Laugardagur 25.12.2010 - 12:02 - Lokað fyrir ummæli

Úr jólaprédikun í Hjallakirkju í Ölfusi

,,Hér ríkir ekki fátækt á Afríkanskan mælikvarða þar sem fólk borðar grauta mánuðum saman en hér er félagsleg fátækt. Fólk getur ekki veitt sér það sem það telur að það eigi að geta veitt sér á jólum og það telur að aðrir geti veitt sér og daglega horfir fólk í sjónvarpi á glæsilegan neysluheim.  Víða er veskið tómt fyrir miðjan mánuð.  Hér hefur eftir hrun myndin orðið sú aðþeir sem eru á lægstu laununum eða bótunum geta ekki tekið þátt í þeirri veröld sem miskunnarlaust er otað að okkur og okkur talin trú um að sé normið.  Af þessu sprettur lífsharmur. Þetta er ekki bara vandamál tiltekins fólks heldur samfélagsins alls ekki síst með tilliti til barnanna sem við sem gamlir og góðir Íslendingar viljum að vaxi upp við svipaðan hlut. Við erum að lifa tíma Íslendingar sem eru örlagaríkir.  Tekst okkur að komast upp úr öldudal hrunsins sæmilega sátt við hvort annað í samfélagi sem við getum verið stolt af eða mun hér ríkja skálmöld, óeining og ósætti um ófyrirsjáanlega framtíð.  Þar mun ráða miklu hvort að kristin kirkja fær að njóta sín með grundvallargildi sín um trú, von og kærleika og jafnan rétt allra.  Sá trúar- og menningararfur sem þjóðin á í kristninni gæti reynst okkur dýrmætur þegar á bjátar.  Jafnt í blíðu og stríðu er hann hollt veganesti.  Ekki vegna þess endilega að hann sé betri en einhver annar arfur, heldur vegna þess að þetta er okkar arfur, okkar leið til að tengjast hvort öðru, tengjast fortíðinni, tengjast almættinu, okkar aðferð til að hugsa um lífið og verðmætustu gildin, okkar saga, okkar veruleiki  sem jafnframt skal vera þannig að hann meti til fulls jafnræðis lífsýn annarra sem aldir eru upp í öðrum trúarkerfum eða vilja standa utan slíkra.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Hrafn Arnarson

    Þakkir fyrir góðan pistil. Hann er þörf lesning. Fátækt hefur ýmsar myndir. Hægt er að gera greinarmun á algerri og afstæðri fátækt. Í mörgum ríkjum Afríku er fátæktin alger. Fólk deyr af langvarandi næringarskorti. Lágmarkslæknisþjónusta er ekki til. Hátt í helmingur íbúanna er með eyðni. Þurrkar leiða af sér hungursneið. Í þessum skilningi er engin fátækt á Íslandi. Fátæktin er afstæð. Oft er skilgreiningin sú að sá sem hefur minna en helming af meðaltekjum sé fátækur. Ef sú er raunin eru alltaf einhverjir fátækir. Einnig er sagt að þeir sem geta ekki lifað því lífi sem telst eðlilegt þá telstu fátækur. Ef þú getur ekki veitt börnum þínum neitt af því sem telst eðlilegt ertu fátækur. Ef þú átt ekki fyrir brýnustu nauðsynjum og þarft að leita til hjálparstofana ertu fátækur. Ef þú ert eignalaus og atvinnulaus ertu fátækur. Af þessu má ljóst vera að nokkur þúsund manns lifa í fátækt hér á landi. Fátæktin var til fyrir hrun en hún hefur vaxið eftir hrun. Í vaxandi mæli búa tvær þjóðir í landinu. Önnur getur veitt sér allt. Hún á eignir og hefur miklar tekjur. Hún fer oft á ári til útlanda. Hin þjóðin á fyrir brýnustu lífsnauðsynjum eða varla það. Þetta er ekki norrænt velferðarssamfélag. Þetta er eitthvað allt annað.

Höfundur