Sunnudagur 19.12.2010 - 11:48 - Lokað fyrir ummæli

Hugvekja í aðdraganda jóla!

Framarlega á aðventunni var ég viðstaddur í Skálholtsdómkirkju útför sómamanns,  Sigurðar Sigurðarsonar vígslubiskups og er það svo sem ekki í frásögu færandi þar sem Sigurður er látinn og ég þekkti hann nægilega vel til þess að bregða mér í Skálholt til að fylgja.

Sigurður hafði bæði útlit, yfirbragð og menntun til að verða biskup og þess vegna biskup Íslands ef aðstæður hefðu leitt til þess.  Hann menntaði sig ágætlega í guðfræðum, hafði mastergráðu frá virðulegum Bandarískum háskóla en lagði sig jafnframt alla ævi eftir siðum og venjum kristinnar kirkju, var manna best að sér í því hvernig fara ætti að í helgiathöfnum, fyrir altari, við skírnarrfont, dánarbeð og gröf svo nefndir séu helstu staðir helgiþjónustunnar.  Hann hafði forskot á flesta verandi biskupssonur og fékk því atferlið í æð eða frá fyrstu bernsku.  Að vera biskupsbarn, jafnvel bara prestsbarn, er að breyttu breytenda eins og að vera leikarabarn og fá að fara í leikhúsið á kvöldin þegar aðrir krakkar eru reknir í rúmið.  Þegar góðar gáfur bættust á það sem að ofan er talið var ekki að undra þó Sigurði væri lyft til æðstu metorða innan kirkjunnar. 

Sigurður stóð ávallt með prestum sínum og var þeim góður ráðgjafi og eins og séra Geir Waage komst að orði í líkræðu sinni oft beinlínis vitur í ráðgjöf sinni.

Þetta áttu ekki að verða minningarorð um séra Sigurð.  Ég nefni hann til þess að leiða huga okkar að nauðsyn þess að þekkja og virða og tileinka sér hefðir og venjur en segja má að það hafi verið kjölfestan í lífi og starfi Sigurðar.  Jafnframt því að höndla nýja tíð eigum við að vita hvað var gert, hvernig og hvers vegna. Á aðventunni er ég með jólin í huga skiljanlega. Við eigum að rifja upp og halda við gömlum og gildum íslenskum jólasiðum, aðventusiðum og jólasiðum. Hvert okkar á að rifja upp sín bernskujól og taka það besta með sér áfram.  Okkur Íslendingum hættir til að verða aðeins sambland af ólíkum siðum heimsbyggðarinnar og gleyma okkar eigin enda erum við með lítið sjálfstraust og slæmt minni eins og allir vita.

Ég spyr fermingarbörnin um ótalmargt og horfi mjög gagnrýninn á framkomu þeirra.  Því miður eru þau mörg hver ákaflega illa að sér um hefðbundna umgegnishætti, siði og venjur.  Þau vita lítið í þessa veru og þá er ég ekki bara að tala um kirkjusiði. Ég held að þau börn sem nú eru súpi seyðið af því að þau hafa alist upp í allt öðrum heimi en foreldrarnir sem aftur ólust upp í allt öðrum heimi en þeirra foreldrar.  Það er vinsælt að tala um siðrof. Á tveimur/þremur kynslóðum verður má segja siðrof í samfélaginu.  Samhengið í siðnum rofnar. Það gleymist sem var og enginn veit hvað verður.  Það er ekki lengur ástæða til þess að leggja eyrun við því sem aldinn segir vegna þess að það er úr takt við daglegan raunveruleika. Stökkbreyting hefur orðið í því hvað við fáumst við í vinnu og utan hennar og tæknin sem við notum úreldist næstum því daglega og maður sjálfur um leið.  Ég hef t.d. í allan dag verið að reyna að kveikja á ipad sem ég keypti í búð og er fjarri heimili mínu þannig að sonur minn átta ára hefur ekki getað hjálpað mér.

Þið sjáið hvernig ég nota orðið orðið siðrof bara eftir orðanna hljóðan, siður rofnar.  Má nota um helgisiði, menningu og venjur svo lengi sem menn skilgreina notkun sína en þetta er eitt af þeim orðum sem nú er notað í tíma og ótíma um hvaðeina.

En hvað er nú hættulegt við þetta. Eiga menn að vera fastir í gömlum hjólförum og fjandskapast við allar nýjar hugmyndir sem óneitanlega er venja sumra.  Nei, en segja má að betra sé að fóta sig ef maður veit hver maður er og ótalmargt má læra af feðrunum og mæðrunum.  Kynslóðir vita nokk hvað þær syngja og tóm steypa að kasta því öllu fyrir borð. Sumir spekingar hafa orðað þetta þannig að að fortíð skuli hyggja er framtíð skal byggja. Maður á því að taka það besta með sér og halda þannig vel búinn til huga og handar á nýjar lendur tímans.

Ég var að kenna krökkunum að taka ofan húfuna þegar þau koma í kirkju í virðingarskyni við helgidóminn og viðstaddar konur eins og ég orðaði það svo fagurlega.  Ég hins vegar varð alveg mát þegar þau spurðu mig afhverju stelpurnar þyrftu ekki að taka ofan húfurnar. Nú þykist ég vita svarið.  Undanfarið hef ég verið að reyna að koma mér upp heldri manna útliti með því að ganga um með hatt.  Þetta er allt í lagi úti við einkum í kuldum. En verandi með bónuspoka í annarri og tölvutösku í hinni og ipod milli upphandleggs og rifbeina, eitthvað sem fyrri tiðar menn þurftu ekki að hafa áhyggjur af, hef ég neyðst til að hafa hattinn á mér í Kringlunni og öðrum slíkum mollum. Og það verður að segjast eins og er að það er verulega óþægilegt.  Þér hitnar á hausnum þannig að upp úr sýður næstum.  Ergo:  það er hluti af kvennakúgun aldanna, hluti af áráttu karla að gera líf kvenna eins örðugt og mögulegt er, að láta þær bera hattana úti sem inni. Á meðan við, karlar, gátum um frjálst höfuð strokið hvenær sem við hittum einhvern eða fórum inn þurftu þær blessaðar í samræmi við siðinn að hafa hattinn á sér frá morgni til kvölds. Enda eru konur hættar að hafa hatta og allar hattabúðir búnar að loka.  Áður vann önnur hver kona í Reykjavík í hattabúð og hinar komu og mátuðu. Hattaburður kvenna er dæmi um siðvenju sem lítileftirsjá er í.

Sigurður biskup var nútímamaður en hann lagði rækt við helgisiði og gamla tónsöngva enda tónaði hann vel.  Minningu hans verður best sýndur sómi með rækt við það svið en við almenningur mættum í hans stíl gefa gaum að því sem okkur ætti að vera heilagt án tillits til trúarstigs – gefa gaum að því besta og notadrýgsta sem var.

(Birtist í Dagskránni, blað á Suðurlandi, 16 des. 2010)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Þetta finnst mér góð grein séra Baldur. Gleðileg jól.

  • Kristín Þórunn

    Falleg og góð grein með maklegum eftirmælum um sr. Sigurð.
    Takk fyrir hana, sr. Baldur!
    Kristín prestsbarn

  • Hafsteinn Ásgeirsson

    Afskaplega góð hugleiðing og þá sérlega orð þín um Sigurð Sigurðarson. Einstakt sóma og glæsimenni sem reyndist mér og mínum afskaplega vel í miklum erfiðleikum. Blessuð sé minning hans.

    Gleðileg jól til þín og þinna héðan utan úr havgapinu við Helgelandskysten. Þessi jólin verða örugglega ánægjulegri hjá mér en þau síðustu..:-) Hittumst heilir.

  • Árni Svanur

    Takk fyrir þetta Baldur 🙂

Höfundur