Miðvikudagur 8.10.2014 - 15:46 - Slökkt á athugasemdum við Einokun í nútímanum

Einokun í nútímanum

Í skjali les èg að einokunarverslun Danskra kaupmanna sem komið var á 1602 hafi þótt afskaplega hagkvæm fyrir bæði kaupmenn og neytendur. Menn hafa séð í hendi sér að mikið myndi sparast ef ekki fleirri en þyrftu sigldu hingað uppeftir og mikilvægt væri að vita hvar hver myndi versla svo að hægt væri að áætla magn af nákvæmni í stað þess að þvæla vörunni út og suður ef menn gætu bara verslað hvar sem væri.
Þetta voru rökin mestmegnis.
Almennt hefur fólk séð að þessi rök standast ekki. Einokun er alltaf vond fyrir kúnnann og leiðir til stöðnunar. Samkeppni er ekki eitthvað sem gott er að vera laus undan af hagkvæmnisástæðum. Samkeppni er besta hagkvæmnin fyrir nú utan frelsið, sem fylgir og er grundvallarþáttur, í mannlegri tilveru.
Allar þjóðir hafa þetta einhvern veginn svona, meira segja Bandaríkjamenn, segja þeir sem verja. Rétt er að flestir, hafa fyrirkomulag á samkeppni en samkeppni er það samt, samkeppni með regluverki og eftirliti. Aðeins vanþróuð ríki draga úr hlutverki eftirlitsstofnanna sem eiga að tryggja að enginn vinni samkeppnina með því að ná 95% markaðshlutdeild eða tryggja sér einokun.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.8.2014 - 16:31 - 1 ummæli

Vandi Styrmis!

Vandi Styrmis Gunnarssonar er sá að hvers kyns einkavæðing á heilbrigðiskerfum bitnar verst á fátækum og þá ekki síst öldruðum gömlum. Í hinu ídeala frjálshyggjuríki borga hinir efnuðu fyrir það að verða teknir framfyrir hina og þess vegna er það í lagi út frá skammtíma eigin hag að vera efnaður og sérstaklega ef maður er gamall.
Nú hefur flokkur sá sem Styrmir hefur þjónað örugglega ekki slæman ásetning og örugglega ekki fólkið í honum ef hægt er að skilja þarna á milli. En flokkurinn er óumdeilanlega hægri flokkur og hefur leynt og ljóst talað fyrir litlu ríkisvaldi og einkarekstri á heilbrigðissviði. Af stefnu hans leiðir að minna fé fer í þennan málaflokk og því eru meiri líkur á því að forgangsraða þurfi gagnvart þeim sem ekki borga fyrir sig sjálfa þ.á. m. aldraða en á því hefur Styrmir vakið athygli í ágætu skrifi.

Nú er ekki víst að eitt þjóðfélag myndi funkera betur án hins ónefnda flokks. Einhverjir þurfa nefnilega að borga brúsann. En sjálfum leiðist mér samhengislaus pólitík og minni því á þetta.
Stjórnmál snúast nefnilega fyrst og síðast um almannafé. Annars vegar eru þeir sem vilja að fólk haldi því fé sem það afli, sjái að mestu um sig sjálft. Ríkisvald sé naumt og sjái helst bara um löggæslu, dómsvald, lágmarks menntun, grunnhelbrigðisþjónustu, lágmarksöryggisnet og lágmarkssamgöngur. Hins vegar eru þeir sem vilja fjársterkt ríkisvald sem tryggi öryggi fólks vel, mennti það og lækni frá vöggu til grafar, tryggi samgöngur etc.
Hinir fyrrnefndu sem kallast hægri menn eru því talsmenn lágra skatta og enginn hefur í mín eyru efast um að Sjálfstæðiflokkurinn sé þeim megin. Hinir eru talsmenn hærri skatta og á þeim kanti eru Vinstri- grænir samkvæmt mínum kokkabókum. Hinir eru svo þar á milli.

en hver er þá vandi Styrmis? Kannski sá að með stjórnmálaþáttöku sinni hefur hann óbeint stuðlað að því ástandi sem komið er upp að forgangsraðað sé móti öldruðum.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 16.8.2014 - 10:01 - 3 ummæli

Rasistinn í mér!

Rétt áður en við stigum um borð í WoW airbusinn sagði Bergþóra dóttir mín að vinkona hennar hefði sagt sér að flugmennirnir væru frá Búlgaríu. Hræðsluhrollur fór um mig. Búlgarskir, kunna þeir að fljúga? Eru ekki eintóm vandræði í því landi? Ég sem hafði hangið à því hvað íslenskir flugmenn væru góðir. Lentu à síðustu dropunum 1956 eftir mótvind frá útlöndum, einn vitjaði hrossa sinna með því að fljúga lágt yfir tiltekna sveit, meistarar sviftivindanna eftir aðhafa flogið um þrönga firði, nefndu það meistarar á sínu sviði. Hún sá hvernig mér leið og róaði mig: Þær segja að þeir fylgi öllum reglum út í æsar, miklu betur en þeir íslensku. Og smàm saman bráði af mér. Auðvitað eru flugmenn frá Búlgaríu bara misgôðir eins og íslenskir flugmenn. Gæði flugmanna fara ekki eftir uppruna þeirra, heldur eftir því hvað þeir inna sitt starf vel af hendi, hvað þeir fylgja vel reglum etc.
Innan í mèr hafði vaxið hroki í garð Búlgara og braust fram à viðkvæmu augnabliki.
Rifjast upp annað atvik þegar rasismus gamli braust fram. Mikið hafði verið í fréttum að bandaríkjamaður sem væri músimi nota bene hefði reynt að sprengja skó sína og þar með flugvél í loft upp. Sest ekki hjá mèr kalífi í fullum herklæðum með vefjarhött og skegg í skikkju
og í myndarlegum skóm. Erinið til Íslands sjálfsagt verið það að kaupa hlutabréf í Kaupþingi fyrir sparifé mitt. Ég hætti að telja daga mína og taldi nú mínútur. Margbarðir í mig fordómar í garð múslima ultu fram. Ég sprengjuleitaði manninn með vökru augnaráði en eins og seinni daginn náði skynsemin fljótt yfirhöndinni. Múslimar eru eins og annað fólk misjafnlega gôðir og ekki meiri ástæða til þess að óttast þennan mann en jakkaklædda, vatnsgreidda unga manninn sem sat hium megin á ská. Og lífið of stutt til þess að líta á aðra sem ógn.
Þarna höfðu margendurteknar staðalmyndir náð yfirhöndinni á viðkvæmu augnabliki, eins og seinni daginn rakalausar með öllu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 30.7.2014 - 00:19 - Slökkt á athugasemdum við Ráðleggingar Evrópuráðsins!

Ráðleggingar Evrópuráðsins!

Það hefur lengi verið föst ráðlegging Evrópuráðsins í mynd ECRÍ að ráðleggja yfirvöldum að koma upp einum lagabálki þar sem mismunun hvers konar er bönnuð (án málefnalegra ástæðna). Í síðustu skýrslum um Ísland er þetta brýnt fyrir okkur.
Nú er mismunun hvers konar vegna þátta sem menn ráða ekki við bönnuð í ýmsum lagabálkum en íslensk stjórnvöld hafa skellt skollaeyrum við ráðleggingingunni að taka þetta saman og banna á skýran hátt alla mismunun.
Að auki er það föst ráðlegging til ríkja að innleiða viðauka nr. 12 við Mannréttindasáttmála Evrópu en sá viðauki bannar fortaklaust alla ómálefnalega mismunun milli íbúa ( málefnaleg mismunun gæti verið að geta ráðið konu í búningsherbergi kvenna). Hér á Íslandi myndi lögleiðing viðauka nr. 12 auðvelda mjög baráttu gegn launamisrétti kynja svo dæmi sé tekið. Innleiðing viðauka nr. 12 er sennilega of stór biti fyrir íslenskt samfélag þar sem hann leggur blátt vann við allri mismunun. Innleiðing hans auðveldar mög störf dómstôla þar með Mannréttindadómstóls Evrópu.
Það er löngu orðið tímabært að taka þessi mál ákveðnum tökum í samfélagi þar sem fordómar vaða uppi sem aldrei fyrr. Í löggjöf höfum við dregist afturúr einkum ungum þjóðum og ráðleggingar bíða í röðum. Það virðist bara vanta viljann eða getuna til þess að fara eftir þeim.
Kannski þjóðin sé of stórlát til þess að taka ráðleggingum.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.7.2014 - 14:18 - 1 ummæli

Eins og ,,álfar út úr hól“

Það er hnýtt í mig í aðsendri grein í Mogga á laugardaginn fyrir að telja að Íslendingar verði eins og álfar út úr hól þegar þeir komi til útlanda ef þjóðfélagið hér verði miklu einsleitnara en nágrannaríkin og gefið í skyn að ég sé sjálfur eins og álfur út úr hól.

Sem er ábyggilega hárrétt oft. En um hið fyrra hélt ég að ekki þyrfti að deila.  Því einsleitnara sem eitt þjóðfélag er því erfiðara eiga meðlimir þess  með að grípa alla þá fjölbreytni sem gefst annarsstaðar. Liggur í augum uppi finnst mér og hefur reyndar oft verið notað, og það víðar en hér, til að afsaka róstusama sambúð fólks að samfélagið hafi þar til nýlega verið svo einsleitt.

Og að vera eins og ,,álfur út úr hól“ er ofan í kaupið alíslensk líking, sprottin úr trölla og álfasögum landans og telst ekki háalvarlegur hlutur að vera það, eiginlega kómískur og sýnir lítinn skilning á íslenskri þjóðmenningu að móðgast yfir slíku.

Það  eru margar leiðir til að sjá og skilja heiminn. Ein er sú að raka saman af netinu ofbeldi og átökum milli þjóðarbrota eða trúarhópa sem lifa saman eða nærri hver öðrum. Það er nóg af slíku. Fari menn þessa leið gæti niðurstaðan orðið sú að kristnir ættu að vera sér, íslamfólk sér, gyðingar sér, sômalir sér, thaí sér, serbar sér, króatar sér, danir sér, íslendingar sér. Til að forðast átök og órôleika ætti líka að hafa homma sér, lesbíur sér, gagnkynhneigðakalla  sér, transfólk sér og þannig gæti ég haldið áfram í það óendanlega. Allir, jafnvel álfar nýkomnir úr hólunum sjá að þetta gengi ekki upp. Jafnvel þótt við ættum nógu sterkar girðingar þá myndi renna upp fyrir fólki að ástæðan fyrir róstrum og ofbeldi var ekki sú að ólíkt fólk byggi saman. Fólk yrði ekki í vandræðum með að finna sér  tilefni og jafnvel það yrði tilefni til ofbeldis að  það fyndi ekki nægilega ólíkt fólk.

Önnur leið er að sjá allt það jákvæða sem er að gerast víðast hvar um heiminn og þar með í manns eigin umhverfi. Fólk lifir saman í sátt og samlyndi, hjálpar hvort öðru, styður hvort annað. Fólk af margskonar þjóðarbrotum lifir án átaka í flestum löndum heims, alið upp við það að það skiptir ekki máli hvort þú ert hvítur eða svartur, lútherskur, kaþólskur, íslam eða gyðingur, homo eða gagnkynhneigður, serbi að uppruna, pólverji að uppruna eða Íslendingur að langfeðratali. Þetta er auðvelt að sjá, Á þessa lund eru flest ríki veraldar samansett.

Enda eina færa leiðin enda ekki nógu sterkar girðingar til að halda manneskjunni frá  öðrum manneskjum.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 5.7.2014 - 11:43 - Slökkt á athugasemdum við No to racism

No to racism

Rifjast upp fyrir mér þegar ég sé leiki að barátta FIFA gegn rasisma er til fyrirmyndar. Fyrirliðar lesa yfirlýsingu og borði með áletruninni ,,No to racism“eru sjáanlegur fyrir leik og meðan á leik stendur og víða annarsstaðar.

Þetta er sagði einn þulur er 30 ára gömul herferð. Má vera en hún fékk nýtt líf fyrir átta árum eða svo.  Þá áttum við í ECRI – european commission against rasism and intolerance- fundi með forystumönnum knattspyrnu heimsins m.a. Platini um þessa herferð sem nú er.  Þar var núverandi herferð lögð upp. Og í því sambandi: Að baki þessari herferð liggur mikil vinna, miklar pælingar og mörg skjöl.  Það var ekki anað af stað, óundirbúið. Íslendingnum hefur stundum fundist nóg um undirbúninginn en það er nú bara þannig að undirbúningur er gulls ígildi.

Og herferð gegn rasisma á rétt á sér nú sem aldrei fyrr.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.6.2014 - 13:05 - 1 ummæli

Aukum fjölbreytni hér!

Íslenskir hafa tileinkað sér nokkuð bandaríska útgáfu af tjáningarfrelsi. Tjáningarfrelsi er í Bandaríkjunum (nær) skilyrðislaust. Styrkur hins bandaríska fjölmenningarsamfélags er sá að fólk misnotar ekki tjáningarfrelsið þ.e. þjösnast ekki á tilfinningum náungans um of  (hvað sem segja má um byssumenningu og einstök tilvik). Í Evrópu er Hatursorðræða yfirleitt refsiverð (hate specch er fyrst og fremst opinber ræða eða ritun sem felur í sér rasisma með þeim hætti að eykur líkur á að hópar manna eða einstaklingar innan þeirra verði fyrir aðkasti, tortryggni eða beinlínis ofbeldi vegna þátta sem þeim eru áskapaðir svo sem húðlitar, eða markast af genum svo sem kynhneigð, eða fæðingarstað svo sem þjóðerni, trú eða tungu). Víðast hvar liggja við háar fjársektir eða fangelsi við hatursræðu. Í sumum löndum Evrópu t.d. Þýskalandi eru flokkar eða félög sem hafa rasisma á stefnuskrá sinni bannaðir ( rasismi felur í sér að ætla að hópur manna ( vegna áskapaðra hluta eða umhverfis eða menningar eða trúar sé óæðri öðrum, rasismi felur gjarnan í sér alhæfingar gagnvart hópum, menningu eða trú). Í sumum löndum eru slík félög leyfð svo sem í Noregi og Danmörku. Í þeim löndum hafa aðsetur internetsetur sem dæla óhróðri um fólk suður á bóginn en hatursræður eða andúðarræður eru refsiverðar þar sem annarsstaðar í Evrópu ef líklegt er að þær leiði til tortryggni eða ofbeldi gegn hópum manna. Einnig í Belgíu og Hollandi og Grikklandi.

Ísland er enn fremur sterílt. Þeir sem fæddir eru annarsstaðar en hér koma flestir frá ESB löndum (pólverjar fjölmennastir). Við þurfum að opna landið betur fyrir fólki sem kemur sunnar af hnettinum og auka þannig fjölbreytni manna hér. Til lengri tíma litið gengur ekki annað en að fólk hér á landi verði svipað og fólk í nágrannalöndum þó ekki sé til annars en að íslendingar verði ekki eins og álfar út úr hól er þeir koma til útlanda og telji allt vont í útlandinu sem svolítið er farin að verða raunin hér.
Og ég mun fjalla um það síðar að auðvitað eigum við að opna landið betur af mannúðar og sanngirnisástæðum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 22.6.2014 - 09:19 - 12 ummæli

Vaxandi hatursorðræða!

Súperdagar Dawkins, Harris og hins íslenska Magnúsar eru liðnir í bili a.m.k. Segja mà að þeir hafi unnið rökræðuna en tapað umræðunni vegna þess að þó að trúarbrögð kunni að virðast fáránleg þá hefur fólk að því er ályktað verður, mikla, jafnvel meðfædda ( genetíska) þörf fyrir að trúa á æðri veru og fylgifiska hennar.

Og fólk virðist trúa sem aldrei fyrr. Kristnir, íslamistar, gyðingar eru allir að gíra sig upp trúarlega og um leið tifinningalega.

Og hluti þessa og kannski afleiðing er að öfgamenn hvers konar eru að ná vopnum sínum. Hatursorðræða fer vaxandi. Þessi orðræða beinist ekki hvað síst að kristnum, íslamfólki og gyðingum og oftar en ekki flagga hatursmennirnir eða konurnar ást á sínum eigin trúarbrögum.
En það er önnur hlið á haturs umræðunni. Hún á framgang sinn ekki endilega í vaxandi hatri á minnihlutahópum og þeim sem teljast öðruvísi (evrópusambandinu þess vegna í okkar heimshluta). Oftar en ekki er um hreint valdatafl að ræða. Ósvífnir og siðlitlir stjórnmálamenn hoppa hreinlega upp á þá vagna sem eru líklegir til atkvæða. Notfæra sér það að í þjóðfélögum öllum er til staðar ótti við hið óþekkta, ótti við breytingar o.s.frv. Þessir stjórnmálamenn aðhafast svo lítið sem ekkert komnir í valdastöður og eru að því leitinu til skárri en hinir raunverulegu hatarar.
Víðast hvar koma þessir valdapólitíkusar fram í nýjum flokkum. Séríslenskt afbrigði er að gamall og virðulegur miðflokkur virðist tekinn til handargagns að þessu leyti.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.6.2014 - 17:03 - 12 ummæli

Eru trúarbrögð úrelt?

Ekki hvarflar að mér að bera blak af þeim sem hleyptu mosku umræðu af stað fyrir borgarstjórnarkosningarnar né af þeim sem biðu þar til atkvæði voru komin í hús með að tjá sig (og reyndu þá að leika fórnarlömb). Sagan dæmir slíkt.  En þessi pistill fjallar ekki um það heldur um gjána sem myndast hefur milli mannréttinda og trúarbragða.
Við lifum yfirfærslutíma. Fram um miðja tuttugustu öldina skilgreindu trúarbrögðin hvað væri rétt og hvað rangt, hvað væri satt eða logið, líklegt eða ólíklegt m.ö.o. skilgreindu lífið manns eigið og umhverfisins.
Á þessu hefur orðið breyting. Samfélög okkar eru byggð á mannréttindum og eru þau tryggð með mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins í okkar heimshluta og hundruðum smærri sáttmála um tiltekin viðfangsefni. Þessir sáttmálar, sem eiga rætur m.a. rætur í jákvæðum mannskilningi trüarbragða, eiga að tryggja okkur mat, vatn og félagslegt réttlæti, frið og frelsi til orðs og æðis, líf án þess að okkur sé mismunað vegna þjóðernis, tungu, uppruna, litarháttar, kyns, kynhneigðar, trúar eða nokkurs slíks.
Trúar, já það getur verið verkur. Trúarbrögðin bera inn í samtímann gamlar bábiljur og gera sannanlega upp á milli samkynhneigðs fólks og gagkynhneigðs, ætla fólki ólíkt hlutskipti eftir kynjum svo tvennt eitt sé nefnt. Þá kemur spurningin: má halda fram sjónarmiðum sem gera upp á milli fólks á grundvelli trúar, ef þau leiða til mismunandi meðhöndlunar fólks? Rekast ekki á þarna mannréttindi og trúfrelsi. Umburðarlyndiskrafa mannréttinda og íhaldssemi trúarbragða sem sum hver sækja mannskilning sinn í bækur ritaðar fyrir 2000 árum?
Segja má með að umburðarlyndi setji meginsvip á Íslending nútímans . Er það ávöxtur þúsund ára kristinnar trúar eða eitthvað sem við höfum tileinkað okkur á allra síðustu árum, með tilkomu mannréttindasáttmála og etv. annarra trúarbragða?

Og er ekki lausnarðiðið í þessu sem öðru umburðarlyndi?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.6.2014 - 17:41 - 9 ummæli

Framsókn á endastöð!

Framsóknarflokkur Halldórs Ásgrímssonar var á hraðri leið til framtíðar. Úreltur bændaflokkur sem hafði lent í klónum á spillingu tók sér stöðu fyrir framan aðra flokka. Var á leiðinni að verða framsækinn, alþjóðlega sinnaður, frjálslyndur flokkur líkt og venstre í Danmörku, á svipaðri leið og Frjálslyndi flokkurinn í Bretlandi vill vera á. Í slíkum flokki hefði bændur og bændasinnað fólk sameinast framsæknum öflum í samfélaginu og hiklaust verið í fararbroddi um mótun íslensks samfélags á 21. öldinni.
Í stað þess náðu þeir yfirhöndinni sem vildu horfa afturábak inn til dala í stað fram á veginn og kölluðu þjóðrækni. Ekki var það þó umhyggja fyrir landinu og náttúru þess, fjarriþví. Ekki var það heldur sú heilbrigða þjóðrækni sem Jón Sigurðsson yngri reyndi að koma svo fallega í orð, heldur sú þjóðrækni sem hefur horn í síðu þess sem útlenskt er, leggur áherslu á jafn sjálfsagða hluti og íslenska fánann og íslenskan mat, talar um útlendinga í sömu andrá og sjúkdóma og glæpi, hreinræktaða Íslendinga og fleira í þeim dúr. Samhliða þessu kemur ótti við Evrópusambandið og útlendinga og trú þeirra sem hér setjast að. Hiklaust dæmi um örvinglaðan flokk sem veit ekki fyrir hvað hann stendur og veit ekki hvaða skoðanir bærast með þeim sem hann leiða. Bregst flokkurinn þannig lýðræðislega aðalverkefni sínu að hafa prófað þá alvarlega í innanflokkstarfi, beint eða óbeint, sem flokkurinn síðar teflir fram til að leiða þjóð eða borg.
Þó að ótti við útland og nýkomin verði sjálfsagt alltaf til staðar þá er flokkur sem byggir á neikvæðni og andúð kominn á endastöð enda hafa bæði Samfylking og Björt Framtíð velt framsókn úr sessi sem valkostur fyrir þá sem vilja vera nálægt miðjunni.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Höfundur