum í Skeifu og við Súðarvog  verði heitasta hverfni borgarinnar eftir svona 15-20 ár.

Það eru hörkuspennandi tímar framundan í skipulagsmálum í Vogum Skeifu og við Súðarvog.

++++++

Það er gaman að sjá ferska vinda blása um deiliskipulagsvinnu í borgarlandinu og að borgin sýni í verki að hún ætlar að standa við áform sín um betri vistvæna borg.  Þó íslenskt skipulags fólk sé fært í sínu fagi er alltaf gott að fá innblástur frá erlendum kollegum eins og hér í Vogabyggð.

Það leiðir hugann að því að fyrir svona 10 árum sóttist ein færasta arkitektastofa í Evrópu sem sinnir íbúða og borgarkipulagi, Vandkunsten, í Danmörku eftri að taka þátt í samkeppni um skipulag í Úlfarsárdal.  Borgi hafnaði umsókninni af óskiljanlegum ástæðum.  Ég velti fyrir mér hvort Reykjavíkurborg hefði orðið undir í baráttu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um húsbyggjendur ef Vandkúnsten hefði fengið tækifæri til þess að leggja fram sínar hugmyndir um íbúðabyggð í Ulfarsárdal?

++++

Að neðan koma myndir af skipulaginu fengnar víðsvegar af netinu. Strax að neðan kemur yfirlitsuppdráttur af sameinaðri tillögu sem sýnir að samgngúásinn er punkteraður inn eins og menn séu ekki alveg samfærðir um tilgang hans eða hafi ekki trú á honum og svo koma nokkrar fjarvíddarteikningar víðsvegar úr Vogabyggð.

Svo er að finna mjög upplýsandi myndband af skipulaginu á Facebook síðu sem stofnuð hefur verið um hverfið. Hana má finna á eftirfarandi slóð:

(https://www.facebook.com/pages/Vogabygg%C3%B0/497988203640418?fref=ts)

 

 

Skipulag22

 

 

 

Felixx_Vogabyggð_12

Picture5

Picture8

6

1

3

Picture4

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Annað varðandi Ásinn með ákveðnum greini. Þróunar- og samgönguás Reykjavíkur samkvæmt aðalskipulagi borgarinnar er ekki eini mögulegi ásinn sem skiptir máli. Það þarf líka að hugsa um norður-suður ásana í heildarsamhengi höfuðborgarsvæðisins. Borgarlínan sem fjallað er um í tillögu að nýju svæðisskipulagi höfuborgarsvæðisins tekur á þessu. Frekar en að hugsa sér einn ás frá vestri til austurs þá ætti frekar að líta á net þróunarása sem leggst yfir allt höfuðborgarsvæðið og tengir saman kjarna þess. Ég vildi sjá það kannað hvort að ekki sé ekki heppilegt að í Vogabyggð séu vegamót vestur-austur áss borgarinnar og annars áss til suðurs að Mjódd, Smára og með tengingu inn á ásinn sem liggur eftir Hafnarfjarðarvegi inn í miðbæ Hafnarfjarðar. Þá væri býsna þægilegt að búa í Vogunum og hafa auðveldan aðgang að bestu almenningssamgöngum að öllum kjarnasvæðum höfuðborgarsvæðisins.

  • Ég tek undir það að ég vildi að minnsta kosti sjá skipulagið gera ráð fyrir þeim möguleika að geta verið framlenging af sama borgarvef og er vestan Sæbrautar. Þetta eru ágætar hugmyndir en mér finnst þær horfa of mikið inn á við og reyna að mynda sjálfstæða einingu þegar líklega væri frekar við hæfi að horfa á Vogabyggð sem framlengingu þeirra Voga sem nú þegar eru gamalt og gróið hverfi. Einnig finnst mér lítið tekið á þeim þætti sem ætti að vera mikilvægasti eiginleiki hverfisins og útgangspunktur en það er samgöngu og þróunarásinn. Á þessum tillöguuppdráttum birtist hann annað hvort alls ekki eða í mesta lagi sem brotin lína í suðurjaðri reitsins, eins og ásinn eigi í mesta lagi að vera abstrakt hugmynd um þróun Reykjavíkur. Ég hef gengið út frá því að fyrirætlanir um ásinn miðuðu að því að hann væri braut hágæða almenningssamgangna sem keyrðu í eigin rými með hárri tíðni um helstu atvinnusvæði borgarinnar og að stefna ætti að því að beina uppbyggingu sérstaklega að svæðum í kringum stoppistöðvar á ásnum.

    Það væri til bóta fyrir Vogabyggð ef það væri hægt að sveigja ásinn aðeins lengra norður, en það er vissulega ekki auðvelt þar sem hann er framlenging Suðurlandsbrautar, má ekki taka krappar beygjur og þarf að krækja fyrir stóra einkalóð sem einnig hefur verið farartálmi vegna reiðhjólaleiða. Í öllu falli hefði ég haldið að skipulag Vogabyggðar þyrfti að taka meira mið af því að beina þéttleika innan svæðisins að ásinum og snúa að honum frekar en snúa rassinnum að honum eins og mér sýnist þessar hugmyndir gera ráð fyrir.

  • Eysteinn Jóhannsson

    Enn einn búsasaumurinn!

    Af hverju geta arkitektar ekki séð að ekkert hverfi er eyland eins og Einar segir að ofan. Það verður að tengja alla borgina saman annars eru þetta bara allt saman úthverfi. Það er eins og menn sjái ekki lengra en nef þeirra nær.

    Þessi þröngsýni (afsakið orðbragðið) er ófagleg.

    Sæbraut þarf að fara í stokk og samgönguásinn þarf að vera forsenda fyrir skiopulagsgerðinni.Vogahverfi verður að vera hluti borgarinnar. Annað er ófaglegt og það er þetta skipulag enn sem komið er.

    Þessi atriði verður að laga annars er þetta bara bútur sem ekki skapar borg.

  • Magnús Birgisson

    Aðeins um Úlfarsárdalinn í tilefni af athugasemd Hilmars.

    Úlfarsárdalurinn var skipulagður sem „Þingholtin í úthverfi“…sami þéttleiki byggðar og íbúa og í Þingholtunum. Hús að götu…verslanir og þjónusta á jarðhæðum. Veslunargata þvert í gegnum hverfið með búðum á jarðhæð og íbúum á efri hæðum. Kannski ekkert ósvipað þessum hugmyndum um Vogahverfið sem hér er fjallað um….

    Með þetta var farið af stað og efnt til lóðaútboðs sem skilaði dýrustu lóðum í sögu Reykjavíkur.

    Öllu var síðan kastað út um gluggann af borgaryfirvöldum á síðasta kjörtímabili og rýtingurinn rekinn í bakið á lóðarhöfum í dalnum. Í dag er meira að segja unnvörpum verið að breyta deiliskipulagi þarna þannig að búðum og þjónusturýmum er eitt út og breytt í íbúðir. Tækifærið er yfirleitt notað og bílastæðum fækkað í leiðinni. Íbúar mótmæla breytingum á deiliskipulagi…en við vitum hvaða áhrif það hefur innan borgarkerfisins undir stjórn Dags…

    Eftir stendur hverfi sem er 1/5 af upphaflegri stærð og án nokkurrar verslunar eða þjónustu annarrar en þeirrar sem borginni sjálfri þóknast að koma á laggirnar.

    Það er í raun ekkert skrítið að borgin hafi orðið undir í samkeppninni um íbúa. Borgin bíður ekki uppá lausnir fyrir fólk heldur fjárfesta…

    • Læk

    • Úlfarsárdalurinn er eitt af mörgum nýjum hverfum „brostina vona“,sem nóg er til af um allan heim.Í tveim af elstu borgum Evrópu,Köln og Róm,þar sem ég lifi og þekki vel til,vilja langflestir búa innan um „lifandi mannlífið“,þ.e. í vöxnum hverfum,
      þó að umferð og annað geti skert lífsgæðin.
      Vogarhverfið gæti orðið eitthvað svipað gömlu og sjarmerandi hverfum Reykjavíkur vestan og austan við Tjörnina,ef Borgaryfirvöldin og þeir,sem „ráða ferðinni“sameinast um að slíkt umhverfi vaxi..
      Tíminn er kominn til að slíkt verði loksins veruleiki!

    • Magnús Birgisson

      Gunnlaugur Stefán Baldursson. Þú býrð greinilega of langt í burtu til að fylgjast með…

      Það eina sem hefur brugðist í Úlfarsárdal eru efndir og loforð stjórnmálamanna. Það er nú það hverfi sem stækkar hraðast og bætir við sig flestum íbúum í Reykjavík. Þetta hverfi er í dag eini valmöguleiki fjölskyldufólks í Reykjavík……

      Eina „lifandi mannlífið“ sem þú finnur í Reykjavík er það sem er klætt í flíspeysur og regnstakka og talar þýsku, frönsku, ensku…osfrv….og verslar í verslunum sem heita „Woolcano“ og borða á matsölustöðum sem heita „Brooklyn Bar og Bistro“. Klassý….

    • Magnús,ég er að tala um svæði eins og í kringum Ljósvalla/Ásvallagatu eða við Sundlaug Vesturbæjar:t lítið af túristum,en „pesónulegar“ verslanir ,nýtt kaffihús,bíó,elliheimili og auðvitað almennur infrastrúktúr.
      Hér er einmitt „lifandi mannlíf“ borgarbúa,þveröfugt við „túristamiðstöðvar“ miðbæjarins.

    • stefán benediktsson

      Bara smá athugasemd. Það var ekki síðasta borgarstjórn sem „eyðilagði“ Þingholtsskipulag Úlfarsárdals. Fyrsta verk Sjálfstæðismanna 2006 var að breyta skipulaginu og færa það meira í Garðabæjarstíl. Síðustu borgarstjórn fannst ekki svara kostnaði að fara að rugla í þessu skipulagi enn og aftur og prjónaði því við það svo úr yrði fullvaxið skólahverfi.

  • Góð grein og þörf umræða.

    Ég verð reyndar alltaf svolítið tortryggin þegar ég sé svona glansmyndir.

    Mér finnst oft vera galli við svona samkeppnir um reiti að menn horfa ekki nægilega vel út fyrir þá. Sérstaklega á það við göturnar sem afmarka þá. Götur eru mjög vanmetinn hluti af byggðaskipulagi. Svo tek ég undir orð þín um þróunarásinn.

    Það sem mig langaði þó að leggja út frá er seinasta atriðið sem þú nefnir. Það er Úlfarsárdalur. Þú veltir því upp hvort Reykjavíkurborg hefði vegnað betur í samkeppni um húsbyggjendur ef hún hefði hagað hönnun þess öðruvísi. Mér finnst áhugavert að þú skulir tala um þetta með þessum hætti.

    Ég hef hallast að því að sú samkeppni sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu voru í árin fyrir hrun sé með því versta sem komið hefur fyrir í íslenskum skipulagsmálum. Ef menn vilja byggja fjölbreyttari byggð, ekki bara í úthverfum, þá hefur þessi samkeppni orðið til þess að því seinkar að öllum líkindum um nokkra áratugi miðað við það sem annars hefði getað orðið.

    Það er á allra vitorði að Reykjavík er dreifð miðað við margar evrópskar borgir, og margir eru sammála um að vilja vinna að því að breyta því.

    Til að breyta borginni þarf eftirspurn eftir húsnæði. Íbúum fjölgar ekki ótakmarkað svo nýir íbúar eru dýrmætir. Hvert sveitarfélaganna var fyrir hrun með á teikniborðinu og að hrinda í framkvæmd byggingu hverfa sem annað hefðu íbúafjölgun til áratuga.

    Allt var það meira og minna í gisnum afmörkuðum botnlangavöndum sem eru ekki góð nýting á kosnaðarsömum innviðum.

    Af þessum ástæðum hefði ég talið það blessun ef uppbygging í Úlfarsárdal hefði ekki verið farin af stað þegar hrunið kom. Því nú sitjum við uppi með dýrt hverfi sem seinkar því að byggja megi borgina upp á annan hátt. Sem þó getur ekki staðið hálfklárað, íbúa þess vegna. Á höfuðborgarsvæðinu eru fjölmörg prýðisgóð úthverfi.

    Þessari heildarmynd má að mínu mati ekki gleyma í nokkurri umfjöllun um skipulagsmál höfuðborgarsvæðisins.

    • Einar Guðmundsson

      Nákvæmlega. Engin gata og ekkert hverfi er eyland. Það er sláandi hversu illa þetta hverfi virðist tengjast Vogunum, Heimum og Sundum. En gleymum ekki að þetta er enn í vinnslu. Ef samband verður lagað milli Súðarvogsbyggðar og Voga og þaðan í Skeifu verður þetta mjög áhugavert vegna legunnar, landgæða og hvernig atvinnu- og íbúðahúsnæði er flétta saman. Í svoleiðis hverfi vill ég búa og með laxá og listibátahöfn í göngufæri.

    • Hilmar Þór

      Já, Hlöðver þetta síðasta þar sem drepið er á samkeppni sveitarfélaga um húsbyggjendur ber að líta til þess að markhópurinn er ekki sérlega upplýstur um bygginga- og skipulagsmál.

      Markhópurinn virðist velja sér byggingarstað eftir lóðaverði eða hversu grundunin muni nú kosta, en ekki eftir gæðum byggðar í eins miklu mæli.

      Þessu getum við aðeins breytt með því að upplýsa neytendur. Og það gerum við með aukinni almmennri umræðu (á borð við þennan vef) en helst með því að kenna skipulag- og byggingalist í grunn- og framhaldsskólum.

      Þetta atvik með Vandkunsten og Úlfarsárdl var í raun svo gróteskt að manni varð orða vant. Þegar valdar voru teiknistofur í forvalinu var allt annað en fagleg sjónarmið sett á vogaskálarnar.

      Mér er fyrirmunað að skilja framferðið eða gleyma því þó ég gjarna vildi.

      Ég er sannfærður um að þáttaka Vandkunsten hefði breytt miklu í umræðunni um skipulags og byggingamál hér á landi jafnvel þó svo að þau hefðu ekki unnið samkeppnina.

  • Ég vona bara að það sé gert ráð fyrir nýju bókasafni í þessum tillögum. Nú er þessu stóra hverfi þjónað af elsta, en jafnframt langminnsta útibúi Borgarbókasafnsins, sem hefur þurft að mæta afgangi undanfarin ár. Safnkosturinn fyrir löngu búinn að sprengja utan af sér 200 fm húsnæðið, sem er að hruni komið og ekkert hefur verið gert fyrir. Um 1980 átti að stækka safnið, það var búið að samþykkja teikningar og taka skóflustungu en ekkert hefur gerst. Þrátt fyrir allt er þetta eitt vinsælasta útibú Borgarbókasafnsins og fær álíka margar heimsóknir og stærri útibúin. Það er alveg ljóst að til þess að þetta hverfi geti verið almennilega heitt, þá þarf bókasafn í samræmi við stærð hverfisins.

  • Jóhannes

    Þetta lítur vel út. Hver er tímaáætlunin. Hvenær koma íbúðir á þessum stað í sölu?

  • Ég spái að 107 verði næsta heita hverfið. Nú hefur Kaffihús Vesturbæjar verið opnað við Hofsvallagötu og þegar brúin kemur yfir Fossvog verður allt á suðupunkti.

  • Bjarni Gísla

    Ótrúlega flott þétt blanda af atvinnustarfssemi og íbúðum. Þessi blanda er eftirsóknarverð. Stöugt líf, líka á daginn þegar fólk er í vinnu og skóla eins og í 101
    Til hamingju.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn