Þriðjudagur 21.07.2015 - 12:28 - Lokað fyrir ummæli

Hvar er pólska sjónvarpsþulan?

Því verður ekki á móti mælt að innflytjendur hafa auðgað íslenskt samfélag, hreinlega bjargað sumum atvinnugreinum og landshlutum auk þess að gera samfélag okkar, skemmtilegra, litríkara og auðugra með svo margvíslegu móti.

Vestfirðir væru tæplega byggðir án fólks frá öllum hornum veraldar sem hefur sest þar að. Ég sé ekki hvernig fiskvinnslan hefði rekist í Þorlákshöfn án aðkominna, svo ég taki stað sem er mér nærri. Svipað má segja um heilbrigisþjónustuna.  Á öllum heilbrigðisstofnunum eru innflytjendur, oft í erfiðustu störfunum og á sjúkrahúsum er mikið af þeim.

En kenningin sem ég ætla að rannsaka á næstu vikum er þessi. Þrátt fyrir það að töluvert sé hér af innflytjendum og þeir beri uppi heilu starfstéttirnar og jafnvel heilu landshlutana þá eru þeir fáséðir, jafnvel ósýnilegir í ýmsum áberandi störfum í samfélaginu. Hvar er sjónvarpsþulan sem á uppruna sinn í Serbíu, Póllandi eða Thailandi? Hvernig er hlutfallið í lögreglunni? Uanríkisþjónustunni? Hér eru þúsundir af annarrar kynslóðar innflytjendum. Hafa þeir dreifst þokkalega um samfélagið? Hver er staðan? Ég hef grun um að við stöndum öðrum þjóðum talsvert að baki að þessu leytinu til.

,,Integration“ svokölluð er vinna sem krefst peninga og úrræða. Ég hef ekki orðið var við að við höfum splæst mikið í þessa hluti síðan fyrir hrun (Árni Magnússon vann að þessum málum þegar hann var félagsmálaráðherra. Hefur nokkuð gerst síðan?). Kannski er kominn tími til að mæla þróunina og huga að henni.

Grunur minn er sá að hingað komi mikið af fólki frá Evrópu (Vegna þáttöku okkar í Evrópusamstarfi) en lítið af fólki frá Afríku. Mér finnst vanta hér Svart fólk (ekki er eining um það hvort rétt sé að nota þetta orðalag) og ég hef grun um það að Muslimum fjölgi lítið.

Og forsvarsmenn okkar mættu vera þeirrar gerðar að tala gegn hvers kyns rasisma sem skýtur óneitanlega upp kollinum hér og það jafnt í bakgörðum sem út á túni. Það er mjög mikilvægt því að rasismi er tæpast meðfæddur, heldur lærður.

Í nútíma heimi, með nútíma samgöngum og fjarskiptum er það einfaldlega ekki valkostur að bara þeir sem eru undan stóra Jóni búi saman í landi eða á eyju. Þær Þjóðir sem vilja taka þátt í samfélagi þjóða hljóta að eiga formæður sem troðið hafa slóðir víðsvegar á jörðunni. Sæmilega opin samfélög þar sem almennar reglur gilda og menn jafnir fyrir þeim er það eina sem býðst enda best. Það geta tugþúsundir Íslendinga sem flust hafa til Noregs og Ameríku borið vitni um. Gildir þá einu hvort sem við leggjum efnahagslega, siðferðilega eða félagslega stiku til að mæla eftir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur