Mánudagur 20.12.2010 - 19:52 - Lokað fyrir ummæli

Þegar líður að jólum…..

 Það liggur við að ég verði trúaður þegar líður að jólum, barnatrúaður.  Trúi bæði á Jesú og jólasveinana.  Í þriðja bekk Grunnskólans í Þorlákshöfn eru menn á því að jólasveinarnir séu ekki til lengur en hafi verið til í gamla daga. Þeir, spekingarnir þar, eru ekkert farnir að velta fyrir sér Jesú.  Hann er ennþá fastur í sessi, öruggur í sínu hásæti.  Á Egilsbrautinni er fók almennt á því að jólasveinarnir hafi aldrei verið tilí alvöru en það er aftur farið að taka Jesú í sátt eftir volk manndómsáranna þegar unnið var myrkranna á milli fyrir fæði og klæðum og híbýlum.  Sumir misstu reyndar aldrei barnatrúna, hjá öðrum lá hún í dái og enn aðrir höfnuðu henni algjörlega. Í Háaleiti sér frúin um það að útrýma efanum þegar hann gerir vart við sig hjá honum sem fær borgað fyrir að trúa.  Hún ætti að vita þetta dýralæknirinn, stöðugt að aflífa.  Segir ekki Guðmundur Kristinsson í fyrri bók sinni að öll dáin dýr fari í sama himnríkið, svona skepuhimnaríki, nema heimilsihundarnir, kettir og páfagaukar  og uppáhaldshestar sem fylgja eigendum sínum.  Dásamlegt ekki satt og ekkert svo erfitt að trúa því að nóg er plássið.  Hinn þekkti heimur telur margar trilljónir stjarna og ljósið er mörg þúsund ár að berast og fer þó ekki hægt.  Sé þessi heimur endanlegur geta verið mörg trilljón slíkra heima þar fyrir utan í það óendankega því að EKKERT er vitaskuld ekki til eða hvernig ætti það að vera?

Þar fyrir utan geta verið til óteljandi heimar á öðrum bylgjusviðum oni okkar heimi sem sagt. Þarna kemur skammtafræðin til sögunnar sem enginn maður skilur.  Forseti hins konunglega breka vísindafélags komst í fréttirnar á árinu þegar hann hélt því fram að við áttuðum okkur svipað lítið á heiminum og fiskur í fiskbúri í stofunni hjá okkur áttaði sig á samfélaginu fyrir utan stofuna.  Getu mannsheilans til að átta sig á veröldinni væru sem sagt takmörk sett. Það má því trúa ýmsu og það kýs ég að gera á meðan aðrir kjósa að trúa engu öðru en því sem sanna má vísindalega eða sjá eða þreifa á eða heyra í.

Með þessu er ég ekkert að segja að jólaguðpspjallið lýsi hlutunum eins og þeir gerðust í raun og veru, En þetta er ákaflega falleg saga og ég var á jólaskemmtun Grunnskólans um daginn og krakkarnir í þriðja bekk,  þessi sem efast um að jólasveinninn sé til lengur, léku þetta listavel. Mikið eru nú þetta duglegir kennarar sem sjá um börnin, að nenna þessu.  Líklega hefði þetta verið bannað í Reykjavík.  Það var gott að við sameinuðumst ekki Reykjavík en Hveragerði er enn laus.

Við skulum sem sagt gefa okkur jólunum á vald. Leggjast í þau eins og við leggjumst í heitan pott.  Ekki til að éta og drekka heldur til að lauga sálina, kjarnann í okkur.  Gefa okkur fegurðinni og gleðinni á vald.  Leyfa engu öðru en því góða að komast að.  Og hringja bara í lækninn eða prestinn eða besta vininn ef þetta ætlar að verða okkur ofviða.

Svo stökkvum við á fætur á nýju ári og heimtum réttlátt samfélag. Þegar öllu er á botninn hvolft fjallar jólaboðskapurinn um réttlæti.

Og af því að þetta er áramótablað líka þá vil ég þakka Bæjarlífi gott samstarf árinu.

(Birtist í Bæjarlífi, blað gefið út í Þorlákshöfn)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

Höfundur