Laugardagur 10.01.2015 - 01:45 - Lokað fyrir ummæli

Þurfum að hugsa okkar gang.

Allir kveða vitaskuld uppúr með það sama. Við látum ekki ofbeldismenn skemma lýðræðið okkar. Við stöndum fast à tjàningarfrelsinu.
Er það ekki haft eftir Sahlman Rushdie að trúarbrögð og nútímavopn séu hræðieg blanda eða kokteill. Undir það skal tekið. Á minn hátt orðað: Bókstastrú er hættuleg, að trúa og tileinka sér sem sannleika hluti sem standast engan veginn rökhyggju samfara því að telja sig vita hið eina rétta eða vera hinn rétti túlkandi guðdóms leiðir fyrr eða síðar til árekstra, stríðs og ógæfu. Slík manneskja er ekki lengur túlkandi gamals vísdóms heldur sú sem rétt veit og er sem slík hættuleg sjálfum sér og öðrum.
Sá sem hefur gengið um í nágrenni Gare du Nord stöðvarinnar í París og séð fjöldann allan af ungum mönnum, greinilega atvinnulausum og í fjárþröng, seljandi sígarettur og dóp hlýtur að átta sig á því að þetta ástand leiðir til ófarnaðar, eins og uppreisnir fyrri ára hafa reyndar sýnt. Af hverju skyldu manneskjur sprottnar upp úr þessum jarðvegi ekki hneigjast til róttækni. Þær hafa engu að tapa. Í þeirra sporum myndi ég hata þetta þjóðskipulag. Hlutfallslega margir eru börn Norður Afriskra foreldra sem flutt hafa úr nýlendum Frakka til höfuðríkisins í leit að betra lífi. Af hverju skyldu þessar manneskjur, sem samfèlagið virðist ekki hafa neitt pláss fyrir, ekki hneigjast til haturs og róttækni eins og nýnazistarnir, ein ógeðslegasta hreyfing samtímans á Vesturlöndum. Nýnazistar eru oftar en ekki hvítir, kristnir að uppruna og komnir af velmegandi fólki og fjöldi þeirra og umsvif í t.d. Frakklandi, þýskalandi og Rússlandi er óskaplegur.
Með þessu er ég ekki að segja að múslimar þurfi ekki að hugsa sinn gang. Hinir almennu múslimar á Vesturlöndum mættu gjarnan losa sig við bókstafstrú og leggja enn meiri áherslu á friðarboðskap sinn. En vissulega ættum við öll að hugsa okkar gang. Meðal okkar eru margir, trúmenn og aðrir sem skilja ekki rökhugsun þróunakenningarinnar, viðurkenna ekki læknavísindi,er illa við þà, í nafni trúar, sem hafa öðruvísi kynhvöt en þeir og andskotast með einum eða öðrum hætti út í minnihlutahópa.
Við eigum, eins og einn Pírati (Gunnar Hrafn) hefur stungið upp á, að afnema í hvelli sprenghægileg og löngu úrelt lög um guðlast og vinda okkur svo í það að endurhugsa samband ríkis og kirkju. Um þetta samband eða sambandsleysi þarf að ríkja sátt. Senniega er jarðarsamkomulagið frá 1997 söguleg mistök. Kirkjan, sem að mörgu leyti veitir skjól frá öfgum, á að vera, held ég, sem sjálfstæðust ef ekki alveg sjálfstæð en til þess að standa á eigin fótum þarf hún að hafa til þess burði og þá burði hafði hún fyrir 1997 að svo miklu leyti sem ríkið virti eignarhald hennar á nokkur hundruð jörðum.

Flokkar: Menning og listir · Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur