Miðvikudagur 21.10.2015 - 10:36 - Lokað fyrir ummæli

Svona menn eru yfirleitt jarðaðir snemma – bókadómur

Meðan ég réði einhverju fékk ég Trausta Valsson til þess að flytja erindi á Prestastefnu um einhverja ,,mind blowing“ hluti sem snertu kirkjuna. Erindi hans var nokkkuð framúrstefnulegt eins og búast mátti við. Kjarninn var sá að fólk gæti greitt hluta af sóknargjöldum sínum til kirkju að eigin vali. Fólk í vesturbænum í Reykjavík gæti þess vegna kosið að láta hluta gjalds síns renna til kirkju í nálægð uppvaxtarstöðva eða sumarbústaðar og byggt þannig upp á þeim slóðum Þar sem hjarta þess hefði orðið eftir og ef til vill bjargað guðshúsum, sem skilin voru eftir þegar fólkið flutti, frá niðurníðslu og glötun.

Fólki leist misvel á. En Trausti hughreysti mig með þeim orðum að nýjar hugmyndir þyrftu svona sirka tíu ára meðgöngutíma til þess að verða viðurkenndar hugmyndir. Nýlega sá ég svipaðri hugmynd skotið upp á sveitastjórnarstiginu það er að burtfluttir gætu valið sér sveitarfélag til þess að láta hluta útsvars síns renna til, því að eins og margir eiga kirkju þar sem hjartað býr eiga hinir sömu sveit sem er hjarta þeirra næst.

Þetta rifjast upp þegar pósturinn færir mér bók frá Trausta Valssyni eins konar lífsbók. Yfirlit yfir ferilinn, veraldlega og hugmyndafræðilega. Þetta er ekki sjálfsmynd heldur einhverskonar sjálfsbók þar sem Trausti fylgir ævi sinni, störfum og þeim hugmyndum sem hann hefur fengið og útfært og baráttunni fyrir þeim.

Það vil svo til að ég vann með Trausta á Þróunarstofnun Reykjavíkurborgar fyrir röskum fjörtíu árum þegar nýjar hugmyndir voru að ryðja sér braut í skipulagsmálum og þróunarstofnun tók slaginn undir stjórn Hilmars heitins Ólafssonar arkitekts. Ekki síst með því að ráða menn eins og Trausta og hafa slaka á taumnum.

Úr fjarlægð fylgdist maður með Trausta ganga á hólm við viðtekna hugmynd um landið, hvernig við gætum búið á því og ferðast um það, m.a. með því að gera ráð fyrir og teikna upp hálendisvegi, fá og útfæra hina frábæru hugmynd um flugvöll á Lönguskerjum, útfærslur um þéttingu byggðar í Reykjavík og fl. og fl. Þá hefur Trausti fengið og útfært hugmyndir sem varða legu Íslands og nýja mögueika sem opnast við bráðnun íss samfara hlýnun jarðar.

Ég hef ekki kynnst manni ennþá sem fær jafnmikið af hugmyndum og því síður neinum sem er í þeirri aðstöðu og með þá menntun að geta útfært þær. Sem betur fer hefur Trausti fengið púlt, verið dósent og prófessor í skipulagsfræðum. Ég veit ekki hvers vegna. Menn eins og Trausti eru gjarnan jarðaðir mjög snemma af þröngsýnu og íhaldssömu samfélagi, voru flökkumenn eða förumenn hér áður drykkjumenn síðar, en ekki Trausti, sennilega er hann músin sem læðist, hefur með hljóðlátri mýkt sinni farið eins langt og fara má. Uppi á hárréttum tíma með hárrétta skapgerð og getur nú, ábyggilega farinn að nálgast sjötugt litið stoltur yfir farinn veg.

Og bókin er uppspretta sögu og hugmynda. Hlýtur að verða skyldulesning allra þeirra sem ætla sér að móta framtíð vora með einhverjum hætti. Og ekki síður þeirra sem gera nú lítið annað en að líta til baka. Með henni fylgir meira að segja diskur með stuttmyndum fyrir þá sem nenna ekki að lesa.

Frábær og skemmtileg bók

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur