Föstudagur 11.09.2015 - 13:05 - Lokað fyrir ummæli

Hálpum okkur sjálfum – tökum við fólki!

Það er sorglegt og undarlegt hvað margir hafa allt á hornum sér þegar kemur að því að bjarga fólki sem flúið hefur styrjaldir og aðrar hörmungar í Sýrlandi og nágrannaríkjum. Hugtakið flóttamaður eða hælisleitandi virðist vekja upp í mörgum hræðslu og ónot í stað samkenndar, samúðar og vilja til að gera allt sem í mannlegu vandi stendur til að hjálpa.

Hinir ,,æðislegu“ Íslendingar sem sjá tækifæri í öllum hlutum og alls staðar ,,brilllera“ átta sig ekki einu sinni heldur haga sér margir eins og hræddar hænur sem skynja mink í pútnahúsinu. Þjóðin sem hefur með réttu það orð á sér meðal þjóða að taka helst ekki á móti fólki sem flýr þangað réttir upp varnarkryppuna og hefur orðræðu sem virðist beinast að því að taka við sem fæstum nú eins og endanær.

Hinir ,,frábæru“ Íslendingar ættu auðvitað að vilja taka á móti sem flestum til þess einfaldlega að hjálpa sem flestu fólki í neyð. En Þeir ættu ekki síður að sjá tækifærin sem felast í þvi að taka á móti fólki. Auk þess að lífga uppá menninguna myndi fólksfjölgun hér bæta okkar brothætta ástand, fleiri vinnandi hendur myndu bæta lífskjörin, vinna fyrir þeim sem eru að eldast og gera lífið hér á eyjunni á flestan hátt betra.

Tökum t.d. þorp eins og Þorlákshöfn sem er ekki meðal hinna 20 sveitarfélaga sem hafa lýst yfir áhuga sínum að taka á móti flóttamönnum. Ímyndum okkur hvað 500 nýir íbúar myndu gera fyrir það þorp. Það þyrfti að byrrja 100 nýjar íbúðir, smiðir og byggingamenn og innréttingafræðingar á Suðurlandi yrðu himinlifandi, 100 bílar myndi bætast við, bifreiðaverkstæðin þrjú og hverslags starfsemi myndi blómstra, götusérfræðingar, skipulagsfræðingar myndu flytja á svæðið, fiskvinnsluhús myndu blómstra.

Innviðir eru til staðar, íbúar eru bara um 1500 og gætu hæglega orðið mikilu fleiri miðað við innviði sveitarfélagsins. Skólinn gæti kennt fleirum, íþróttahöllin gæti þjónað margfalt fleirum, sömuleiðis ágætt embættismannakerfi. Kerfið í Þorlákshöfn og íbúarnir eru vanir fólki sem kemur að, þar er mikil þekking samankomin í því hvernig fólk á og getur lifað saman í sátt og samlyndi. Kirkjan í Þorlákshöfn gæti rúmað fleiri á bekkjunum, stundum, ef aðkomnir væru einhverjir kristnir og lítil og hugguleg moska myndi verða bæjarprýði líkt og kristna kirkjan er nú og verður.

Úr þessu innflytjenndasamfélagi myndu koma nemendur í Fjölbrautarskóla Suðurlands, staðarblöð myndu eflast, verslun sömuleiðis, nefndu það, aukinn mannfjöldi myndi renna stoðum undir allt mannlíf þ.m.t. atvinnulíf. Meira að segja lögreglan fengi meira að gera og eru þó Íslendingarnir einfærir um að sjá henni fyrir verkefnum ef út í það er farið.

Og aðfluttir myndu styrkja körfuboltalið staðarins og gætu ekki annað en styrkt knattspyrnuliðið og hver veit nema að nýr Ibramonvitch leyndist í uppvaxandi barni og hver veit hvaða þruma kæmi út úr hávöxnum Íslendingi sem ekki hefði flúið til Noregs og gáfuðum flóttamanni frá Sýrlandi.

Sama mætti segja um flest þorp á Íslandi og þjóðfélagið allt. Allir myndu græða í margvíslegu tilliti. Það er heimska á ala á ótta og fólk á að rækta samkennd sína ekki bæla hana.

Flóttamannastraumurinn er rétt að byrja. Við höfum lengi vitað að hlýnum jarðar eykur þurrka og óstöðugleika í veðurfari. Hvortveggja eykur líkur á styrjöldum. Þar höfum við því miður ýtt undir. Hvortveggja margfaldar þann mannfjölda sem er á faraldsfæti í heiminum. Við sem nú erum á Íslandi getum ekki haldið öðrum frá endalaust. Nísk innflytjendastefna mun koma okkur síðar í koll. Út frá þessu sjónarmiði er einnig skynsamlegt að hafa landið nokkuð opið. Við mættum líka hafa það í huga að við sjálf lifum á eldgosaeyju og eldra fólk man hvað allir reyndust okkur vel þegar gaus í Heimaey.

aðlögun: Sveitarfélagið Ölfus hefur lýst sig reiðubúið til að taka á móti flóttamönnum með samþykkt bæjarráðs 10. September.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur