Föstudagur 17.5.2019 - 12:36 - 1 ummæli

Hólmavík – þar sem lognið á lögheimili.

Ók til Hólmavíkur í gær. Fór Holtasvörðuheiði, Hrútafjörð, Bitru og Kollafjöð þ.e. norður Strandir. Rifjaðist upp fyrir mér hvað þetta er geysilega falleg leið. Útsýnið þegar keyrt er niður í Kollafjörð er þannig að manni líður á kafla eins og maður sé innan í póstkorti. Leiðin heim til höfuðborgar um Steingrímsfjarðarheiði, Saurbæ og Dali er líka stórfengleg. Á leiðini norður rifjuðum við upp bæjarnöfn, nöfn á eyjum, fjöllum og dölum en mundum ekki annað úr bókmenntum en framhjágöngu Þórbergs sem er dásamleg frásögn. Athygli vakti að ekki er búið að slitleggja nema um helming leiðarinnar norður Strandir og um leið hvað maður er orðinn mikið verri í því að keyra á möl frá því sem áður var. Úr þessu þyrfti að bæta því þetta er,eða ætti að vera, öflug ferðamannaleið. Þessi hringur – vow. En frösku kartöflurnar í Staðarskála ollu vonbrigðum. Ég var í sveit á Bálkastöðum hjá Eiríki og Sigríði þegar Staðarskáli var opnaður 1960 eða 1961 og borða þar alltaf þegar ég er á ferðinni í minningu Magnúsar stofnandi staðarins. Hitti Eyjólf, tvíburabróður Arnars, en þeir voru fimm ára gerpi þá, bræður Óla Jóns sem er jafnaldri minn. Ég man að við stukkum 3,75 í langstökki. Þetta eru börn Gunnars og Jóhönnu sem bjuggu í hinu húsinu. Þekkti ekki Eyjólf en hann þekkti mig. Glöggur.

Flokkar: Bloggar · Óflokkað

Mánudagur 10.4.2017 - 14:07 - Lokað fyrir ummæli

Hatursorðræða!

Mér brá svolítið þegar fréttastofa RUV vitnaði í dóm héraðsdóms ,sem sýknaði Pétur Gunnlaugsson af hatursorðræðu í garð samkynhneigða, í þá veru að orð hans væru hluti af almennri umræðu og að almenn umræða væri óhjákvæmilega óþægileg fyrir marga eða kæmi illa við suma. Eitthvað í þessa veruna. Þetta kemur nefnilega hatursorðræðu lítið við.

Haturðsorðræða er skv. Skilgreiningu ECRI er þegar einstaklingar eða hópar eru talaðir niður, hatur eða illur áburður er borinn á persónur eða hópa, áreitni stunduð, móðganir viðhafðar, neikvæð alhæfing notuð um persónur eða hópa, eða réttlæting á slíku, þegar þetta er byggt á pesónulegum eiginleikum eða stöðu vegna kynþáttar, lits, tungumáls, trúar, þjóðernis, uppruna, aldri, fötlun, kyni, eða kynhneigð. Með öðrum orðum þegar þjösnast er á fólki eða hópum og/eða þeim ógnað vegna eiginleika sem eru meðfæddir eða stöðu sem er meðfædd eða áunnin í sumum tilfellum.

Hatursorðræða er með öðrum orðum alltaf í garð þeirra sem eiga undir högg að sækja. Standa tæpt í samfélögum og þurfa stuðning frekar en hitt. Þannig getur hún ekki verið í garð framsóknarmanna, sveitamanna, presta eða sýslumanna. Hún kemur ekki óþægilega við suma eða illa við aðra. Hún er af öðrum kaliber. Rannsóknir hafa sýnt að þar sem hatursorðræða er stunduð eykst ofbeldi í garð þeirra sem fyrir henni verða, morð, meiðingar og vandalismi hvers konar. Lög gegn henni eru sett til að vernda minnihlutahópa fyrir morðum og meiðingum. Skilningurinn er sá að lög um  hatursoræðu komi málfrelsi og tjáningarfrelsi ekki við að öðru leyti en því að vera stuðningur við það.

Svona er þetta meira og minna hugsað i evrópu. Hér á landi eru margir sem aðhyllast bandarísku  hugsunina sem er frekar í áttina að því að allt sé leyfilegt og bann við hatursorðræðu sé skerðing á tjáningarfrelsi. Slík er ekki Evrópuhugsunin. Í Evrópu eru lög gegn hatursorðræðu talin styðja tjáningarfrelsi og um leið auka lífsgæði og bæta líf minnihlutahópa (og þar með allra). Og okkar löggjöf er miðuð bið það og vonandi okkar hugsun.

Ég hef svo ekkert kynnt mér málið gegn Pétri Gunnlaugssyni og legg engan dóm á það en vona bara að Héraðsdómari hafi verið vel lesinn, hafi vitað hvað hann eða hún var að gera, þrátt fyrir tilvitnuð orð RUV í upphafi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.3.2017 - 11:28 - Lokað fyrir ummæli

Fyrrverandi ruglar!

Ég las á Eyjunni að fyrrverandi forsætisráðherra Íslands telji að fólk frá viðurkenndum Alþjóðlegum stofnunum ,,geri sér glaðan dag“ á ferðum sínum er þeir koma til landa til að gera úttekt á ástandi. Ég get frætt þennan mann á því að ekkert slíkt þekkist. Þetta eru harðar vinnuferðir bæði hjá ECRI og sambærilegum stofnunum. Það má vera annað upp á teningnum þegar forsætisráðherrar hittast en hjá sérfræðinganefnd á borð við ECRI þekkist ekkert slíkt. Sami líkir skýrslu ECRI við mentaskólaritgerð. Skýrslur ECRI eru taldar framúrsskarandi hjá öllum er til þekkja, eru notaðar víða um heim m.a. mikið hjá Mannréttindadómstóli Evrópu. Ég hef ekki geð í mér að þýða ummælin og senda út.

Veigamesta hlutverk stjórnmálaflokka er að velja fólk til trúnaðarstarfa sem veldur háum embættum. Er líklegt til að vinna vel að málum og auka hróður lands. Það finnst mér yfirleitt takast bærilega en ekki tókst það hérna.

í skýrslunni er vikið að orðum og gerðum fulltrúa Framsóknarflokksins   ,einkum í Borgarstjórn, varðandi Moskur og múslima, og þau fordæmd. Á þeim tíma var þessi maður formaður flokksins og forsætisráðherra. Hann gerði þau alvarlegu mistök að setja aldrei niður við flokksmenn sína þegar popúlisminn freistaði þeirra og stórskemmdi þannig mannorð, ef svo má að orði komast, flokks síns.

Sjálfstæðisflokkurinn brást betur við og hefur skafið slíka menn af sér og fordæmt rasisma í sínum röðum.  Meira að segja hefur Danske folkeparty rekið flokksmann sem þótti ganga of langt í rasisma.

Sjálfsagt eru stóryrði á borð við þessi ætluð til heimabrúks. Vonandi bara eru heimamenn ekki það illa upplýstir og ,,foringjahollir“  að þeir leggi eyrun við slíku rugli eins og hér er lýst.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.3.2017 - 16:23 - Lokað fyrir ummæli

Vantar heildarlöggjöf gegn mismunun!

Næstu daga ætla ég að týna út úr skýrslu ECRI ýmis tilmæli til stjórnvalda. Fyrst er til að taka að tvenn tilmæli eru sett í forgang og eftir tvö ár mun ECRI sérstaklega tékka á því hvort þau hafi verið framkvæmd.  Fyrri tilmælin eru:

  • ECRI ítrekar eindregið tillögu sína um innleiðingu löggjafar gegn mismunun sem tæki til greina almenn stefnutilmæli nefndarinnar (GPR) nr. 7 um heildarlög sem tækjust á við kynþáttafordóma og kynþáttamismunun.

Um tilmælin er það að segja að það er virkilega kominn tími á það hér að sett verði heildarlög sem banni mismunun. Í nokkrum lögum er bann við mismunun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, trúarbragða o.s.frv. en þau eru á víð og dreif. Það er skoðun ECRI að heillegur lagabálkur sem banni mismunun myndu koma öllum vel bæði þolendum og gerendum, auka réttaröryggi og réttarvitund enda hafa mörg (ég segi ekki flest) ríki lagabálk af þessu tagi í samræmi við stefutilmæli ECRI nr. 7. Í þessum  efnum ættu menn og konur að athuga staðfestingu viðauka nr. 12 við Mannréttindasáttmála Evrópu, en þessi viðauki bannar ómálefnalega mismunun með öllu og myndi gagnast öllum þeim einstaklingum og hópum sem berjast fyrir jafnrétti og mismununarleysi í Þjóðfélaginu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.3.2017 - 15:40 - Lokað fyrir ummæli

Enn meira um ECRI, ECRI lll

Ég þakka Eyjunni fyrir að leifa mér að birta þennan þríleik um ECRI sem einnig er að finna á Facebook.  Með þessum lestri geta þeir sem vilja kynna sér hvernig liggur í málum orðið einhvers fróðari. Og svo geta konur og menn kynnt sér efnið á heimasíðu ECRI.http://www.coe.int/t/dghl/monitoring/ecri/default_en.asp

Einhverjir hafa verið að hnýta í starfsaðferðir ECRI, tala um andmælarétt t.d. sem ekki á við. Evrópuráðið í mynd ECRI í þessu tilfelli hefur aðeins ráðgefandi vald. ECRI byggir ráðleggingar sínar, sem fyrst og fremst eru til stjórnvalda, fyrst og fremst á Mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindadómstól Evrópu. Enn látum ECRI sjálft lýsa starfsaðferðum sínum sem eru marg viðurkenndar af Ráðherranefnd Evrópuráðsins og öðrum stofnunum þess.
,,Eftirlit og landsvakt ECRI er samræmd og nær jafnt til allra aðildarríkja Evrópuráðsins.Skýrslur eru unnar á grundvelli greiningar á gögnum, heimsóknar til landsins sem um ræðir og trúnaðarsamræðna við viðkomandi stjórnvöld.Skýrslur ECRI byggja ekki á fyrirspurnum eða vitnisburðum. Um er að ræða greiningu á grundvelli mikils magns upplýsinga sem er safnað úr mörgum áttum. Við yfirferð skjala er notast við fjölda skráðra innlendra og alþjóðlegra heimilda. Heimsóknir til einstakra landa gera nefndinni kleift að hitta aðila sem skýrslan varðar beint (bæði opinbera og einkaaðila) í því skyni að afla nákvæmra upplýsinga. Í trúnaðarsamræðum milli nefndarinnar og viðkomandi stjórnvalda geta hin síðarnefndu, ef þau telja það nauðsynlegt, gert athugasemdir við skýrsludrögin í þeim tilgangi að leiðrétta staðreyndavillur sem þar er hugsanlega að finna. Að samræðunum loknum geta stjórnvöld, ef þau kjósa, óskað eftir því að sjónarmiðum þeirra verði gerð skil í viðauka við lokaskýrslu ECRI.Í skýrslum í fimmtu eftirlitslotu er áhersla lögð á fjögur atriði sem öll aðildarríkin eiga sammerkt: (1) löggjafarmál, (2) hatursorðræðu, (3) ofbeldi, (4) aðlögunarstefnur og ýmis málefni sem tengjast sérhverjum þessara þátta. Fylgt verður eftir sérstökum tillögum um framkvæmdir í kjölfar fjórðu eftirlitslotu sem enn eru ófrágengnar eða hafa ekki komið til framkvæmda.“

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.3.2017 - 16:47 - Lokað fyrir ummæli

Meira um ECRI

Í ECRI er einn fulltrúi frá hverju ríki Evrópráðsins. Þeir eiga að hafa þekkingu á málaflokknum og vera kunnir af því að vera siðferðilega ábyrgir menn í sínum löndum. Undirritaður var skipaður í ECRI af íslenkum stjórnvöldum 1997 og hefur verið endurskipaður tvisvar síðan og hafa komið að því ráðherrar ýmissa flokka eftir að hafa kannað ytra hvernig fulltrúanum gangi. Eftir skipun eiga fulltrúar að vera sjálfstæðir. Undirritaður hefur verið virkur innan nefndarinnar, varaforseti í sex ár, í stjórn hennar eitthvað lengur, leitt nefndir um sérstakar ráðleggingar til aðildarríkja sem nefndin hefur gefið út og verið í fjórtán sendinefndum til ríkja og þar með beinan þátt þátt í að semja 14 skýrslur. Í nefndinni er nú mikið af alþjóða lögfræðingum, hàskólaprófessorum, umboðsmönnum minnihlutahópa en einnig blaðamenn, félagsfræðingar og fôlk án sērstaks bakgrunns. Starfsmenn ráðuneyta og slíkir mega ekki vera, ákvæði sett til að auka sjálfstæði ECRI. Þegar undirritaður var skipaður var hann nýkominn frá framhalsnámi í Harvad og hélt á Mastersgráðu í Siðfræði ( frá Harvard divinity school). Starfsmenn nefndarinnar sex til níu talsins eru flestir fjöltyngdir alþjóða lögfræðingar eða fólk með hliðstæða menntun, ákaflega hæft lið sem gaman er að vinna með.

Segja má að ráðherrar Evrópuráðsins hafi sett þessa nefnd upp til þess að hafa eftirlit með eigin ríkjum, sjá það besta út í löggjöf, vara við fordómafullum tihneigingum í rīkjum, reyna að efla það sem vel er gert. Á þessum aldarfjórðungi sem nefndin hefur starfað hefur löggjöf og starfsaðferðum fleygt fram á þessu sviði og samræmst ekki síst fyrir tilstuðlan nefndarinnar. Fyrir nokktum árum var ECRI einnig falið að taka á málefnum er snerta LGBT manneskjur (lesbian, gay, bisexual and transgender) og hefur gert svo í síauknum mæli.

Skýrslur ECRI hafa með tímanum unnið sér sess innan Evrópuráðsins sem einstaklega vandaðar og vel unnar skýrslur. ECRI er nefnd sett upp af Ráðherranefnd Evrópuráðsins 1993 með því markmiði að vinna gegn rasisma, skorti á umburðarlyndi, múslimafóbíu, gyðingaandúð, útlendingahræðslu o.s.fr. í ríkjum Evrópuráðsins sem eru 47. ECRI hefur farið ýmsar leiðir í þessari viðleitni sinni þær helstar þó að gefa út stefnumarkandi leiðbeiningar um það hvernig best sé að haga löggjöf og stjórnsýslu í málefnum er snerta minnihlutahópa svo og að gera skýrslur um hvert land á fjögurra til fimm ára fresti. Þessar skýrslur eru unnar upp úr gífurlegu magni af heimildum. Tveir/ þrír frá ECRI fara til viðkomandi lands og ræða jöfnum höndum við ýmsa fulltrúa stjórnvalda og fulltrúa minnihlutahópa, blaðamenn, háskólaprófessora, rithöfunda og alltaf leigubílstjóra. þessir fundir geta hæglega orðið þrjátíu til fimmtíu. Skýrslan er svo rökrædd af allri nefndinni, sîðan send stjórnvöldum til gagnrýni, þýdd og gerð opinber og eru þá gjarnan liðnir sex mànuðir frá samþykkt.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 4.3.2017 - 14:07 - Lokað fyrir ummæli

Um ECRI

Vegna misvísandi ummæla um ECRI ( Nefnd Evrópuráðsins gegn kynþáttafordómum o.fl. ) tel ég rétt, sem innanbúðarmanni, að gefa nokkrar upplýsingar sem munu birtast í þessari og næstu færslum)

Skýrslur ECRI hafa með tímanum unnið sér sess innan Evrópuráðsins sem einstaklega vandaðar og vel unnar skýrslur. ECRI er nefnd sett upp af Ráðherranefnd Evrópuráðsins 1993 með því markmiði að vinna gegn rasisma, skorti á umburðarlyndi, múslimafóbíu, gyðingaandúð, útlendingahræðslu o.s.fr. í ríkjum Evrópuráðsins sem eru 47. ECRI hefur farið ýmsar leiðir í þessari viðleitni sinni þær helstar þó að gefa út stefnumarkandi leiðbeiningar um það hvernig best sé að haga löggjöf og stjórnsýslu í málefnum er snerta minnihlutahópa svo og að gera skýrslur um hvert land á fjögurra til fimm ára fresti. Þessar skýrslur eru unnar upp úr gífurlegu magni af heimildum. Tveir/ þrír frá ECRI fara til viðkomandi lands og ræða jöfnum höndum við ýmsa fulltrúa stjórnvalda og fulltrúa minnihlutahópa, blaðamenn, háskólaprófessora, rithöfunda og alltaf leigubílstjóra. þessir fundir geta hæglega orðið þrjátíu til fimmtíu. Skýrslan er svo rökrædd af allri nefndinni, sîðan send stjórnvöldum til gagnrýni, þýdd og gerð opinber og eru þá gjarnan liðnir sex mànuðir frá samþykkt.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.11.2016 - 15:06 - Lokað fyrir ummæli

Mannréttindi

Frumkvæði um löggjöf á sviði mannréttinda, mennta- og menningarmála hefur undanfarna áratugi að mestu komið frá fjölþjóðlegum stofnunum einkum í okkar heimshluta Evrópuráðinu og Evrópusambandinu og Sameinuðu þjóðunum. Þjóðríkin hafa verið frumkvæðislítil í þessum efnum, til valda gegnum stjórnmál komast einkum menn og konur sem eru lagin við að skapa eða lofa atvinnu og skammtíma hagvexti.

Aðalbálkarnir að þessu leyti eru mannréttindayfirlýsingarnar Evrópuráðsins og S.Þ. sem hafa verið undirritaðar og staðfestar af öllum eða nær öllum aðildaríkjum þessara fjölþjóðlegu stofnana. Samhliða þeim er svo fjöldi sáttmála og viðauka  sem hafa verið undirritaðir af mörgum en samþykktir sem löggjöf eða ígildi löggjafar af færri. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem undirritar en staðfestir seint eða ekki og ber við kostnaði og stundum skorti á mannafla til þess að útfæra.

Meðal sáttmála sem nýlega hafa verið staðfestir hér er Barnasáttmáli Sameinuðu Þjóðanna (2009) og sáttmáli um málefni fatlaðra (2016)(þó ekki að öllu leyti, það þótti of dýrt).  Staðfesting beggja þessa sáttmála felur í sér mikla útgjaldaaukningu samfélagsins og margir eru sáttmálarnir og viðaukarnir sem bíða.

Það sem ég er að segja hérna er að stöðugt verður dýrara að halda uppi samfélagi sem stenst fjölmennari ríkjum snúning að Þessu leyti. Þess vegna er samstarf okkar við aðrar þjóðir svo mikilvægt ætlum við að halda stöðu okkar og sjálfstæði.

Annað en að vera á svipuðu róli og nágrannaríkin þegar kemur að mannréttindum, menningu og menningarmálum kemur nefnilega ekki til greina. Þá fjarar fljótt undan.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.11.2016 - 14:05 - Lokað fyrir ummæli

Að kynda undir hatur!

Nokkuð er rætt um í íslensku pressunni vaxandi fjölda flóttmanna og kemur í ljós að Íslendingar eru vanbúnir að taka á móti fyrirsjánlegri fjölgun enda verið mjög lágt skrifaðir á alþjóðavísu fyrir það hvað Þeir hafa tekið á móti fáum flóttamönnum gegnum árin.

Það er eins gott að þeir sem semja nú um stjórn geri sér grein fyrir því að straumur flóttamanna á eftir að aukast í fyrirsjánlegri framtíð og að mikill meirihluti Íslendinga vill að þjóðin taki vel á móti fólki í neyð. Ræður þar bæði ferðinni bæði meðfædd og áunnin manngæska svo og hitt að þjóðin eflist og styrkist með fjölbreytileikanum sem sífellt bankar upp á, hefur gott af fjölbreytninni og ekki er nema gott eitt um það að segja fjölgi okkur eitthvað.

Ekki sakar að eiga einhverja innistæðu fyrir manngæsku komi eitthvað fyrir á þessari viðkvæmu eyju sem við byggjum eða á hafinu í kring og við sjálf breytumst í flóttmenn.

Tilefni þessarar hugleiðingar er fréttabréf Evrópusambandsins Þar sem vakin er athygli á því hvað ofbeldisglæpum, jafnvel morðum og hvers konar árásum á grundvallarréttindi minnihlutahópa þ.m.t. flóttamanna og hælisleitenda hefur stóraukist á undanförnum mánuðum og misserum. Gaman væri að fá að vita hvort að sú sama væri raunin hér á landi en væntanlega er skráningu á slíku ábótavant eins og víðast hvar.

Hatur út í hælisleitendur á sér ekki síst stað hér á landi á samfélagsmiðlum. Ýmsir sem teljast meðal vina minna á facebook láta sér til dæmis sæma að dreifa lygum, rógi og illum alhæfingum um þessi olbogabörn heimsins. En eins og kunnugt er eru þúsundir slíkra síðna á netinu sem hafa þann tilgang að kynda undir hatur!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.2.2016 - 14:35 - Lokað fyrir ummæli

Kirkjur eru helgistaðir

Ekki svo vitlaust hjá Sif Sigmarsdóttir að ræða hvernig nýta megi kirkjur landsins betur, rétt sé að fá jógakennara, danskennara og hvers kyns sprelligosa í stað presta, en þá geysast fram prestar og segja þær vel nýttar, þar sé glaumur og glens, umgangur og læti upp á hvern dag, kirkjur séu vel nýttar, Þar sé sko engin rykfallin þögn eins og Sif í ókunnugleika sínum virðist halda og kemst svo skemmtilega að orði.

Þessi skemmtilegu skrif Sifjar gefa tilefni til margskonar orðræðu. Fyrsta sem kemur í hug er að kirkjur eiga að vera hljóðlátir, helgir staðir. Þó gaman þyki sumum að játa trú sína hlæjandi og geifla sig og gretta fyrir framan frelsarann, kjósa flestir frið og Þögn er þeir hugleiða og biðjast fyrir, fólk sýnir altarsifólkinu lotningu, lýtur höfði og hreyfir sig með hljóðlátari og mýkri hætti en ella. Kirkjan er griðarstaður, friðarstaður, staður andstæður strætinu þar sem ríkir ys og þys, tilbeiðslustaður, helgistaður.

Margir trúaðir sem vantrúaðir njóta þessa. Ekki síst kann að meta þetta fólk sem hefur misst. Það kynnist nýrri hlið á hinni rykföllnu þögn, ekki síst þeir sem hafa áður verið stífpressaðir og strekktir.

Hitt er annað að margar kirkjur mætti nýta betur. Í þéttbýli eru margar kirkjur vel nýttar svo mjög að jafnvel er hinni helgu þögn ógnað. Kirkjur með safnaðarheimili eru oft einskonar félagsmiðstöðvar. Þar er spilað, málað, fundað, og dansað. Helga svæðið, kirkjurnar sjálfar, mætti þó í flestum tilfellum nýta betur, kirkjuskip eru t.d. úrvals kennslustaðir, sérstaklega þegar nemendur eru komnir svolítið til vits og ára. Það er óþarfi að stunda jóga, þrek og dans allsstaðar.

Í dreifbýli eru kirkjur hins vegar oft illa nýttar. Standa þarna eins og minnisvarðar, messað er nokkrum sinnum á ári, jarðað og gift þegar tilefni gefst til.

Í þriðja flokknum eru kirkjur sem vakið hafa athygli ferðaþjónustunnar, sögu sinnar vegna oftast. Þar er oft mikið rennerí, tilsjónarmaður segir frá kirkju, stað og héraði. Slíkar kirkjur eru oft vinsælar til tónleikahalds og eða giftinga.

Ég hef af þremur kirkjum að segja sem sóknarprestur. Þær falla hver í sinn flokk. Þorlákskirkja er nokkuð notuð til helgihalds, kóræfinga(margir kórar), orgelæfinga, tónleikahalds, AA funda og hún er að auki vinnustaður djákna, kirkjuvarðar og sóknarprests. Hana mætti samt að ósekju nýta betur á virkum dögum, væri t.d. ágæt til kennslu en engin eftirspurn er á staðnum eftir slíku húsnæði. Ég hygg líka að íbúum þyki gott að vita af einum hljóðlátum stað í plássinu þar sem ekki er sífelldur umgangur. Hjallakirkja er gömul kirkja í sveit og hún stendur allt of mikið auð. Fólk vill samt hafa hana, tilvera hennar minnir á liðna tíma er hluti af því manngerða landslagi sem prýðir Ölfusið. En það mætti gjarnan finna henni veigameira hlutverk. Ég hef reynt að beina þangað fólki sem vill fræðast um kirkjuna og sögu héraðsins en ekki haft árangur sem erfiði. Strandarkirkja er þriðja kirkjan. Af notkunarleysi hennar þarf ekki að hafa áhyggjur. Stöðugur straumur ferðamanna fer þar um, hundruð koma þar við daglega, fræðast og njóta. Hún er því geysilega vel nýtt og skilar nokkrum tekjum. Þögnin þar er að auki ekki rykfallin, heldur, fersk en ekta samt. Umgangurin þar ógnar ekki kyrrðinni enda kunna ferðamenn flestir, erlendir sem innlendir, að hreyfa sig með mjúkum og hljóðlátum hætti, sýna helgistaðnum virðingu og eru hugfangnir af sögu hans. Í Strandarkirkju eru þar að auki oft tónleikar, hjónaleysi brædd saman, og messað er þar nokkuð oft. Einkum á hátíðum og á sumrin.

 

Á tímum aukins trúleysis er gott að huga að nýtingu kirkna. Á Íslandi eru of margar kirkjur lítt notaðar í dreyfbýli. Kirkjan og garðurinn verða að vonum eftir þegar fólkið fer. Þjóðkirkjan sjálf, sem verður að vera praktísk, hefur viljað leggja af kirkjur en ekki fengið. Þeir sem eftir eru og ekki komnir í garðinn standa vörð um sína kirkju, vilja hafa hana. Þannig er það bara.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur