Ekki lengur pláss fyrir Guð sem skapara heimsins segir Stephen Hawking í nýrri, óútkominni, bók sinni. Vísindin hafa nú gert Guð óþarfan þegar kemur að sköpun heimsins segir hann á sama hátt og þróunarkenning Darwins sýndi fram á að hann var óþarfur í sköpun lífsins og þar með mannsins.
Spurning Hawkings er annars þessi: ,,Þurfti alheimurinn skapara“. Svar hans er einfalt ,,Nei“. Það þurfti hvorki Guðlega hönnum eða guðlega hönd. Tilkoma alheimsins laut einfaldlega eðlisfræðilegum lögmálum. Vegna aðdráttarlögmálsins hlaut alheimurinn að skapa sjálfan sig og kunn eðlisfræði lögmál eru ástæða þess að alheimurinn er til segir hann.
Hawkings taldi pláss fyrir Guð í bók sinni 1988 en hefur nú horfið frá því. Hann hafnar nú alveg því að á bak við alheiminn sé ,,heili“ Guðs, eingöngu sé um að ræða eðlisfræðileg lögmál.
Ég tek ofan fyrir Hawkings. En Guðsskilningur hans er annar en minn og okkar flestra hygg ég. Og hann er að skrifa til fólks með mjög bókstaflega guðshugmynd. Við flest hér höfum fyrir margt löngu, held ég, gert okkur grein fyrir því að Guð er kærleikur og stóð alls ekki í neinum flóknum útreikningum fyrir þúsundum milljónum ára hvað þá að hann hafi setið við að teikna risaeðlur, mýs og menn. Okkar Guð er hins vegar á bak við allt, kærleiksrík móðir, kærleiksríkur faðir, skapari alls hins góða, verndari fegurðarinnar, svar við trúarþörf mannsins, frelsari mannanna.
Ég ætla því all ekki að skipta um námsgráðutitilinn ,,guðfræðingur“ og tel að enn sé og muni ætíð verða pláss fyrir umburðarlynda og mannelskandi guðfræði . Við höfum hins vegar enga þörf fyrir öfgar og vitleysu sem eru vitaskuld fylgifiskar mannlífsins og vitaskuld þess heldur ef þetta er tóm eðlisfræði.
(Byggt á forsíðufétt the Times í morgun 2. september , en óútkomin bók Hawkings þar sem hann boðar það að manninum muni brátt takast að setja fram heildstæða vísindalega kenningu um alheiminn, er kynnt þar í dag og hefur þegar vakið athygli og umtal).
Kærleikur er kærleikur og guð þarf ekkert að koma þar nálægt.
Guð er jólasveinn fyrir fullorðið fólk; hegðaðu þér vel, gerðu eins og prestarnir segja og þú færð pakka (himnaríkisvist). Ef þú gerir það ekki færðu kalda kartöflu og ýsubein (helvítisvist).
Það er óneitanlega geðfelldari nálgun sem þú lýsir en sú sem gengur út á að trúa sköpunarsögunni og að taka biblíuna bókstaflega.
Kannski umgengst ég svona sérstakt fólk en ég er enn að lenda í að fólk heldur því fram að sköpunarsagan sé staðreynd, ásamt öllu því sem biblían segir.
En ég velti fyrir mér, og ekki illa meint, hvort hugtakið „guð“ eigi við í þessu tilfelli? Það er að segja, er ekki ástæða til að greina á milli?
Og ég verð líka að fá að forvitnast hvort meyfæðingin og upprisan sé hluti af þessari guðsmynd.
Valgarður, meyfæðingin og upprisan eru symbólismi. Mér þykir afar vandræðilegt hvað sumir taka þessi fyrirbæri bókstaflega, eins og þetta hafi verið mannkynssögulegir atburðir.
Sá Guð sem trúleysingjar trúa ekki á er líklegast ekki til. Spurning samt hvort það sem fólk trúir almennt á sé til eða hvort trúin sjálf skapi veruleika. Smekksatriði hvort fólk kallar þetta trú eða blekkingu 🙂
Baldur, geturðu þá ekki tekið undir fyrstu línu postullegu trúarjátningarinnar?