Sunnudagur 10.1.2016 - 15:49 - Lokað fyrir ummæli

Sumir krossar eru þungir….

Heilaheill er mjög ungt stofnað 2006 en hét áður félag slagþolenda og var stofnað 1994. Starf þess er því mjög ungt í árum talið, þó að alltaf hafi þeir verið fjölmargir sem fengið hafa slag. Lifað út af fyrir sig með ástvinum. Með mismunandi mikla fötlun, við mismikla erfiðleika í mismunandi langan tíma eftir áfallið.  Áfall sem mjög margir verða fyrir, einn til tveir á dag.

Sumir rísa ekki upp aftur, aðrir lifa með aðstoð hjálpartækja og ástvina og enn aðrir lifa tiltölulega óbreyttu lífi þó þraut þeirra sé misjöfn, sumir sem betur fer alveg eða nær alveg frískir, aðrir hægari, þreyttari, valtari og finna meira til en áður. Enginn er eins. Sumir bera utan á sér fötlun sína, aðrir eru þannig að fötlun þeirra er öðrum ósýnileg eða lítt sýnileg og það hefur bæði kosti og galla. Sumir geta ekki talað nema með erfiðismunum, einangrast smám saman.

Þannig ber hver slagþoli sínn kross ef svo mættti segja og þessi kross er ekki fjöldaframleiddur, enginn ber eins kross. Sumir krossar eru þungir, aðrir léttari, gott er að draga suma, aðrir eru snúnari. Og með í för eru nánast alltaf ástvinir sem bera líka krossa: makar, börn, foreldrar, ástvinir, vinir. Þeirra byrði er aldrei mæld, þeir fá aldrei stórriddarakross fyrir það sem þau leggja á sig, ekki einu sinni smáriddarakross. Ég var á ráðstefnu um daginn þar sem kom fram að ein af lítt þekktum afleiðingum slagsins væri að það kæmi niður á heilsu maka.  Þeir eða þær verða fyrir heilsubresti líka. Eitthvað sem við vitum og getum ímyndað okkur en tökum sjaldnast með í reikninginn.  Og gleymum ekki blessuðum börnunum sem skammast sín á gelgjuskeiði nógu mikið fyrir venjulega foreldra. Af hverju talar hann pabbi þinn svona? Af hverju er hann svona skrítinn öðrum megin? Það er nógu erfitt að vera barn þó að foreldrarnir séu í lagi, en ekki úr lagi, eða þannig.

Og allt líf fjölskyldunnar dregur gjarnan dám af slaginu. Bara að lifa, komast fram úr deginum, vikunum, mánuðunum verður miklu erfiðara en áður.  Við höfum minni tíma en áður til að skipta okkur af góðum málum sem alls staðar eru. Stríðið í Sýrlandi tekur ekki eins mikið pláss og það hefði gert í heilabúinu. Hvernig búið er að flóttmönnum víkur eða hvað verður um albönsku börnin?  Kvöl annarra verður víkjandi vegna okkar eigin kvalar. Við verðum svo upptekin af eigin lífi eða lífi maka, mömmu eða pabba, eða frænku. Þess vegna fjallar þessi grein ekki um loftslagsvá, misskiptingu auðs, rasisma eða um það hversu  ófriðlegt er í heiminum, nei,  hún fjallar um þá sem þurfa að búa við afleiðingar slags.

Af því að þar er vettvangur þeirra sem fengið hafa slag eða eiga ástvin sem hefur fengið slag. Þar bæði verðum við og getum látið gott af okkur leiða. Í Heilaheill og skyldum samtökum kynnumst við öðrum sem draga sambærilegan kross, lærum af þeim og það sem er kannski merkilegast: Leggjum lóð á vogaskálar framfara á þessu sviði. Leggjum því lið að meira tillit verði tekið til þeirra sem þessa glímu há. Leggjum því lið að tekið verði eftir Því hvað makar og börn leggja af mörkum. Með þáttöku okkar og sýnileik stuðlum við að Því að fjárveitingarvaldið viti af okkur og að fjárfestar hugsi til þessa hóps. Við erum með þáttöku okkar í Heilaheill að létta krossanna fyrir slagþola framtíðarinnar sem verða margir og ekki sakar ef við njótum góðs af.

Við lyftum grettistaki á ofanverðri síðustu öld í meðhöndlun á slagi, miklu fleir lifa nú af og áður þökk sé framförum í læknavísindum, frábærum læknum og heilbrigðisstrfsfólki og aðstöðu t.d á B-1 og B-6. Á sama hátt voru og eru unnin stórvirki með stofnun og starfi Grensásdeildar.  Ég er ekki frá því að við höfum verið famarlega í bylgju framfara í heiminum.  En ég er ekki frá því að við höfum færst aftar á bylgjuna á síðustu árum. Þakið á Grensádeild orðið lekt, heilbrigðisþjónusta verið skorin of mkið niður og það bitnar á okkur eins og öðrum. Ég hef grun um það að það sé bæði dýrara en áður að vera slagsjúklingur og meðferðir og framfarir t.d eftir Grensás láti á sér standa. Við almenningur, stjórvöld og fjárfestar höfum ekki fylgt eftir tæknibyltingunni á þessu sviði t.d. ekki notfært okkur þá tækni sem snjallsímar og allskonar öpp bjóða uppá en framfarir á þessu sviði hafa verið gríðarlegar síðustu árin.

En auðvitað er margt merkilegt gert. Og mikið í gangi sem ég veit ekki um. Hvað sem Því líður held ég að það verði betra að vera slagþoli eftir svona tuttugu ár en það er núna og núna er hátíð frá því sem var. Ég var á ráðstefnu um daginn í Warsjá og þar sýndi einn vísindamaður hvað Svíar(minnir mig) eru að gera. Þeir eru að þróa svona hjálma sem örva heilastöðvar og annast það sem hugsanlega hefur skemmst eða dalað í fólki. Þú kannski ruglar orðum þá færðu hjálm sem leiréttir það. Þú getur ekki hreyft hægri höndina, þá færðu hjálm sem hreyfir hana o.s. frv. Við sáum líka mýgrút af höndum og fótum, lyftum og stólum sem létta eiga lífið, hugmyndaauðgin er óendanleg í þessum efnum fari fólk að hugsa. Við þekkjum það síðastnefnda í gegnum Össur, alþjóðlegt fyrirtæki sem hefur starfsstöð meðal annars hér á landi.

Og margs konar siðferðileg vandamál banka á dyrnar. Hætta raunveruegar framfarir hjá þeim sem fær á sig afruglarahjálm? Verður hægt að kaupa hjálm sem gerir mann minnisbetri? (sérstakan bridshjálm t.d.?) Verða auðmenn framtíðarinnar með sérstaka rándýra hjálma sem gerir þá miklu greindari en okkur hin. Framleiðum við úbermensch með slíkum hætti. Svona framfarir gagnast ekki bara Þeim sem hafa misst, þær geta líka gagnast þeim sem hafa í lífi sínu komist yfir peninga og gert þá að súperverum.

Það verður gott að vera dauður þá, nema ef maður skyldi verða ríkur – ríkur gervigreinadarkall.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.1.2016 - 20:57 - Lokað fyrir ummæli

Af slagþolum í Evrópu

Nú er það svo að við fórum þrír á ráðstefnu SAFE (Stroke accessoation in Europe) (Samtöl slagfólks í Evrópu) í október sl.. Undirritaður, Þórir Steingrímsson formaður Heilaheilla og Þór Garðar Þórarinsson sérfræðingur í Velferðarráðuneytinu. Ráðstefnan var í Warsjá sem þýddi það að við þurftum að fljúga með milliendingu í Kaupmannahöfn.

Þetta var árlegt vinnuþing samtakanna og einnig stjórnarfundur en við eigum þar einn fulltrúa, Þóri Steingrímsson.

Varsjá, er eins og kunnugt er höfuðborg Póllands, stendur við fljót sem heitir Vistula. Varsjá er í miðaustur Póllandi. Íbúar eru 1.7 miljónir en 2.9 miljónir ef þeirra Kópavogur og Hafnarfjörður eru teknir með, þ.e. stór Varsjársvæðið.

Gestgjafar okkur, Slag samtökin í Póllandi, hafa þann tilgang að hjálpa fólki eftir slag, slagþolendum og fjölskyldum þeirra. Að starfi þeirra kemur bæði áhugafólk og fagfólk á hinum ýmsu sviðum. Þau eru sjálstæð en njóta stuðnings frá Heilbigðisbatteríinu. Þau vilja breyta hugsunarhættinum í Póllandi ganvart slagi, hjálpa fólki eftir slag og einbeita sér að því að koma í veg fyrir slag.

Óhætt er að segja að námstefna þessi hafi verið mjög fagleg. Nokkrir góðir fyrirlestarar voru haldnir. Þáttakendur læknar og fræðimenn, slagþolar og aðstandendur. Fólk viðsvegar að úr Evrópu. Sylvía Haas (frá Thombosis Reasearch Institute) rakti núverandi stöðu mála í Evrópu en slagskráning er að stórbatna, viðbragðstími að styttast og enduhæfingartækni að stórbatna. Bæði í þessum fyrirlestri og öðrum sáum við hvílíkar endurbætur eru á döfinni í enduræfingu, bæði vegna aukins skilnings á því hvað á sér stað við slag og vegna gjörbyltingar, má segja, í tæknimálum. Annars einbeitti fyrirlesari sér að því að rekja ástæður tappamyndunar í heila og nýjustu aðferðir við að lágmarka skaðann sem af hlýst.

Liven Annemans fráGhent háskólanum skellti upp ,,cost og benefits“ dæmi þ.e. hver hagur þjóðfélagsins væri að því að koma í veg fyrir slag og meðhöndlun á því, dæmið er það, hvað langt borgar sig að ganga í þessum efnum, nauðsynleg pæling þó að allir viti eða mega vita að slagþjáning verður ekki mæld í peningum. Varaði hann við því að menn lokuðu ekki augunum fyrir slíkum útreikningum því aldrei yrði hægt að ganga lengra en  félagslega væri viðurkennt (af þeim sem kjósa fjárveitingarvaldið) og því væri nauðsynegt að finna hagkvæmustu leiðirnar. Þá lagði hann mikla áherslu á þann kostnað sem hlytist af því að gera lítið eða ekki neitt.

Meðal þeirra sem héldu fyrirlestra var ung stúlka lömuð öðrum megin og fallaði hún um framfarir sínar og endurhæfingu. Fáir höfðu spáð Því að hún risi upp eftir slagið en þetta var hún komin brosandi í hjólastól haldandi fyrirlestur um ótrúlegan bata.

Mikið af upplýsingum kom þarna fram. m.a. að 74% strokþola sem lifa af þarfast aðstoðar við. Slag kemur niður á heilsu maka. Bæting eftir slag á sér að mestu stað innan 10 vikna frá slagi. Milli 5 og 10% bæta sig þó enn um sinn. Ein rannsókn sýndi að virkni minnkaði hjá mörgum 6 mánuðum eftir slag.  Þunglyndi hrjáir marga, Margir þjást af ótta af öðru slagi, venjur og hlutverk breytast og reynist mörgum erfitt. Vinir fjarlægjast oft og þannig mætti áfram telja.

Gleðilegt var að sjá að dauðsföllum af völdum slags fer fækkkandi í Evrópu, af því leiðir óhjákvæmilega að fleiri lifa nú en áður og búa við afleiðingar slags. Fjölbreyttari endurhæfing verður því að koma til. Ein leiðin er kennd við self-management þ.e. að fá strokþola til þess að stjórna bæði sér og meðferðinni sem mest.

Svokölluð Occupational therapy byggir á því að fá viðkomandi til að taka ábyrgð á lífi sínu, annast um sig eins og kostur er/leika hlutverk sitt sem manneskja með tiltækum stuðningi og reyna eins og hægt er er að yfirstíga hindranir.

Mikilvægt væri, í þessu samhengi, að þeir sem lifðu af slag héldi venjum sínum svo sem að:

Fara á fætur á morgnana

Þvo sér og klæða sig

Borða þrisvar á dag.

Vinna eitthvað

Stunda áfram sín hugðarefni og umgangast aðra.

 

Þarna komu fræðimenn sem sýndu alls konar róbóta sem fólk getur og mun í æ ríkara mæli geta nýtt sér. Einn var eins og mótórhjólahjálmur sem virkar eins og klaufalegur heili. Ekki er skortur á höndum og fótum sem hjálpa til hreyfingar,  né leikjum sem æfa huga og hönd.  Sprotafyrirtæki eru mjög áhugasöm og hugmyndarík á þessu sviði.  Fróðlegt væri að taka það saman hvað er í boði hér (utan Grensáss). Er til miðlægur gagngrunnur sem fólk getur leitað í, í leit að tækjum eða hugbúnaði sem gæti hentað því.  Ég held ekki. Ég held að við ættum að auka mjög alla svona starfsemi og upplýsingaþjónustu.  Læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk er of önnum kafið til þess að vera einstaklingum að miklu gagni í þessa veru.

Varsjá er dimm borg. Gamlir, gráir og miklir steinkumbaldar umlykja breið strætin. Fáir eru á ferli. Lítið er um ferðamenn. En þæglegt er að fljúga þaðan og þangað með SAS til og frá Kaupmannahöfn, yfir vötn og sléttlendi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.1.2016 - 16:38 - Lokað fyrir ummæli

Áramótahugleiðing

Árið 2015 hangir í minninu sem árið þegar yfir milljón flóttamenn flúðu frá Sýrlandi og nágrannalöndum yfir til Grikklands og Ítalíu. Flestir sjóleiðina á litlum skektum og yfir 3000 þeirra drukknðu á leiðinni, börn, konur og menn. Þetta fólk var að flýja stríð á heimaslóðum en þar verður nú stöðgt ófriðlegra m.a. vegna breytinga á hitastigi og þar með gróðri og þetta stefnir lífsafkomu fólks í hættu, milljóna, miljónatuga.
Þegar til Evrópu var komið tók við sannkölluð píslarganga til norðurhluta Evrópu, einkum til Þýskalands. Yfirvöld hvarvetna reyndu að hefta för fólksins eða beina því annað, þráttuðu um hver ætti að taka við þeim, fólk spýtti á það og kastaði grjóti en víðast hvar var gott fólk sem reyndi hvað það gat að aðstoða manneskjurnar sem höfðu flúið í föðurland sitt í leit að betri stað til að lifa á a.m.k. tímabundið.
Aðstoða þau sem var hægt að aðstoða. Of seint var að aðstoða þá eða þau sem höfðu látið lífið í stríðsátökum, dáið úr vosbúð eða drukknað á leið sinni til betra lífs.

Ferð okkar manna til betra lífs hefur tekið á sig margvíslegar myndir. Ein myndin er Messíasarmyndin. Myndin af Jesú frá Nazaret sem var borinn til að ,,flytja fátækum gleðilegan boðskap“, þeim hinum sama og var úthýst úr gistihúsinu áður en hann fæddist, fjarri ríkidæmi heimsins og völdum. En Jesú þessi mikla fyrirmynd mátti eftir að hann var sestur við hlið föður síns sætta sig við það að vera gerður að viðhlæjanda valdins, grunnur að helstu valdastofnunum heims, ekki bara kirkjunnar, heldur heimsvelda og þjóðríkja. Hann sjálfur dó á krossi, sem var rafmagnstóll Rómverja, neitaði að undirgangast valdið eða yfirgefa málstað þeirra fátæku og smáðu en eina ráð þeirra sem héldu upp merki hans var að giftast valdinu ef svo má segja, flestra. Meðal þeirra hafa ætíð verið uppreisnarseggir en þeir ná sjáldnast langt, eru í besta falli sendir í afskekktar sóknir.

Annað sem situr í minninu eru hryðjuverkin í París í nóvember þar, sem vel á annað hundrað manns, einkum ungt fólk, létu líf sitt af hendi bilaðra manna, svokallaðra hryðjuverkamanna. Það setur að manni ógeðshroll að hugsa til þessara atburða og hvernig ungt fólk er spólað upp í það að drepa miskunnarlaust með köldu blóði í nafni hugsjóna og trúar, koma þá í hugann hryðjuverk þess tíma sem maður hefur fylgst með, nasisminn, stalínisminn morð Tyrkja á Armenum svo ekki sé farið lengra aftur í blóðugri sögu mannkyns. Satt að segja virðist friðarboðskapur þess sem hér stendur yfir mér í horni farið fyrir lítið og honum meira að segja verið att fram í óteljandi orrustum, Það hefur verið barist fyrir hann, fallið fyrir hann og Guð má vita hvað. Nú um stundir virðist okkur einkum standa ógn af ISIS í miðausturlöndum sem drepa fólk í nafni ALLAH bæði Múhameðstrúarmenn og Kristna.
Er maður svona sjálfur, eruð þið svona, væri hægt að gera úr okkur kaldrifjaða manndrápara? Ekki vafi, sagan hefur dregið fram þennnan veikleika mannsins og við erum merklegri en aðrir menn, alls ekki. Um leið og við þróuðum með okkur vitund, vitundina um okkur sjálf, hver við erum og stöðu okkar, komust þannig fram úr sauðkindinni og rottunni, urðum við lömb sem föllum fyrir ídeólógíu og trú og hlýðni við vald að við getum meira að segja orðið þáttakendur í skipulögðum drápum. Í stað þess að drepa okkur til matar af dýrslegri svengd öðluðumst við greind til þess að drepa meðvitað og skipulega. Drepa til þess að vinna, ryðja ídeólógíu og trú braut, drepa væri okkur skipað, drepa væri okkur innrætt.

Allir muna umræðuna um albönsku fjölskyldurnar sem vísað var héðan úr landi, en fengu svo íslenskan ríkisborgararétt eftir allt saman. Maður vísar ekki veikum frá sèr var víða sagt. Allra síst barni. Allra, allra síst langveiku barni. Ýmis konar rök voru notuð þar á meðal var vísað beint í fæðingu Jesúbarnsins, sem þjóðin væri að fara að halda uppá. Enda kominn undirbúningstími jólanna, aðventan hafin, þegar umræðan fór fram. Stundum var líka vitnað í miskunnsama Samverjann, útlendingsins sem gaf sig að særða manninum, sem lá særður við veginn, eftir að prestur og levíti höfðu gengið hjá, og sagt var:  Maður hjálpar. Punktur.

Þessi reynsla kennir okkur að boðskapur frelsarans frá Nazaret er lifandi meðal vor. Við erum upp til hópa gott fólk sem finnur til með öðru fólki. Það sjáum við líka í góða fólkinu sem hjálpaði flóttamönnunum og í öllu því góða fólki sem hefur stuðlað á friði í heiminum, lagt líkn við þraut annarra.  Því góða fólki sem gerir samfélög manna að bærilegum stað fyrir flesta. Því góða fólki sem starfar í anda Jesú frá Nazareth, innan kirkju hans eða utan. Sum okkar eru trúuð, öll höfum við alist upp við kristna menningu, meira að segja þeir sem kalla guð sinn Allah, hafa alist upp við Krist, hann er einn af aðalspámönnum Islams. Og nú fögnum við fæðingu hans, hann er okkar maður og Guð, en situr samt Guði til hægri handar.
Og við erum heilar hans og hendur hér á jörðu, er sagt.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.12.2015 - 16:15 - Lokað fyrir ummæli

Jólaræða 2015

Allir muna umræðuna um albönsku fjölskyldurnar sem vísað var héðan úr landi, en fengu svo íslenskan ríkisborgararétt eftir allt saman.  Maður vísar ekki  veikum frá sèr var víða sagt. Allra síst barni. Allra, allra síst langveiku barni. Ýmis konar rök voru notuð þar á meðal var vísað beint í fæðingu Jesúbarnsins, sem þjóðin væri að fara að halda uppá. Enda kominn undirbúningstími jólanna, aðventan hafin, þegar umræðan fór fram. Stundum var líka vitnað í miskunnsama Samverjann, útlendingsins sem gaf sig að særða manninum, sem lá særður við veginn, eftir að prestur og levíti höfðu gengið hjá, og sagt var:  Maður hjálpar.Punktur.

 

Ekki ervafi á því að almennur siðaboðskapur JK er þannig að hann ætti að fá mann til að hrökkva við í hvert sinn þegar aðstoðar manns er þörf. ,,Það sem þú vilt að aðrir menn gjöri yður það skalt þú og þeim gjöra“, er oft vitnað til og er ágætt dæmi um siðaboðskap Krists. Raunar eru tækifæri til þess að hjálpa það mörg að maður ætti að vera síhrökkvandi við, tækifærin svo brýn að maður ætti í sífellu að hrökkva í kút og raunar vera stöðugt í kút. Una sér aldrei hvíldar. Verkefnin eru alls staðar.

 

Það er ekki þar með sagt að annarskonar boðskapur hjálpi ekki til þess að við hjálpum öðrum, en hér á jólum einbeitum við okkur að þeim kristna boðskap, sem stuðlar örugglega að því að gera okkur að góðum og umhyggjusömum verum.

 

Þar með er ekki sagt að þeir sem eru á öndverðum meiði við góðmennskuna t.d. um brottvísun tilvitnaðra barna séu eitthvað verri manneskjur en þær sem vilja koma þeim til hjálpar með því að lofa þeim að vera. Þeir geta talið sig hafa göfugar ástæður. Vel þekktur er kristindómur sem leggur mikið upp úr stöðugleika samfélags og reglufestu hvers konar. Að passa upp á það að allt fari ekki úr böndum. Hugsa fyrst um þá sem nær eru. Þá sem fyrir eru, þá sem þegar eru komnir. Þannig er kristinn dómur það opinn til túlkunar að erindi hans hefur bæði verið notað til að styðja við íhaldssöm sjónarmið annars vegar og frjálslynd sjónarmið hins vegar og allt þar á milli. Bæði íhaldssamt fólk og frjálslynt  fólk hefur í gegnum tíðina sótt í kristna kenningu rök sín og siðferðileg viðmið.

 

Eftir fjörlegar rökræður í íslensku samfèlagi um það hvort veita ætti fjölskyldunum með veiku börnin hæli varð hin frjálslynda túlkun ofaná, þó eftir krókaleiðum væri. Það var ekki síst vegna þess að Jesúbarnið var tekið inn í rökræðuna börnunum til stuðnings. Þau rök höfðuðu betur til fólks en hin íhaldsömu reglurök, sem líka voru notuð. Þessi aðkoma kristinna sjónarmiða að þessu mikla deilumáli í samfélaginu segir mèr að kristindómurinn sé allvel lifandi með þjóðinni. Þó það nú væri, kynni einhver að segja, reyndar búinn að vera henni samferða í 1000 ár.

 

En hvað má draga beint út úr jólaguðspjallinu, fyrir utan það að maður eigi að vera sæmilega vænn við börn. Það blasir auðvitað við hvað það er fáránlegt hjá yfirvaldi að skikka ólétta konu til að ferðast í marga daga á asna útaf manntalningu, eða þá af henni sjálfri að fara svona svona á sig kominn, væri það ekki beinlínis skylda. Það stingur lîka í augun að Maríu og Jósef var vísað frá því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi. Fyrir vikið var Jesú lagður í jötu, innanum allskonar dýr. Auðvitað felast í sögunni skilaboð til okkar að úthýsa aldrei.  En bíðum við: Hvað ef að allt er fullt? Hvað átti svo sem gistihúsaeigandinn að gera? Átti hann að úthýsa einhverjum öðrum? Láta konuna fæða í afgreiðslu hótelsins? Það hefði tæpast orðið nothæf helgisaga út því. Nei, góðar helgi sögur lúta eigin lögmálum. Jesú varð jú að fæðast í gripahúsi, áherslu varð að leggja á alþýðlegan uppruna frelsarans, hve hann var fjarlægur valdafólki og ríkidæmi þessa heims.

 

Kannski liggur sá fiskur undir steini í þessari sögu að það sé aldrei fullt. Aldrei er fullt þegar náungi þinn er í neyð og ber að dyrum. Það má vel vera en hvað með rök þeirra sem telja að gistihúsaeigandinn hafi aðhafst rètt með því að hugsa fyrst og fremst um hag þeirra sem fyrir voru á hótelinu? Að trufla ekki líf þeirra, að hrófla ekki við tilveru þeirra? Við getum líka hugsað um það, þó að beinn hagur þeirra verði víkjandi í þessari sögu? Eða hver var hagur þeirra þegar öllu var á botninn hvolft?

 

Svona frásögur kenna okkur á lífið. Og það gjarnan án þess að við verðum vör við það. Og ef við heyrum þær alltaf á jólunum skapa þær jólastemmningu. Þetta er sagan sem við heyrum á hverjum jólum, hún hjálpar örugglega til við það að gera okkur að því sem við erum. Verður sennilega til þess að við úthýsum síður.

 

En við verðum ekki góð vegna hennar eða vegna þess að við teljum okkur sæmilega kristin. Óteljandi þættir gera okkur að því sem við erum og hver og einn verður að gera það uppviðsig hvernig hann bregst við atvikum lífsins. Og kristni gefur okkur engin skýr fyrirmæli um hegðun eða hugsun, þó hún geti hjálpað okkur t.d með dæmisögum. Hjálpað okkur að hugsa og hjálpað okkur til að gera góða hluti hugsunarlaust.

 

 

Flest okkar erum bærilega trúuð, a.m.k. stundum. Leyfum okkur nú þann lúxus á jólum. Trúarlúxus. Kirkjuferð í Þorlákskirkju er góð byrjun. Njótum stundarinnar, njótum messunnar, njótum ljósanna, matarins á eftir ef hann verður ekki orðinn við viðbrunninn  eða kaldur þegar við komum heim, og njótum þess að sjá gleðina í andlitum barna okkar og/eða annarra ástvina er þeir taka upp jólagjafirnar. Njótum þess að hugsa til þeirra sem ekki eru hjá okkur, item þeirra sem gegnir eru. Njótum jólanna og opnum fyrir boðskap þeirra.

 

Tökum undir með Stefáni frá Hvítadal er hann segir: kirkjan Ómar öll, boðar ljós og líf.

Hlýðum á hinn yndislega sálmasöng sem við heyrum héðan af kirkjuloftinu. Þar syngja innblásnir sérfræðingar. Gleðileg jól öll sömul.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.10.2015 - 10:36 - Lokað fyrir ummæli

Svona menn eru yfirleitt jarðaðir snemma – bókadómur

Meðan ég réði einhverju fékk ég Trausta Valsson til þess að flytja erindi á Prestastefnu um einhverja ,,mind blowing“ hluti sem snertu kirkjuna. Erindi hans var nokkkuð framúrstefnulegt eins og búast mátti við. Kjarninn var sá að fólk gæti greitt hluta af sóknargjöldum sínum til kirkju að eigin vali. Fólk í vesturbænum í Reykjavík gæti þess vegna kosið að láta hluta gjalds síns renna til kirkju í nálægð uppvaxtarstöðva eða sumarbústaðar og byggt þannig upp á þeim slóðum Þar sem hjarta þess hefði orðið eftir og ef til vill bjargað guðshúsum, sem skilin voru eftir þegar fólkið flutti, frá niðurníðslu og glötun.

Fólki leist misvel á. En Trausti hughreysti mig með þeim orðum að nýjar hugmyndir þyrftu svona sirka tíu ára meðgöngutíma til þess að verða viðurkenndar hugmyndir. Nýlega sá ég svipaðri hugmynd skotið upp á sveitastjórnarstiginu það er að burtfluttir gætu valið sér sveitarfélag til þess að láta hluta útsvars síns renna til, því að eins og margir eiga kirkju þar sem hjartað býr eiga hinir sömu sveit sem er hjarta þeirra næst.

Þetta rifjast upp þegar pósturinn færir mér bók frá Trausta Valssyni eins konar lífsbók. Yfirlit yfir ferilinn, veraldlega og hugmyndafræðilega. Þetta er ekki sjálfsmynd heldur einhverskonar sjálfsbók þar sem Trausti fylgir ævi sinni, störfum og þeim hugmyndum sem hann hefur fengið og útfært og baráttunni fyrir þeim.

Það vil svo til að ég vann með Trausta á Þróunarstofnun Reykjavíkurborgar fyrir röskum fjörtíu árum þegar nýjar hugmyndir voru að ryðja sér braut í skipulagsmálum og þróunarstofnun tók slaginn undir stjórn Hilmars heitins Ólafssonar arkitekts. Ekki síst með því að ráða menn eins og Trausta og hafa slaka á taumnum.

Úr fjarlægð fylgdist maður með Trausta ganga á hólm við viðtekna hugmynd um landið, hvernig við gætum búið á því og ferðast um það, m.a. með því að gera ráð fyrir og teikna upp hálendisvegi, fá og útfæra hina frábæru hugmynd um flugvöll á Lönguskerjum, útfærslur um þéttingu byggðar í Reykjavík og fl. og fl. Þá hefur Trausti fengið og útfært hugmyndir sem varða legu Íslands og nýja mögueika sem opnast við bráðnun íss samfara hlýnun jarðar.

Ég hef ekki kynnst manni ennþá sem fær jafnmikið af hugmyndum og því síður neinum sem er í þeirri aðstöðu og með þá menntun að geta útfært þær. Sem betur fer hefur Trausti fengið púlt, verið dósent og prófessor í skipulagsfræðum. Ég veit ekki hvers vegna. Menn eins og Trausti eru gjarnan jarðaðir mjög snemma af þröngsýnu og íhaldssömu samfélagi, voru flökkumenn eða förumenn hér áður drykkjumenn síðar, en ekki Trausti, sennilega er hann músin sem læðist, hefur með hljóðlátri mýkt sinni farið eins langt og fara má. Uppi á hárréttum tíma með hárrétta skapgerð og getur nú, ábyggilega farinn að nálgast sjötugt litið stoltur yfir farinn veg.

Og bókin er uppspretta sögu og hugmynda. Hlýtur að verða skyldulesning allra þeirra sem ætla sér að móta framtíð vora með einhverjum hætti. Og ekki síður þeirra sem gera nú lítið annað en að líta til baka. Með henni fylgir meira að segja diskur með stuttmyndum fyrir þá sem nenna ekki að lesa.

Frábær og skemmtileg bók

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.9.2015 - 21:43 - Lokað fyrir ummæli

Samviskufrelsi presta?

Hræddur er ég um að Þjóðkirkjan sé búin að koma sér í bobba núna. Haft er efnislega eftir biskupum að prestum beri ekki skylda til að gefa saman samkynhneigð pör ef samviska þeirra leyfir það ekki. Vitnað er til samviskufrelsis.
Sennilega er vísað til 9. gr. Mannrèttindasáttmála Evrópu sem hljóðar svo:

,,Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Í þessu felst frelsi manna til að breyta um trú eða sannfæringu svo og til að rækja trú sína eða sannfæringu, hvort heldur einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi, með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi.“

Þessi grein svo ágæt sem hún er, segir ekkert um samviskufrelsi embættismanna. Í því efni sem um er rætt trompar 14. greinin hina 9undu gjörsamlega. Hún hljóðar svo:

,,Réttindi þau og frelsi, sem lýst er í samningi þessum, skulu tryggð án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, litarháttar, tungu, trúarbragða, stjórnmála- eða annarra skoðana, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu, tengsla við þjóðernisminnihluta, eigna, uppruna eða annarrar stöðu“

Mannréttindasáttmálar og mannréttinda hugsun byggir á því að allir sèu jafnir fyrir lögum. Það er grundvallarréttur. Það felur einfaldlega í sér að þeir sem annast löggerninga verða að láta eitt yfir alla ganga. Hafa ekkert samviskufrelsi til þess að velja úr. Ef lög segja að tveir einstaklingar geti gifst án tillits til kyns verða opinberir víglumenn  að hlíta því. Þeir hafa hins vegar (samvisku)frelsi til þess að hætta að vera opinberir lögaðilar og halda fordómum sínum fyrir sig.

Undirritaður hefur oft bent á að þetta svokallaða samviskufrelsi vígslumanna standist enga skoðun og ef kirkjan ætli að hanga á því leiði það til þess eins að sóknarprestar missi vígslurètt þann sem þeir hafa nú. Það yrði enn eitt skref út af borðinu.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.9.2015 - 13:05 - Lokað fyrir ummæli

Hálpum okkur sjálfum – tökum við fólki!

Það er sorglegt og undarlegt hvað margir hafa allt á hornum sér þegar kemur að því að bjarga fólki sem flúið hefur styrjaldir og aðrar hörmungar í Sýrlandi og nágrannaríkjum. Hugtakið flóttamaður eða hælisleitandi virðist vekja upp í mörgum hræðslu og ónot í stað samkenndar, samúðar og vilja til að gera allt sem í mannlegu vandi stendur til að hjálpa.

Hinir ,,æðislegu“ Íslendingar sem sjá tækifæri í öllum hlutum og alls staðar ,,brilllera“ átta sig ekki einu sinni heldur haga sér margir eins og hræddar hænur sem skynja mink í pútnahúsinu. Þjóðin sem hefur með réttu það orð á sér meðal þjóða að taka helst ekki á móti fólki sem flýr þangað réttir upp varnarkryppuna og hefur orðræðu sem virðist beinast að því að taka við sem fæstum nú eins og endanær.

Hinir ,,frábæru“ Íslendingar ættu auðvitað að vilja taka á móti sem flestum til þess einfaldlega að hjálpa sem flestu fólki í neyð. En Þeir ættu ekki síður að sjá tækifærin sem felast í þvi að taka á móti fólki. Auk þess að lífga uppá menninguna myndi fólksfjölgun hér bæta okkar brothætta ástand, fleiri vinnandi hendur myndu bæta lífskjörin, vinna fyrir þeim sem eru að eldast og gera lífið hér á eyjunni á flestan hátt betra.

Tökum t.d. þorp eins og Þorlákshöfn sem er ekki meðal hinna 20 sveitarfélaga sem hafa lýst yfir áhuga sínum að taka á móti flóttamönnum. Ímyndum okkur hvað 500 nýir íbúar myndu gera fyrir það þorp. Það þyrfti að byrrja 100 nýjar íbúðir, smiðir og byggingamenn og innréttingafræðingar á Suðurlandi yrðu himinlifandi, 100 bílar myndi bætast við, bifreiðaverkstæðin þrjú og hverslags starfsemi myndi blómstra, götusérfræðingar, skipulagsfræðingar myndu flytja á svæðið, fiskvinnsluhús myndu blómstra.

Innviðir eru til staðar, íbúar eru bara um 1500 og gætu hæglega orðið mikilu fleiri miðað við innviði sveitarfélagsins. Skólinn gæti kennt fleirum, íþróttahöllin gæti þjónað margfalt fleirum, sömuleiðis ágætt embættismannakerfi. Kerfið í Þorlákshöfn og íbúarnir eru vanir fólki sem kemur að, þar er mikil þekking samankomin í því hvernig fólk á og getur lifað saman í sátt og samlyndi. Kirkjan í Þorlákshöfn gæti rúmað fleiri á bekkjunum, stundum, ef aðkomnir væru einhverjir kristnir og lítil og hugguleg moska myndi verða bæjarprýði líkt og kristna kirkjan er nú og verður.

Úr þessu innflytjenndasamfélagi myndu koma nemendur í Fjölbrautarskóla Suðurlands, staðarblöð myndu eflast, verslun sömuleiðis, nefndu það, aukinn mannfjöldi myndi renna stoðum undir allt mannlíf þ.m.t. atvinnulíf. Meira að segja lögreglan fengi meira að gera og eru þó Íslendingarnir einfærir um að sjá henni fyrir verkefnum ef út í það er farið.

Og aðfluttir myndu styrkja körfuboltalið staðarins og gætu ekki annað en styrkt knattspyrnuliðið og hver veit nema að nýr Ibramonvitch leyndist í uppvaxandi barni og hver veit hvaða þruma kæmi út úr hávöxnum Íslendingi sem ekki hefði flúið til Noregs og gáfuðum flóttamanni frá Sýrlandi.

Sama mætti segja um flest þorp á Íslandi og þjóðfélagið allt. Allir myndu græða í margvíslegu tilliti. Það er heimska á ala á ótta og fólk á að rækta samkennd sína ekki bæla hana.

Flóttamannastraumurinn er rétt að byrja. Við höfum lengi vitað að hlýnum jarðar eykur þurrka og óstöðugleika í veðurfari. Hvortveggja eykur líkur á styrjöldum. Þar höfum við því miður ýtt undir. Hvortveggja margfaldar þann mannfjölda sem er á faraldsfæti í heiminum. Við sem nú erum á Íslandi getum ekki haldið öðrum frá endalaust. Nísk innflytjendastefna mun koma okkur síðar í koll. Út frá þessu sjónarmiði er einnig skynsamlegt að hafa landið nokkuð opið. Við mættum líka hafa það í huga að við sjálf lifum á eldgosaeyju og eldra fólk man hvað allir reyndust okkur vel þegar gaus í Heimaey.

aðlögun: Sveitarfélagið Ölfus hefur lýst sig reiðubúið til að taka á móti flóttamönnum með samþykkt bæjarráðs 10. September.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 5.9.2015 - 21:47 - Lokað fyrir ummæli

Maður spyr ekki um trú, er það nokkuð?

Á Íslandi er trúfrelsi. Maður spyr ekki um trú þeirra sem hingað leita, ekkert frekar en maður spyr ekki um trú neins áður en honum eða henni er bjargað.( Fyrir kristna: Samverjinn spurði ekki um trú þess sem lá særður við veginn heldur gengur strax í það að hlúa að honum). Eina sem farið er fram á er að viðkomandi hlíti íslenskum lögum þar með þeim Mannréttindasáttmálum sem í gildi eru. Síðar er með ýmsum hætti farið fram á að sá aðkomni aðlagist íslensku samfélagi, og lifi í sátt við þá sem fyrir eru. Þeir sem fyrir eru gera samskonar kröfur til sjálfs sín. Þessi ferill heitir á ensku máli ,,integration“ og gengur misjafnlega og gengur misjafnlega fljótt fyrir sig. Yfirleitt tekst þó aðlögun vel á tveimur til þremur kynslóðum.
Alkunna er þó að þeir sem koma úr sömu eða svipaðri menningu halda hópinn og rækta sína eigin menningu. Úr verður fjölmenning sem samanstendur af menningu innfæddra sem yfirleitt eru langflestir, og mörgum hliðarmenningum. Smit verður á milli. Hver lærir af öðrum- menningarheimar þróast og breytast.
Í nær öllum þekktum dæmum gnæfir menning þeirra sem fyrir eru yfir aðrar.
Þetta sem sagt hefur verið gildir líka um trú. Trúarbrögð þrífast yfirleitt vel saman og trúfólk kann, ef eitthvað er, betur við að deila samfélagi hvert með öðru en með trúleysingjum sem láta sig hið yfirskilvitlega litlu skipta.
En eins og með menninguna þá verður trú þeirra sem koma (nú er trú hluti af menningu en vissan greinarmun má þó gera á) trú minnihluta. Hlutverk þeirra sem fyrir er er ekki hvað síst fólgið í því að gæta þess að minnihlutinn verð ekki fyrir aðkasti nokkurskonar eða misrétti. Ábyrgð þeirra er því mikil og flestir standa undir henni.
Múslimar, þeir sem kalla Guð sinn Allah, eru nú um 6% af þeim sem búa í Evrópu og töluvert færri en það í flestum ríkjum en fleiri í sumum ríkjum Balkaskaga. Áætlað er að Múslimar verði um 10% árið 2050. Samt eru vefsíður er ala á hræðsluáróðri að tala um að Múslimar verði í meirihluta þá og er í veðri látið vaka að afleiðingarnar verði skelfilegar.
Þeir sem halda að þeir geti stjórnað framtíðinni með því að forðast það að fólk mismunandi trúarbragða búi saman eru að mínu viti á skelfilegum villigötum. Blanda í þessum efnum er miklu lífvænlegri framtíðarsýn en aðskilnaður. En aðalmálið er þetta: Við, hver sem við erum, eigum ekkert með það að tengja saman trú og réttindi. Enginn á að gjalda trúar sinnar eða græða á henni hvort sem um er að ræða landvistarleyfi eða önnur réttindi, að ekki sé talað um björgun.
Menn geta huggað sig við það, sé þeim huggun í því, að engar stórvægilegar fyrirsjáanlegar breytingar eru á hlutföllum trúarbragða í Evrópu í fyrirsjáanlegri framtíð. Þeir sem óttast að fjari undan kristni ættu að snúa sér að því að haga sér í samræmi við trú sína og berast áfram veginn með umburðarlyndi og ást á náunga sínum að leiðarljósi. Ella kynnu þeir að falla fyrir vaxandi trúleysi sem ber á á vesturlöndum. Vilji þeir leita ráðgjafar í eigin bók er sagan um miskunnsama Samverjann nærtæk, en sá ágæti maður lét sig engu skipta hverrar trúar náungi hans sem lá bjargarlaus við veginn, var.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.9.2015 - 11:34 - Lokað fyrir ummæli

Fólk í óreglulegum aðstæðum

Ég heyri fulltrúa ungverska stjórnvalda á Sky tala mikið um ólöglega innflytjendur. Sem betur fer eru þeir sem um fjalla oftar farnir að tala um fólk í óreglulegum aðstæðum og er þá sama hvort verið er að tala um þá sem eru á ferð eða þá sem búa í landi án tilskilinna leyfa. Að baki þessu liggur sú hugsun að fólk er ekki ólöglegt sem slíkt og tilvísum í ólöglegheit startar ákveðnum neikvæðum hugmyndum í okkur.

Ég veit að þeir sem vilja haf frelsi til þess að tala fólk niður vegna aðstæðna sem það ræður ekki við tala um pólítíska rétthugsun. Þeir um það.

Þeim fjölgar nú gífurlega sem flýja stríð, náttúuhamfarir eða fárækt í sínum heimahögum. Þetta er löngu fyrirséð ástand og útaf fyrir sig engin afsökun fyrir því að tvístíga líkt og ástandið hafi komið af himnum ofan. Það hefur það reyndar,  í fomi sprengja og hnattrænnar hlýnunar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.8.2015 - 21:34 - Lokað fyrir ummæli

Fólk á flótta!

Undanfarið hefur yfirskyggt annað í fréttum og umfjöllun fjölmiðla sá mikli fjöldi fólks sem komið hefur á bátum til einkum Ítalíu og Grikklands og einnig sá mikli fjöldi sem haldið hefur áfram norður á bóginn og reynt að komast undir Ermasund til Bretlands.
Fólf flýr heimkynni sín af ýmsum ástæðum en um leið og við rèttilega tölum um flóttamenn og innflytjendur megum við ekki missa sjónar á því að þetta er fólk, konur, menn og börn; lítil börn og unglingar. Orðnotkun okkar má ekki verða til þess að við missum sjónar á því. Þetta eru manneskjur og við verðum að hafa það hugfast að manneskjur hafa rétt á mannrèttindum. Og mannrèttindi eru sniðin fyrir fólk ekki bara fólk sem er réttum stað á rèttum tíma.

Um leið og ekki er efast um rétt ríkja til þess að ráða landamærum sínum skal það áréttað að um er að ræða fólk og mikilvægt að við látum ekki orðnotkunina fjarlægja þessar manneskjur þannig að þær falli á engan hátt undir okkar annars ágætu siðferðisviðmið.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur