Þriðjudagur 21.12.2010 - 10:50 - Lokað fyrir ummæli

Leikskólakirkjuferð á aðventunni

Leikskólinn er að koma í Kirkjuheimsókn.  Að frumkvæði leikskólans. Þetta hefur gengið svona fyrir sig síðan ég kom hér. Leikskólinn kemur á aðventunni. Ég spjalla við krakkana í svona tuttugu mínútur, síðan syngjum við nokkur lög. Við kunnum marga sameiginlega söngva, mörg hafa verið í sunnudagaskólanum, önnur lög eru úr sameiginlegum jóla eða aðventuarfi þjóðarinnar.  Fimmtungur til fjórðungur barnanna eru af erlendu bergi brotin. Sum þeirra hafa sótt kirkju.  Foreldrar þeirra eru kaþólskir.  Önnur eru alin upp við Allah, þarna er Hindúi og svo eru börn alin upp án trúar þ.e. foreldrarnir vilja komast hjá því að nokkrar trúarklisjur setjist að í huga barnsins.  Allt þetta er í huga prestsins þegar hann segir söguna af Jósef og Maríu og hirðunum og vitringunum og talar um jólin meginhátíðina í vestrænum kultúr.  Börnin verða að fræðast um frásagnir þessar og um jól og jólasiði og það getur verið eðlilegur liður í uppeldi og fræðslu barna að sýna þeim kirkjuhúsið og gefa þeim innsýn í það sem þar fer fram, ekki síst í aðdraganda jólanna þegar samfélagið fer á jólahvolf. Það má segja að það sé hluti af þeim samhristingi (integration) sem fram fer í fjölmenningarsamfélagi.  þetta er a.m.k. skilningur þess skólafólks sem ég hef kynni af og um leið skilningur minn, félagsfræðingsins sem fór í guðfræði.

En þetta er auðvitað vandmeðfarið eins og flest og ekki sama hvernig þetta er gert.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Jón Yngvi Jóhannsson

    Ég treysti Baldri líka. En hann er víst ekki prestur allstaðar og óvíst að öllum kollegum hans sé jafnvel treystandi.

  • Halla Sverrisdóttir

    Það er gott. Hvað með alla hina prestana í landinu? Ég þekki líka einn eða tvo presta og myndi treysta þeim báðum til að gera þetta vel, en ég þekki ekki alla hina og hef heyrt nógu mörg dæmi um kirkjuheimsóknir leikskólabarna/heimsóknir presta í leikskóla þar sem börnin eru gerð að virkum þátttakendum í helgiathöfnum, leidd í bæn og settar fram við þau staðhæfingar sem eiga fyrst og fremst heima í sunnudagaskólanum til að vita að margir þeirra eru ekki meðvitaðir um það hvar mörk fræðslu og boðunar liggja. Það er gott að treysta, en það verður að vera til innistæða fyrir því trausti og Þjóðkirkjan í heild sinni hefur ekki traust allra foreldra til að gera þetta vel, þótt einstakir starfsmenn hennar hafi áunnið sér það.

  • Ég er trúlaus og hef ekki mikið álit á kirkjunni sem stofnun og finnst henni ofaukið í trúariðkun. Enda eiga kirkjan og allir hennar rómversku siðir lítið skylt við Kristni.
    En mér finnst samt allt í lagi að krakkarnir kynnist trúnni og gef ekki mikið fyrir móðursýkina í Vantrú. Þegar börnin fullorðnast, þá eiga þau að geta tekið sjálfstæða ákvörðun varðandi þessi efni, þeas ef uppeldi þeirra er í lagi.

  • Af hverju er svona auðvelt að kasta fram einhverju eins og „móðursýkinni í Vantrú“?

    Ég get ekki séð að það sé nein móðursýki fólgin í þeirri eðlilegu kröfu að ekki sé stundað trúboð á vegum ríkisins í grunnskólum og leikskólum.

    Auðvitað eru prestar upp til hópa full færir um að greina milli trúboðs og fræðslu, og auðvitað er ekkert að því að fræða um trúarbrögð, en þeir greina ekki allir þarna á milli, ég var til dæmis að lesa frekar óskemmtilega sögu af einni slíkri heimsókn.

    Mér finnst allavega afskaplega ómálefnalegt að stilla þessari kröfu um hlutleysi grunn- og leikskóla í trúmálum upp sem móðursýki og öfgum.

Höfundur