Föstudagur 25.12.2015 - 16:15 - Lokað fyrir ummæli

Jólaræða 2015

Allir muna umræðuna um albönsku fjölskyldurnar sem vísað var héðan úr landi, en fengu svo íslenskan ríkisborgararétt eftir allt saman.  Maður vísar ekki  veikum frá sèr var víða sagt. Allra síst barni. Allra, allra síst langveiku barni. Ýmis konar rök voru notuð þar á meðal var vísað beint í fæðingu Jesúbarnsins, sem þjóðin væri að fara að halda uppá. Enda kominn undirbúningstími jólanna, aðventan hafin, þegar umræðan fór fram. Stundum var líka vitnað í miskunnsama Samverjann, útlendingsins sem gaf sig að særða manninum, sem lá særður við veginn, eftir að prestur og levíti höfðu gengið hjá, og sagt var:  Maður hjálpar.Punktur.

 

Ekki ervafi á því að almennur siðaboðskapur JK er þannig að hann ætti að fá mann til að hrökkva við í hvert sinn þegar aðstoðar manns er þörf. ,,Það sem þú vilt að aðrir menn gjöri yður það skalt þú og þeim gjöra“, er oft vitnað til og er ágætt dæmi um siðaboðskap Krists. Raunar eru tækifæri til þess að hjálpa það mörg að maður ætti að vera síhrökkvandi við, tækifærin svo brýn að maður ætti í sífellu að hrökkva í kút og raunar vera stöðugt í kút. Una sér aldrei hvíldar. Verkefnin eru alls staðar.

 

Það er ekki þar með sagt að annarskonar boðskapur hjálpi ekki til þess að við hjálpum öðrum, en hér á jólum einbeitum við okkur að þeim kristna boðskap, sem stuðlar örugglega að því að gera okkur að góðum og umhyggjusömum verum.

 

Þar með er ekki sagt að þeir sem eru á öndverðum meiði við góðmennskuna t.d. um brottvísun tilvitnaðra barna séu eitthvað verri manneskjur en þær sem vilja koma þeim til hjálpar með því að lofa þeim að vera. Þeir geta talið sig hafa göfugar ástæður. Vel þekktur er kristindómur sem leggur mikið upp úr stöðugleika samfélags og reglufestu hvers konar. Að passa upp á það að allt fari ekki úr böndum. Hugsa fyrst um þá sem nær eru. Þá sem fyrir eru, þá sem þegar eru komnir. Þannig er kristinn dómur það opinn til túlkunar að erindi hans hefur bæði verið notað til að styðja við íhaldssöm sjónarmið annars vegar og frjálslynd sjónarmið hins vegar og allt þar á milli. Bæði íhaldssamt fólk og frjálslynt  fólk hefur í gegnum tíðina sótt í kristna kenningu rök sín og siðferðileg viðmið.

 

Eftir fjörlegar rökræður í íslensku samfèlagi um það hvort veita ætti fjölskyldunum með veiku börnin hæli varð hin frjálslynda túlkun ofaná, þó eftir krókaleiðum væri. Það var ekki síst vegna þess að Jesúbarnið var tekið inn í rökræðuna börnunum til stuðnings. Þau rök höfðuðu betur til fólks en hin íhaldsömu reglurök, sem líka voru notuð. Þessi aðkoma kristinna sjónarmiða að þessu mikla deilumáli í samfélaginu segir mèr að kristindómurinn sé allvel lifandi með þjóðinni. Þó það nú væri, kynni einhver að segja, reyndar búinn að vera henni samferða í 1000 ár.

 

En hvað má draga beint út úr jólaguðspjallinu, fyrir utan það að maður eigi að vera sæmilega vænn við börn. Það blasir auðvitað við hvað það er fáránlegt hjá yfirvaldi að skikka ólétta konu til að ferðast í marga daga á asna útaf manntalningu, eða þá af henni sjálfri að fara svona svona á sig kominn, væri það ekki beinlínis skylda. Það stingur lîka í augun að Maríu og Jósef var vísað frá því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi. Fyrir vikið var Jesú lagður í jötu, innanum allskonar dýr. Auðvitað felast í sögunni skilaboð til okkar að úthýsa aldrei.  En bíðum við: Hvað ef að allt er fullt? Hvað átti svo sem gistihúsaeigandinn að gera? Átti hann að úthýsa einhverjum öðrum? Láta konuna fæða í afgreiðslu hótelsins? Það hefði tæpast orðið nothæf helgisaga út því. Nei, góðar helgi sögur lúta eigin lögmálum. Jesú varð jú að fæðast í gripahúsi, áherslu varð að leggja á alþýðlegan uppruna frelsarans, hve hann var fjarlægur valdafólki og ríkidæmi þessa heims.

 

Kannski liggur sá fiskur undir steini í þessari sögu að það sé aldrei fullt. Aldrei er fullt þegar náungi þinn er í neyð og ber að dyrum. Það má vel vera en hvað með rök þeirra sem telja að gistihúsaeigandinn hafi aðhafst rètt með því að hugsa fyrst og fremst um hag þeirra sem fyrir voru á hótelinu? Að trufla ekki líf þeirra, að hrófla ekki við tilveru þeirra? Við getum líka hugsað um það, þó að beinn hagur þeirra verði víkjandi í þessari sögu? Eða hver var hagur þeirra þegar öllu var á botninn hvolft?

 

Svona frásögur kenna okkur á lífið. Og það gjarnan án þess að við verðum vör við það. Og ef við heyrum þær alltaf á jólunum skapa þær jólastemmningu. Þetta er sagan sem við heyrum á hverjum jólum, hún hjálpar örugglega til við það að gera okkur að því sem við erum. Verður sennilega til þess að við úthýsum síður.

 

En við verðum ekki góð vegna hennar eða vegna þess að við teljum okkur sæmilega kristin. Óteljandi þættir gera okkur að því sem við erum og hver og einn verður að gera það uppviðsig hvernig hann bregst við atvikum lífsins. Og kristni gefur okkur engin skýr fyrirmæli um hegðun eða hugsun, þó hún geti hjálpað okkur t.d með dæmisögum. Hjálpað okkur að hugsa og hjálpað okkur til að gera góða hluti hugsunarlaust.

 

 

Flest okkar erum bærilega trúuð, a.m.k. stundum. Leyfum okkur nú þann lúxus á jólum. Trúarlúxus. Kirkjuferð í Þorlákskirkju er góð byrjun. Njótum stundarinnar, njótum messunnar, njótum ljósanna, matarins á eftir ef hann verður ekki orðinn við viðbrunninn  eða kaldur þegar við komum heim, og njótum þess að sjá gleðina í andlitum barna okkar og/eða annarra ástvina er þeir taka upp jólagjafirnar. Njótum þess að hugsa til þeirra sem ekki eru hjá okkur, item þeirra sem gegnir eru. Njótum jólanna og opnum fyrir boðskap þeirra.

 

Tökum undir með Stefáni frá Hvítadal er hann segir: kirkjan Ómar öll, boðar ljós og líf.

Hlýðum á hinn yndislega sálmasöng sem við heyrum héðan af kirkjuloftinu. Þar syngja innblásnir sérfræðingar. Gleðileg jól öll sömul.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur