Laugardagur 05.09.2015 - 21:47 - Lokað fyrir ummæli

Maður spyr ekki um trú, er það nokkuð?

Á Íslandi er trúfrelsi. Maður spyr ekki um trú þeirra sem hingað leita, ekkert frekar en maður spyr ekki um trú neins áður en honum eða henni er bjargað.( Fyrir kristna: Samverjinn spurði ekki um trú þess sem lá særður við veginn heldur gengur strax í það að hlúa að honum). Eina sem farið er fram á er að viðkomandi hlíti íslenskum lögum þar með þeim Mannréttindasáttmálum sem í gildi eru. Síðar er með ýmsum hætti farið fram á að sá aðkomni aðlagist íslensku samfélagi, og lifi í sátt við þá sem fyrir eru. Þeir sem fyrir eru gera samskonar kröfur til sjálfs sín. Þessi ferill heitir á ensku máli ,,integration“ og gengur misjafnlega og gengur misjafnlega fljótt fyrir sig. Yfirleitt tekst þó aðlögun vel á tveimur til þremur kynslóðum.
Alkunna er þó að þeir sem koma úr sömu eða svipaðri menningu halda hópinn og rækta sína eigin menningu. Úr verður fjölmenning sem samanstendur af menningu innfæddra sem yfirleitt eru langflestir, og mörgum hliðarmenningum. Smit verður á milli. Hver lærir af öðrum- menningarheimar þróast og breytast.
Í nær öllum þekktum dæmum gnæfir menning þeirra sem fyrir eru yfir aðrar.
Þetta sem sagt hefur verið gildir líka um trú. Trúarbrögð þrífast yfirleitt vel saman og trúfólk kann, ef eitthvað er, betur við að deila samfélagi hvert með öðru en með trúleysingjum sem láta sig hið yfirskilvitlega litlu skipta.
En eins og með menninguna þá verður trú þeirra sem koma (nú er trú hluti af menningu en vissan greinarmun má þó gera á) trú minnihluta. Hlutverk þeirra sem fyrir er er ekki hvað síst fólgið í því að gæta þess að minnihlutinn verð ekki fyrir aðkasti nokkurskonar eða misrétti. Ábyrgð þeirra er því mikil og flestir standa undir henni.
Múslimar, þeir sem kalla Guð sinn Allah, eru nú um 6% af þeim sem búa í Evrópu og töluvert færri en það í flestum ríkjum en fleiri í sumum ríkjum Balkaskaga. Áætlað er að Múslimar verði um 10% árið 2050. Samt eru vefsíður er ala á hræðsluáróðri að tala um að Múslimar verði í meirihluta þá og er í veðri látið vaka að afleiðingarnar verði skelfilegar.
Þeir sem halda að þeir geti stjórnað framtíðinni með því að forðast það að fólk mismunandi trúarbragða búi saman eru að mínu viti á skelfilegum villigötum. Blanda í þessum efnum er miklu lífvænlegri framtíðarsýn en aðskilnaður. En aðalmálið er þetta: Við, hver sem við erum, eigum ekkert með það að tengja saman trú og réttindi. Enginn á að gjalda trúar sinnar eða græða á henni hvort sem um er að ræða landvistarleyfi eða önnur réttindi, að ekki sé talað um björgun.
Menn geta huggað sig við það, sé þeim huggun í því, að engar stórvægilegar fyrirsjáanlegar breytingar eru á hlutföllum trúarbragða í Evrópu í fyrirsjáanlegri framtíð. Þeir sem óttast að fjari undan kristni ættu að snúa sér að því að haga sér í samræmi við trú sína og berast áfram veginn með umburðarlyndi og ást á náunga sínum að leiðarljósi. Ella kynnu þeir að falla fyrir vaxandi trúleysi sem ber á á vesturlöndum. Vilji þeir leita ráðgjafar í eigin bók er sagan um miskunnsama Samverjann nærtæk, en sá ágæti maður lét sig engu skipta hverrar trúar náungi hans sem lá bjargarlaus við veginn, var.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur