Föstudagur 25.11.2016 - 15:06 - Lokað fyrir ummæli

Mannréttindi

Frumkvæði um löggjöf á sviði mannréttinda, mennta- og menningarmála hefur undanfarna áratugi að mestu komið frá fjölþjóðlegum stofnunum einkum í okkar heimshluta Evrópuráðinu og Evrópusambandinu og Sameinuðu þjóðunum. Þjóðríkin hafa verið frumkvæðislítil í þessum efnum, til valda gegnum stjórnmál komast einkum menn og konur sem eru lagin við að skapa eða lofa atvinnu og skammtíma hagvexti.

Aðalbálkarnir að þessu leyti eru mannréttindayfirlýsingarnar Evrópuráðsins og S.Þ. sem hafa verið undirritaðar og staðfestar af öllum eða nær öllum aðildaríkjum þessara fjölþjóðlegu stofnana. Samhliða þeim er svo fjöldi sáttmála og viðauka  sem hafa verið undirritaðir af mörgum en samþykktir sem löggjöf eða ígildi löggjafar af færri. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem undirritar en staðfestir seint eða ekki og ber við kostnaði og stundum skorti á mannafla til þess að útfæra.

Meðal sáttmála sem nýlega hafa verið staðfestir hér er Barnasáttmáli Sameinuðu Þjóðanna (2009) og sáttmáli um málefni fatlaðra (2016)(þó ekki að öllu leyti, það þótti of dýrt).  Staðfesting beggja þessa sáttmála felur í sér mikla útgjaldaaukningu samfélagsins og margir eru sáttmálarnir og viðaukarnir sem bíða.

Það sem ég er að segja hérna er að stöðugt verður dýrara að halda uppi samfélagi sem stenst fjölmennari ríkjum snúning að Þessu leyti. Þess vegna er samstarf okkar við aðrar þjóðir svo mikilvægt ætlum við að halda stöðu okkar og sjálfstæði.

Annað en að vera á svipuðu róli og nágrannaríkin þegar kemur að mannréttindum, menningu og menningarmálum kemur nefnilega ekki til greina. Þá fjarar fljótt undan.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur