Föstudagur 01.01.2016 - 16:38 - Lokað fyrir ummæli

Áramótahugleiðing

Árið 2015 hangir í minninu sem árið þegar yfir milljón flóttamenn flúðu frá Sýrlandi og nágrannalöndum yfir til Grikklands og Ítalíu. Flestir sjóleiðina á litlum skektum og yfir 3000 þeirra drukknðu á leiðinni, börn, konur og menn. Þetta fólk var að flýja stríð á heimaslóðum en þar verður nú stöðgt ófriðlegra m.a. vegna breytinga á hitastigi og þar með gróðri og þetta stefnir lífsafkomu fólks í hættu, milljóna, miljónatuga.
Þegar til Evrópu var komið tók við sannkölluð píslarganga til norðurhluta Evrópu, einkum til Þýskalands. Yfirvöld hvarvetna reyndu að hefta för fólksins eða beina því annað, þráttuðu um hver ætti að taka við þeim, fólk spýtti á það og kastaði grjóti en víðast hvar var gott fólk sem reyndi hvað það gat að aðstoða manneskjurnar sem höfðu flúið í föðurland sitt í leit að betri stað til að lifa á a.m.k. tímabundið.
Aðstoða þau sem var hægt að aðstoða. Of seint var að aðstoða þá eða þau sem höfðu látið lífið í stríðsátökum, dáið úr vosbúð eða drukknað á leið sinni til betra lífs.

Ferð okkar manna til betra lífs hefur tekið á sig margvíslegar myndir. Ein myndin er Messíasarmyndin. Myndin af Jesú frá Nazaret sem var borinn til að ,,flytja fátækum gleðilegan boðskap“, þeim hinum sama og var úthýst úr gistihúsinu áður en hann fæddist, fjarri ríkidæmi heimsins og völdum. En Jesú þessi mikla fyrirmynd mátti eftir að hann var sestur við hlið föður síns sætta sig við það að vera gerður að viðhlæjanda valdins, grunnur að helstu valdastofnunum heims, ekki bara kirkjunnar, heldur heimsvelda og þjóðríkja. Hann sjálfur dó á krossi, sem var rafmagnstóll Rómverja, neitaði að undirgangast valdið eða yfirgefa málstað þeirra fátæku og smáðu en eina ráð þeirra sem héldu upp merki hans var að giftast valdinu ef svo má segja, flestra. Meðal þeirra hafa ætíð verið uppreisnarseggir en þeir ná sjáldnast langt, eru í besta falli sendir í afskekktar sóknir.

Annað sem situr í minninu eru hryðjuverkin í París í nóvember þar, sem vel á annað hundrað manns, einkum ungt fólk, létu líf sitt af hendi bilaðra manna, svokallaðra hryðjuverkamanna. Það setur að manni ógeðshroll að hugsa til þessara atburða og hvernig ungt fólk er spólað upp í það að drepa miskunnarlaust með köldu blóði í nafni hugsjóna og trúar, koma þá í hugann hryðjuverk þess tíma sem maður hefur fylgst með, nasisminn, stalínisminn morð Tyrkja á Armenum svo ekki sé farið lengra aftur í blóðugri sögu mannkyns. Satt að segja virðist friðarboðskapur þess sem hér stendur yfir mér í horni farið fyrir lítið og honum meira að segja verið att fram í óteljandi orrustum, Það hefur verið barist fyrir hann, fallið fyrir hann og Guð má vita hvað. Nú um stundir virðist okkur einkum standa ógn af ISIS í miðausturlöndum sem drepa fólk í nafni ALLAH bæði Múhameðstrúarmenn og Kristna.
Er maður svona sjálfur, eruð þið svona, væri hægt að gera úr okkur kaldrifjaða manndrápara? Ekki vafi, sagan hefur dregið fram þennnan veikleika mannsins og við erum merklegri en aðrir menn, alls ekki. Um leið og við þróuðum með okkur vitund, vitundina um okkur sjálf, hver við erum og stöðu okkar, komust þannig fram úr sauðkindinni og rottunni, urðum við lömb sem föllum fyrir ídeólógíu og trú og hlýðni við vald að við getum meira að segja orðið þáttakendur í skipulögðum drápum. Í stað þess að drepa okkur til matar af dýrslegri svengd öðluðumst við greind til þess að drepa meðvitað og skipulega. Drepa til þess að vinna, ryðja ídeólógíu og trú braut, drepa væri okkur skipað, drepa væri okkur innrætt.

Allir muna umræðuna um albönsku fjölskyldurnar sem vísað var héðan úr landi, en fengu svo íslenskan ríkisborgararétt eftir allt saman. Maður vísar ekki veikum frá sèr var víða sagt. Allra síst barni. Allra, allra síst langveiku barni. Ýmis konar rök voru notuð þar á meðal var vísað beint í fæðingu Jesúbarnsins, sem þjóðin væri að fara að halda uppá. Enda kominn undirbúningstími jólanna, aðventan hafin, þegar umræðan fór fram. Stundum var líka vitnað í miskunnsama Samverjann, útlendingsins sem gaf sig að særða manninum, sem lá særður við veginn, eftir að prestur og levíti höfðu gengið hjá, og sagt var:  Maður hjálpar. Punktur.

Þessi reynsla kennir okkur að boðskapur frelsarans frá Nazaret er lifandi meðal vor. Við erum upp til hópa gott fólk sem finnur til með öðru fólki. Það sjáum við líka í góða fólkinu sem hjálpaði flóttamönnunum og í öllu því góða fólki sem hefur stuðlað á friði í heiminum, lagt líkn við þraut annarra.  Því góða fólki sem gerir samfélög manna að bærilegum stað fyrir flesta. Því góða fólki sem starfar í anda Jesú frá Nazareth, innan kirkju hans eða utan. Sum okkar eru trúuð, öll höfum við alist upp við kristna menningu, meira að segja þeir sem kalla guð sinn Allah, hafa alist upp við Krist, hann er einn af aðalspámönnum Islams. Og nú fögnum við fæðingu hans, hann er okkar maður og Guð, en situr samt Guði til hægri handar.
Og við erum heilar hans og hendur hér á jörðu, er sagt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur