Þriðjudagur 4.8.2015 - 13:14 - Lokað fyrir ummæli

Stóraukinn fjöldi flóttamanna!

Útaf fyrir sig er það lítið að taka á móti 50 flóttamönnum, Við hefðum t.d. getað tekið á móti einum flóttamanni á hvert sveitarfélag, eru þau ekki vel á annað hundrað?  En lofa skal það sem vel er gert.

Annars geta vesturlönd kennt sjálfum sér um þá þjóðflutninga sem nú standa yfir norður á bóginn. Fólk er að flýja harðindi af völdum manna og náttúru: fátækt, styrjaldir, náttúruvá og vonleysi. Vesturlönd bera gífurlega ábyrgð á Þessu ástandi sem þau kveinka sér nú yfir.

Lífstíll okkar á sinn þátt í loftslagsbreytingum sem hafa gert lífið óbærilegt víða á jörðinni svo ekki sé minnst á efnahagskerfi sem byggjast á verndartollum og halda þar með afturaf matvælaframleiðslu utan þeirra.

Þeir sem líta á hlýnun jarðar sem visst tækifæri verða að hugasa málið til enda. Við þurfum að taka á móti miklu fleiri flóttamönnum og við þurfum að láta miklu meira af hendi rakna í hvers kyns aðstoð við þau svæði jarðar sem liggja öfugu megin tækifæranna.

Í báðum liggjum við mjög aftarlega. Ljósi punkturinn er eiginlega sá að stóraukinn fjöldi flóttamanna myndi sennilega bæta íslenskt samfélag.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.7.2015 - 12:28 - Lokað fyrir ummæli

Hvar er pólska sjónvarpsþulan?

Því verður ekki á móti mælt að innflytjendur hafa auðgað íslenskt samfélag, hreinlega bjargað sumum atvinnugreinum og landshlutum auk þess að gera samfélag okkar, skemmtilegra, litríkara og auðugra með svo margvíslegu móti.

Vestfirðir væru tæplega byggðir án fólks frá öllum hornum veraldar sem hefur sest þar að. Ég sé ekki hvernig fiskvinnslan hefði rekist í Þorlákshöfn án aðkominna, svo ég taki stað sem er mér nærri. Svipað má segja um heilbrigisþjónustuna.  Á öllum heilbrigðisstofnunum eru innflytjendur, oft í erfiðustu störfunum og á sjúkrahúsum er mikið af þeim.

En kenningin sem ég ætla að rannsaka á næstu vikum er þessi. Þrátt fyrir það að töluvert sé hér af innflytjendum og þeir beri uppi heilu starfstéttirnar og jafnvel heilu landshlutana þá eru þeir fáséðir, jafnvel ósýnilegir í ýmsum áberandi störfum í samfélaginu. Hvar er sjónvarpsþulan sem á uppruna sinn í Serbíu, Póllandi eða Thailandi? Hvernig er hlutfallið í lögreglunni? Uanríkisþjónustunni? Hér eru þúsundir af annarrar kynslóðar innflytjendum. Hafa þeir dreifst þokkalega um samfélagið? Hver er staðan? Ég hef grun um að við stöndum öðrum þjóðum talsvert að baki að þessu leytinu til.

,,Integration“ svokölluð er vinna sem krefst peninga og úrræða. Ég hef ekki orðið var við að við höfum splæst mikið í þessa hluti síðan fyrir hrun (Árni Magnússon vann að þessum málum þegar hann var félagsmálaráðherra. Hefur nokkuð gerst síðan?). Kannski er kominn tími til að mæla þróunina og huga að henni.

Grunur minn er sá að hingað komi mikið af fólki frá Evrópu (Vegna þáttöku okkar í Evrópusamstarfi) en lítið af fólki frá Afríku. Mér finnst vanta hér Svart fólk (ekki er eining um það hvort rétt sé að nota þetta orðalag) og ég hef grun um það að Muslimum fjölgi lítið.

Og forsvarsmenn okkar mættu vera þeirrar gerðar að tala gegn hvers kyns rasisma sem skýtur óneitanlega upp kollinum hér og það jafnt í bakgörðum sem út á túni. Það er mjög mikilvægt því að rasismi er tæpast meðfæddur, heldur lærður.

Í nútíma heimi, með nútíma samgöngum og fjarskiptum er það einfaldlega ekki valkostur að bara þeir sem eru undan stóra Jóni búi saman í landi eða á eyju. Þær Þjóðir sem vilja taka þátt í samfélagi þjóða hljóta að eiga formæður sem troðið hafa slóðir víðsvegar á jörðunni. Sæmilega opin samfélög þar sem almennar reglur gilda og menn jafnir fyrir þeim er það eina sem býðst enda best. Það geta tugþúsundir Íslendinga sem flust hafa til Noregs og Ameríku borið vitni um. Gildir þá einu hvort sem við leggjum efnahagslega, siðferðilega eða félagslega stiku til að mæla eftir.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.7.2015 - 17:36 - Lokað fyrir ummæli

Jarðbundnar hugleiðingar um ESB.

Vissulega hefur gríska krísan opnað á ýmsar hugsunarleiðir um ESB. ( Veit ekki hver lenskan er í skammstöfun en kann best við þessa), en þær vísa ekki endilega til þess að betra sé fyrir Ísland að standa utan við ESB með þeim hætti sem það nú gerir.
Fyrir það fyrsta tel ég að langtímahagsmunir okkar séu best tryggðir innan bandalagsins. Ég tala nú ekki um ef við hefðum verið þátttakendur síðan löngu fyrir hrun. Ég tel að það sé aldrei gott að vera jaðarfyrirbrigði, sé kostur á öðru.
En afstaða mín er í grunninn hugmyndafræðilegs eðlis. Ég er hrifinn af hugmyndinni um náið samstarf ríkja í Evrópu og tel að aðeins þannig verði friður milli þjóða Evrópu tryggður og vil að Ísland taki þátt í því ferli en sitji ekki hjá.
Ég óttast ekki um sjálfstæði Íslands innan Evrópu frekar en um sjálfstæði Danmerkur, Hollands, Svíþjóðar og Finnlands. Ég er miklu hræddari um stöðu landsins milli valdablokka. Við höfum frá því á þjóðveldisöld hallað okkur að sterkum aðilum og eigum nú að mínum dómi að halla okkur að Evrópu og þá um leið Bandaríkjunum en síður að Rússlandi, Kína eða Indlandi.
Ég er ekki einn af þeim sem tel efnahagsleg rök ofar öllu. Tel þó að efnahagslega væri okkur betur borgið innan bandalagsins. ESB er í grunninn tollabandalag og augljôsustu rökin eru þau að tollar á útflutningsvöru okkar myndu lækka eða hverfa. Sama myndi gerast með innflutning. Væntanlega myndi verðtrygging hopa og vextir lækka. Styrkir til byggða myndu gjörbreyta möguleikum byggða sérstaklega þeirra sem eru fjarri Reykjvík þaðan sem rekin hefur verið óhugsuð byggðastefna alla síðustu öld eins og Gunnar Smári hefur rakið. þá tíunda ég ekki mannréttindastarf ESB sem er allnokkuð og þar er ESB í nokkurri samkeppni við Evrópuráðið.
Þau rök að Íslendingar hafi bjargað sér hingað til með því að fella gengið að vild finnast mér ekki boðleg.
Og ég sé ekki betur en að krísan í Grikklandi sé að sýna fram á að ríki Evrópu geta leyst mál sín við samningaborðið. Vissulega er hart sótt að Grikkjum en þeir geta, eins og við gátum, sjálfum sér um kennt að miklu leyti hvernig komið er fyrir þeim. Aðrar þjóðir, undir forystu Frakka en þó einkum þjóðverja, hafa gengið ansi langt í að leysa deiluna miðað við afstöðu almennings í þessum ríkjum sem vilja skiljanlega ekki eyða skattpeningum um of í aðra. Ég sé ekki betur en að ríkjum hafi tekist eins vel upp og hægt var að reikna með.
Verst þykir mér að Íslendingar hafi ekki komið að því að vinna að lausn deilunnar, stjórnmálamenn, embættismenn og almenningur. Sorglegast þykir mér þegar sömu aðilar og þeir sem reyna að berja á ESB fyrir það að láta ekki meira fé renna til Grikkja prïsa sínum sæla fyrir það að Ísland skuli ekki vera í ESB því að þá þyrftum við að borga. Stórmannleg afstaða einstaklinga þjóðar sem sjálf er óhrædd við að þyggja þegar færi gefst og þörf er á.
Ég hef séð hrokafullar greinar eftir Jón Bjarnason og Guðna Ágústsson sem segja í meginatriðum. Hvað sagði ég ekki. ESB er vont. Mér er sama um greinar þeirra. Sami hrokinn gægist í gegn hjá Gunnari Smára sem vill ennþá ganga í Noreg, grínhugmynd sem sæmir ekki venjulegri skarpskyggni hans. Og áðan sá ég haft eftir Ágústi Árnasyni að ESB afstaða margra fylgenda væri trúarlegs eðlis. Velkominn í trúarbragðaumræðuna Ágúst en eitt get ég sagt þér í upphafi að rök mín fyrir ESB aðild eru miklu jarðbundari og lógískari en svo að kenna megi við trúarbrögð en èg hlýt að spyrja á móti hvort að faglegar undustöður fræðimennsku þinnar séu byggðar á því að þú aðhyllist einhvern málstað af trúarlegum ákafa.
Ég sé ekki betur en að Ísland verði utan við EB næstu áratugi. Vonandi tekst því þó að starfa náið með vinaþjóðum í Evrópu en fari ekki á beit milli stórvelda heimsins. Slíkt flakk gæti orðið okkur skeinuhætt um leið og reynslubolti eins og forseti vor heyrir sögunni til.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.4.2015 - 15:30 - Lokað fyrir ummæli

Hatursáróður er þjóðarskömm!

Gáfumennirnir og ritsnillingarnir Egill Helgason og Karl Th. Birgisson fara mikinn (og Jónas Kristjánsson) og hneykslast  á samtökunum 78 fyrir að ætla sér að kæra hatrursáróður í garð samkynhneigðra. Minni spámenn vitna óspart ólesnir í Voltaire og myndu þó aldrei láta lífið fyrir Gylfa Ægisson.  Þetta sýnir að við höfum flutt inn fleira en bílamenningu og hamborgara frá Bandaríkjunum, einnig það viðhorf að tjáningarfrelsi sé og eigi að vera óskert, hver og einn megi segja og gera það sem honum lystir og eigi jafnvel að níðast á sem flestum í orði og borði til þess að ekki dragi úr þessum heilaga rétti. Ekki hefur þó spurst til manna mígandi utan í íslenska þjóðfánann í nafni tjáningarfrelsis.

Evrópumenn hafa farið aðra áhersluleið í tjáningarfrelsi og eiga þó Voltaire. Meiddir af ofsóknum tveggja styrjalda hafa þeir í viðleitni sinni til að byggja góð samfélög sett þær lagalegu skorður gegn óheftu tjáningarfrelsi að ekki megi valda hópum manna hugarangri og vanlíðan vegna þátta sem eru mönnum eiginlegir svo sem þjóðerni, litarhætti eða kynhvöt. Gjarnan er miðað við að bannað sé, að viðlagðri refsingu, að veitast með hrokafullum óhróðri að hópum manna ekki síst þar sem talið er að slíkt geti leitt til ofbeldis, meiðinga, eignarspjalla já og dauða einstaklinga úr minnihlutahópum. Þetta er hin hliðin á tjáningarfrelsinu, ef svo má segja, því eru settar skorður til að vernda hópa sem eiga undir högg að sækja. Það er óheft, en menn verða að vera ábyrgir orða sinna þegar þeir reyna að bera menn út vegna þátta sem mönnum eru eðlislægir.

Þessi vörn er varin í stjórnarskrá, mannréttindasáttmála Evrópu og öðrum sáttmálum sem Ísland er aðili að,  dómum Mannréttindadómstólsins, skýrslum ECRI og svo mætti áfram telja. Ákvæði eru íslenskri refsilöggjöf að þessu lútandi og í allflestum ef ekki í löggjöf allra Evrópuríkja.

Það  verð ég að segja að talsvert meiri reisn er yfir evrópskum viðhorfum að tjáningarfrelsi en bandarískum. Í Evrópu er hugað að velferð fólks og þess gætt að ekki sé hægt að ráðast að því með hroka og yfirgangi þess sem finnur meirihlutann að baki sér.

Hitt er svo aftur önnur saga og veldur vonbrigðum hversu grunnt er á hommafóbíunni í mörgum   og ef til er þjóðarskömm þá er þjóðarskömm að því.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 19.4.2015 - 14:31 - Lokað fyrir ummæli

Hnattræn hlýnun- stórkostlegt tækifæri?

Mér er sagt að stjórnmálaflokkur sem er að verða hundrað ára hafa talað um tækifæri til ábata í landbúnaði sem hnattræn hlýnun færði okkur eiginlega á silfurfati. Barnalegt ef satt er.
Á þesu stigi getur enginn spáð fyrir um hvort það hlýni tímabundið, ýmislegt bendir til þess að svo verði ekki svo sem spár um kólnun Golfstraumsins og spár um öfgar í veðurfari. Alltjent er ljóst að til langframa kólnar og sjávarstaða hækkar og Ísland verður óbyggilegra sem og heimurinn allur.
Hitt er kýrskírt að hnattræn hlýnun mun og hefur þegar eyðilagt lífsskilyrði fólks um vîða veröld. Þegar hafa tugmilljónir orðið vegalausar og lífsbjargarlausar vegna breyttra lífsskilyrða. Þessar manneskjur flosna upp og flýja, reyna að finna sér og börnum sínum betri lífsskilyrði. Við sjáum og heyrum hvernig þúsundir reyna að flýja á smábátum frá Afríku norður til Evrópu gjarnan um Möltu eða Ítalíu. Við vitum um þetta einkum vegna þess að íslensk varðskip eru leigð út í hjálparstarf alþjóðastofnana ásamt áhöfn og bjarga þúsundum. Á sama tíma taka Íslendingar helst ekki við flóttamönnum og missa þar með af tækifærum til þess að efla íslenskt samfélag, láta gott af sér leiða og gera um leið skyldu sína.
Ljóst er, hvað sem öðru líður, að breytingar á lífskilyrðum fólks eru gífurlegar, fólk mun flytjast til í áður óþekktum mæli í leit að betra lífi fyrir sig og börnin sín. Ef við ætlum að grípa tækifærið til að gera skyldu okkar í heiminum þá verður við að breyta einangrunarstefnu okkar sem felst í því að veita helst engum pólitískt hæli og vísa úr landi fólki sem hefur aðlagast vel í vinnu og skóla og meðal vina.
Við getum tekið á móti fleira fólki. Við þurfum fleira fólk. Við eigum langt í land í að uppfylla siðferðilega skyldu okkar. Hver er hún. Kristnir menn eru tæpast í vandræðum með að finna sína. Islamistar eiga sambærilega speki að leita í. Enn aðrir vitna bara í sitt góða hjartalag- sameigilega ábyrgð mannannna, hávamàl og fleira gott.
Það er ljóst að hnattræn hlýnun færir okkur sem á Íslandi búum margvísleg tækifæri!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 14.4.2015 - 12:06 - Lokað fyrir ummæli

Trúfélög: Á að banna fé erlendis frá?

Mér finnst ekki koma til greina að banna algjörlega fjármögnun á trúarbyggingum ,,að utan“.  Mikilvægt er hins vegar að þessi framlög séu gefin upp og öllum augljós. Algjört bann yrði trúlega á skjön við þá sáttmála sem við höfum undirritað og ekki í samræmi við dóma Manréttindadómstólsins. Hins vegar mætti setja framlögum þessum skorður, setja á þær þak og gera kröfur á gagnsæi og þyrfti hugsanlega að bæta löggjöf þar um. Setja þarf þak á framlög og koma í veg fyrir að söfnuðir séu reknir (að miklu leiti) fyrir ,,erlent“ fé (sem hefur verið tilfellið hér?).  Mér finnst það alveg samræmast manréttindahugsun.  Þá finnst mér rétt að athuga hvort gera eigi þá kröfu að forstöðmenn safnaða hafi próf upp á vasann frá þeirri deild Háskólans sem menntar guðfræðinga. Svíar hafa hugleitt þetta í sínu landi. Það nám á að vera hlutlaust m.t.t. trúarbragða og er það örugglega (þó nemendur séu sjálfsagt allir kristnir).

Með þessum hætti og fjöldamörgum öðrum má minnka líkur á því að öfgahyggja grafi um sig innan trúarstofnana, hvort sem slík öfgahyggja beinist gegn samkynhneigðum, konum svo að ég tali nú ekki um hryðjuverkastarfsemi.

Samkvæmt Mannréttindadómstól Evrópu er það hlutverk ríkisins að sjá til þess að misrétti þrífist ekki í ríki, jafnframt er það hlutverk ríkisins að tryggja öryggi þegna sinna. Til þess hefur ríkið fjöldamörg úrræði án þess að ganga gegn frelsi þess fólks sem býr innan yfirráðasvæðis þess.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.1.2015 - 16:49 - Lokað fyrir ummæli

Fjölmenning komin til að vera!

Hvað sem öðru líður þá er bæði fjölmenning og hnattvæðing komin til að vera. Ef eithvað er munu loftlagsbreytingar herða á þróuninni en á meðan sum svæði jarðar verða lítt fýsileg til búsetu verða önnur fyrst um sinn a.m.k. fýsilegri kostur en áður. Búferlaflutningar munu því aukast og eins gott að þjóðir heims lagi sig að þeirri þróun ef ekki à að skerast í odda.
Hnattvæðing er ekki ný af nálinni. Regla er frekar en hitt að innan landamæra ríkja séu minnihlutahópar fólks fætt annarsstaðar og/eða af fyrstu kynslóð innflytjenda.
Helst er að einangruð(og köld) eyríki  þ.e, fáir hafa flutt þangað, hafi orðið einsleit. Þess hefur gætt einnig á Norðurlöndunum.
Æstir þjóðernisflokkar hafa óvíða nàð fótfestu. Þar sem þeir hafa náð meiru en 10-15% fylgi hafa þeir dumpað aftur (Hollandi, Grikklandi). Ekki er talið að fólk laðist að þeim vegna þjóðernishyggju eigöngu heldur vegna mjög bágra lífskjara (Grikkland) og vantausts á stjórnmál yfirhöfuð (UKIP).
Yfirleitt eru múslimar 2-5% í löndum Evrópu, 8-10% í Frakklandi. Vel undir hálfu prósenti hér.
Vilji fólks til að lifa saman í sátt og samlyndi setur mjög svip sinn á vestræn samfélög sem líta á sig sem fjölmenningarsamfélög. Umburðarlyndi, kærleikur, réttlæti og trúfrelsi eru gildi sem skora mjög hátt í vestrænum samfèlögum, einnig hér à landi.
Morðin í Frakklandi munu eflaust kynda undir múslmafóbíu, kröfur um eftirlit og auka fylgi við þjóðernisflokka eins og Stefán Ólafsson prófessor bendir á en þau munu einnig kynda undir samstöðu og samhug í Frakklandi og nálægum ríkjum, einnig hèr.
Hér á landi hefur nýr flokkur sem gerir út á andúð á innflytjendum ekki náð fótfestu. Höfun ýmissa forystumanna Sjálfstæðiflokksins á orðfæri sem elur á ótta er til fyrirmyndar. Fleirri forystmenn stjórnmála og þjóðar mættu stíga fram. Þó menn fari ekki til Parísar er hægt að segja sitthvað hér innanlands.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 11.1.2015 - 21:59 - Lokað fyrir ummæli

Kirkjujarðarsamkomulagið söguleg mistök?

Já, hvernig eignaðist kirkjan allar þessar jarðir. Eða er til eitthvað sem heitir séreign kirkjunnar í þjóðskipulagi sem flaggar lútherskri þjóðkirkju?
Einhver sérfræðingur mætti huga að þessu. En mitt svar mitt yrði eitthvað á þessa leið.:
Á fyrstu öldum kristni sáu jarðeigendur (stundum nefndir höfðingjar) sér hagræði í því að gefa kirkjunni jarðir sínar undir kirkjur og halda presta. Gerðu þeir bókhneigðustu syni sína eða aðra skrítna heimilimenn stundum að prestum. Fyrir vikið þurftu þeir ekki að greiða skatt af þessum jörðum.
Gert sem sagt í grôðaskini, eitthvað sem sumir efnamenn nútímans kannast vel við. En þetta tortóludæmi hélt ekki. Kirkjan snéri á menn eftir að þessi skattundanskot höfðu staðið yfir í heila öld og gerði alvörutilkall til eignanna og hafði betur. Það sem eftir lifði kaþólsku bættist í safnið. Fé sækir í fé, jarðir í jarðir. Eitthvað erfði kirkjan o.s.frv.
Við siðaskipti (1550) komst kirkjan undan yfirráðum páfagarðs undir yfirráð danska konungsvaldsins. Þó hún rynni saman við ríkið hélt hún að forminu til eignum sínum. Sameinaðist þannig ekki ríkinu en gekk í eina sæng með því. En skilin milli sænganna voru ekki tekin mjög alvarlega af hálfu ríkisins og er þéttbýli fór að myndast var byggt jöfnum höndum á kirkjujörðum og ríkisjörðum.
Að fengnu sjálfstæði, þegar innlennt ríkisvald fór að véla með þessar jarðir, urðu skilin ógleggri og rîkið seldi kirkjujarðir á spottprís þóknanlegum mönnum því ekki var þetta auglýst. Um og upp úr miðri síðustu öld var mjög mikilvægt einmitt að þessari ástæðu að ráða landbúnaðarráðuneytinu og vera þar í flokki.
Mjög fór jarðarstofninn minnkandi og er líða tôk á öldina fór kirkjan, sem hafði eflst nokkuð, að óttast um sínar veraldlegu hreitur. Vitað var auðvitað hvaða jarðir kirkjan átti enn og vitað var nokkuð hverju handhafar landbúnaðarráðuneytis höfðu komið undan kirkjunni en erfitt var samt að reikna út hvað rîkið hafði haft af kirkjunni og hvað henni hafði verið bætt á fjárlögum. Talsmenn stjórnarráðsins viðurkenndu þó að ekki hefði ríkt nein sérstök stjórnfesta í þessum efnum.
Það má segja að viðurkenning á því að misfarið hafi farið með eigur kirkjunnar hafi lagst á borðið með jarðarsamkomulaginu 1997 er rîkið tók að sér að greiða laun 138 presta og 18 starfsmanna biskups um alla framtíð gegn því að eignast allar jarðirnar nema ca. 120 kirkjustaði og sérstakar kirkjujarðir.
Rîkið hefur ekki staðið við þennan samning frekar en flesta aðra samninga sem það gerir. Fjárlög eru samningum æðri og kirkjan hefur ofan í kaupið kosið að semja um afslátt af samningnum frekar en að láta hart mæta hörðu. Lái henni það hver sem vill. Nú borgar ríkið aðeins laun 107 presta og selur eignir sínar og ræður ekki í lausar stöður til þess aða halda sjó því að kjör presta eru varin af kjaranefnd.
En minnkandi framlög rîkisins eru ekki eingöngu vegna samningsbundins afsláttar af samningi. Einnig eru minnkandi framlög vegna þess að hratt hefur fækkað í þjôðkirkjunni. Nú eru þar um 80% landsmanna en voru 95% þegar drög voru lögð að nefndum samningi. Fækkaði hratt um það leyti sem hann var gerður, og héldu menn að að það væri vegna hegðunar biskups, en þetta var reyndist upphaf að þróun sem ekki hefur stöðvast síðan og sér ekki fyrir endann á.
Samhliða fækkun hefur orðið sú breyting á hugsunarhætti að þjóðkirkjufyrirkomulag á mjög undir högg að sækja og raunar engin sátt um það í íslensku samfélagi (frekar en norsku og sænsku t.a.m.). Mín tilfinning er sú að þetta fyrirkomulag sé að syngja sína síðustu áratugi þar sem það samræmist illa hlutleysi ríkisvalds í trûmálum sem byggir meir og meir á því að mismuna ekki fólki en gera öllum jafn hátt undir höfði.
Þess vegna varpa ég því fram að kirkjujarðarsamkomulagið 1997 hafi verið söguleg mistök. Kirkjan hafi með gerð þess lagt allt of mikið vald í hendur ríkisvalds sem vill ekki mismuna fólki og Hæstréttar sem leggur æ meira upp úr því að mismuna ekki fólki og meira meira upp úr mannréttindasjónarmiðum.
Kirkjan kunni því að sitja uppi án sérstaks sambands við ríkið og eignalítil í þokkabót. Hún mun án efa reyna að fá eignir sínar til baka en ekki er víst að það takist af ástæðum framangreindum.
Kirkjan hefði,sum sé, frekar átt að reyna að innheimta eitthvað af eignum sínum og búa sig þannig undir óhjákvæmilegt sjálfstæði sitt.
Þetta er sú leið sem svíar fóru og reka nú sænsku kirkjuna mestmegnis fyrir arð af eignum sínum.
Í lok síðustu aldar var lag til þessa bæði þar og hér. Svíar endurheimtu skóga og skólendi. Íslenska kirkjan gerði samning við ríkið sem ekki heldur. Tími endurheimtu og tími ,,góðra“ samninga er liðinn og kemur ekki aftur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 10.1.2015 - 01:45 - Lokað fyrir ummæli

Þurfum að hugsa okkar gang.

Allir kveða vitaskuld uppúr með það sama. Við látum ekki ofbeldismenn skemma lýðræðið okkar. Við stöndum fast à tjàningarfrelsinu.
Er það ekki haft eftir Sahlman Rushdie að trúarbrögð og nútímavopn séu hræðieg blanda eða kokteill. Undir það skal tekið. Á minn hátt orðað: Bókstastrú er hættuleg, að trúa og tileinka sér sem sannleika hluti sem standast engan veginn rökhyggju samfara því að telja sig vita hið eina rétta eða vera hinn rétti túlkandi guðdóms leiðir fyrr eða síðar til árekstra, stríðs og ógæfu. Slík manneskja er ekki lengur túlkandi gamals vísdóms heldur sú sem rétt veit og er sem slík hættuleg sjálfum sér og öðrum.
Sá sem hefur gengið um í nágrenni Gare du Nord stöðvarinnar í París og séð fjöldann allan af ungum mönnum, greinilega atvinnulausum og í fjárþröng, seljandi sígarettur og dóp hlýtur að átta sig á því að þetta ástand leiðir til ófarnaðar, eins og uppreisnir fyrri ára hafa reyndar sýnt. Af hverju skyldu manneskjur sprottnar upp úr þessum jarðvegi ekki hneigjast til róttækni. Þær hafa engu að tapa. Í þeirra sporum myndi ég hata þetta þjóðskipulag. Hlutfallslega margir eru börn Norður Afriskra foreldra sem flutt hafa úr nýlendum Frakka til höfuðríkisins í leit að betra lífi. Af hverju skyldu þessar manneskjur, sem samfèlagið virðist ekki hafa neitt pláss fyrir, ekki hneigjast til haturs og róttækni eins og nýnazistarnir, ein ógeðslegasta hreyfing samtímans á Vesturlöndum. Nýnazistar eru oftar en ekki hvítir, kristnir að uppruna og komnir af velmegandi fólki og fjöldi þeirra og umsvif í t.d. Frakklandi, þýskalandi og Rússlandi er óskaplegur.
Með þessu er ég ekki að segja að múslimar þurfi ekki að hugsa sinn gang. Hinir almennu múslimar á Vesturlöndum mættu gjarnan losa sig við bókstafstrú og leggja enn meiri áherslu á friðarboðskap sinn. En vissulega ættum við öll að hugsa okkar gang. Meðal okkar eru margir, trúmenn og aðrir sem skilja ekki rökhugsun þróunakenningarinnar, viðurkenna ekki læknavísindi,er illa við þà, í nafni trúar, sem hafa öðruvísi kynhvöt en þeir og andskotast með einum eða öðrum hætti út í minnihlutahópa.
Við eigum, eins og einn Pírati (Gunnar Hrafn) hefur stungið upp á, að afnema í hvelli sprenghægileg og löngu úrelt lög um guðlast og vinda okkur svo í það að endurhugsa samband ríkis og kirkju. Um þetta samband eða sambandsleysi þarf að ríkja sátt. Senniega er jarðarsamkomulagið frá 1997 söguleg mistök. Kirkjan, sem að mörgu leyti veitir skjól frá öfgum, á að vera, held ég, sem sjálfstæðust ef ekki alveg sjálfstæð en til þess að standa á eigin fótum þarf hún að hafa til þess burði og þá burði hafði hún fyrir 1997 að svo miklu leyti sem ríkið virti eignarhald hennar á nokkur hundruð jörðum.

Flokkar: Menning og listir · Óflokkað

Laugardagur 29.11.2014 - 22:45 - Lokað fyrir ummæli

Bann við mismunun!

Heyri í fréttum að ekki megi gera greinarmun á innlendum og erlendum mönnum vegna EES samnings.  Það skýri hvers vegna verði að selja innlendum náttúrupassa sem og erlendum ferðamönnum. Bann við að mismuna fólki hefur hins vegar ekkert með Noreg eða Lichtenstein að gera. Í öllum samningum og sáttmálum sem lúta að mannréttindum er blátt bann við því að mismuna fólki eftir uppruna, litarhætti, trú etc. Grunnurinn er mannréttindasáttmáli Evrópu og Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna. Slíkt grundvallarbann hefur ekkert með samninga okkar við önnur ríki að gera. Þessu þarf að halda til haga. Tek það fram hins vegar að mér finnst náttúrupassi mjög vafasöm hugmynd og tel að hún muni aldrei ganga upp.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur