Ég hef verið í Vínarborg alla vikuna. Heimsótt tvær arkitektastofur og arkitektaskólann í TU. Fékk leiðsögn af atvinnumönnum sem sýndu mér gamlar byggingar og nýjar m.a. eftir Coop Himmelblau, Hans Hollein, Jean Nouvel og fl.
Það sem vekur sérstaklega athygli í borginni er öll hámenningin. Hún blómstrar hér á öllum sviðum og hefur gert um aldir. Og nú njótum við hennar. Snobbið borgar sig.
Í hinum stóra heimi er það einkum tónlistin sem borgin er fræg fyrir. Þess vegna kom það mér á óvart hvað myndlist er hér umfangsmikil. Það eru myndlistargalleri út um allt. Ég er búinn að sækja meira en 10 sýningar og eru þær hver annarri betri.
Það eru hundruð verka hér eftir Miro, Ernst, Picasso, Braque, Chagall, Renoir, Monet , Rembrant , Ruben og alla sem máli skifta. Og svo sáum við verk eftir Ólaf Elíasson, einn íslendinga.
Ein stórbrotnin sýning Egon Schiele varð á vegi okkar. Schiele var bæði skáld og myndlistarmaður. Hann dó aðeins 28 ára gamall árið 1918 úr spönsku veikinni.
Hann hefur verið ótrúlega flinkur og afkastamikill. Ég hef ekki heyrt hans getið áður. Með færslunni fylgja nokkrar myndir hans.
Hér fylgja einnig myndir af verkum stjörnuarkitekta sem er auðvitað ósanngjarnt vegna þess að þeir móta ekki anda borgarinnar. Það gerðu gömlu mennirnir sem unnu fyrir keisarana og yngri menn á borð við Wagner.
Það er athyglistvert að nefna það að einn ágætur arkitekt, kunningi minn, sem býr í Wien og rekur hér arkitektastofu með nokkrum umsvifum, á engan bíl. Hann segir það ekki borga sig. Hann fer með allra sinna ferða með ágætu almenningsflutningakerfi borgarinnar.
Ef hann þarf að fara út fyrir bæinn tekur hann bílaleigubíl og ef almenningflutningar henta ekki í önnum dagsins þá tekur hann leigubíl. Það borgar sig ekki að eiga einkabíl fyrir hann.
Ég mundi vilja eiga heima í slíkri borg. Borg þar sem afnot af einkabíl er ekki forsenda búsetu.
Inngangurinn i Albertina eftir Hans Hollein
Mæli með Hundertwassersafninu, og Hundertwasser yfirleitt. Sýn hans á byggingarlist á vel heima á víðsjálum tímum loftslagsbreytinga.
Arkitektur, tonlist og myndlist.
I thessum efnum toppar ekkert Wien.
Vín er eitt meiriháttar listaverk. Hvert sem maður lítur, alls staðar eru konfektmolar fyrir augun. Listamenn hennar eru ekki bara Egon Schiele, heldur Gustav Klimt, Kolo Moser, Oskar Kokoschka, Fritz Wotruba, Richard Gerstl, Ernst Fuchs, Arik Brauer, Rudolf Hausner, Arnulf Rainer, Wolfgang Hollegha, Elke Krystufek.o.s.frv.
Ekki bara vegna þess að maður kemst um allt, án þess að eiga bíl (þetta getur maður raunar í flestum stórborgum með góðum innfrastrúktúr, m.a. með neðanjarðarlestum) myndi mig langa til að búa í Vín, heldur vegna allrar fegurðarinnar og þessarar kitlandi skemmtilegu menningu. Það tæki mann langan tíma að komast yfir að sjá alla menninguna sem í boði er. Úti um allt eru smásöguefni, hvort sem um er að ræða Fíaker-eklanan eða kaffihúsaþjóna, fólk í biðröð fyrir utan Café Sacher o.s.frv.
Ég hjólaði sl. sumar um miðborgina, um skemmtgarðinn Prater, til Hundertwasser húsanna og aftur inn í miðborg, það var aldeilis frábært, því að maður kemst á hjóli hraðar um og sér meira. Eftir langan, góðan hjólatúr streyma síðan hamingjuhormónar um líkamann og ég gjörsamlega kolféll fyrir þessari frábæru borg.