Sunnudagur 26.12.2010 - 11:49 - Lokað fyrir ummæli

Úr prédikun dagsins í Strandarkirkju!

,,Mér finnst að það hafi verið svona skilyrði eins og í dag  sem þeir hrepptu sjómennirnir sem byggðu þessa kirkju, myrkur, fimbulkuldi, rok, hríð eða rigning, ógnvænleg ölduhæð og hvert er síðasta ráðslag mannsins. Biðja Guð um hjálp.  Þegar ekkert virðist framundan nema hin kalda gröf.  Þegar smæð mannsins er átakanleg gagnvart hinum heljarþrungnu náttúruöflum.  Þá er ekki nema eitt viðbragð eftir.  Að ákalla Guð sinn og það gerðu menn, held ég, af innsta hjartans grunni enda hafði hann fylgt þeim frá fyrstu bernsku, bænir og húslestra og skilyrðislausa trú höfðu þeir fengið í uppeldisarf.  Og ljósið kom. Að þessu sinni þessa heims. Kannski kemur ljósið alltaf þessa heims eða annars. Sú er trú okkar og mér finnst hún hafa styrkst á undanförnum árum þegar vísindamenn stíga fram með nýjar og nýjar upplýsingar um mikilleik veraldarinnar.  Hinn þekkti heimur telur nær óteljandi stjörnur og ljósið er mörg þúsund ár að berast.  Sé þessi heimur endanlegur geta verið margir slíkir heimar þar fyrir utan í það óendanlega því að EKKERT er vitaskuld ekki til eða hvernig ætti það að vera? Hnötturinn okkar, já sólkerfið allt með Merkur, Venus, Jörð, Mars, Júpiter, Satúrnus, Úranus og Plútó og Sólinni er eins og bátur mannanna hér fyrir utan fyrir augnabliki á mælikvarða eilífaðarinnar, óendanlega lítill í hinu mikla hafi.

Ég fékk trefil í jólagjöf, seðlaveski, bókina svar við bréfi til Helgu, sem er snilld, helling af föndri úr skóla og frístund.  Nytsamlegt var sumt af þessu en best var bara að fá gjafirnar.  Finna það að þú áttir einhverja að sem gáfu þér gjafir.  Þú hafðir að vísu búið flest af þessum gefendum til en hvað um það.  Þeir voru þarna, hluti af þér og með þér og svo gjafir og póstkort frá vinum nær og fjær.  Yfir mann fellur elskuværð að vita af öllum þessu fólki svo nánu.  Vonandi hafið þið kirkjugestir upplifað svipaða elsku.  Þannig eru Jólin og eiga að vera. Við sýnum hvort öðru kærleika og allt um vefjandi samstöðu.  Maðurinn er ekki einn og við skulum vona að enginn hafi gleymst og allir hafi lagt á hilluna gamlan ágreining, frosna samskiptafarvegi.  Maðurinn er ekki einn eins og við erum örugglega ekki ein í alheimi.  Trú mín á það að ekki sé allt sem sýnist íveröldinni hefur a.m.k. styrkst við að heyra um ómælisvíddir himingeimsins og hugmyndir um að mannsheilinn skynji bara þrjár víddir af níu sem þýðir með öðrum orðum að fjöldamargt er að gerast hér mitt á meðal vor. Kannski erum við nákvæmlega hér í stórborg annarrar víddar nema 17. öldin sé hér mitt á meðal vor líka eða veröldin eftir hálftíma og messan nýbúin í þeirri vídd og útskýrir allt þetta hvers vegna sumir sjá og heyra það sem aðrir sjá ekki og heyra.

Þessar vísindalegu staðreyndir þ.e. a.s. stærð alheimsins, sem auk þessa hefur tímavídd sem er okkur óskiljanleg útrýma ekki Guði. Þvert á móti kalla þessar staðreyndir ekkert síður á svör um tilgang, þær sýna enn betur en fyrr mikilleik sköpunarinnar, ótrúlega vídd hennar og mikilfenglegheit. Víddir heimingeimsins virðast óendalegar en sjálfsagt er allt einfalt og auðskilið þegar allt lýkst upp fyrir mönnum eins og er um allt.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Matti þú hefur nu séð margt verra en þessa prédikun enda ertu greinilega sæmilega ekki mjög hneykslaður. Bkv. baldur

  • Já, þessi er ekkert hrikaleg.

Höfundur