Eygló Harðardóttir er að fara að hlaupa 21 kílómetra til að styrkja konur sem fást við legslímuflakk og skrifar um það. Það minnir mig á að ég hljóp einu sinni 21 kílómetra reyndar upp úr þurru og lenti í svolitlum vandræðum. Ég var þá virðulegur sóknarprestur á Höfn í Hornafirði og lagði upp frá grindarhliðinu á Höfn að áliðnum morgni og hljóp sem leið liggur inn í Nes og átti fremur létt með að hlaup aldrei þessu vant þannig að þegar ég er kominn í námunda við Nesjahverfið og Nesjaskóla, ákvað ég að láta slag standa, gera þetta að degi lífs míns og hlaupa inn að Hoffellsá en ég vissi að það var 21 kílómetri. Nálgast nú hádegi og verður nú verulega heitt í veðri. Ríf ég mig smám saman úr hlaupafötunum og að hlaupi loknu átta ég mig á því að ég stend í leikfimibuxum einum fata og á eftir að koma mér niður á Höfn. Stend þarna rindilslegur, kófsveittur og hálfnakinn við brúarsporðinn og kom í ljós að virðuleiki sóknarprestsins helgaðist af fötum hans og engu öðru. Margir óku framhjá og gáfu í en tvær ungar stúlkur saman í bíl þorðu fyrir rest að stoppa og ég verð að segja alveg eins og er að mér hefur sjaldan liðið jafn illa þennan spotta niður á Höfn, rindilslegur, sveittur og hálfber sóknarprestur innan um kankvíslegt glottið á ungmeyjunum sem burðast sjálfsagt enn með þessa óhrjálegu sýn í sálu sinni.
Vona ég að Eygló taki mið af reynslu minni en ef ekki skal ég með glöðu geði taka hana uppí.
Góð saga, en það á ekki að vera punktuar fyrir aftan 21. Tuttugasti og fyrsti.
Púnktur afs.
Takk, leidrétt. Sennilega hefur heilinn haldid ad hann væri ad fara ad skrifa 21.öldin.