Mánudagur 27.04.2015 - 15:30 - Lokað fyrir ummæli

Hatursáróður er þjóðarskömm!

Gáfumennirnir og ritsnillingarnir Egill Helgason og Karl Th. Birgisson fara mikinn (og Jónas Kristjánsson) og hneykslast  á samtökunum 78 fyrir að ætla sér að kæra hatrursáróður í garð samkynhneigðra. Minni spámenn vitna óspart ólesnir í Voltaire og myndu þó aldrei láta lífið fyrir Gylfa Ægisson.  Þetta sýnir að við höfum flutt inn fleira en bílamenningu og hamborgara frá Bandaríkjunum, einnig það viðhorf að tjáningarfrelsi sé og eigi að vera óskert, hver og einn megi segja og gera það sem honum lystir og eigi jafnvel að níðast á sem flestum í orði og borði til þess að ekki dragi úr þessum heilaga rétti. Ekki hefur þó spurst til manna mígandi utan í íslenska þjóðfánann í nafni tjáningarfrelsis.

Evrópumenn hafa farið aðra áhersluleið í tjáningarfrelsi og eiga þó Voltaire. Meiddir af ofsóknum tveggja styrjalda hafa þeir í viðleitni sinni til að byggja góð samfélög sett þær lagalegu skorður gegn óheftu tjáningarfrelsi að ekki megi valda hópum manna hugarangri og vanlíðan vegna þátta sem eru mönnum eiginlegir svo sem þjóðerni, litarhætti eða kynhvöt. Gjarnan er miðað við að bannað sé, að viðlagðri refsingu, að veitast með hrokafullum óhróðri að hópum manna ekki síst þar sem talið er að slíkt geti leitt til ofbeldis, meiðinga, eignarspjalla já og dauða einstaklinga úr minnihlutahópum. Þetta er hin hliðin á tjáningarfrelsinu, ef svo má segja, því eru settar skorður til að vernda hópa sem eiga undir högg að sækja. Það er óheft, en menn verða að vera ábyrgir orða sinna þegar þeir reyna að bera menn út vegna þátta sem mönnum eru eðlislægir.

Þessi vörn er varin í stjórnarskrá, mannréttindasáttmála Evrópu og öðrum sáttmálum sem Ísland er aðili að,  dómum Mannréttindadómstólsins, skýrslum ECRI og svo mætti áfram telja. Ákvæði eru íslenskri refsilöggjöf að þessu lútandi og í allflestum ef ekki í löggjöf allra Evrópuríkja.

Það  verð ég að segja að talsvert meiri reisn er yfir evrópskum viðhorfum að tjáningarfrelsi en bandarískum. Í Evrópu er hugað að velferð fólks og þess gætt að ekki sé hægt að ráðast að því með hroka og yfirgangi þess sem finnur meirihlutann að baki sér.

Hitt er svo aftur önnur saga og veldur vonbrigðum hversu grunnt er á hommafóbíunni í mörgum   og ef til er þjóðarskömm þá er þjóðarskömm að því.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur