Laugardagur 18.07.2015 - 17:36 - Lokað fyrir ummæli

Jarðbundnar hugleiðingar um ESB.

Vissulega hefur gríska krísan opnað á ýmsar hugsunarleiðir um ESB. ( Veit ekki hver lenskan er í skammstöfun en kann best við þessa), en þær vísa ekki endilega til þess að betra sé fyrir Ísland að standa utan við ESB með þeim hætti sem það nú gerir.
Fyrir það fyrsta tel ég að langtímahagsmunir okkar séu best tryggðir innan bandalagsins. Ég tala nú ekki um ef við hefðum verið þátttakendur síðan löngu fyrir hrun. Ég tel að það sé aldrei gott að vera jaðarfyrirbrigði, sé kostur á öðru.
En afstaða mín er í grunninn hugmyndafræðilegs eðlis. Ég er hrifinn af hugmyndinni um náið samstarf ríkja í Evrópu og tel að aðeins þannig verði friður milli þjóða Evrópu tryggður og vil að Ísland taki þátt í því ferli en sitji ekki hjá.
Ég óttast ekki um sjálfstæði Íslands innan Evrópu frekar en um sjálfstæði Danmerkur, Hollands, Svíþjóðar og Finnlands. Ég er miklu hræddari um stöðu landsins milli valdablokka. Við höfum frá því á þjóðveldisöld hallað okkur að sterkum aðilum og eigum nú að mínum dómi að halla okkur að Evrópu og þá um leið Bandaríkjunum en síður að Rússlandi, Kína eða Indlandi.
Ég er ekki einn af þeim sem tel efnahagsleg rök ofar öllu. Tel þó að efnahagslega væri okkur betur borgið innan bandalagsins. ESB er í grunninn tollabandalag og augljôsustu rökin eru þau að tollar á útflutningsvöru okkar myndu lækka eða hverfa. Sama myndi gerast með innflutning. Væntanlega myndi verðtrygging hopa og vextir lækka. Styrkir til byggða myndu gjörbreyta möguleikum byggða sérstaklega þeirra sem eru fjarri Reykjvík þaðan sem rekin hefur verið óhugsuð byggðastefna alla síðustu öld eins og Gunnar Smári hefur rakið. þá tíunda ég ekki mannréttindastarf ESB sem er allnokkuð og þar er ESB í nokkurri samkeppni við Evrópuráðið.
Þau rök að Íslendingar hafi bjargað sér hingað til með því að fella gengið að vild finnast mér ekki boðleg.
Og ég sé ekki betur en að krísan í Grikklandi sé að sýna fram á að ríki Evrópu geta leyst mál sín við samningaborðið. Vissulega er hart sótt að Grikkjum en þeir geta, eins og við gátum, sjálfum sér um kennt að miklu leyti hvernig komið er fyrir þeim. Aðrar þjóðir, undir forystu Frakka en þó einkum þjóðverja, hafa gengið ansi langt í að leysa deiluna miðað við afstöðu almennings í þessum ríkjum sem vilja skiljanlega ekki eyða skattpeningum um of í aðra. Ég sé ekki betur en að ríkjum hafi tekist eins vel upp og hægt var að reikna með.
Verst þykir mér að Íslendingar hafi ekki komið að því að vinna að lausn deilunnar, stjórnmálamenn, embættismenn og almenningur. Sorglegast þykir mér þegar sömu aðilar og þeir sem reyna að berja á ESB fyrir það að láta ekki meira fé renna til Grikkja prïsa sínum sæla fyrir það að Ísland skuli ekki vera í ESB því að þá þyrftum við að borga. Stórmannleg afstaða einstaklinga þjóðar sem sjálf er óhrædd við að þyggja þegar færi gefst og þörf er á.
Ég hef séð hrokafullar greinar eftir Jón Bjarnason og Guðna Ágústsson sem segja í meginatriðum. Hvað sagði ég ekki. ESB er vont. Mér er sama um greinar þeirra. Sami hrokinn gægist í gegn hjá Gunnari Smára sem vill ennþá ganga í Noreg, grínhugmynd sem sæmir ekki venjulegri skarpskyggni hans. Og áðan sá ég haft eftir Ágústi Árnasyni að ESB afstaða margra fylgenda væri trúarlegs eðlis. Velkominn í trúarbragðaumræðuna Ágúst en eitt get ég sagt þér í upphafi að rök mín fyrir ESB aðild eru miklu jarðbundari og lógískari en svo að kenna megi við trúarbrögð en èg hlýt að spyrja á móti hvort að faglegar undustöður fræðimennsku þinnar séu byggðar á því að þú aðhyllist einhvern málstað af trúarlegum ákafa.
Ég sé ekki betur en að Ísland verði utan við EB næstu áratugi. Vonandi tekst því þó að starfa náið með vinaþjóðum í Evrópu en fari ekki á beit milli stórvelda heimsins. Slíkt flakk gæti orðið okkur skeinuhætt um leið og reynslubolti eins og forseti vor heyrir sögunni til.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur