Sunnudagur 21.02.2016 - 14:35 - Lokað fyrir ummæli

Kirkjur eru helgistaðir

Ekki svo vitlaust hjá Sif Sigmarsdóttir að ræða hvernig nýta megi kirkjur landsins betur, rétt sé að fá jógakennara, danskennara og hvers kyns sprelligosa í stað presta, en þá geysast fram prestar og segja þær vel nýttar, þar sé glaumur og glens, umgangur og læti upp á hvern dag, kirkjur séu vel nýttar, Þar sé sko engin rykfallin þögn eins og Sif í ókunnugleika sínum virðist halda og kemst svo skemmtilega að orði.

Þessi skemmtilegu skrif Sifjar gefa tilefni til margskonar orðræðu. Fyrsta sem kemur í hug er að kirkjur eiga að vera hljóðlátir, helgir staðir. Þó gaman þyki sumum að játa trú sína hlæjandi og geifla sig og gretta fyrir framan frelsarann, kjósa flestir frið og Þögn er þeir hugleiða og biðjast fyrir, fólk sýnir altarsifólkinu lotningu, lýtur höfði og hreyfir sig með hljóðlátari og mýkri hætti en ella. Kirkjan er griðarstaður, friðarstaður, staður andstæður strætinu þar sem ríkir ys og þys, tilbeiðslustaður, helgistaður.

Margir trúaðir sem vantrúaðir njóta þessa. Ekki síst kann að meta þetta fólk sem hefur misst. Það kynnist nýrri hlið á hinni rykföllnu þögn, ekki síst þeir sem hafa áður verið stífpressaðir og strekktir.

Hitt er annað að margar kirkjur mætti nýta betur. Í þéttbýli eru margar kirkjur vel nýttar svo mjög að jafnvel er hinni helgu þögn ógnað. Kirkjur með safnaðarheimili eru oft einskonar félagsmiðstöðvar. Þar er spilað, málað, fundað, og dansað. Helga svæðið, kirkjurnar sjálfar, mætti þó í flestum tilfellum nýta betur, kirkjuskip eru t.d. úrvals kennslustaðir, sérstaklega þegar nemendur eru komnir svolítið til vits og ára. Það er óþarfi að stunda jóga, þrek og dans allsstaðar.

Í dreifbýli eru kirkjur hins vegar oft illa nýttar. Standa þarna eins og minnisvarðar, messað er nokkrum sinnum á ári, jarðað og gift þegar tilefni gefst til.

Í þriðja flokknum eru kirkjur sem vakið hafa athygli ferðaþjónustunnar, sögu sinnar vegna oftast. Þar er oft mikið rennerí, tilsjónarmaður segir frá kirkju, stað og héraði. Slíkar kirkjur eru oft vinsælar til tónleikahalds og eða giftinga.

Ég hef af þremur kirkjum að segja sem sóknarprestur. Þær falla hver í sinn flokk. Þorlákskirkja er nokkuð notuð til helgihalds, kóræfinga(margir kórar), orgelæfinga, tónleikahalds, AA funda og hún er að auki vinnustaður djákna, kirkjuvarðar og sóknarprests. Hana mætti samt að ósekju nýta betur á virkum dögum, væri t.d. ágæt til kennslu en engin eftirspurn er á staðnum eftir slíku húsnæði. Ég hygg líka að íbúum þyki gott að vita af einum hljóðlátum stað í plássinu þar sem ekki er sífelldur umgangur. Hjallakirkja er gömul kirkja í sveit og hún stendur allt of mikið auð. Fólk vill samt hafa hana, tilvera hennar minnir á liðna tíma er hluti af því manngerða landslagi sem prýðir Ölfusið. En það mætti gjarnan finna henni veigameira hlutverk. Ég hef reynt að beina þangað fólki sem vill fræðast um kirkjuna og sögu héraðsins en ekki haft árangur sem erfiði. Strandarkirkja er þriðja kirkjan. Af notkunarleysi hennar þarf ekki að hafa áhyggjur. Stöðugur straumur ferðamanna fer þar um, hundruð koma þar við daglega, fræðast og njóta. Hún er því geysilega vel nýtt og skilar nokkrum tekjum. Þögnin þar er að auki ekki rykfallin, heldur, fersk en ekta samt. Umgangurin þar ógnar ekki kyrrðinni enda kunna ferðamenn flestir, erlendir sem innlendir, að hreyfa sig með mjúkum og hljóðlátum hætti, sýna helgistaðnum virðingu og eru hugfangnir af sögu hans. Í Strandarkirkju eru þar að auki oft tónleikar, hjónaleysi brædd saman, og messað er þar nokkuð oft. Einkum á hátíðum og á sumrin.

 

Á tímum aukins trúleysis er gott að huga að nýtingu kirkna. Á Íslandi eru of margar kirkjur lítt notaðar í dreyfbýli. Kirkjan og garðurinn verða að vonum eftir þegar fólkið fer. Þjóðkirkjan sjálf, sem verður að vera praktísk, hefur viljað leggja af kirkjur en ekki fengið. Þeir sem eftir eru og ekki komnir í garðinn standa vörð um sína kirkju, vilja hafa hana. Þannig er það bara.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur