Fimmtudagur 24.09.2015 - 21:43 - Lokað fyrir ummæli

Samviskufrelsi presta?

Hræddur er ég um að Þjóðkirkjan sé búin að koma sér í bobba núna. Haft er efnislega eftir biskupum að prestum beri ekki skylda til að gefa saman samkynhneigð pör ef samviska þeirra leyfir það ekki. Vitnað er til samviskufrelsis.
Sennilega er vísað til 9. gr. Mannrèttindasáttmála Evrópu sem hljóðar svo:

,,Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Í þessu felst frelsi manna til að breyta um trú eða sannfæringu svo og til að rækja trú sína eða sannfæringu, hvort heldur einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi, með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi.“

Þessi grein svo ágæt sem hún er, segir ekkert um samviskufrelsi embættismanna. Í því efni sem um er rætt trompar 14. greinin hina 9undu gjörsamlega. Hún hljóðar svo:

,,Réttindi þau og frelsi, sem lýst er í samningi þessum, skulu tryggð án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, litarháttar, tungu, trúarbragða, stjórnmála- eða annarra skoðana, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu, tengsla við þjóðernisminnihluta, eigna, uppruna eða annarrar stöðu“

Mannréttindasáttmálar og mannréttinda hugsun byggir á því að allir sèu jafnir fyrir lögum. Það er grundvallarréttur. Það felur einfaldlega í sér að þeir sem annast löggerninga verða að láta eitt yfir alla ganga. Hafa ekkert samviskufrelsi til þess að velja úr. Ef lög segja að tveir einstaklingar geti gifst án tillits til kyns verða opinberir víglumenn  að hlíta því. Þeir hafa hins vegar (samvisku)frelsi til þess að hætta að vera opinberir lögaðilar og halda fordómum sínum fyrir sig.

Undirritaður hefur oft bent á að þetta svokallaða samviskufrelsi vígslumanna standist enga skoðun og ef kirkjan ætli að hanga á því leiði það til þess eins að sóknarprestar missi vígslurètt þann sem þeir hafa nú. Það yrði enn eitt skref út af borðinu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur