Ekki lengur pláss fyrir Guð sem skapara heimsins segir Stephen Hawking í nýrri, óútkominni, bók sinni. Vísindin hafa nú gert Guð óþarfan þegar kemur að sköpun heimsins segir hann á sama hátt og þróunarkenning Darwins sýndi fram á að hann var óþarfur í sköpun lífsins og þar með mannsins.
Spurning Hawkings er annars þessi: ,,Þurfti alheimurinn skapara“. Svar hans er einfalt ,,Nei“. Það þurfti hvorki Guðlega hönnum eða guðlega hönd. Tilkoma alheimsins laut einfaldlega eðlisfræðilegum lögmálum. Vegna aðdráttarlögmálsins hlaut alheimurinn að skapa sjálfan sig og kunn eðlisfræði lögmál eru ástæða þess að alheimurinn er til segir hann.
Hawkings taldi pláss fyrir Guð í bók sinni 1988 en hefur nú horfið frá því. Hann hafnar nú alveg því að á bak við alheiminn sé ,,heili“ Guðs, eingöngu sé um að ræða eðlisfræðileg lögmál.
Ég tek ofan fyrir Hawkings. En Guðsskilningur hans er annar en minn og okkar flestra hygg ég. Og hann er að skrifa til fólks með mjög bókstaflega guðshugmynd. Við flest hér höfum fyrir margt löngu, held ég, gert okkur grein fyrir því að Guð er kærleikur og stóð alls ekki í neinum flóknum útreikningum fyrir þúsundum milljónum ára hvað þá að hann hafi setið við að teikna risaeðlur, mýs og menn. Okkar Guð er hins vegar á bak við allt, kærleiksrík móðir, kærleiksríkur faðir, skapari alls hins góða, verndari fegurðarinnar, svar við trúarþörf mannsins, frelsari mannanna.
Ég ætla því all ekki að skipta um námsgráðutitilinn ,,guðfræðingur“ og tel að enn sé og muni ætíð verða pláss fyrir umburðarlynda og mannelskandi guðfræði . Við höfum hins vegar enga þörf fyrir öfgar og vitleysu sem eru vitaskuld fylgifiskar mannlífsins og vitaskuld þess heldur ef þetta er tóm eðlisfræði.
(Byggt á forsíðufétt the Times í morgun 2. september , en óútkomin bók Hawkings þar sem hann boðar það að manninum muni brátt takast að setja fram heildstæða vísindalega kenningu um alheiminn, er kynnt þar í dag og hefur þegar vakið athygli og umtal).
@Baldur Kristjánsson: ,,Tilkoma alheimsins laut einfaldlega eðlisfræðilegum lögmálum. Vegna aðdráttarlögmálsins hlaut alheimurinn að skapa sjálfan sig …l segir (Hawking).“
Einfaldlega?
Hvaðan komu eðlisfræðilegu lögmálin?
Af hverju urðu þau til?
Einfalt svar óskast.
Skrýtið – og þó kannski ekki – að fá engin svör við (að ég hélt) frekar einföldum spurningum um meyfæðingu og upprisu.
Ég velti samt fyrir í ljósi spuringanna um hvaðan eðlisfræðilög mál komu og hvernig þau urðu til, hvernig viðbrögð trúaðra yrðu, ef við trúlausir gagnrýndum til að mynda biblíuna af jafnmikilli vanþekkingu og virðist vera um skrif Hawkings.
Nei, það er ekki til einfalt svar.
Valgarður,
Meyfæðingin og upprisan og aðrar sögur úr biblíunni hafa ekkert að gera með alheiminn eða „Guð“ Þetta eru gamlar munnmælasögur sem hafa varðveist í tímans rás misvel þó.
Þannig hafa líka íslendingasögurnar varðveist og eflaust er einhver þráður réttur í þeim en sögurnar ýktar upp til þess að gera þær spennandi.
Hvað ætli margir hafi heyrt fjallræðu Jesú þar sem hann byrjar setningarnar á Sælir eru.. það var ekki til magnarakerfi í þá daga og ekki útvarp þannig að einungis þeir sem stóðu honum næst hafa heyrt hvað sagt var. Síðan hafa þeir dreyft sögunum áfram.
Boðskapur Jesús er hinsvegar jákvæður og á ágætt erindi við marga.
Þeir sem trúa bókstaflega því sem biblían eða önnur trúarrit eru að segja verða að hafa það fyrir sjálfan sig. Það er ekki hægt að rökræða við þannig fólk. Það heitir að trúa í blindni án þess að skylja
Hvað Guð er eða alheimsorkan, lífsandinn eða hvað menn vilja kalla þetta er hinsvegar mun erfiðari spurning að svara.
Þegar menn geta svarað því afhverju við erum lifandi eða hvaðan kemur upphafið á öllu þá vita menn hvað guð er.
Þetta eru bara svo stórar spurningar að ég efast um að menn hafi það sem þarf til þess að geta áttað sig á svörunum við þeim spurningum .
Forvitnin rekur menn hinsvegar áfram í leit að svörum við þessum spurningum þótt erfiðar séu.
Hraðallinn í CERN bætir kannski einu púsli við svarið en langt er í land enn.
Þórhallur,
Það eru einfaldlega margir sem trúa enn á meyfæðinguna og upprisuna. Og flestir þeirra setja það sem grundvallar atriði fyrir trúnni.
Við erum auðvitað sammála um hvernig sögurnar af Jesú hafa líkast til þróast, held kannski að þetta sé enn losaralegra í upphafi, og ekki er ég sáttur við allan boðskappinn sem honum er eignaður.
Það sem vefst fyrir mér er hvers vegna verið er að kalla þetta og allar mögulegar skýringar „guð“ því þetta á ekkert skylt við hugmyndir manna gegnum aldirnar um guði.
Mér finnst miklu hreinlegra að nota önnur hugtök.
Og ég sé ekki hvað „lífsandinn“ eða „alheimsorka“ hefur með kirkju að gera.
En það er um að gera að leita skýringa á forsendum vísindanna.
En það er líka mjög mikilvægt að átta sig á að það hefur ekkert með guð að gera. Ekki einu sinni í einhverri óskýrri „þroskaðri“ mynd Baldurs, að eigin sögn.
Læt þetta nægja hér.. en set inn færslu fljótlega um þetta á Eyjuna.